Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hvernig veit ég að ég veit? — Þekkingarfræðileg réttlæting

Hvernig veit ég að ég veit? — Þekkingarfræðileg réttlæting

Þessi ritgerð var skrifuð fyrir áfangann Inngangur að þekkingarfræði sem haldinn var við Háskóla Íslands haustönnina 2018. Útgáfa ritgerðarinnar sem hér ber að líta skortir neðanmálsgreinar, þótt heimildaskrá sé til staðar. Sé smellt hér má hala niður PDF-útgáfu ritgerðarinnar með tilheyrandi tilvísunum. Málverkið í haus heitir Contoy og er eftir Peter Alexander frá árinu 1988.


Réttlæting er mikilvægt þekkingarfræðilegt hugtak. Við spyrjum okkur stöðugt að því hvernig við vitum hlutina sem við vitum, hvort okkur sé fært að réttlæta þekkingu okkar fyrir sjálfum okkur sem og fyrir öðrum. Ef ég tel að í skóginum standi kofi einn gæti ég spurt: „hvernig í ósköpunum veit ég að í skóginum standi kofi einn?“ og svarað spurningunni sjálfur með því að segja „nú, því ég veit að þar situr við gluggann jólasveinn.“ Maður kemst þó fljótt að því að réttlætingin sjálf er staðhæfing sem krefst sinnar eigin réttlætingar, og sú krefst svo sinnar eigin réttlætingar, og svo óendanlega framvegis. Þegar maður hugsar um þessa „réttlætingarkeðju“ sem slíka kemst maður að því að einhverrar heildrænnar nálgunar sé þörf til þess að skýra eða grundvalla réttlætingu almennt — einhver hugmynd um það hvaðan réttlætingin kemur þegar allt kemur til alls er nauðsynleg.

Bjarghyggja (e. foundationalism) og samkvæmnishyggja (e. coherentism) eru tvær mismunandi tegundir kenninga um það hvernig þekkingarfræðilegar skoðanir eru réttlættar. Hver nálgun fyrir sig nálgast viðfangsefnið, réttlætingu, á sinn eigin hátt — bjarghyggjunálgunin gerir tilraun til þess að finna einhverjar grundvallandi frumstoðir sem réttlæta allt sem af þeim leiðir, meðan samkvæmnishyggjunálgunin hallast fremur að því að reyna að finna réttlætingu í heildrænu samhengi allra skoðana þekkjandans. Heimspekingarnir bandarísku Roderick Chisholm (1916-1999) og W.V.O. Quine (1908-2000) tóku einmitt sína hvora nálgunina þegar kemur að þekkingarfræðilegri réttlætingu — Chisholm var bjarghyggjumaður en Quine hallur undir samkvæmnishyggju. Enn fremur aðhylltist Quine svokallaða heildarhyggju (e. holism) sem má skilja sem undirstöðu samkvæmnishyggjuafstöðu Quine.

Í þessari ritgerð mun ég fjalla um bjarghyggju og samkvæmnishyggju eins og hún birtist í skrifum Chisholm og Quine. Í ritgerðinni mun ég fyrst og fremst einbeita mér að tveimur greinum eftir höfundana; „The Myth of the Given“ eftir Chisholm og „Epistemology Naturalized“ eftir Quine. Fyrst mun ég skýra afstöður hvers höfundar fyrir sig auk rakanna sem þeir færa fyrir þeim. Í tilfelli Quine mun ég einnig útskýra hvernig heildarhyggja hans leiðir til samkvæmnishyggju. Að lokum mun ég greina hverjir kostirnir og gallarnir eru við stefnurnar að hverju sinni og gera tilraun til þess að taka mér afstöðu gagnvart stefnunum og meta hvor þeirra mér finnst meira sannfærandi kenning um réttlætingu.

Hefjumst þá handa við að kanna hugmyndir Roderick Chisholm um réttlætingu skoðana. Eins og segir að ofan aðhylltist Chisholm bjarghyggju. Heimspekilegar skoðanir hans sættu stöðugum endurskoðunum af hans hálfu, en í megindráttum hélst afstaða hans til uppsprettu réttlætingar óbreytt gegnum feril hans: til eru einhverjar milliliðalausar grundvallaruppsprettur þekkingar sem við leiðum alla okkar þekkingu af. Við ætlum þó ekki að kanna verk hans í heild sinni í þessari ritgerð, heldur aðeins eina grein — en þó með hliðsjónar af öðrum heimildum. Til að byrja með mun ég skýra frá meginmarkmiðum greinarinnar sem ég ætla að rannsaka. Því næst mun ég útskýra röksemdafærslur Chisholm fyrir niðurstöðum sínum. Að lokum mun ég taka saman hver afstaða hans til þekkingarfræðilegrar réttlætingar er.

Í greininni „The Myth of the Given,“ fjallar Chisholm um kennisetningu sem hann kallar „kreddu hins gefna“ (e. doctrine of the given). Í greininni lýsir Chisholm þremur mismunandi örmum „kreddunnar“: a) öll réttlætt þekking hvílir nauðsynlega á yrðingum sem réttlæta sjálfar sig, b) til eru yrðingar um sýndir (e. appearances) sem réttlæta sjálfar sig, og c) allar yrðingar sem réttlæta sjálfar sig eru yrðingar um sýndir. Markmið Chisholm er að færa rök fyrir hlutum a) og b) en gegn hluta c) — hann vill því meina að þekking hvíli nauðsynlega á tilteknum sjálfsréttlætandi yrðingum, og að sumar (en ekki allar!) þeirra yrðinga sem réttlæta sjálfar sig séu yrðingar um sýndir.

Rök Chisholm fyrir a) eru fyrst og fremst þau að hvert réttlætingarferli leiði á endanum óhjákvæmilega til einhvers sem kalla mætti „viðeigandi endapunkt“ þar sem ekkert annað en endapunkturinn sjálfur getur réttlætt sjálfan endapunktinn, stöðvandi ferlið sem slíkt. Hugsum okkur að ég spyrji mig hver sé réttlæting mín fyrir yrðingunni „það eina sem ég vil um jólin ert þú“ — gæti ég réttlætt hana með einhverju öðru en að ég einfaldlega vilji það sem ég vil? Staðreyndin er einfaldlega sú að ég vil það sem ég vil. Hið sama gildir um það sem ég trúi, það sem ég finn, það sem ég hugsa að hverju sinni — þetta eru grundvallandi og sjálfsréttlætandi upplifunarstaðreyndir, segir Chisholm. Hvað varðar b) heldur hann því fram, í sama legg, að viðeigandi endapunktar okkar geti algjörlega verið upplifanir okkar af sýndum sem fyrir okkur bera, þ.e. að það sem okkur sýnist geti verið viðeigandi endapunktur: mér sýnist bara það sem mér sýnist.

Hér er þó vert að leggja áherslu á að það er upplifunin af sýndinni sem slík, form hennar, sem er sjálfsréttlætandi, ekki meint innihald sýndarinnar. Til dæmis gæti mér sýnst eitthvað á við „grænt, hátt, beitt, ilmandi,“ og allar þessar sýndir væru sjálfsréttlætandi að því leytinu til sem mér sýnist þær yfir höfuð — upplifun mín af þeim tryggir að sýndirnar sem slíkar séu staðreyndir. Aftur á móti gæti ég ekki haldið því fram að staðhæfingin „þarna er jólatré,“ sé sjálfsréttlætandi fyrir það eitt að ég búi yfir mörgum sjálfsréttlætandi skynjunum (grænt, hátt, beitt, ilmandi) sem ég gæti fellt saman undir fyrirbærið „jólatré“. Ég yrði að réttlæta staðhæfinguna um jólatréð með því að byrja á sjálfsréttlættu skynjununum og réttlæta hvert skref á leiðinni að réttlætingu minni á staðhæfingunni um jólatréð. Á þennan máta gæti ég svo byggt upp alla mína þekkingu, vopnaður ýmsum aðferðafræðilegum reglum um það hvaða skoðanir eru bersýnilegar, skynsamlegar og ásættanlegar, o.s.frv. Þannig ég beita þessum traustu ályktunarreglum til þess að leiða traustar niðurstöður af traustum sjálfsréttlættum skoðunum mínum — og allt ferlið er tryggt og bjargfast. Að vissu leyti er afstaða Chisholm því keimlík afstöðu franska heimspekingsins René Descartes (1596-1650) — hann samþykkir „ég hugsa,“ „ég finn,“ og „ég skynja,“ sem gefnar, sjálfsréttlætandi og óumdeilanlegar grundvallarsetningar — og reynir síðan að vinna sig upp út frá þeim. Þekking mín um innihald þessara hugsana, tilfinninga og skynjana er hins vegar síður en svo sjálfsréttlætandi — hún er aðeins réttlætt með tilvísan í sjálfsréttlætandi þekkingu mína á hinum gefnu grundvallarupplifunum og í gegnum tiltekna aðferðafræði við þekkingaröflun.

Þessi skilningur Chisholm á a) og b) er í ofanálag samstundis neitandi fyrir c). Samkvæmt skilningi Chisholm eigum við sjálfsréttlætandi staðhæfingar á við „ég vil“ eða „ég trúi“ — sem eru einfaldlega ekki sýndir heldur staðreyndir um innri upplifun mína. Mér sýnist ég ekki vilja eitthvað eða trúa einhverju heldur trúi ég því einfaldlega. Það er, það að sýnast er bara upplifunarástand eins og að finnast, að hugsa, að elska/hata, að trúa, o.s.frv.

Svo ég dragi nú saman umfjöllunina um Chisholm getum við farið með nokkrar staðhæfingar um afstöðu hans til réttlætingar. Í fyrsta lagi er hann þeirrar skoðunar að alla réttlætingu megi rekja aftur til einhverra grundvallandi yrðinga um heiminn sem eru réttlættar af sjálfum sér — þ.e., réttlætingarkeðjan á sér byrjunarreit — svo hann er óumdeilanlega bjarghyggjumaður um réttlætingu. Í öðru lagi telur hann að sumar þessara grundvallandi yrðinga taki á sig formið „mér sýnist“ — rétt eins og þær geta verið „mér finnst“ eða „ég vil“ — það er, þær geta verið upplifanir af því að heimurinn sýnist okkur. Í þriðja lagi hafnar hann því að einu sjálfsréttlætandi skoðanirnar séu um sýndir á grundvelli þess að sjálfsréttlætandi skoðanir okkar, eins og skoðanir um að við trúum, að við viljum, að okkur sýnist, o.s.frv., séu ekki sýndir heldur staðreyndir upplifunar.

Nú þegar við höfum séð hvernig Chisholm hugsar sér heildrænt yfirbragð þekkingarfræðilegrar réttlætingar getum við kannað hugmyndir W.V.O. Quine. Kenningar Quine eru margbrotnar, en eins og segir að ofan mun ég að mestu halda mig við að hugsa um afstöðu hans eins og hún birtist okkur í greininni „Epistemology Naturalized“.  Til að byrja með mun ég fjalla stuttlega um markmið greinarinnar sem og um hugmynd Quine um hina „hefðbundnu þekkingarfræði“ (e. old epistemology). Því næst mun ég greina frá Duhem-Quine reglunni svokölluðu og skýra hvernig hún leiðir til heildarhyggju Quine. Að lokum mun ég sýna fram á það hvernig náttúruvæðing þekkingarfræðinnar sem Quine leggur til að við göngumst undir er í reynd róttæk samkvæmnishyggja sem virkar sem neitun hinnar hefðbundnu þekkingarfræði.

Hefjumst þá handa við að greina frá markmiðum Quine og skilgreiningu hans á hinni hefðbundnu þekkingarfræði. Markmið Quine með ritgerðinni var, eins og titillinn gefur til kynna, náttúruvæðing þekkingarfræðinnar, samþætting þekkingarfræði og náttúruvísinda. Hann hugsar sér að þekkingarfræði hafi í gegnum tíðina tekið á sig ákveðna birtingarmynd sem hann kallar „hefðbundna þekkingarfræði“. Að hans mati er þessi hefð byggð á misskilningi sem krefst leiðréttingar — og náttúruvæðingin er þessi leiðrétting. Náttúruvæðing þekkingarfræðinnar felur því í sér neitun hefðbundinnar þekkingarfræði. Viljum við skilja hvers vegna Quine vill skipta hinni hefðbundnu þekkingarfræði út fyrir hina náttúruvæddu verðum við því að komast betur að því hver munurinn á þeim er.

Svo — hvað er þessi „hefðbundna“ þekkingarfræði þá eiginlega? Descartes kemur okkur hér aftur að góðum notum, vegna þess að hann er ef til vill ein langlífasta og áhrifamesta táknmynd hinnar hefðbundnu þekkingarfræði. Descartes gerði tilraun til þess að leggja undirstöður fyrir vísindin með traustum, bjargföstum grunni í Hugleiðingum sínum. Hann rekur þekkingu sína í gegnum það sem hann hafði áður talið réttlætandi uppsprettur og gerir stöðugt ráð fyrir því að það gæti verið ótraust uppspretta, allt þar til hann kemst að „viðeigandi endapunkti“ eins og Chisholm gerir — hann hugsar, þess vegna er hann — og hann kemst einfaldlega ekkert dýpra en svo.

Það sem einkennir þessa nálgun Descartes (og nálgun Chisholm sömuleiðis, eins og lesa má úr umfjölluninni að ofan) er fyrst og fremst að sem þekkingarfræði kemur hún á undan náttúruvísindum og raunar allri annarri þekkingu. Vegna þess að hún kemur á undan vísindum og annarri þekkingu á þekkingarfræðin þar með að réttlæta þessa þekkingu. Enn fremur er hefðbundin þekkingarfræði almennt fremur andsnúin hringrökum — þ.e. röksemdafærslum þar sem við segjum „x, vegna þess að y, og y, vegna þess að x“.

Quine afmarkar hina hefðbundnu þekkingarfræði á fleiri vegu en þessa, en fyrir sakir umfjöllunar okkar, sem snýr einna helst að þekkingarfræðilegri réttlætingu (en ekki að merkingu, t.d.), skulum við hlaupa yfir þær afmarkanir. Okkur ætti því að duga að hafa hugfast að hefðbundna þekkingarfræðin geri fyrst og fremst ráð fyrir því, í fyrsta lagi, að unnt sé að marka þekkingu sjálfsréttlætandi byrjunarreit í gegnum iðkun hefðbundinnar þekkingarfræði (eða það sem sama er, að unnt sé að stansa á „viðeigandi endapunkti,“), í öðru lagi, að þekkingarfræði eigi að réttlæta náttúruvísindin í ljósi þess að henni sé kleift að marka þekkingu þennan sjálfsréttlætandi byrjunarreit, og í þriðja lagi, að hringrök séu vítahringur sem okkur beri að forðast.

Náttúruvædda þekkingarfræðin, þvert á móti hinni hefðbundnu, væri algjör neitun þessarar lýsingar á hinni hefðbundnu þekkingarfræði. Hún væri heildrænni nálgun sem hafnaði því að unnt sé að finna byrjunarpunkt innan þekkingarfræðinnar sem geti réttlætt allar aðrar vísindagreinar, hafnaði því að þekkingarfræðin eigi yfir höfuð að vera að býsnast við að réttlæta raunvísindin, jafnt sem hún hafnaði því að hringrök séu óásættanleg í réttlætandi röksemdafærslum.

Hin náttúruvædda þekkingarfræði grundvallast þó á hinni svokölluðu Quine-Duhem reglu. Til þess að geta skilið afstöðu Quine til réttlætingar þyrftum við því fyrst að fjalla ofur stuttlega um þessa reglu og hvernig hún er forsenda heildarhyggju og þar með samkvæmnishyggju hans. Í stuttu máli sagt er Duhem-Quine reglan staðhæfing um hvernig unnt sé að sannreyna setningar um heiminn, hvort sem þær eru vísindalegar eða hversdagslegar skoðanir. Samkvæmt reglunni er aldrei hægt að sannreyna eina tiltekna setningu í einangrun frá öðrum setningum, heldur sé í reynd aðeins mögulegt að sannreyna kerfi eða net setninga í heildrænu samhengi. Segjum, til dæmis, að við teljum setninguna „allir fá bók eftir Arnald Indriðason í jólagjöf,“ sanna. Á aðfangadag opnum við síðan pakkana okkar og komumst að því, okkur til mikillar undrunar, að enginn pakki undir trénu sem merktur var okkur innihélt bók eftir Arnald Indriðason. Hvernig ættum við að sætta raunveruleikann við setninguna — hvernig sættum við þversögnina? Nú standa okkur til boða ótal kostir. Við gætum einfaldlega neitað staðhæfingunni „allir fá bók eftir Arnald Indriðason í jólagjöf“ og hugsað okkur að hún ætti kannski fremur að vera „sumir fá bók eftir Arnald Indriðason í jólagjöf,“ — og kannski væri það rétt.

Í reynd gætum við þó verið að hlaupa á okkur ef við gerðum það milliliðalaust og án frekari athugana. Samkvæmt Duhem-Quine reglunni væri það nefnilega ekki einvörðungu setningin „allir fá bók eftir Arnald Indriðason í jólagjöf,“ sem verður vafasöm vegna þess að engin gjöf undir jólatrénu innihélt bók eftir Arnald á aðfangadagskvöld. Þvert á móti verða allar setningar kerfisins grunsamlegar: ef til vill er setningin „allir fá bók eftir Arnald Indriðason í jólagjöf“ sönn og í stað þess að neita henni ættum við að neita setningunni „allar jólagjafirnar mínar voru undir jólatrénu á aðfangadagskvöld.“ Kannski værum við líklegri til þess að hafna henni fremur en að neita setningunni um Arnald — ef til vill höfum við aldrei hitt neinn sem hefur ekki fengið bók eftir Arnald Indriðason í jólagjöf. Þá væri mögulega ákjósanlegra að halda í setninguna um bókina en afneita þess í stað setningunni um gjafirnar — „Jú,“ hugsar maður með sér á aðfangadagskvöld, „það hlýtur að hafa orðið einhver misskilningur. Auðvitað fæ ég Arnald í jólagjöf eins og allir aðrir.“

Okkur ætti að vera ljóst af þessu dæmi að Duhem-Quine reglan leiði beinlínis af sér það sem kallað er heildarhyggju — vegna þess að sá sem telur regluna sanna telur að réttlætingu hverrar setningar um heiminn verði alltaf að finna í venslum hennar við heild allra setninga um heiminn. En hvert er þá samband þessarar heildarhyggju og þekkingarfræðilegrar réttlætingar?

Ein augljós afleiðing heildarhyggjunnar er sú að sá sem aðhyllist hana er ekki lengur fær um að vísa til einhverra tiltekinna setninga um skynjun eða reynslu sem grundvallandi forsendur allra annarra setninga — maður verður nauðsynlega að meta þær í samhengi við heildina eins og hverja aðra setningu. Þetta þýðir að sjálfsréttlætanleikinn sem Chisholm taldi einkenna tilteknar skoðanir glatast. Skoðun er ekki lengur réttlætt í krafti þess að unnt sé að rekja réttlætingarkeðjuna til einhverrar upprunalegrar sjálfsréttlætandi skoðunar heldur stendur skoðun og fellur með heildrænu neti allra þeirra skoðana sem maður býr yfir. Heildarhyggjan er því eins og áður segir mjög afgerandi neitun hinnar svokölluðu hefðbundnu þekkingarfræði — hún heldur því beinlínis fram að ómögulegt sé að „byrja á byrjuninni“ vegna þess að þannig virki þekking bara alls ekki: það er engin byrjun, enginn algjör grundvöllur sem við getum reitt okkur á.

Það er hér sem okkur ætti að verða ljóst hvers vegna mætti kalla heildarhyggjunálgunina samkvæmnishyggju. Samkvæmnishyggja um réttlætingu snýst jú (oftast, þótt mismunandi sé milli heimspekinga og kenninga þeirra) um það að skoðun sé réttlætt þá og aðeins þá er skoðunin stendur í sterkum röklegum og líkindafræðilegum samræmisvenslum við sjálfu sér samkvæmt kerfi þekkingar og sé þar með sjálf samkvæm kerfinu. Samkvæmnishyggjan leggur því, rétt eins og heildarhyggjan, áherslu á að þekking sé aðeins réttlætt standi hún í „réttum venslum“ við heildrænt kerfi allra setninga sem þekkjandinn býr yfir. Í báðum tilfellum er áherslan lögð á heildrænt samhengi og innri samkvæmni kerfisins í heild sinni — öfugt við bjarghyggjuna, þar sem öll réttlætingarbyrðin er lögð á tilteknar setningar.

Hvort sem við tölum um heildarhyggju eða samkvæmnishyggju stendur það þó eftir að þessi þekkingarfræðilega tillaga Quine hefur það í för með sér að það að samþykkja hana er jafngilt því að neita hinum helstu kenningum hefðbundinnar þekkingarfræði um réttlætingu og tvinna þess í stað þekkingarfræðina sem slíka við raunvísindin.

Í fyrsta lagi neitar tillaga hans þeirri staðhæfingu að þekkingarfræðin geti komið á undan raunvísindum eða annarri þekkingu almennt og undirbyggt hana. Rétt eins og raunvísindin er þekkingarfræðin kafli í heildrænu neti mannlegrar þekkingar og kemur þegar öllu er á botninn hvolft hvorki „á undan“ né „á eftir“ neinu öðru í röð réttlætinga. Raunar verður þekkingarfræðin einfaldlega undirgrein sálfræðinnar, rannsakandi efnislegt fyrirbæri (mannlegan þekkjanda) og þau tilteknu lífeðlisfræði-sálfræðileg ástönd sem þetta fyrirbæri kann að vera í við tilteknar aðstæður.

Í öðru lagi, sem einfaldlega leiðir af því sem segir hér að ofan, virkar hún sem sem tærandi á landamæri þekkingarfræði og raunvísinda. Samþykkjum við tillögu Quine verða skilmörkin óskýr eða hverfa einfaldlega vegna þess að heildrænt kerfi allra setninga um heiminn inniheldur bæði þekkingarfræðilegar og raunvísindalegar setningar, og eins og við vitum verða setningar, hvaðan sem þær koma, aðeins réttlættar í samhengi við allar aðrar setningar í heildræna kerfinu. Þetta gerir okkur kleift að sækja réttlætingu fyrir þekkingarfræðilegum setningum í smiðju raunvísindanna og öfugt. Raunvísindin og þekkingarfræðin renna þannig stoðum hvort undir annað svo fremi sem hið heildræna kerfi setninga sem rúmar greinarnar sé innbyrðis samkvæmt sjálfu sér. Engin grein kemur á undan annarri grein, heldur réttlætir kerfið sem rúmar allar greinarnar sjálft sig þegar það er sjálfu sér samkvæmt.

Af þessu leiðir þriðja afleiðing tillögu Quine: hún hefur það í för með sér að þekkingarfræðingurinn getur fullvel notast við raunvísindi á við sálfræði eða líffræði til þess að réttlæta þá skoðun að okkur sé fært að afla okkur þekkingar með skynfærunum. Þekkingarfræðin styður svo aftur við sálfræðina og líffræðina, með greinarnar til hliðsjónar, þannig að allt kerfið styrkist og treystist. Þetta eru auðvitað að vissu leyti hringrök, en það skiptir engu máli eftir að þekkingarfræðin hefur verið náttúruvædd. Hringrakafælni hefðbundnu þekkingarfræðinnar hverfur eins og dögg fyrir sólu við náttúruvæðinguna.

Það róttækasta við heildar-samkvæmnishyggju Quine er þó líklega það að réttlæting sem slík tekur á sig allt aðra mynd en hún hafði áður gert innan hinnar hefðbundnu þekkingarfræði. Réttlæting er ekki lengur vísun til einhvers algjörs sem grundvallar allt annað — heldur verður réttlæting áþekk stórri kerfislægri röksemdafærslu þar sem hver niðurstaða styður hverja aðra niðurstöðu á víxlverkandi máta. Ef við byrjum að hugsa á þennan róttæka máta sem Quine leggur til öðlumst við nokkuð bókstaflega nýjan skilning á þekkingu — hún er ekki lengur eins og bygging sem fer hærra og hærra heldur verður hún eins og stór og löng en breytileg saga sem við segjum sjálfum okkur, einskonar stórsögn um alheiminn sem verður betri eftir því sem við rannsökum heiminn og upplifum áður óþekkta skynreynslu sem færir okkur nýja þekkingu.

Þekking okkar hættir að vera hús sem við reynum að byggja okkur á bjargi fremur en sandi og verður þess í stað áþekk safni allra þeirra setninga sem við teljum sannar um heiminn. Hún verður enn fremur aðeins skilin þegar setningarnar eru skildar í samhengi við hvora aðra — þegar sagan er lesin frá byrjun til enda (og aftur upp á nýtt à la Finnegan’s Wake) með öllum sínum flækjum, viðsnúningum, smugum og með hverju Deus ex Machina sem hún rúmar. Hver er þekkingarfræðilegi munurinn á hugtökunum um Ólympsguði Hómers og efnislega hluti? Það er enginn eðlismunur, aðeins stigsmunur — munur á skerpu eða upplausn. Önnur hugsmíðin kann að vera, praktískt séð, betri kafli en hinn í þessum mismunandi útgáfum sögunnar um heiminn, sögunnar sem fjallar um það sem hefur verið, það sem er og það sem koma skal — en báðir eru kaflarnir hugsmíðar.

Það er margt sem þarf að taka inn í reikninginn við mat á því hvort manni lítist betur á nálgun Chisholm eða Quine. Í fyrsta lagi þarf maður að taka sér afstöðu til þess hvert hlutverk þekkingarfræðingins á að vera, þegar öllu er á botninn hvolft — á hann að undirbyggja vísindin eða á hann að vera hluti af þeim? Í öðru lagi þarf maður að velta því fyrir sér hvort maður geti samþykkt hringrakaréttlætingar fyrir þekkingu — getur maður raunverulega bara reitt sig á samkvæmni kerfisins? Er ekki nauðsynlegt að skorða kerfið með einhverjum hætti til þess að gera það traustverðugt? Sömuleiðis er vert að taka gagnrýni heimspekingsins Jaegwon Kim á náttúruvæðingu Quine alvarlega — er boðandi þáttur þekkingarfræðinnar eitthvað sem glatast við hina svokölluðu náttúruvæðingu?

Að mínu mati virðist mér hugmynd bjarghyggjusinna um að nauðsynlegt sé að finna sjálfsréttlætandi setningar til þess að byggja allt annað ofan á frekar hæpin. Einn liður í gagnrýni Quine felst í því að grafa undan markmiðum bjarghyggjunnar með því að benda einfaldlega á að tilleiðsluvandi Hume hafi ekki enn verið leystur: „The Humean predicament is the human predicament,“ segir hann snaggaralega. Bjarghyggja eins og sú sem Chisholm aðhyllist yrði alltaf að styðjast við tilleiðslur í þekkingarfræðilegri vegferð sinni — hún yrði alltaf að beita tilleiðslu frá hinum sjálfsréttlætandi og grundvallandi setningum sem við byrjum með til setninga sem segja okkur eitthvað innihaldsríkt og nytsamlegt um heiminn í kringum okkur. Svo jafnvel þótt við keyptum staðhæfingar bjarghyggjusinnans um að setningar eins og „ég hugsa“ séu sjálfsréttlætandi (sem ég geri, að einhverju leyti), þá myndi það samt ekki stoða neitt — því þær geta einfaldlega ekki þjónað sem grundvöllur alls annars í ljósi tilleiðsluvandans. Ályktanirnar væru alltaf litaðar af tilleiðsluvandanum. Ég sé mér því ekki annað fært en að fylgja Quine eftir í að eiga ansi erfitt með að samþykkja það að hlutverk þekkingarfræðingsins geti verið að leggja grundvöll fyrir vísindin áður en þau hefjast handa.

Hvað varðar hringrökin þá hræða þau mig ekki sérlega mikið, sérstaklega ekki í ljósi þess að mér finnst ég enga skuldbindingu hafa til þess að leggja sjálfsréttlætandi undirstöðu fyrir vísindin í heild sinni. Óbeit heimspekinga á hringrökum tel ég að hafi oftar en ekki verið órökstudd tilfinning fyrir því að einhversstaðar hljóti allt að byrja, að auðvitað hljóti að vera einhver núllpunktur sem allt sprettur svo upp úr og skilgreinist af, og að þessi núllpunktur sé okkur á einhvern hátt aðgengilegur með afturvirkri afleiðslu.. Ég sé enga knýjandi ástæðu enn sem komið er til þess að samþykkja þessa kenningu, en ég væri auðvitað tilbúinn að skipta um skoðun ef einhver færði sannfærandi rök fyrir henni.

Að lokum vil ég rétt snerta á lestri Jaegwon Kim á grein Quine, án þess þó að fara djúpt í saumana á textunum. Kim heldur því fram í grein sinni, „What is “Naturalized Epistemology”?“ að náttúruvæðing Quine feli í sér að boðandi þekkingarfræði sem slík verði þurrkuð út. Að mínu mati er lestur Kim á grein Quine frekar óbilgjarn. Hann tekur til að mynda ekki mið af því hvernig Quine segir náttúruvísindin og þekkingarfræðina eiga í víxlverkandi sambandi — sem ætti að gefa til kynna að náttúruvædd þekkingarfræði hafi þann starfa að sýna fram á hvaða vísindalegu aðferðir séu nytsamlegar og hverjar ekki. Boðandi þekkingarfræði myndi ekki fara neitt, heldur myndi hún einfaldlega ganga að vísindunum og hinni vísindalegu aðferð sem enn einu réttlætingartólinu (ásamt rökfræði, til að mynda) í leit sinni að góðum og réttmætum aðferðum við þekkingaröflun. Í stað þess að þekkingarfræðin boði tilteknar aðferðir réttlætingar fyrir og handan náttúruvísindanna verður henni frjálst að sækja sér skotfæri í rannsóknir sálfræðinnar, taugalækninga, líkindafræði og annarra greina (og öfugt, auðvitað). Quine segir þetta sjálfur, eins og Patrick Rysiew bendir á í grein sinni: „Naturalization of epistemology does not jettison the normative and settle for the indiscriminate description of ongoing procedures. For me normative epistemology is a branch of engineering. It is the technology of truth-seeking, or, in a more cautiously epistemological term, prediction. Like any technology, it makes free use of whatever scientific findings may suit its purpose.“ Boðandi þætti þekkingarfræðinnar er því síður en svo glatað í náttúruvæðingunni — hann stökkbreytist einfaldlega.

Að rannsókn minni lokinni er niðurstaða mín því sú að mér virðist hin náttúruvædda þekkingarfræði Quine talsvert meira sannfærandi en hin „hefðbundna“ bjarghyggja sem Chisholm færir okkur. Ég tel að það gæti verið mjög gjöfult fyrir þekkingarfræðina að leyfa sér að notast við raunvísindalegar niðurstöður til þess að undirbyggja röksemdafærslur sínar og vera þar með óhrædd við að notast við hringrök í réttlætingarferli sínu. Aftur á móti finnst mér röksemdafærsla Chisholm um að sumar skoðanir séu ekki réttlættar af neinu öðru en af þeirri einföldu staðreynd að þær séu mjög sannfærandi — ég á bágt með að sjá hvernig skoðanir á við „ég hugsa“ geta sótt réttlætingu sína í eitthvað annað en staðreynd upplifunar sinnar. Það sem mig skortir ef til vill er samtvinning beggja stefna, eitthvað í átt við „bjargkvæmnishyggju“ (e. foundherentism) Susan Haack — án þess þó að ég gæti farið í saumana á því hvað hún fæli í sér hér.

Í öllum föllum virðist mér ég aðeins rétt hafa klórað yfirborð þessarar tilteknu þekkingarfræðilegu deilu — og treysti mér því síður en svo til þess að taka neina afgerandi afstöðu.


Heimildaskrá

Chisholm, Roderick (1964). „The Myth of the Given“ í Philosophy (Englewood Cliffs: Prentice Hall), bls. 261-286. Endurprentað í Ernest Sosa, Jaegwon Kim, Jeremy Fantl og Matthew McGrath (ritstj.), Epistemology: An Anthology, 2. útg. (Malden: Blackwell, 2008), bls. 80-93.

Descartes, René. Hugleiðingar um frumspeki (þýð. Þorsteinn Gylfason sem einnig ritar inngang og skýringar). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2001.

Feldman, Richard og Feldman, Fred, "Roderick Chisholm", í The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vetrarútgáfa 2018). Ritstýrt af Edward N. Zalta. Vefslóð: <https://plato.stanford.edu/archives/win2016/entries/chisholm/>.  

Haack, Susan. „A Foundherentist Theory of Empirical Justification“, í The Theory of Knowledge: Classical and Contemporary Readings, 2nd ed.. Ritstýrt af Louis Pojman. Belmont, CA: Wadsworth, 1999. Bls. 283-293. Endurprentað í Ernest Sosa, Jaegwon Kim, Jeremy Fantl og Matthew McGrath (ritstj.), Epistemology: An Anthology, 2. útg. (Malden: Blackwell, 2008), bls. 134-144.

Henderson, Leah. "The Problem of Induction", í The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Sumarútgáfa 2018), ritstýrt af  Edward N. Zalta. Vefslóð: <https://plato.stanford.edu/archives/sum2018/entries/induction-problem/>.

Hylton, Peter. "Willard van Orman Quine", í The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Sumarútgáfa 2018). Ritstýrt af Edward N. Zalta. Vefslóð: <https://plato.stanford.edu/archives/sum2018/entries/quine/>.

Kim, Jaegwon. „What is “Naturalized Epistemology”?“, í Philosophical Perspectives 2: 381-405, (1988). Endurprentað í Ernest Sosa, Jaegwon Kim, Jeremy Fantl og Matthew McGrath (ritstj.), Epistemology: An Anthology, 2. útg. (Malden: Blackwell, 2008), bls. 538-551.

Olsson, Erik, "Coherentist Theories of Epistemic Justification", í The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vorútgáfa 2017). Ritstýrt af Edward N. Zalta. Vefslóð.

Rysiew, Patrick, "Naturalism in Epistemology", í The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vorútgáfa 2017). Ritstýrt af Edward N. Zalta. Vefslóð.

Stanford, Kyle, "Underdetermination of Scientific Theory", í The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vetrarútgáfa 2017), ritstýrt af Edward N. Zalta. Vefslóð.

Turri, John. Epistemology: A Guide. Sussex: Wiley-Blackwell, 2013.

Quine, Willard van Orman (1969). „Epistemology Naturalized“, í Ontological Relativity and Other Essays (New York: Columbia University Press), bls. 69-90. Endurprentað í Ernest Sosa, Jaegwon Kim, Jeremy Fantl og Matthew McGrath (ritstj.), Epistemology: An Anthology, 2. útg. (Malden: Blackwell, 2008), bls. 528-537.

Quine, Willard Van Orman, „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Þorsteinn Hilmarsson (þýð.), Hugur 3-4 (1990-1991): 30-55.

Quine, Willard Van Orman. 1986, “Reply to White”, í The Philosophy of W.V. Quine. Riststýrt af L. Hahn and P. Schilpp. La Salle, Ill.: Open Court, 1986. Bls. 663–665.

Um möguleika hins nýja

Um möguleika hins nýja

„Á ég að gæta bróður míns?“ — Hegel og Antígóna

„Á ég að gæta bróður míns?“ — Hegel og Antígóna