Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um möguleika hins nýja

Um möguleika hins nýja

Nú er nýtt ár gengið í garð — ný tala komin á dagatalið. Talan markar þá staðreynd að nú hafi jörðin okkar hringsólað einn hring enn í kringum sólina. En þess að auki markar talan þá staðreynd að enn séum við hér, þrátt fyrir allar hætturnar sem heimurinn býður upp á, og að kannski getum við enn verið hér næst þegar við teljum einn hring enn á ferð jarðarinnar umhverfis sólu. Það er þess vegna sem þessi tala er mjög merkingarþrungin fyrir mörgum okkar — hún virðist setja okkur skilmörk fyrir hið liðna og það sem koma skal — hún skapar okkur ný tækifæri, nýjar lendur, hún opnar á von um góða framvindu og betri tíma. Áramótin eru því sannkallaður tímamótaviðburður fyrir okkur flestum. En hvað er það nákvæmlega við hið nýja ár sem okkur finnst lofa svo góðu? Það er ekki eins og það sé eitthvað yfirskilvitlega sérstakt við þennan atburð sem við köllum áramót. Það eina sem er að eiga sér stað er að talningin okkar á ferli jarðar er hún þýtur gegnum víðáttutóm geimsins fer einn tölustaf upp. Það er því líklega ekki eitthvað við atburðinn sjálfan sem slíkan sem okkur finnst merkilegt, heldur fremur eitthvað sem felst í þessari talningu — talningin frá 2018 upp í 2019 skapar rof, aðskilnað. Raunar er eitthvað töfrandi við talningu almennt sem gæti verið lýsandi fyrir þetta — það er alltaf hægt að telja hærra en maður er búinn að telja. Það eru til óendanlega margar tölur, og hver og ein þeirra er einstök stærð sem engin önnur tala deilir.

Gæti verið að þessi hrifning okkar af áramótum kristallist í því að okkur finnist þau skapa hinu óendanlega nýja og einstaka eitthvert ráðrými? Það gæti alveg verið. Við strengjum okkur áramótaheit, setjum okkur markmið um það sem koma skal, hugsum okkur að kannski getum við sjálf framkallað eitthvað nýtt innra með okkur, stigið skref í réttar áttir. Svo — já, áramótin hljóta að vera tákn hins nýja. Þau tákna nýtt upphaf þess ferlis sem við kennum við árstíðirnar — nú vitum við að brátt vorar, að brumið fari að springa út á greinum trjánna hvað og hverju. Við vitum að senn kemur sumar — við fáum að sjá sólina, njóta hlýjunnar og ávaxta erfiðis okkar, og svo framvegis. En eins og dæmið um árstíðirnar ætti að sýna fram á eru áramótin sömuleiðis tákn endurtekningar. Árið sem slíkt, árstíðaferlið sjálft, er endurtekið — upp á nýtt. Það virðist því vera áhugavert samband milli þessara hugtaka um endurtekningu og hið nýja. Hugsum aðeins betur um það. Áramótin fela í sér hið nýja — það er, hið nýja ár, hið óskrifaða blað — en þau fela þetta óskrifaða inni í endurtekningu hins sama, hins gamla. Okkur finnst því ef til vill ákjósanlegast að miðla hinu nýja í gegnum hið gamla — að hægja aðeins á árekstrinum til þess að geta höndlað hann betur.

Raunin er nefnilega sú að þótt okkur finnist hið nýja spennandi og áhugavert þá getur það líka verið dálítið ógnvekjandi. Sum okkar eru dauðhrædd við nýjungar vegna þess að þeim fylgir alltaf óhjákvæmilega einhver óvissa, óreiða, óregla. Hið nýja er einmitt hið hættulega — það er áhætta fólgin í því að fara leiðir sem maður þekkir ekki í þaula. Þetta er svo líka skynsamlegt út frá sjónarhorni náttúruvals. Lífvera sem gerir það sem hún þekkir ekki af fyrri reynslu þarf að glíma við langtum fleiri hættur en sú sem gerir það sem hún veit að er hættulaust. Lífvera sem þarf að glíma við fleiri hættur en færri er ólíklegri til þess að lifa nógu lengi til þess að geta átt afkvæmi og miðlað áhættusæknu og nýjungagjörnu erfðaefni sínu. Svo það er kannski ekkert skrýtið að við séum smá hrædd við það sem koma skal ef við myndum okkur ekki einhverja kunnuglega hugtakaramma í kringum það. Engu að síður er eitthvað við okkur mannfólkið sem gerir okkur nýjungagjörn. Við þráum flest ævintýri, dálitla hættu og óvissu, spennu — við elskum að fá smá krydd í tilveruna. Kryddið þarf samt ekkert að vera allt of sterkt — bara mátulegt. Í öllum föllum erum við, að ég tel, flest þannig uppbyggð.

Þessi skrýtna tegund sem kennir sig við homo sapiens virðist því vega varlega salt milli ævintýragirninnar og vanafestunnar. Við erum spennt fyrir óvissunni sem fylgir áramótum en aðeins vegna þess að við getum verið nokkuð viss um það hvað óvissan hefur að geyma — að minnsta kosti í grófum dráttum. En nú finnst mér vakna upp áhugaverð siðferðisspurning — hversu áhættugjörn ættum við að vera? Hvernig ættum við að hegða okkur? Ráðleggingin um að maður ætti að gera sitt besta að fara út fyrir þægindarammann er orðin gömul og klisjukennd tugga en kannski fangar hún þessa hnífsegg sem við erum að reyna að ganga — við eigum að búa okkur til traustan þægindaramma en reyna stöðugt að víkka hann út. Kannski er þetta frekar skynsamleg nálgun, góð þumalputtaregla — aðferðafræði sem maður getur reitt sig á fremur undantekningarlaust. En ég veit ekki alveg með þetta — gætum við ekki veitt hinu nýja forgang? Gætum við ekki fylgt ráðleggingu Friedrich Nietzsche, þeirri sem hljómaði á þá leið að við ættum að byggja okkur hús í hlíðum Vesúvíusar — að við ættum að lifa hættulega? Ég er nefnilega dálítið skotinn í þessu nýja, óvissunni, vegna þess að það víkkar út sjóndeildarhringinn okkar. Það gefur lífinu lit.

En þá er spurning hvernig okkur er fært að lifa og hugsa hið nýja. Við þurfum að vera opin fyrir því sem áður hefði talist hættulegt og óákjósanlegt — við þurfum að vera fær um að hugsa út fyrir hina viðteknu ramma sem við myndum okkur frá degi til dags. Við þurfum jafnvel að reyna að hugsa ómannlega — að reyna að hugsa lífið í öllum sínum óendanlega fjölbreytileika. Ef þetta hljómar óhugsandi fyrir ykkur þá er það líklega rétt mat. Hið raunverulega nýja hefur bókstaflega ekki verið hugsað. Og í reynd er hver og ein hugsun raunverulega ný. Rétt eins og engin tvö laufblöð eru eins geta engar tvær hugsanir verið eins. Kannski er það eina sem við þurfum til þess að brjótast undan oki þægindarammans að komast til meðvitundar um það hvernig við höfum aldrei endurtekið neitt í raun og veru — að þegar við hugsum okkur þægindaramma yfir höfuð séum við að smætta hið nýja niður í hið gamla. Í ljósi þessa vil ég leggja til hugmynd. Hvað ef við snúum baki við þægindarammann og tökum hinu nýja fagnandi í gegnum óþægindarammann? Hvað ef við gerum okkar besta til þess að segja hinu þægilega og hinu venjulega til syndanna, á kostnað þæginda okkar, og bjóðum fremur hættunni birginn, eða hinn vangann jafnvel?

Ég er ekki einu sinni að tala um að fara út og byrja að stunda teygjustökk eða fara að læra á krossara eða synda með hákörlum. Hið óþægilega og hið hættulega gæti alveg jafn vel falist í því að neita sjálfum sér um sjálfsögð þægindi á við flugferðir, kjöt og aðra neyslu fyrir neyslunnar sakir. Það er nefnilega nýr heimur í sjónmáli — en við þurfum að þora að setja stefnuna þangað. Svo hugsum eins og Nietzsche bað okkur um að gera — reynum að lifa dálítið hættulega — en förum samt dálítið varlega í því hverju við tökum sem hættulegu.

On two different conceptions of liberty

On two different conceptions of liberty

Hvernig veit ég að ég veit? — Þekkingarfræðileg réttlæting

Hvernig veit ég að ég veit? — Þekkingarfræðileg réttlæting