Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Smásaga: Fúga

Smásaga: Fúga

Það var heiðskírt og bjart úti og ég lá úti í grasinu og las í bók. Þetta var leiðinleg bók, eintómt orðagjálfur. En ég las hana samt. Flugur reyndu ólmar að troða sér inn í eyrun á mér og ég heyrði endalaust suð er þær fóru inn og út um hlustirnar. Það var ekki mjög hlýtt þótt það væri bjart en það gerði ekkert til því ég vildi bara sleikja upp sólina meðan hún gerði sig sjáanlega. Ég var heldur ekkert að fylgjast með bókinni. Augun horfðu á pappírinn en sáu engin orð, eins og þegar maður er langþreyttur og sér ekki mennskuna í augasteinum fólks. Eins og þegar maður fer vélrænt í gegnum hreyfinguna „lestur“ án þess að taka inn innihald textans. Þannig leið mér gagnvart þessari snjáðu gjálfursbók. Hundur gelti í fjarska og ég leyfði geltinu að heyrast gegnum flugnasuðið. Ég var ekki önugur eða reiður þótt flugurnar reyndu síendurtekið að skríða inn í heilabörkinn. Ég bauð þær raunar velkomnar. Mér veitti ekki af því að fá flugu í höfuðið. Augun héldu áfram að stara á hvítuna milli svörtu bókstafanna. Þar var dýpri vísdóm að finna. Vísdóm auðnarinnar.

Þegar kom að ljósaskiptum kólnaði mér. Ég hafði ekki flett blaðsíðum bókarinnar síðan ég opnaði hana. Hvíta pappírsins hélt mér föngnum. Andardráttur minn var yfirgnæfandi, stöðugur, hraustur, ég fann hvernig blóðið rann um andlit mitt, hvernig hjartað taldi niður slögin sem það átti eftir. Það var friðsælt. Svo rökkvaði og mér varð verulega kalt. Þá settist ég inn og kveikti á kertum. Kertaloginn skein bjart, ríflega tólf og hálft lúmen eða svo. Hvorki meira né minna, samkvæmt nýjustu mælingum. Kertið var lítil sól brennandi á skrifborðinu mínu eftir að sú stóra hafði horfið hinum megin við hnöttinn — var hægt að mæla slíkt kraftaverk? Ég hlýjaði mér við kertalogann og yljaði höndunum jafnvel þótt hann væri bara agnarsmár. Ég fann til gífurlegs þakklætis fyrir litla logann sem brann eftir sólarlag — til logans sem var bara tólf og hálft lúmen, en staðgengill sólarinnar samt sem áður. Ég gat notað hann til þess að halda áfram að stara á hvítuna milli stafanna, þögnina í bókinni. Ég gerði það um nóttina.

Ég vaknaði með andlitið í leiðinlegu gjálfursbókinni um miðja nótt við hútumhót. Það var hútumhót eyruglunnar sem býr í barrtrénu fyrir utan garðinn minn sem vakti mig. Við höfðum sést nokkrum sinnum en aldrei nema úr fjarska og þá fyrir tilviljanir. Ég hafði slefað rækilega yfir opnuna sem ég sofnaði yfir, sem svo vildi til að var opnan sem ég opnaði bókina á daginn áður er ég las úti í garði. Ég kærði mig ekkert um þessa bók, svo mér var sama þótt hún væri öll útslefuð. Ég stóð upp frá skrifborðinu og gekk út að glugga skrifstofunnar minnar, sem gaf mér útsýni yfir garðinn og barrtréð handan grasflatarinnar. Ég leitaði að eyruglunni og fann hana loks í trénu. Hún virtist vera að horfa á mig, eins og hún hefði tekið eftir mér. Raunar flaug hún af stað um leið og augu okkar mættust. Hún sveif þöndum vængjum í átt að glugganum mínum. Hún lenti fyrir utan glugga skrifstofunnar og horfði á mig, eins og hún vildi segja mér eitthvað. Það leit reyndar ekki út fyrir að það væri áríðandi, en ég var vaknaður, og ég ákvað að heyra hvað hún hafði að segja.

Ég gekk fram í stofu og þaðan út á pall og út á grasflötina í garðinum. Það var unaðslegt að finna kalt og vott grasið milli tánna, það upplyfti andanum og vakti mig til lífsins, ég var jarðtengdur. Grasið var svo grænt og mjúkt vegna þess að það var lifandi vera, rétt eins og ég og uglan. Ég gekk rólega til uglunnar og hugsaði hana velkomna. Hún hugsaði sig þakkláta. Þetta var falleg grá ugla með gráar fjaðrir sem sköguðu upp úr höfðinu eins og eyru og stór glóandi augu. Við uglan deildum milli okkar dálítilli laglínu. Hún var ekki hefðbundin laglína eins og evrópskt barokkverk væri hefðbundin laglína, heldur var hún lifandi sinfónía, einskonar lífskliður. Laglínan var vindurinn og skordýrakurr og samtímis var hún hútumhót og hrotusarg og es og fís og allegro og andante. Við rödduðum laglínuna saman í tunglsljósinu, því máninn hafði rutt skýjunum burt til þess að hlusta á og taka þátt í lífskliðnum. Við vorum fúga — uglan sem varð maður, maðurinn sem varð ugla — samspilið ugla-maður — og bandstrikið allt sem stóð milli okkar, allt sem miðlaði okkur.

Eyruglan hafði nú sagt mér allt sem hún segja þurfti. Við kvöddumst að bráð og við héldum okkar leiðir. Ég fór inn og uglan fór upp í barrtréð sitt. Það heyrðist ekki meira í henni, ekki hútumhót, það sem eftir lifði nætur. Ég sagði heldur ekki orð. Þrátt fyrir það var ég eirðarlaus. Kertið mitt hafði brunnið út og átti nú heima í andrúmsloftinu mínu. Bókin mín, þessi leiðinlega bók, var öll gegnvot og skemmd. Ekki nóg með það, heldur ómaði fúgan okkar uglunnar innra með mér — gargandi mávar og niður hafsins og tréspil og selló og marr í gamalli viðarbryggju. Fúgan var margradda og hver rödd vísaði í sjálfa sig og allar hinar raddirnar — vegna þess að hver og ein þeirra var auðvitað bara tilbrigði við hinar raddirnar, þannig að það var engin ein rödd, enginn meginþráður. Mér fannst sem meðvitund minni væri hætt komið frammi fyrir fúgunni. Hún var að verða rödd, tilbrigði við tilbrigði við tilbrigði… eða kannski hafði hún alltaf verið það. 

Ég rankaði við mér þegar morgnaði. Ég hafði sofið og ekki sofið, liggjandi í rúminu mínu. Hugur minn reikaði til annarra heima meðan ég lá dáleiddur, hverfandi milli meðvitundarstiga. Ég var ungur strákur við tjörn og mér var fleygt út í grugguga tjörnina. Ég var persónugerving yfirskilvitlegs refsiafls sem aflimaði hvert og eitt mannsbarn með handsög. Ég var þykkblöðungur og sólin og vatnið og steinefnin voru alsælan mín. Ég var leðurblaka sem ímyndaði sér að hún væri mannleg. Ég var maður sem reikaði milli meðvitundarstiga. Svona gekk hugurinn sem í leiðslu gegnum hvert stigið á fætur öðru þar til sólin reis og lýsti upp lífið fyrir framan mig. Ég stóð upp og fékk mér vatn að drekka frammi í eldhúsi, ringlaður. Kannski var ég að missa vitið. Kannski hafði ég misst það fyrir löngu og var bara að átta mig á því núna. Hvers vegna þurfti ég ekki að fara í vinnuna eða sinna fjölskyldunni minni? Hvaða hús var þetta sem ég kallaði mitt eigið? Hvernig gæti ég verið viss um að ég hefði ekki verið að ljúga að sjálfum mér?

Dyrabjallan glumdi og einhver bankaði í þrígang á útidyrahurðina. Óumflýjanlega small ég aftur inn í vanafestu nútíðarinnar og gekk fram til þess að svara til dyra. Það var einkennisklædd manneskja, sá ég gegnum forstofugluggann, klædd í rauðan búning. Ég svaraði og það var póstberi sem var klæddur í rauða einkennisbúninginn. Það var ungur maður. Hann rétti mér umslag og bað mig að kvitta fyrir það, sem ég og gerði. Að kvittuninni lokinni kvaddi bauð hann mér góðan dag og hélt af stað til næstu húsa. Ég lokaði hurðinni og gekk með umslagið inn á skrifstofu, enn svefndrukkinn. Gegnsósa gjálfursbókin mín lá þarna á borðinu. Ég leiddi hana hjá mér og settist niður með sendinguna mína. Framan á umslagið hafði nafnið mitt verið ritað með rithönd sem ég kannaðist við — þetta var jú mín eigin rithönd. Ég opnaði það og hellti úr innihaldinu á skrifborðið. Það voru laufblöð af mörgum stærðum og gerðum. Birkilauf, asparlauf, hlynslauf. Þau voru öll orðin þurr og flöt. 

Ilmur laufblaðanna var rödd í fúgunni sem ómaði enn í bakgrunni meðvitundar minnar, og röddin kvað upp róm fúgunnar á ný. Ég var nýbúinn að rífa í mig músarhræ og andaði að mér angan laufanna, angan ljóstillífunar, innan um hræ laufblaðanna. Ég var mitt á milli lífs og dauða, ég var miðlun þessarra tveggja, ég var á lífi en deyjandi. Ég var náttúran í flæði sínu, líkt og árstraumur neðan yfirborðsins sem æðir og tvístrast og sameinast og kemur heim og saman í framtíðinni sem engan hafði mögulega getað órað fyrir að yrði. Ég fann það sem eftir var sjálfsins liðast í sundur og verða algleyminu að bráð, alsælunni að bráð, sökkvandi djúpt í Leþe, óminnisfljótið sjálft. Við höfum verið dæmd til minningarinnar, en ég hef fundið undankomuleið handan krumlunnar. Það molnaði. Það var ekki. Var ekki. Var.

Feðraveldi, kvenhatur og tragikómískt Twitter-röfl

Feðraveldi, kvenhatur og tragikómískt Twitter-röfl

Ómannleiki og tilvist

Ómannleiki og tilvist