Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Listræn upplifun og hrif

Listræn upplifun og hrif

Þessi pistill var upprunalega fluttur í útvarpsþættinum Lestin á Rás 1 þann 14. janúar 2018. Málverkið í haus heitir „Pygmalion and Galatea“ og er eftir Jean-Léon Gérôme frá árinu 1890.

Hvað er það sem við finnum þegar við upplifum list? Hvað er það sem gerir þessa upplifun að listrænni upplifun fremur en einhverri annarri upplifun? Hvert er eðli listarinnar — hvert er upptak hennar — hvert er markmið hennar? Öllum þessum spurningum er vandsvarað, eins og snöggt yfirlit um sögu listheimspekinnar, fagurfræðinnar, sýnir glöggt. Vegna þess hve margræðar birtingarmyndir listarinnar eru virðist sem hver og einn greinandi, hver einasti túlkandi hafi sína eigin hugmynd um hvað hún merkir, hvert hún stefnir og hvaðan hún kemur. Í dag ætla ég að hugleiða tiltekið hugtak um listina, hugtak sem er ekki tæmandi heldur ef til vill tilvísandi, hugtak sem er ekki fullkomið heldur óklárað. Auk þess ætla ég að velta því fyrir mér hvernig við getum skilið ástand listarinnar á Íslandi samtímans sem og samband listarinnar við auðmagn og hvaða áhrif það hefur á hana. Byrjum þá á því að reyna að svara upprunalegum spurningum okkar — eins best við getum.

Listræn upplifun — þetta sem hefur verið kallað fagurfræðileg upplifun — er eitthvað einstakt, eitthvað sem við finnum ekki nema þegar við stöndum frammi fyrir listaverki. Ég tala hér aðeins mjög óhlutlægt um list, til að byrja með, eins abstrakt og hugsast getur — ég meina þessa tilfinningu sem fylgir upplifun á list. Að mínu mati er þessi tilfinning einskonar hrif, einskonar hræring, hreyfing í vitundinni — eins og það hafi verið hróflað við manni. Maður finnur eitthvað breytast innra með sér — jafnvel þótt það sé aðeins til skamms tíma. Mér hefur lengi fundist eitthvað athugavert við hugtakið, eða nafnið, „fagurfræði“ — því stundum er list nefnilega alls ekki fögur, heldur frekar ljót, en hún er list fyrir það vegna þess að hún hrífur mann. Ég hef því tamið mér þann einkasið að tala um hrif og hriffræði — og hyggst gera það í þessum pistli. Þið látið það vonandi eftir mér.

Hriffræði er því rannsókn á því sem hrífur, því sem skekur. Þess vegna er list ef til vill ekki það eina sem fellur undir rannsóknarsvið hriffræðinnar — því mörg höfum við upplifað það sem heimspekingar hafa talað um sem „hið háleita“ þegar við stöndum frammi fyrir kynngikrafti náttúruaflanna. Þá á ég við stjörnubjartan himinn sem hrífur okkur á flug um óravíddir vetrarbrautarinnar, ævafornan og gífurvaxinn trjábol sem færir okkur í vitund um hverfulleika mannslífsins, fjallagarð sem stendur tignarlegur frammi fyrir okkur, snjóhríðir og fellivindar sem hrista allt að innsta kjarna, sandkorn sem upprunalega voru steinar en hafa verið möluð mélinu smærra í ölduróti tímans — og svo framvegis. Við erum hrifin af þessum þáttum á sambærilegan hátt og við erum hrifin af list — þótt það sé ekki nákvæmlega sama upplifunin: við erum hrærð, eitthvað hreyfist til innra með okkur, við hrífumst með orkunni sem felst í því sem við stöndum frammi fyrir.

List, að mínu mati, er tilraun til að fanga slíka orku í efnislegri birtingarmynd. Höggmyndir, arkitektúr, myndlist, dans, hljómlist, ljóðlist, kvikmyndalist og leikur — allar þessar greinar fela það í sér að miðla þessari orku á skiljanlegan máta gegnum efnið sem umkringir okkur. Hljóðbylgjur sem berast gegnum loftið, orðastrengir greyptir með bleki í dauð tré, dansandi ljóseindir sem kastast af skjá og inn í augu okkar, mannsform sem við þröngvum yfir á marmara, steinar, trjádrumbar og bræddur sandur sem við skerum, brjótum og reisum svo upp eins og hof til heiðurs Guðanna, beisluð eða óbeisluð hreyfing mannslíkamans, tjáning í örsmæðum líkamlegrsa blæbrigða — þetta er það sem við köllum list.

Það mætti því segja að í listinni sé ávallt einhver miðill og eitthvað sem er miðlað — hvort sem það er hugmynd eða tilfinning. Stundum er meira af öðru og minna af hinu — stundum væri hægt að fullyrða að aðeins sé tilfinning til staðar eða aðeins hugmynd — en þessi hugtök eru of óræð til þess að mögulegt sé að skilja þau algjörlega að. Það er kannski þess vegna sem mér finnst list og heimspeki vera svo nátengd fyrirbæri — svo tengd, raunar, að mér finnst að mörgu leyti undarlegt að tala um þau sem aðskilda hluti. Heimspeki virðist mér vera rannsókn á hugtökum, sem oft eru byggð eru á tilfinningum — eins og til dæmis hugtakið um samsemd, að tré sé það sama og tré — á hverju byggir það öðru en tilfinningu fyrir „því sem er satt og rétt“ eða tilfinningu fyrir hinu „óvéfengjanlega“? List, aftur á móti, er oftar en ekki rannsókn á tilfinningum, sem oft eru byggð á hugtökum, sem eru svo aftur byggð á tilfinningum — og svo framvegis. Þið sjáið vonandi hvert ég er að fara með þetta.

Ég veit ekki hvort það sé hægt að tala um list í samhengi við upptök og markmið — á forngrísku arkhe og telos. List sprettur upp úr heiminum og upplifun okkar af honum, og markmið hennar er að vera hún sjálf. Mér finnst það ekki vera mikið flóknara, eða allavega að það þurfi ekki að vera mikið flóknara. Að mínu mati er miklu áhugaverðara að upplifa listina sjálfa og greina þessa upplifun en að skoða takmörk listarinnar, upphaf hennar og endi. Það mætti gagnrýna þetta sjónarmið á þann hátt að segja að upplifun innihaldsins sé ávallt nátengd takmörkunum listarinnar — og það kann vel að vera rétt. Upphafið kann að vera eðli mannsins sjálft, og markmiðið hið sama, eðlið — það kann að vera að listin miði að einhverjum sannleik, rétt eins og heimspekin, sé einskonar vigur með stefnu og kraft í átt að hinu sanna eða tilfinningunni fyrir því — það mætti jafnvel segja að listin sé birtingarmynd hinnar Algjöru Hugmyndar, tjáning mannshugans á sjálfri sér og frávarp hennar út í hinn efnislega heim miðlunarinnar með það að markmiði að spegla sig í honum.

Mér finnst við samt ekkert þurfa háfleygar heimspekikenningar frá stórum hugsuðum eins og Hegel eða Heidegger til þess að skilja og upplifa listina. Það eina sem við þurfum að gera er að rölta út á myndlistarsafn og virða listina fyrir okkur eða fara á bókasafnið og fá meðmæli hjá bókasafnsvörðunum. Við þurfum jafnvel ekki einu sinni að fara út úr húsi — við getum nálgast alls kyns list beint í tölvunni heima til. Aðgengi að listaverkum hefur breyst mjög mikið síðustu hundrað árin eða svo. Það sem áður var nánast einvörðungu ætlað efnuðu fólki hefur orðið talsvert „almennara“ ef svo má að orði komast. Ég get hlustað á tónlist frítt í tölvunni minni og lesið klassískar heimsbókmenntir á veraldarvefnum — það eina sem ég þarf að kaupa er nettengingin. Jafnvel málverk meistaranna eru aðgengileg í mikilli upplausn — þótt það jafnist auðvitað ekki á við það að sjá þau með berum augum.

Það er þessi munur á aðgengi sem gerir gæfumuninn — aukning sem stundum er kennd við „lýðræðisvæðingu“ listarinnar.. Mér finnst ólíklegt að það hafi eitthvað breyst í innsta kjarna listarinnar, þvert á það sem margir álitsgjafar og sjálfskipaðir spekingar hafa haldið fram. Skoðanir á pari við þær að „nú með auknu aðgengi fólks að listinni hafi hún skemmst,“ að „popptónlist sé úrkynjuð tónlist“ eða að „maður viti ekki hvort um sé að ræða neyðarútgangsmerkingar eða listaverkin sjálf á nútímalistasöfnum lengur“ verða æ algengari í orðræðu tiltekinna menningargreinenda — að „nútímalist sé ekki lengur í eðli sínu list.“

Ég gef lítið fyrir þessar hugmyndir, enda finnst mér nútímalist öll falla undir skilgreiningu mína og skilning minn á þessum listrænu hrifum — hvort sem er þessi umdeilda abstrakt-hugtakslega listasafns-list, popptónlist eða nútímaarkitektúr. Þessi fyrirbæri eða þessi verk hafa öll þann eiginleika að hafa hrært við fólki — hvað svo sem viðkemur hrifum þeirra á einhvern tiltekinn álitsgjafa sem oftar en ekki er að reyna að tjá pólitíska og afturhaldssama skoðun í gegnum þessa gagnrýni sína. Er það virkilega svo að klassísk tónlist sé eina rétta og góða tónlistin — að nýklassískur arkitektúr sé hin sanna birtingarmynd hins fagra í byggingarlist? Ég veit ekki með ykkur, en ég kaupi þessa hugmynd ekki. Það er ekki undir nokkurri einni manneskju komið að skilgreina hvort eitthvað tiltekið verk sé listaverk eður ei eftir því hvort það hrífi hana eður ei. Slíkt mat verður alltaf samfélagslega miðlað, ófullkomið og aldrei klippt og skorið, breytilegt yfir tíma og fullkomlega óútreiknanlegt. Það er því sem ég gef lítið fyrir gagnrýni samfélagsrýna á nútímalistina.

Þó finnst mér athyglisverður kjarninn í hugsun þeirra — sem er þessi „lýðræðisvæðing“ listarinnar — vegna þess að hún varpar ljósi á það hvaða kvöðum list hefur verið og er enn bundin. List hefur lengi þurft að lúta lögmálum þeirra sem yfir valdinu búa — þetta er óneitanleg staðreynd. Þeir sem hafa völd, pólitísk eða fjárhagsleg, geta notfært sér stöðu sína til þess að styrkja listsköpun — áhugavert dæmi um slíkt er samband myndhöggvarans fræga Gian Lorenzo Bernini og kardinálsins Scipione Borghese í Róm sautjándu aldar. Enn þann dag í dag er list að einhverju leyti föst í fjötrum valdsins. Munurinn er sá að í dag er það auðmagn og markaður þess sem tekur að sér hlutverk „velgjörðarmannsins“ Mækenasar, með undantekningum á borð við listamannalaunin sem eru okkur Íslendingum árlegt samfélagsmiðlarifrildi. 

Til að mynda styrkir fjárfestingafélagið GAMMA Sinfóníuhljómsveit Íslands, og hefur staðið að útgáfu bókar eftir Braga Ólafsson, „Bögglapóststofan“. Í fyrra tilfellinu fer fjármagnið einfaldlega í rekstur hljómsveitarinnar og tryggir okkur venjulegu neytendunum ódýrara aðgengi að tónleikum — en í því síðara var ritverk gefið út í örfáum eintökum, aðeins 300 talsins, og því deilt út til viðskiptavina fjárfestingafélagsins. Flestum fyndist fyrra dæmið virðingarvert, en hið seinna eitthvað athugavert — og það spratt upp mikil umræða um þetta á sínum tíma. Persónulega finnst mér þetta einmitt frekar athugavert og undarlegt fyrirkomulag — að það sé þeirra sem ráða yfir fjármagni að ákveða hvaða list fær þessa nauðsynlegu styrki, þetta súrefni sem er okkur öllum nauðsynlegt í samfélagi nútímans. Mér finnst það raunar alveg jafn athugavert og að tiltekin ríkisnefnd fái að ákveða hvaða listafólk fær listamannalaun og hvað ekki.

Markmið mitt hér og nú er þó ekki að bera út neinn boðskap um hvað er rétt eða rangt í þessum málum — það væri eflaust efni í annan pistil. Ég vildi aðeins vekja ykkur til umhugsunar, kæru lesendur, um stöðu listarinnar, þessarar skipulögðu hreyfingar hrífandi sköpunar, og reyna að víkka sjóndeildarhring ykkar hvað viðkemur hrifum, listinni og hinu háleita. Er ekki mögulegt að í vonandi nákominni framtíð verði list upp á enga nema sjálfa sig komin — að hún hafi fullt frelsi til að skapa sig sjálfkrafa — jafnvel svo gott sem ósjálfrátt? Hugsum fallega til listarinnar — því það er jú svo margt ægifagurt sem hún hefur fært okkur gegnum tíðina.

Hvað er líf?

Hvað er líf?

Þrá-hyggja og uppruni rökrænunnar

Þrá-hyggja og uppruni rökrænunnar