Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Orðin tóm, ein og sér

Orðin tóm, ein og sér

Orðið er mannleg uppfinning, rétt eins og bókstafurinn og bókin. Orðið kom þó á undan — eins og segir í Jóhannesarguðspjalli var orðið í upphafi — orðið er það sem er skrifað, orðið er það sem bækur eru fullar af. Fyrir tíma bókarinnar lifði orðið góðu lífi, og það gerir það enn í dag. Við förum með orð af ýmsu tagi daginn út og inn. Stundum hvíslum við þeim að fólkinu sem við elskum, en stundum hreytum við þeim í fólk sem okkur líkar illa við. Oftar en ekki eru orð þó bara pragmatísk, nytsamleg, verkfæri sem við beitum til þess að ná ákveðnum markmiðum eða ástandi. Stundum gefum við okkur þó tíma til þess að njóta orða fyrir orðanna sakir, eins og þegar við lesum ljóðlist.

En víst er að orðið var í upphafi og að orðið markaði byrjun þess sem við köllum mannkynið. Orðið veitti okkur glugga úr sálum vorum inn í sálir annarra, tengdi okkur saman í fyrsta sinn. Við gáfum sjálfum okkur nöfn og við nefndum heiminn í kringum okkur. Þetta er tré og þetta er steinn, himininn er að ofan og á jörðinni sitjum við. Orðið hefur í för með sér ákveðna miðlun röktengsla og sannleikurinn varð því til í sama bragði: ef ég kalla það sem heitir jörð nafni trésins fer ég með fleipur, ég segi ósatt. Sannleikurinn, í sínu einfaldasta og sannasta formi, er þegar orðið á við um hlutinn, þegar ég kalla hlutina réttum nöfnum.

Í upphafi var orðið — það var ekkert sem við getum talað um fyrir orðið. Orðið markar því bókstaflega upphaf okkar, upphaf mannleikans sjálfs, upprisuna úr formleysunni eða draumnum sem á undan kom, byrjunina. Við getum ekki tjáð það sem á undan kom án þess að beita orðum, svo það má segja með vissu að alheimurinn eins og við þekkjum hann og skiljum hefjist með orðinu. Raunar er hartnær ómögulegt að ímynda sér heiminn eins og hann var fyrir tilvist orða, þar eð ímyndanir okkar eru allar samtvinnaðar við orð: sagnorð sem lýsa hreyfingum í rúmtíma, nafnorð sem aðgreina eina mynd frá annarri og steininn frá trénu.

Við eigum það til að nota orð ranglega vísvitandi til þess að vekja upp meðvitundir áheyrenda okkar um það hvað tiltekið orð felur í sér. Þetta gerum við til að mynda þegar við beitum orðaleikjum og í einhverjum mæli þegar við förum með viðlíkingar og annarskonar skáldlega samanburði. Þegar ég segi að einhver brosi skærar en sólin sjálf fer ég með staðhæfingu um sannleika, ég segi að birtan sem stafi af sólinni jafnist ekki á við birtuna sem stafar af brosi einhvers ákveðins viðfangs — eða svo virðist sem ég meini það. Í reynd meina ég allt annað: ég gæti meint að bros þeirra, merki um hamingju eða vellíðan, vekji upp með mér andlega hlýju sem sólin gæti aldrei vermt á sama hátt.

Sérlega áhugavert er að með tilkomu orðsins verður nokkuð annað til: sjálfið sjálft. Það er ekki fyrr en við getum beitt þessum röktengslum sem við getum greint A frá B, kallað sjálf okkur Ég og það sem við skynjum hið Aðra. Það er svo spurning hvort tilkoma skriftar og lesturs hafi gert fólki kleift að gera þennan greinarmun skýrari, og enn frekari spurning hvort internetið sem við lifum öll og hrærumst í sé að gera greinarmuninn skarpari eður ei. Ég hyggst velta þessu nánar fyrir mér í pistli dagsins — og mér til stoðar verður hið frábæra ritverk “Eros the Bittersweet: An Essay” eftir kanadíska ljóðskáldið og fornfræðinginn/klassíkistann Anne Carson.

Í verki sínu um hinn ljúfsára Eros fjallar Carson meðal annars um það hvernig lýrísk ljóðskáld á borð við hin forngrísku Arkílokkos og Saffó koma orðum að tilfinningu elskandans og hvernig skilningur þeirra markar ákveðin vatnaskil í bókmenntasögunni. Carson gerir greinarmun á ljóðlist eins og hún var fyrir tíma hins ritaða orðs og ljóðlistarinnar eftir tíma skriftarinnar, en þessi lýrísku skáld standa einmitt á þessum skilum raddar og rithandar. Ljóðlist Arkílokkosar, til að mynda, var skrásett á einhverjum tímapunkti milli sjöundu og sjöttu aldar fyrir kristsburð, en hún telur Grikki hafa komist fyrst í tæri við stafrófið um seinni helming áttundu aldarinnar. Fyrir þann tímapunkt var ljóðlist sungin eða þulin upp — Hómerskviður, til dæmis, voru ekki skrifaðar niður fyrr en á annarri öld fyrir krist.

Þessi munur á þulinni og ritaðri ljóðlist var ekki aðeins bókmennta-fornfræðilegur, telur Carson — hann var einnig sálfræðilegur. Einstaklingur sem lifir og hrærist í munnlegu samfélagi skynjar heiminn í kringum sig á allt annan hátt en sá sem hefur kynnst stafrófi og rithönd: þegar maður les texta þarf maður að einbeita verund sinni í einn fastan einbeitingarpunkt, gefandi sig allan til lestursins, útilokandi umheiminn — meðan það var lítið um slíkt fyrir tilkomu textans. Þetta krefur fólk um að safna sér saman innra með sér, móta sig sem aðskilið frá umheiminum, skapa sér eitthvað sem kemst ef til vill nær þessu atómska sjálfi sem okkur finnst sjálfgefið nú til dags.

Í verkinu sem um ræðir, um hinn ljúfsára Eros, veltir Carson einmitt vöngum yfir því hvernig ástin brýst inn um þetta sjálf, sölsar eitthvað undir sig, hrífur eitthvað á brott — að tilfinning ástarinnar breytist með tilkomu hins formfasta orðs, hinnar samsteyptu og styrktu einingu sjálfsins. Ástin verður helgispjöll, uppbrot á einingunni. Carson vísar í saffískt ljóðabrot númer eitt hundrað og þrjátíu, sem svo vill til að Þorsteinn Vilhjálmsson þýddi á íslensku nýlega, og ég hyggst lesa upp fyrir ykkur:

Aftur skekur mig þráin sem losar limi –
ljúfsárt, ósigrandi skriðdýr.

Ἔρος δηὖτέ μ ̓ ὀ λυσιμέλης δόνει,
γλυκύπικρον ἀμάχανον ὄρπετον.

Þetta er fallegt ljóð og að ég tel góð þýðing á þessu ljóðabroti. Íslenska orðið „ljúfsár“ fangar grískuna “glukuprikon” betur en hið enska “bittersweet” — “γλυκύς” táknar sætuna eða ljúfleikann og “πικρόν” táknar beiskur eða sár. Sætan kemur því á undan beiskjunni, eins og í orðinu ljúfsár, en öfugt við orðið bittersweet. Ég mæli eindregið með því að hlustendur komist yfir eintak af þýðingum Þorsteins, „Mundu, líkami,“ sem er samansafn óritskoðaðra grískra og rómverskra ljóða — óritskoðuð því sum þeirra eru ansi klúr. Verkið veitir manni talsverða innsýn í hugarheima Forngrikkja og Rómverja, og hið sama gildir um hið magnaða ritverk Carson um hinn ljúfsára Eros.

En aftur að orðinu, upphafinu — og ef til vill endanum — og öllu sem framtíð þess gæti haft í för með sér. Eftir að hafa lesið ritverk Carson flaug mér til hugar að við gætum verið að lifa ákveðin vatnaskil sjálf, nú á tuttugustu-og-fyrstu öld, með tilkomu þessa undarlega fyrirbæris: internetsins. Internetið hefur ótvírætt haft geysileg áhrif á samskiptahæfni okkar mannfólksins. Við erum nú í stöðugu sambandi hvort við annað og sambandið mun aðeins aukast á komandi árum. Við erum í þann mund að ganga inn í heim sýndarveruleika, nýtt rúmtímalegt svæði sem skapar okkur nýtt svið til þess að komast í tæri við hvort annað, alltaf styttist í fæðingu fyrstu meðvituðu gervigreindarinnar (eða hvað?) og líklegt er að líkamlegar tækniviðbætur og þvíumlíkt verði okkur daglegt brauð innan örfárra áratuga.

Það er því ljóst, að ég tel, að eðli mannsins og lífs hans gæti verið að taka miklum stakkaskiptum bráðlega, ef ekki nú þegar. Spurningin er þó hvað verður um orðið, það sem við byrjuðum á — upphafið okkar. Við höfum reynt að ímynda okkur heiminn eins og hann var fyrir tilvist orðsins, en snúum okkur nú að því hvort okkur gæti nokkuð gengið betur að sjá fyrir okkur heim eftir orðið. Ef til vill er spurningin þessu: hvert stefnum við eiginlega? Erum við að nálgast einhverskonar einingu — líf- og taugafræðilegan sérstöðupunkt, punkt eins og myndast í svartholum, þar sem vitsmunalegur og andlegur þungi okkar fellur undan eigin þyngd í hvirfiliðu meðvitunda einstaklings og heildar? Ég er að leyfa ímyndunaraflinu að hlaupa með mig í gönur, vissulega, og á apokaliptískan-vísindaskáldsögu-máta — en við hverju búist þið þegar markmiðið er að hugsa sér heiminn eftir orðið? Endinn?

Kannski verðum við fyrri til að kála okkur með kjarnorkustyrjöld. Kannski er öll hugsun handan orðsins óhugsandi, eðli orðsins samkvæmt, og því gagnslaust að hugsa um framhaldið með orðunum sem binda okkur stöðugt og óendanlega við nútímann. Kannski er gagnslaust að skrifa pistla úr orðum um það sem orðin geta ekki snert. En kannski er eitthvað allt annað en orðið til, eitthvað sem við höfum ekki snert á enn. Kannski er eitthvað til sem orð fá aldrei lýst, eitthvað sem við getum aðeins vitað að sé til vegna þess að við getum aldrei vitað neitt um það. Kannski fáum við aðeins skilið það orðalaust, með þessum tilhrifum sem verka á okkur úr alheiminum, í gegnum sólvinda og þyngdaröfl og tilhliðanir ástarinnar sem enginn fær sloppið undan.

Eins og svo oft áður endar vangaveltan í svokallaðri aporíu, hugtaki sem lýsir ákveðnum skorti á niðurstöðu — hugtaki sem á uppruna sinn í grísku og táknar furðu, andlega tálmun, skort á auðlindum — vitsmunalegum, í þessu tiltekna samhengi. Aporía er þekkt hugtak úr platónsku samræðunum, sem enduðu oft á því að Sókrates hafði rifið niður allar hugarhallir viðmælenda sinna þannig að undir lok vissi enginn hvaðan stóð á sig veðrið — samræðan endaði þá í aporísku niðurstöðuleysi, allir viðstaddir gáttaðir og engu nær. Og rétt eins og upphaf pistilsins var orðið, þá verða endalok hans einnig orð: aporía.

Málverkið í haus heitir einfaldlega „Fæðing Venusar“ og er eftir William-Adolph Bouguereau. Ég hef klippt það til — hér er upprunalega skráin. Áður en ég missi ykkur yfir í næsta flipa vafrans ykkar vil ég endilega benda ykkur á að hlusta á þetta lag. Það er afskaplega fallegt.

Deus ex Machina ex Deus

Deus ex Machina ex Deus

Katharsis 16

Katharsis 16