Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Fyrirlestrarnótur um Deleuze & Guattari og kapítalismann

Fyrirlestrarnótur um Deleuze & Guattari og kapítalismann

Þessar glósur eða nótur voru skrifaðar fyrir framsögu sem undirritaður flutti fyrir málstofuna Sakleysi verðandinnar – Deleuze með og án Guattari þann 19. febrúar 2019. Þær eru ekki í fullkominni röð og það eru engar tilvísanir, eða svo gott sem, í textanum sjálfum. Vonandi gæti einhverjum þó þótt þetta áhugavert þrátt fyrir óformlega uppsetningu textans.


Der Mensch als Industriepalast

Der Mensch als Industriepalast

Hvernig gekk ykkur að lesa textana? [Hér og hér] Vonandi fannst ykkur þetta skiljanlegt upp að einhverju marki. Ég geri mér grein fyrir því að þetta gæti allt virst manni frekar framandi ef maður hefur ekki kynnt sér innihald þessa verks áður enda er það virkilega víðfeðmt og stórbrotið. Það var einna helst þess vegna sem ég ákvað að láta ritskýringar Holland fylgja með. Þær eru dálítið langar, talsvert lengri en undirkaflinn úr A-O sem ég vildi leggja sérstaka áherslu á, þar eð ritskýringin fjallar um alla þriðju bók A-O. Þessi þriðja bók hangir saman í e.k. sifjafræðilegri kenningu um söguna og tilurð kapítalismans, auk þess sem hún fjallar um einkenni kapitalískrar framleiðslu, flæði innan kapítalismans auk kenningar um hlutverk hins kapitalíska ríkisvalds.

En svo ég snúi mér nú að efninu sem er fyrir hendi þá er viðfangsefni framsögunnar minnar þrískipt og í anda þess sem ég hef talið upp. Í fyrsta lagi vil ég tala um vensl framleiðandi þrár sem slíkrar og samfélagslegrar framleiðslu. Í öðru lagi vil ég tala um sérstök einkenni kapítalismans í samanburði við einkenni annarra samfélagsgerða. Í þriðja lagi vil ég tala um samspil framleiðslu og andframleiðslu, kapítalsins og ríkisins. Ég mun ekki geta farið eins djúpt í þetta og ég vildi helst gera, því miður, en til þess að gera það þyrfti ég að halda sérstakt námskeið, sem ég er heldur alls ekki fær um að gera vegna þess að mér finnst ég oft á tíðum ekki skilja bofs í þessu.

En nóg um mig — hefjumst handa. Fyrst ætla ég að tala um vensl framleiðandi þrár og samfélagslegrar framleiðslu. Eins og við vitum af því að hafa lesið um rísómið þá eru Deleuze og Guattari einhyggju-fjölhyggjusinnar — og samtímis eru þeir efnishyggjumenn. Það sem þeir kynna til leiks í Antí-Ödípús er þetta hugtak þeirra um þrá sem jákvætt og framleiðandi ópersónulegt afl. Þetta er frumspekilegt afl, þessi þrá — hún er ekki svo ólík viljanum til valds hjá Nietzsche eða hugtakinu um natura naturans hjá Spinoza. Í grunninn snýst þetta samt bara um það að nefna þetta sem drífur öll þau fyrirbæri sem birtast okkur áfram: þegar allt kemur til alls er það hin virka og framleiðandi þrá.

Örvar-Oddur kveður Hjálmar, fóstbróður sinn, í hinsta sinn.

Örvar-Oddur kveður Hjálmar, fóstbróður sinn, í hinsta sinn.

Hversdagsleikinn er afurð þessarar framleiðandi þrár, athafnir okkar allar eru afurð hennar, við samanstöndum af henni, eða hún er þessi innri orka sem er forsenda alls annars. Nú er þessi lýsing öll góð og gild, en í reynd er mikilvægt að skilja það hvernig þessi þrá birtist okkur. Þráin og framleiðsla hennar er nefnilega nánast alltaf, eða hefur verið það sögulega, að minnsta kosti, skilyrt á einhverja vegu. Framleiðandi þráin er beisluð eða tamin af samfélaginu, hún er bæld, svo að segja. Samfélagið myndar stofnanir sem skilyrða þrá eða kóða hana, eyrnamerkja þrána. Samfélagsleg framleiðsla „veitir“ þrá í gegnum ákveðna apparatusa, tilteknar stofnanir. Hugsið t.d. um stýrandi vensl í Íslendingasögunum: ætterni og vébönd (blóð ættarinnar og blóð fóstbróðursins) kóða og stýra fýsnum söguhetjanna. Spurningin er alltaf þessi: hverjar eru afurðir framleiðandi þrár og hvað segir það okkur um samfélagið sem beislar hana?

Skýringarmynd

Skýringarmynd

Deleuze og Guattari lýsa þessari stofnanavæðingu sem svo að í framleiðslunni sjálfri sem ferli leynist alltaf auk virka þáttarins, sem er framleiðandi þrá, ákveðinn óvirkur þáttur, þáttur sem framleiðir ekki heldur stýrir einmitt eða veitir. Þessi skilyrðandi þáttur er það sem þeir kalla sósíus samfélagsins. Sósíusinn eða samfélagslíkaminn birtist okkur sem grundvöllur framleiðslu.

Þessi líkami, sem er ýmist líkami jarðarinnar (Gaia), líkami keisarans (Levíatan) eða líkami auðmagnsins (Dollar), er ekki framleiddur heldur er einskonar forsenda framleiðslu, náttúruleg eða guðdómleg. Eins best ég fæ skilið þessa hugmynd þá gengur hún út á það að samfélagið beisli framleiðandi þrá, festi hana í aktygi eða brjóti upp á hana, sem stofnar samtímis til ákveðinnar gerðar framleiðslu, ákveðins fyrirkomulags eða aðferðafræði. „Svona gerum við þetta“ — þetta segir samfélagslíkaminn, og hann eignar sér afurðir framleiðslunnar.

Dyson-sphere.

Dyson-sphere.

Þetta er svokallað Dyson Sphere, vísindaskáldsagnakennd hýpóþetísk vél sem umlykur heila stjörnu og sogar í sig alla orku stjörnunnar — kóðandi orkuna, geymandi hana, veitandi henni til annarra nota … kannski ekki svo ólíkt sósíusnum, samfélagslíkamanum? Er samfélagslíkaminn ekki áþekkur e.k. Dyson-sphere, og við sjálfsverurnar búum á yfirborði kúlunnar án þess að vita hvaðan orkan sem við notum kemur raunverulega? Bara pæling.

Hjá frumstæðum samfélögum var það líkami jarðar, Gaia sjálf, sem bar ávöxt og tryggði uppskeruna, og það var undir jörðinni komið — undir samfélagsgerð keisarans er það líkami einvaldsins (hugsið eitthvað í áttina við miðaldahugtakið „the body politic“ — sbr. forsíðumyndina á Leviathan, verki Thomas Hobbes, þar sem þjóðin er bókstaflega líkami konungsins) — og undir samfélagsgerð kapítalsins er framleiðsla einungis möguleg fyrir tilstilli auðmagnsins sem mynda e.k. sýndarlíkama hreins fjármagnsflæðis sem umlykur jörðina. Þannig sé ég þetta í það minnsta fyrir mér — kannski samanstendur þessi líkami af tölvukerfum, algrímum, bankareikningum, flæðinu milli þeirra, og svo framvegis. Bloomberg Terminalið er þá kannski galopin gátt í flæðandi líkama auðmagnsins.

Líkami einvaldsins, Levíatan, the body politic

Líkami einvaldsins, Levíatan, the body politic

Nú hef ég talað helling um það hvernig hin frumspekilega framleiðandi þrá er beisluð af samfélaginu og henni veitt gegnum stofnanir sem standa á samfélagslíkamanum, sósíusnum — og með þessar formgerðir í huga er vert að snúa sér að öðriu viðfangsefninu sem ég hugðist snerta á, sem er séreinkenni kapítalismans sem formgerðar. Deleuze og Guattari tala oft um að framleiðandi þráin, þessi frumspekilega, sé einskonar flæði, eitthvað sem flæðir yfir samfélagslíkamann. Stofnanir samfélagslíkamans kóða svo þessi flæði — þau skilyrða hana eða eyrnamerkja hana. Hugsið bara um dulkóðun: þegar tölvur dulkóða skjöl læsa þær þeim inn í ákveðna möguleika — það er þá aðeins hægt að lesa gögnin svo lengi sem maður býr yfir lyklinum að kóðanum. Ég held að kóðunin sé einskonar merking um það hvert flæðin eiga að fara, hvert þau eiga að flæða. Nú tel ég enn fremur, eins best ég fæ skilið, að einkenni kapítalismans sem slíks sé það hvernig hann fer með kóðanir.

Vensl þessara þriggja birtingarmynda eru vensl kóðunar, yfirkóðunar, afkóðunar. Frumstæði samfélagslíkaminn kóðar framleiðsluna með tilliti til jarðarinnar. Líkami einvaldsins yfirkóðar frumstæða samfélagslíkamann og eignar einvaldinum alla áður jarðneska framleiðslu. Yfirkóðunin er samtímis afsvæðun: ríkisvaldið, frumríkið, Urstaat, skapar keisaraveldinu pláss, afmarkar því svæði, en alltaf með því að afsvæða frumstæða samfélagslíkamann, með því að leggja hann undir líkama einvaldsins. Formgerð kapítalisma er í grunninn virk og almenn afkóðun — allt sem hinir líkamarnir kóða leysir kapítalisminn upp í tæra abstraksjónu, viðskiptajafngildið: „hvað kostar þetta?“ Því er kapítalisminn mesta katastrófa sem samfélagslíkamar jarðarinnar og einvaldsins gætu ímyndað sér, vofa sem vakir ávallt yfir þeim í bakgrunninum. Svo hvað er það sem gerist þegar kapítalisminn kemur til sögunnar? Kóðarnir sem negldu og skrúfuðu gömlu líkamana í sundur eru orðnir ryðgaðir og farnir að hrynja út: eins og Marx og Engels tala um í Ávarpinu, þá hefur kapítalisminn „miskunnarlaust slitið öll þau bönd, sem tengdu saman yfirmenn og undirgefna og ekkert annað eftir skilið en tilfinningalaus hagsmunasambönd og köld peningamál.“ Þeir tala um að auðvitað hafi afkóðuð þrá og þráin til þess að afkóða alltaf verið til í gegnum söguna, en að það sé ekki fyrr en afkóðun sem slík verður reglan fremur en undantekningin sem við sitjum uppi með kapítalismann sjálfan og samfélagslíkamann sem er kapítalið.

Bloomberg-Terminalið, flóðgáttin.

Bloomberg-Terminalið, flóðgáttin.

Kapítalið sem slíkt sprettur því upp úr tvöföldu hruni eða tvöfaldri eyðileggingu: í fyrsta lagi vegna þess að verkamaðurinn hefur verið afsvæddur, og í öðru lagi vegna þess að peningur hefur verið afkóðaður. Þessi flæði mættust fyrst í kapítalísku vélinni sem slíkri, þeirri sem varð upphaf kapítalismans sem við þekkjum í dag, við iðnvæðinguna — þegar auðmagnið byrjaði að kaupa vinnuafl sem hverja aðra skiptivöru. Kapítalismi sprettur ekki upp úr lénskerfinu sem sjálfstæð formgerð fyrr en peningur hefur verið afkóðaður og vinnuafl afsvætt: verkamaðurinn, bóndinn í ánauð,  glatar áður skilgreindu svæði sínu þegar land er einkavætt og gamla fjölskyldan leysist upp. Auður afkóðast þegar hann verður að fljótandi gjaldmiðli í stað áþreifanlegri eigna, ríkisvaldið afkóðast þegar það fer að snúast að mestu um fjármagnsflæði og skuldir, etc. Eins og Deleuze og Guattari orða það þá verður auðmagnið ekki kapítal sem slíkt fyrr en það hættir að vera vébandaauðmagn (eins og auðmagn kaupmannsins, t.d. — auðmagn sem byggir á viðskiptum) og verður ætternisauðmagn, þegar auðmagn byrjar að geta af sér afkvæmi, þegar höfuðstólnum er fjárfest í vinnuafl og vinnuaflið getur af sér skilgetinn son höfuðstólsins: hagnaðinn, umframvirðið. Við finnum auðvitað að þetta er Marx í gegn, Deleuze og Guattari eru ekki að bæta neinu miklu við fyrsta bindi Auðmagnsins — þeir eru ef til vill að túlka það — en þetta eru marxískar hugmyndir um eðli kapítalismans. Það er kannski mikilvægt að minnast á það að flæðamótin sem mótuðu tilurð kapítalismans, þetta stefnumót hins afkóðaða auðmagns og svo afsvæðaðs vinnuafls, er algjörlega tilfallandi. Það er engin söguleg tilgangshyggja, engin nauðsyn í þessari þróun eins og Deleuze & Guattari lýsa henni. Það vildi bara svo til að að svo fór sem fór.

Afkóðun kapítalismans er þessi frelsun flæðanna, geðklofa-aflið sem stefnir alltaf að tærum leik framleiðandi þrár sem markgildi, en þrátt fyrir það er eitthvað við kapitalismann, frumsendurnar sem hann setur sér, sem hamlar þessu flæði í sífellu. Frumsendur kapítalismans eru nefnilega síbreytilegar að innihaldinu til en alltaf þær sömu formlega. Vantar frumsendu fyrir verkalýðsfélögin? Já, skal gert, víkkum bara út athafnasviðið. Flæðið sem kapítalisminn beislar er eftir allt saman flæði framleiðandi þrár, og hún sem slík á sér engan sjóndeildarhring. Kapítalisminn notfærir sér þetta og vinnur stöðugt að því að víkka út ytri mörk sín til þess að skapa nýjum þrám pláss. Það eina sem helst alltaf óbreytt er frumsendan sem kveður á um að umframvirði verði að skapast: það verður alltaf að auka við höfuðstólinn, sama hvað. “All that is solid melts into the air” — það sem áður var táknrænt og hafði merkingu í sjálfu sér verður merkingarlaust undir kapítalisma nema að  svo miklu leyti sem það er fært um að skapa umframvirði. Marxíska formúlan M-C-M’ — Höfuðstóll -> Skiptivara -> Hagnaður (höfuðstóll plús virðisauki) — er kjarni kapítalismans, grundvallarfrumsenda hans, sem má alltaf bæta fleiri frumsendum við. Það má alltaf rýmka við athafnasvið kapítalsins, það blæs upp og hugsanlega út í hið óendanlega.

“Quantified flows under capitalism get conjoined solely on the estimation that this or that conjunction will produce surplus-value; such estimation involves economic calculation rather than belief: symbolic meaning has nothing to do with it. […] Deleuze and Guattari will thus call capitalist surplus-value a surplus-value of flow, rather than of codes or over-codes: it arises as the quantitative differential between the flow of money invested in factors of production (including the production of consumption) – labor, materials, technology (and marketing) – and the flow of money returning at the end of the production–consumption cycle. It matters not at all what (qualitatively) is produced, only that production occurs and surplus-value is realized.“ — Eugene W. Holland

Díagram úr Antí-Ödípús

Díagram úr Antí-Ödípús

En nú þegar ég hef snert á því hvernig þeir hugsa sér séreinkenni kapítalsins vil ég tala aðeins betur um það hvernig þeir telja að það virki. Til að mynda er vert að hugsa vel um nokkrar athugasemdir sem þeir láta falla um fjármagnsflæði — þeir segja til að mynda að það sé einfaldlega ekki sami peningurinn sem a) fari í vasa verkamannsins og b) sé skráður á ársreikninga fyrirtækja. Það er sumsé einhver eðlismunur á greiðslu og á fjármögnun — þeir einbeita sér dálítið að bankakerfinu í þessum kafla, sem mér finnst mjög áhugavert. Þeir segja til dæmis að það sé kosmískt svindl að laun og fjármagn séu yfir höfuð mæld í sömu einingu þar eð þessi flæði eigi í reynd alls ekki í neinum venslum. Í tilfelli launanna er peningur eiginlega bara útgefinn möguleiki á frádrætti úr neysluflæðinu — laun verkamannsins merkja í reynd gefið magn áþreifanlegrar og nýtanlegrar orku (sem kallast á við það sem Holland segir í ritskýringum sínum um að hugmyndir Bataille varðandi orkunotkun setji mark sitt á kenningar Deleuze og Guattari — með laununum fær verkamaðurinn í rauninni bara orkuna sína greidda til baka). Aftur á móti er fjármagnið sem bankarnir gefa út, lánastarfsemin sem slík, viðskipti með tæran sýndarpening — það sem bankar gera er að þeir lána pening sem þeir eiga ekki. Þeir búa bara til innistæður í reikningum lántakandans, þeir hola út líkama fjármagnsins í nútíðinni til þess að fjármagnsflæði í framtíðinni geti fyllt hann aftur út og aukið svo við hann. Það sem gerðist í hruninu í Bandaríkjunum til dæmis var að bankarnir lánuðu gífurlegum fjárhæðum langt umfram hæfileika raunhagkerfisins til þess að framleiða og fylla upp í holuna sem þeir sköpuðu með útlánunum. Punkturinn er samt sá að þetta er það sem fjármagnsflæðið gengur út á — fjármálakrísan var ekki undantekningarafleiðing heldur tölfræðilega frekar líkleg niðurstaða undir þessu fyrirkomulagi.

Ungur Gilles Deleuze

Ungur Gilles Deleuze

Annað sem er vert að hugsa um í þessu samhengi er hlutverk ríkisins. Þeir lýsa því undir lok kaflans hvernig kapitalíska íverusviðið er þríþætt: fyrsti hlutinn, framleiðslan sem slík, sýgur umframvirði úr diffurvenslum flæðis vinnu og framleiðslutækja, annar hlutinn, sem ég les sem menntakerfið og vísindasamfélagið, eða mennta- og vísindavélarnar sem framleiða tæknilegan og vísindalegan kóða, og þriðji hlutinn sem er ríkið, sem virkar sem skilyrðandi and-framleiðsluþáttur, gerandi hagkerfinu kleift að losa um umframorku, takandi við henni og veitandi henni í lögregluna, herinn, velferðarkerfi, etc. — þetta er allt hluti af kapítalismanum. Enn fremur er það ríkisvaldið sem er fært um að skapa skort, sem það gerir með því að draga í sig umframorkuna sem kapítalisminn framleiðir. Ríkisvélin virkar sem jöfnunarkraftur þegar kapítalisminn fer fram úr sér og „springur á limminu“ — ríkið tryggir að stofnanirnar á líkama kapítalsins fari ekki á kúpuna.

Það er smá leitt en samtímis ótrúlega skemmtilegt hvað það er margt í þessum stutta kafla sem ég vildi tala um en mér gefst ekki rými til að gera — til að mynda fræga setningin rétt upp undir lokin um að kannski þurfi að hraða á flæðunum, og svo annað dæmi sé nefnt pælingin um að þetta sé öld bölsýninnar, að kapítalið sé á við geimveru, eitthvað algjörlega firrt, sem stýrir öllum — að sé í rauninni ekki verið að ræna neinn þar eð þetta hangir allt saman undir kapitalísku vélinni og frumsendum hennar, sem við erum algjörlega undirgefin. Ég ætla samt að fá að segja þetta gott núna og bjóða ykkur að leggja til athugasemdir og spurningar og ég skal reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Ómannleiki og tilvist

Ómannleiki og tilvist

Hvað er fyrirtæki?

Hvað er fyrirtæki?