Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Að endurtúlka endurkomuna — upp á nýtt

Að endurtúlka endurkomuna — upp á nýtt

Eitt þekktasta hugtak þýska heimspekingsins Friedrich Nietzsche — hugtakið um hina eilífu endurkomu hins sama — er í senn mjög grípandi og mjög erfitt viðureignar. Hugmyndin er sú að allt það sem hefur gerst áður við mann, og allt það sem mun gerast, muni gerast aftur og óendanlega oftar enn — að lífið allt muni endurtaka sig. Allt frá því að heimspekingar hófu að lesa Nietzsche fyrir alvöru hefur túlkendum hans verið ljóst, rétt eins og honum sjálfum var ljóst, að þetta hugtak væri miðlægt fyrir alla hans hugsun — en þrátt fyrir það var og er enn vafi á því hvernig ætti að lesa hugtakið og hugmyndirnar í kringum það. Nú til dags má segja að tvær túlkanir hafi notið mestrar hylli: í fyrsta lagi er það heimsfræðilega túlkunin, og í öðru lagi siðlega túlkunin. Ekki er auðvelt að skilja þessar tvær túlkanir að, þar eð heimsfræðilega túlkunin neyðir mann að vissu leyti til þess að íhuga siðlega hlið málsins, og siðlega hliðin hefur ekki sömu vigt ef maður hugsar hana án heimsfræðilegu túlkunarinnar.

Í þessari ritgerð ætla ég þó að láta þessa staðreynd liggja milli hluta og einblína á aðra túlkunina, þá siðlegu. Ég mun færa rök fyrir því, ásamt franska heimspekingnum Gilles Deleuze, að hugmyndin um hina eilífu endurkomu hins sama geti verið skilin sem einskonar „meta-lífsregla,“ auk þess sem ég vil reyna að skýra hvað það felur í sér. Að lokum mun ég velta því fyrir mér hvaða merkingu þessi lífsregla hefði fyrir einhvern sem fylgdi henni eftir í hvívetna — hvort slík lífsregla væri þeim íþyngjandi eða valdeflandi.

Áður en við hefjumst handa við að kanna þessi tiltölulega tæknilegu atriði er þess vert að fara stuttlega yfir hvernig Nietzsche framreiðir hugmynd endurkomunnar. Í frægum afórisma, Kátu vísindin §341, lýsir Nietzsche hugmyndinni fyrst. Hugmyndin er sú að púki læðist að lesandanum og segi þeim frá því að þau verði að lifa lífi sínu óendanlega oft til viðbótar — að ekkert nýtt verði í því, að það muni endurtaka sig óendanlega oft. Hvert einasta smáatriði, jafnvel þessi frásögn púkans, mun snúa aftur, allt í sömu röð og sömu reglu. Nietzsche spyr þá: hvernig myndirðu bregðast við, kæri lesandi? Þætti þér yfirlýsing púkans bölvun eða blessun?

Spurningin um viðhorf lesandans virðist vera miðlægt atriði þessa afórisma — það sem mestu máli skiptir er hvernig lesandinn bregst við staðhæfingu púkans, að því gefnu að hugsunin um endurkomuna nái valdi á þeim. Nietzsche hugsar sér tvenn möguleg viðbrögð: annars vegar gæti lesandinn varpað sér niður og bölvað púkanum en hins vegar gætu þau fagnað honum sem guði. Ef hugsunin um endurkomuna hefur heltekið lesandann mun hún annað hvort kremja þau eða umbreyta þeim á staðnum — og það er viðhorfið til sjálfsins og til lífsins sem ákvarðar hvaða niðurstaða verður ráðandi. Nietzsche vekur okkur til umhugsunar um það hversu gott viðhorf við þyrftum að hafa til þess að vilja endurkomuna — til þess að þrá ekkert heitar en þessa eilífu játningu. Það er góð spurning — hversu heitt þyrfti maður að elska heiminn til þess að vilja hann aftur og aftur, óendanlega oft?

Í öllum föllum er ljóst af afórismanum að sagan um púkann á að þjóna sem einskonar prófsteinn á það hvort lífið sem lesandinn lifir sé líf sem þau vilja óendanlega oft. Sem slíkur, eða sem prófsteinn, má skilja afórismann (þessa tilteknu útgáfu endurkomunnar, þ.e.) sem einskonar meta-lífsreglu. Meta-lífsregla er lífsregla um lífsreglur, ákvarðandi eða veljandi lögmál sem hægt er að nota á tiltekið fyrirframgefið mengi lífsreglna. Til að mynda gæti einstaklingur sem hefur vafasama lífsreglu á borð við „um helgar leyfi ég mér að drekka áfengi eins og mig lystir“ beitt meta-lífsreglunni „ég mun aðeins vilja gera það sem ég vildi að ég lifði óendanlega oft til viðbótar“ til þess að endurmeta vafasömu lífsregluna — „vil ég virkilega verja öllum mínum helgum í ölæði?“ — „vil ég verja öllum mínum helgum, að eilífu, í drykkjuskap?“

Að svo miklu leyti sem endurkoman eða hugsunin um endurkomuna þjónar sem meta-lífsregla er hún því áþekk kantíska skilyrðislausa skylduboðinu, sem segir „ég mun aðeins gera það sem ég get þess að auki viljað að verði altækt lögmál.“ Hugsunin um endurkomuna og hugsunin um skylduboðið skilyrðir hugsendurna. Skylduboðið skilyrðir þá í gegnum skuldbindingu við að viðhalda röklegu samhengi siðlegra yrðinga innan gefins mengis. Endurkoman skilyrðir þá í gegnum það sem kalla mætti yfirvegandi yfirsýn á núverandi gildi þeirrar sem hugsar með því að gera úrvalið sjálft, athöfnina sem er að velja og hafna, að gildi sem ákvarðar réttmæti annarra  gilda.

Þegar lífsreglan hefur „náð valdi“ á þeim sem hugsar hana hefur hugsandinn því komist á „æðra“ stig hugsunar, ef svo mætti segja — þó aðeins að því leytinu til sem hún hefur öðlast ákveðna „hærri“ yfirsýn sem hún hafði ekki áður. Það er þaðan sem „meta-“ forskeytið kemur — það er endurkvæmur þáttur í hugsuninni sem gerir þeim sem hugsar hana kleift að fara út fyrir og aftur inn í sjálfa sig. Að vissu leyti mætti því skilja hugsunina um endurkomuna sem e.k. endurkvæma skuldbindingu við íveruna — hún ýkir upp hversdagsleikann og gerir hann óendanlegan, sub specie aeternitatis — það er ekki svo að lífið hefjist og endi heldur er það sjálft hringrás. Þú kemst hvergi út fyrir lífið, hvort sem er fram fyrir það né heldur aftur fyrir það. Hvert einasta augnablik tekur þannig á sig háleitan (eða ægifagran) blæ, ákafa áferð, svo að segja — það er tilfinningin fyrir eilífðinni, eilífð verðandinnar. Að sama leyti er skilyrðislaust skylduboð Kant einna best skiljanlegt sem endurkvæm skuldbinding við siðleikann að hverju sinni (ég vil meina að það sé prófsteinn á siðlegt innihald fremur en að það framleiði siðlegt innihald, í takt við gagnrýni Hegels á innihaldsleysi hins tæra, formlega skylduboðs).

Þessi túlkun er þó ekki upprunalega mín eigin þar eð hana er að finna í verki hins franska Gilles Deleuze, Nietzsche et la philosophie frá árinu 1962. Deleuze vísar þó ekki í Kátu vísindin §341 eins og ég geri heldur einbeitir hann sér fremur að verkinu Viljinn til valds sem var gefið út 1901 og 1906 af systur Nietzsche, Elisabeth Förster-Nietzsche, og Peter Gast (Heinrich Köselitz), vini Nietzsche. Viljinn til valds var eiginlega ekki „verk“ í ströngum skilningi orðsins heldur fremur e.k. glósusafn sem Elisabeth og Heinrich röðuðu upp í hér um bil samhangandi heild. Það er því e.t.v. ekki marktækt sem allra besta heimildin um hugsun Nietzsche en þegar allt kemur til alls er það safn upp úr glósum hans og hugleiðingum og ætti vel að þjóna tilgangi sínum þegar það er rannsakað í því ljósi.

Í öllum föllum vísar Deleuze til nokkurra hugleiðinga úr Viljanum til valds, sér í lagi §1053, §1056, en þar talar Nietzsche um endurkomuna sem veljandi hugsun. Þetta er enn fremur undirstrikað í glósubroti þar sem Nietzsche talar um að kenning hans segi okkur að við ættum að lifa á slíkan máta að við yrðum að vilja lifa það upp á nýtt þar eð við verðum hvort eð er að gera það. „Leti, heimska, lágkúra, kveifarskapur eða illgirni sem vill sína eigin eilífu endurkomu væri ekki lengur sama letin, heimskan, o.s.frv.,“ segir Deleuze. „Það er hugsunin um eilífu endurkomuna sem velur, [...] [Hún] gerir út af við allan vilja sem fellur út fyrir endurkomuna, hún gerir vilja að sköpun [...].“

Túlkun Deleuze er þó talsvert margslungnari en lýsing mín á endurkomunni sem meta-lífsregla hefur verið til þessa. Deleuze vill reyna að sýna hvernig endurkoman er ekki einvörðungu þessi „einfalda“ veljandi hreyfing. Hugmyndin um endurkomuna sem meta-lífsreglu gerir aðeins út af við ákveðna viðbragðshætti (e. reactive states), þá sem eru tiltölulega óþroskaðir, en henni tekst ekki að gera út af við dýpri og inngrónari tegundir viðbragða. Þannig getur endurkoman að því leytinu til sem hún er meta-lífsregla losað okkur við tiltölulega einfalda ágalla, eins og t.d. þann sem felst í því að vera á herðablöðunum allar helgar, einfaldan flótta frá raunveruleikanum — en þessi lýsing er ekki fullnægjandi að mati Deleuze. Dýpri tómhyggja gæti setið eftir þrátt fyrir að fylgifyrirbærum hennar sé neitað — það þarf eitthvað meira til.

Deleuze segir þó að endurkoman búi yfir dýpra vali sem kemur til þegar þessi dýpri og róttækari tómhyggja — dýpsti viðbragðshátturinn, viljinn til einskis, viljinn sem segir nei — stýrir endurkomunni. Það sem gerist þegar tómhyggjan er hugsuð undir hætti endurkomunnar er að hún verður skyndilega hliðholl játandi kröftum — og á mjög hegelsk-díalektískan máta, þrátt fyrir allt tal Deleuze um Nietzsche sem and-díalektíker. Það sem neitaði áður aktífum, virkum kröftum verður nú — sub specie aeternitatis — neitun viðbragðskraftanna… neitun neitunarinnar! Deleuze vísar í Zaraþústra sér til stuðnings: „I love him who lives for knowledge and who wants knowledge that one day the Superman may live. And thus he wills his own downfall,“ segir Zaraþústra.

„Í eilífu endurkomunni og í gegnum hana umbreytist neitun að svo miklu leyti sem hún er eiginleiki viljans og verður játun, hún verður játun neitunarinnar sjálfrar, hún verður kraftur játunarinnar, játandi kraftur,“ segir Deleuze — og heldur því enn fremur fram, enn með tilvísan í óútgefnar minnisbækur Nietzsche, að í þessari endurkvæmu yfirvegun og speglun tómhyggjunnar í sjálfri sér takist tómhyggjunni að yfirbuga sjálfa sig. Endurkoman er því ekki lengur einvörðungu hin einfalda veljandi hugsun sem gerir út af við allt það sem fellur út fyrir það sem hugsandinn gæti viljað óendanlega oft — heldur er hún tilurð einhvers raunverulega frumlegs og nýs, endurhugsun verunnar, eða vera verðandinnar.

Tómhyggjan er því að vissu leyti kjarni endurkomunnar, en í endurkomunni verður tómhyggja endurkvæm og ræðst að sjálfri sér: viljinn sem áður þjáðist af tómhyggjunni neitar því sem var neitandi og er því hafinn upp á nýtt og æðra stig — stig ofurmennisins. Við höfum þó ekki enn séð þetta stig, heldur verðum við svo að segja að framleiða það, við verðum að skapa það — en hvernig gerum við það? Eina leiðin er beint áfram, í gegnum tómhyggjuna, virðist Nietzsche segja okkur. Við verðum að gefa okkur undir hugmyndina um endurkomuna og gera hana að okkar „þyngstu þungavigt,“ því þyngsta sem hvílir á okkur — hverri einustu athöfn okkar og hverri einustu hugsun. Við þurfum að lifa endurkomuna.

Stóra spurningin sem situr eftir að lokum, þrátt fyrir þessa útlistun — sem gæti auðvitað aldrei talist fullnægjandi eða tæmandi sökum plássleysis — er hvort meta-lífsreglan, endurkoman, geti fært okkur betra líf. Getur hún það virkilega? Er hugmyndin um endurkomuna ekki ansi yfirgengileg — er hún ekki langtum of þung byrði til að bera? Ég hef ekki einfalt svar á reiðum höndum við þessari spurningu, í hreinskilni sagt. Þrátt fyrir það finnst mér þess vert að muna það að hugsunin um púkann og endurkomuna ljóstrar strax upp fyrir okkur svarinu: um leið og við hugsum okkur að hún sé of þungbær erum við innan tilraunarinnar, innan valkvæðu hugsunarinnar. Samstundis getum við séð hvert viðhorf okkar til lífsins sem við lifum er í raun og veru — við finnum milliliðalaust hvort við getum hugsað okkur að lifa það allt aftur, allar okkar þrautir og allar okkar sorgir, alla hamingjuna og alla sigrana, hvert einasta núvitundar-augnablik. Þegar við höfnum hugmyndinni um endurkomuna erum við því samstundis að hafna íverunni og óendanleikanum sem felst í andartakinu, líðandinni, verðandinni.

Þrátt fyrir það virðist okkur samt alfarið óhætt að gefa lítið fyrir staðhæfingar púkans sem læðist inn í okkar einmanalegustu einsemd. Hugmyndin um endurkomuna er ekki handanheimskenning, hún er ekki trúarsetning. Afleiðing þess að “trúa” ekki á endurkomuna er í reynd frekar ómerkileg: við munum aðeins eiga hverfula tilvist — bókstaflega, því við munum aðeins lifa hana eitt sinn — í hvert sinn.


Heimildaskrá

Ansell-Pearson, Keith. A companion to Nietzsche. Malden, Mass: Blackwell Publishing, 2013.

Deleuze, Gilles. Nietzsche & Philosophy. Þýdd af Hugh Tomlinson. Columbia: Columbia University Press, 1983.

Kant, Immanuel. Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni. Ritstj. Ólafur Páll Jónsson, þýð. Guðmundur Heiðar Frímannsson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003.

Nietzsche, Friedrich Wilhelm, 1844-1900. The Gay Science; with a Prelude in Rhymes and an Appendix of Songs. New York: Vintage Books, 1974.

Nietzsche, Friedrich Wilhelm, Giorgio Colli, and Mazzino Montinari. Sämtliche Werke: kritische Studienausgabe in 15 Bänden. München: Deutscher Taschenbuch Verlag, 1980.

Nietzsche, Friedrich Wilhelm. The Will to Power: Selections from the Notebooks of the 1880s. Þýtt af R. Kevin Hill og Michael A. Scarpitti. Ritstjórn, inngangur og athugasemdir eftir R. Kevin Hill. St. Ives plc.: Penguin, 2017.

Sedgwick, Sally S. „Hegel's Critique of Kant's Empiricism and the Categorical Imperative“. Zeitschrift für philosophische Forschung, Bd. 50, H. 4 (Oct. - Dec., 1996), bls. 563- 584. Frankfurt am Main: Vittorio Klostermann GmbH, 1996. URL: https://www.jstor.org/stable/20483820. Sótt þann 19-04-2019 kl. 13:20.

Um Hume og Homo Habitus

Um Hume og Homo Habitus

Tveir textar um Deleuze: kort og líkamar

Tveir textar um Deleuze: kort og líkamar