Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Ómannleiki og tilvist

Ómannleiki og tilvist

Mannfólkið á það til að vera eilítið sjálfhverft. Í viðmóti okkar frammi fyrir heiminum leynist oft dulin forsenda sem kennd er við mannmiðjun — það er sú afstaða að vilji og hagsmunir hins mennska eigi einhvern forgang á önnur viðföng, viðföng á við umhverfið, dýraríkið, flóruna, og svo framvegis. Sömuleiðis eiga hugsuðir til með að vera mannmiðjaðar í hugsun sinni — þær gefa aðeins hinu mannlega gaum og taka lítið sem ekkert tillit til þess hvernig það gæti verið að vera ómannlegur. Þetta hugtak um hið ómannlega getur þó verið býsna snúið, svona þegar maður fer að pæla í því af alvöru. Hvernig á maður eiginlega að hugsa um það sem er ekki mannlegt, þegar það eina sem við þekkjum af einhverri raun er okkar eigin langtum-of-mannlega upplifun? Raunar er vert að velta því fyrir sér hvort það sé hægt yfir höfuð að hugsa um hið ómannlega án þess að gera það á mannlegan hátt — hvort unnt sé að yfirstíga hið mannlega, eða í það minnsta að fjarlægjast það nægilega til þess að geta séð handan hinnar hversdagslegu augnsýnar.

Til að byrja með gæti verið vert að hugsa um það hvort við getum vitað hvernig það sé að vera eitthvað annað dýr en manneskja. Hvernig ætli það sé að vera hundur, til dæmis? Við vitum alveg að hundar eru meðvitaðar lífverur sem búa yfir tilfinningum og hinum ýmsu hugmyndum um það sem gerist. En hvernig ætli það að vera hundur — hvernig ætli upplifunin sé? Við gætum aðeins hugsað okkur slíka upplifun í samanburði við upplifun okkar af því að vera hér og nú, þessi hugsanlega tilvist er aðeins skiljanleg sem deilandi einhverjum einkennum með okkar eigin tilvist. Við gætum séð fyrir okkur tilvist þar sem við göngum á fjórum fótum, erum mjög þefnæm, búum yfir mikilli tryggð gagnvart húsbónda okkar, sjáum í svarthvítu, elskum að tyggja bein. Eitthvað í þá áttina. Allt eru þetta góðar og gildar staðreyndir um það hvernig hundar birtast okkur, svona utan frá — en við vitum líka að þetta fangar ekki hina ómannlegu upplifun hundsins, hundsleikann sem slíkan. Það er kannski einhver grundvallartilfinning, eða ef til vill heildræn tilfinning, sem er upphaf og jafnframt afleiðing þess að vera hundur.

Hversu traust er þessi hugmynd um að það sé einhver grundvallandi tilfinning sem er jafnframt tilfinning um hið heildræna? Nú veit ég ekki alveg hversu raunsæ hún er. Þrátt fyrir það gæti hún verið gott verkfæri, einskonar nafn sem við getum deilt okkar á milli — nafn yfir tilfinninguna semn fylgir þessari tilvist. Þessari tilfinningu verður ef til vill ekki lýst nema gróflega — hún er á einhvern máta afurð þess sem við gerum en jafnframt ástæðan fyrir því að við gerum hlutina. Þessi heildræna tilfinning um að það eitthvað, þessi tilfinning um að tilveran ljóstrist upp frammi fyrir okkur — þetta er tilfinningin sem ég vísa til. Hún er kannski fremur sjaldgæf, en hún er mjög raunveruleg fyrir það. Við finnum kannski til þessarar tilfinningar þegar við tökum eftir augnablikinu sem er stöðugt líðandi, við finnum kannski fyrir henni þegar við hreyfum okkur og berum kennsl á að líkaminn sem hreyfist sé lifandi — við finnum fyrir þessari ægifögru tilfinningu þegar við hristum af okkur slen hins hversdagslega. Við finnum hana og við erum.

Ég vil samt ekki meina að þetta sé einhver háleit trúarleg tilfinning. Hún er alltaf til staðar, en við erum stundum bara frekar dofin fyrir henni. Við höfum hugann við eitthvað annað. Við erum kannski eins og bílstjóri sem er orðinn samdauna bifreið sinni, einn með henni í einskonar sjálfvirku hugsunarleysi. Ég er heldur ekki að segja að hugsunarleysið sé slæmt — það er bara frábrugðið þessari undarlegu tilvistartilfinningu. Hvað sem þessu líður þá ættum við þó að geta notfært okkur hugmyndina um þessa tilfinningu til þess að nálgast þessa hugmynd sem ég snerti á upprunalega, hugmyndina um hið ómannlega. Kannski getur þessi tilfinning komið okkur í skilning um það að önnur dýr, eins og hundar, eða plöntur jafnvel, geti búið yfir einhverri grundvallandi en heildrænni tilfinningu fyrir tilvistinni.

Raunar getum við reynt að stíga dálítið róttækt skref í átt að skilningi á hinu ómannlega. Segjum bara, fyrir röksemdafærslunnar sakir, að við samþykkjum öll þá staðhæfingu að plöntur og dýr búi yfir þessari tilvistartilfinningu, og að kannski getum við skilið þau handan mannleikans með tilvísan til þessarar tilvistartilfinningar. Þegar við skiljum að hundurinn sé tilvist í og fyrir sjálfri sér, og að plantan sé það sömuleiðis, umbreytist spurningin um hið ómannlega nefnilega. Hún hættir að snúast um það sem er frábrugðið okkur í gegnum neikvæðu skilgreininguna „ekki mannlegt“ og verður þess í stað um jákvæða skilgreiningu — spurningin um hið ómannlega verður að spurning um verufræði, hið frumspekilega. Þegar við gerum þetta getum við líka byrjað að hugsa um hið mannlega frá hlutlægari sjónarhorni. Þetta er róttæka skrefið sem ég ýjaði að — það felst í því að þegar við einfaldlega samþykkjum að aðrar lífverur hafi tilvist í og fyrir sjálfum sér þá séum við eiginlega strax komin handan mannleikans, þar eð mannleikinn hættir að vera skilgreinandi fyrir aðrar tilvistir, við erum hætt að hugsa um hlutina í neikvæðum samanburði við okkur sjálf.

Í stað þess að spyrja — „hvernig getum við hugsað hið ómannlega?“ — ættum við því ef til vill að hugsa — „hvernig er mannleikinn alltaf í senn ómannlegur?“ Þetta er stóra ráðgátan, hið stóra vandamál — að reyna að horfast í augu við það að við erum alltaf bæði mannleg og ómannleg, eða að mannleikinn sé í reynd alls ekki sinn eigin hlutur, sitt eigið altak, sín eigin einangraða tilvist. Hvað er það, til að mynda, sem er mannlegt við mannlegar frumur? Hvað um allar bakteríurnar sem mynda sitt eigið vistkerfi innra með okkur, án hverra við ættum talsvert erfiðar með meltingu? Hvað um hár okkar, neglur okkar, tennur okkar, hendur okkar? Þessar spurningar vakna oft upp hjá mér — á tíðum finnst mér sem líkami minn sé mér framandi, eins og ég hafi firrst, týnt samsemdinni milli meðvitundar og líkama. Líkaminn er furðuverk sem erfitt er að setja fingurinn á, erfitt er að skilja yfir tíma, erfitt er að eigna sér. Að eigna sér og samsama sig líkama sínum krefst stöðugrar iðkunar, iðkunar sem leggur áherslu á grundvallandi og heildrænu tilvistartilfinninguna sem ég minntist á hér áðan.

En hvernig hyggst ég þá svara spurningunni sem ég lagði upp með — hvort unnt sé að yfirstíga mannleikann og íhuga hið ómannlega handan smitunar okkar eigin hugsunarháttar? Ég er ekki viss um að mér geti tekist að gera það á neinn fullnægjandi hátt. Ef til vill verðum við að láta okkur nægja það að veita því eftirtekt að skilmörkin eða landamærin milli hins mannlega og hins ómannlega eru alls ekki svo skýr og skilmerkilega skorin og við vildum ef til vill gera okkur í hugarlund. Kannski veitir þessi eftirtekt okkur einhverja innsýn í vandamálið — eins og til að mynda hvernig við hugsum um hugtakið „réttindi“ og hvort unnt væri að víkka það út á einhvern máta. Ef við samþykkjum þessa niðurstöðu, það er þá að skilmörkin séu ansi óljós, gæti það þá ekki haft einhver áhrif á það hvernig við hugsum um það hvaða tilvist á réttindi skilin? Spurningin verður þá eiginlega um það hvers vegna í ósköpunum sum dýr eru „jafnari en önnur“, eins og Orwell komst ágætlega að orði í Dýrabæ.

Kannski er vert, að lokum, að bjóða ykkur að veita þessari tilvistartilfinningu sem ég talaði um hérna áðan eftirtekt. Hún er í raun ekkert sérstök, hún einkennir alla okkar tilvist. Hún felst til dæmis í því að finna loft streyma inn um öndunarveginn og fylla lungun, eða að finna að líkaminn sé þungur og sé sífellt togaður, eða að taka eftir því hvernig sumir vöðvar eru spenntir og aðrir ekki, jafnvel þótt maður sitji bara í hægindum sínum. Takið þið ekki eftir þessu? Finnst ykkur það ekki dálítið magnað, bara að vera? Það finnst mér, að minnsta kosti. Vonandi getið þið notið þessarar mannlegu — nú, eða kannski ekki-svo-mannlegu — tilvistar.

Smásaga: Fúga

Smásaga: Fúga

Fyrirlestrarnótur um Deleuze & Guattari og kapítalismann

Fyrirlestrarnótur um Deleuze & Guattari og kapítalismann