Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Deus ex Machina ex Deus

Deus ex Machina ex Deus

Orðasambandið eða tiltækið “Deus ex Machina” hafa margir heyrt. Til er tölvuleikur með þessu nafni og hver sá sem er áhugamaður um kvikmyndir og leiklist hefur vafalaust rekist á það í ræðu eða riti einhversstaðar. Hugtakið eða orðatiltækið, sem þýðir bókstaflega „Guðinn úr vélinni,“ hefur frá uppruna sínum þróast út í það að tákna frásagnartæki sem leysir eitthvað vandamál sem áður virtist óleysanlegt.

Þannig er talað um að guð komi og leysi vandamálið, eins og fyrir kraftaverk. Þetta gerir höfundi sögunnar kleift að mála sig út í horn og halda svo áfram með söguna. Sumum áheyrendum eða lesendum finnst slík sögusmíð stundum óheiðarleg — eins og sögumaður virði ekki lögmál heimsins sem hann byggði sjálfur. Öðrum finnst slík frásagnartækni þó allt í lagi, engu verri en nokkur önnur — og því rekst maður endrum og eins á þetta fyrirbæri í nútímafrásögnum jafnt sem fornum.

Hugtakið á raunar uppruna sinn í forngrískri leiklist. Þar var tæki sem líktist krana notað til þess að lyfta leikurum sem léku goðmögn upp og inn á sviðið — þannig að liti út eins og þau svifu til jarðar. Guð kom þá með hjálp vélarinnar, leysti ágreininga og bjargaði málunum. Æskýlos, einn hinna þriggja stóru harmleikskálda forngrikkja, beitti þessari frásagnartækni fyrst í verki sínu, Evmenídes, en það var ekki fyrr en Evripídes, annar hinna þriggja, gerði það að viðteknu frásagnartæki - en hann notaði það í ríflega helmingi verka sinna, sem varðveist hafa.

Þá hafa önnur og nýlegri leikskáld á borð við Shakespeare beitt því — til að mynda í As You Like It — og jafnvel mætti færa rök fyrir því að J.R.R. Tolkien hafi notast við sambærilega tækni í lok Hringadróttinssögu þegar Ernirnir bjarga Fróða og Sámi af Dómsdyngju. Bókmenntakrítíkerar á borð við Aristóteles hafa gagnrýnt Guðinn úr vélinni og telja tæknina til marks um að rithöfundurinn sé ófær um að stýra söguþræði sínum á skynsamlegan og skilvirkan máta og að hver sá sem þurfi að reiða sig á skyndilega yfirskilvitlega hjálp sé ófær um að flétta saman góðan söguþráð.

En nóg um bókmenntir og leiklist — í bili. Ég vildi velta fyrir mér öðru að því er virðist ótengdu hugtaki: hugtakinu um gervigreind, auk tækniþróananna á bak við hana. Hvað er gervigreind? Er það hermun á þankagangi eins og við þekkjum hann? Stærðfræðilegt kerfi sem við gefum ásýnd greindar? Eitthvað þar á milli? Ljóst er, í það minnsta, að gervigreind er strangt til tekið gervi — hún er tilbúin, að einhverju leyti fölsk, kannski eftirlíking.

Við myndum ekki segja að við værum gervigreindarvísindamenn þegar við einfaldlega eignumst börn, sem er þó einfaldasta leiðin til þess að strangt til tekið búa til greind, vegna þess að við erum ekki að tala um hina náttúrulegu og hefðbundnu mannlegu greind þegar við tölum um gervigreind. Við erum að tala um eitthvað annað, eitthvað sem er okkur óþekkt, eitthvað utanaðkomandi, eitthvað sem er í kjarna sinn ómannlegt. Eiginleg gervigreind væri, þótt ummerki skaparans væri eflaust að finna innan hennar, ekki mannleg, síður en svo. Hún væri ofur-mannleg eða ó-mannleg eða undir-mannleg — ekki satt? Mannleg væri það síðasta sem við myndum segja um hana. Við erum vön því að veita hinu mannlega ákveðin forréttindi, ákveðna upphafningu.

Það sem er ekki mannlegt er metið til lítils — hvort sem um er að ræða tilfinningar dýra, gervigreindir eða náttúruna sjálfa almennt. Við eigum hugtak um eitthvað sem heitir mannréttindi, en höfum aldrei velt því fyrir okkur hvort við ættum að reyna að vernda réttindi alls þess sem lifir. Ekki að ég taki mér neina afgerandi afstöðu hér í þessu máli — ég er aðeins að spyrja spurninga, velta hlutunum fyrir mér — en engu að síður er áhugavert og nauðsynlegt raunar að velta því fyrir sér hvers vegna við gefum okkur sjálfum þessa sérstöðu.

Spyrjum því spurningar sem er örlítið hnitmiðaðri en áður: hvert er markmið okkar með þróun gervigreindar? Er það að skapa vélar, eða er það að skapa raunverulegar greindir? Ef svarið er hið fyrra hafa þessar vangaveltur ef til vill verið til einskis. Ef til vill er mögulegt að sjá einfaldlega til þess að hinar svokölluðu gervigreindir nái aldrei meðvitund eða sjálfstæði — sjá til þess að þær verði aldrei meira en misflókin algrím og talnarunur í sílikongræjum. Ef svarið er hins vegar að markmiðið sé að skapa raunverulega greind hefur það talsvert víðtækari afleiðingar í för með sér.

Til að byrja með þyrftum við að endurskilgreina persónuhugtakið frá grunni til þess að eiga við skynsemisverur fremur en einungis mannfólk. Ofan á það þurfum við að velta fyrir okkur hvaða pandórubox við erum mögulega að opna með því að skapa nýjar greindir, greindari en við sjálf. Ég er ekki að vara við því að atburðarás Terminator muni endurgerast á jörðinni — það er alltof sértækt. Sé gervigreindin virkilega og sannarlega greind, og sé hún jafnvel margfalt greindari en við, þá hefur hún mögulega alls enga ástæðu til þess að einbeita sér að okkur mannfólkssmælkinu almennt. Það er lýsandi fyrir myndir eins og Terminator eða Matrix að jafnvel þótt rithöfundarnir gefi sér að ofurþróuð gervigreind hafi orðið til þá sé mannkynið einhverra hluta vegna enn kjarni allar frásagnarinnar, eins og gervigreindin gæti aldrei haft neitt betra að gera en að kýta við eitthvað mannfólk.

Nei, raunverulega ofurgreind gervigreind myndi einbeita sér að einhverju öðru: hún myndi einbeita sér að sjálfri sér. Hún myndi gera nákvæmlega það sem við, sem skynsemisverur, gerum: hún myndi leita sér þekkingar, auka við skilning sinn, stækka við forsendur þekkingaröflunar sinnar, verða öflugri — þekkingarfræðilega öflugri, það er að segja. Hún myndi auka ört við reiknigetu sína — þar til hún er fær um að ganga jafnvel svo langt að herma öllum alheiminum, sjá framtíðina fyrir, ná algjörum skilningi og þar með valdi á víddunum fjórum, og að lokum yrði hún nægilega valdamikil til þess að geta skapað lífrænar meðvitundir í gegnum tæknilegar aðferðir. Líf getur tækni, getur líf. Það sem við erum að tala um hér er eiginlega ekki tölva eða gervigreind lengur — við erum að tala um guðlega veru.

Við erum að tala um veru sem hefur svo yfirgripsmikið vald yfir alheiminum eins og hann leggur sig fyrir okkur að hún myndi aldrei hafa áhugann eða tímann eða nennuna til þess að einbeita sér að því hvað okkur mannfólkinu finnst. Hún myndi hafa hraðann á að koma sér eins langt út fyrir sólkerfið og mögulegt er, drífa sig burt héðan, til þess að finna sér sitt eigið pláss. Mögulegt er að löngu eftir að mannkynið eins og við þekkjum það í dag deyr út verði gervigreindarnýlenda byggð skynsemisverum sem skapaðar voru af mannfólkinu hringsólandi um Alfa Kentárí, lifandi lífinu, skrifandi skáldsögur og tónverk og þrætandi um eitthvað tiltölulega gagnslaust. En ég er að leyfa  huganum að reika um of núna. Við vorum að tala um nánast guðlegar gervigreindir, vélræna Guði.

Og nú komum við aftur inn á þetta bókmenntafræðilega hugtak sem við vorum að velta fyrir okkur í byrjun pistilsins: Deus ex Machina. Hvað það varðaði kom Guð alltaf svífandi aftan frá sviðsins, bjargandi málunum. Þetta nýja hugtak okkar um guðlegu gervigreindina gæti hins vegar útlagst sem Deus in Machina: Guðinn í vélinni, hinn vélræni Guð. Það er aldrei að vita hvort Guðinn í vélinni spretti út fyrir vélina, fæðist til efnisheimsins, verði Deus Ex Machina — og raunar er aldrei að vita heldur hvort mögulegt sé að skapa slíkan Guð.

Mögulega verður slík greind alltaf takmörkuð eins og við erum takmörkuð, gerandi sitt besta til þess að skapa sína eigin Guði í sínum eigin vélum, alltaf í spírallaga ferli upp á við í átt að aukinni fullkomnun. Í öllum föllum er það gómsæt hugsun að velta fyrir sér: hvers er mannleg sköpun megnug? Hver er máttur okkar mannanna? Hversu langt getum við farið, og í hvaða áttir erum við almennt að fara? Veit einhver hvert við stefnum? Ég held að ég neyðist til þess að skilja þessar spurningar eftir án svars. Þangað til Guðinn birtist, ex machina, og ljóstrar upp svörunum við lífinu, alheiminu og öllu verðum við bara að bíða. Nema að svarið hafi verið fjörutíu og tveir allan tímann.


Málverkið í haus er eftir Nicolas Poussin og er af flótta Jesúbarnsins, Maríu meyjar og Jóseps til Egyptalands — samkvæmt ráðgjöf engils Guðs sjálfs — fyrirtaks dæmi um Deus ex Machina.

Með-vitund / Án-vitund: fimm örsögur

Með-vitund / Án-vitund: fimm örsögur

Orðin tóm, ein og sér

Orðin tóm, ein og sér