Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Tveir textar um Deleuze: kort og líkamar

Tveir textar um Deleuze: kort og líkamar

Þessir tveir textar voru skrifaðir fyrir málstofuna Sakleysi verðandinnar sem fjallaði um Gilles Deleuze á vorönn Háskóla Íslands árið 2019. Sá fyrri leitast að því að svara spurningunni: „Hvers vegna eigum við að gera kort en ekki afrit, og hvað eiga D&G við með hugmyndinni um kort?“. Sá seinni leitast að því að skýra fullyrðingu Deleuze: „Sú viðleitni að öðlast þekkingu á mætti líkamans leiðir […] til þess að sá máttur hugans, sem er utan seilingar vitundarinnar, uppgötvast; og um leið verður mögulegt að bera mátt annars saman við mátt hins“.


Um kort og afrit í Þúsund flekum

Deleuze og Guattari eru komnir með upp í kok af trjám. Tréð er hið Eina sem verður tvennt, miðlægi bolurinn sem greinist svo að, skiptist í greinar. Þessi hugmynd, þótt hún gæti eflaust verið nytsamleg á ýmsa máta, er orðin ellihrum að þeirra mati. Hún er forneskjuleg hugsun. Trjárökvísin er rökvísi afritsins og endurframleiðslunnar. Í stað trésins hampa Deleuze og Guattari hugtaki rísómsins, flækjurót sem býr yfir sérstökum eiginleikum sem þeir greina frá í Þúsund flekum.

Rísómið breiðir úr sér samkvæmt nokkrum meginreglum. Fyrsta og önnur regla eru reglur samtenginga og sundurleitni. Hver punktur rísómsins getur tengst hvaða öðrum punkti rísómsins sem er, og verður raunar að gera það. Djúpar formgerðir og erfðafræðilegir öxlar eru rísóminu því augljóslega framandi — þegar hver einasti punktur verður að tengjast hverjum einasta öðrum punkti er ekkert pláss fyrir neina undirliggjandi og skipuleggjandi formgerð sem rísómið verður að uppfylla, rísómið leyfir enga yfirkóðun. Þriðja reglan er regla mergðarinnar. Til þess að geta hætt að hugsa um trjábolinn sem er hið Eina og greinist í tvennt þarf margfeldi rísómsins að vera hugsað fyrst og fremst sem sitt eigið nafnorð, sem mergð. Mergðin er ekkert nema magnfræðilegar ákvarðanir, og þar eð hún er ekkert annað en þær breytist hún og verður annað í hvert sinn sem þessar magnfræðilegu ákvarðanir verða fleiri. Mergðin er bara það, mergð — endalausar tengingar, ákefðir, svæðun og afsvæðun. Það er ekkert viðfang, engin frumdýpt sem er afrituð. Fjórða reglan er regla hins merkingarlausa rofs. Þegar rísómið rofnar hefur það enga sérstaka merkingu í för með sér. Það getur alltaf haldið áfram að mynda nýjar línur, nýjar tengingar. Rísómið er eins og maurabú í þessum skilningi — það kemur alltaf aftur, jafnvel þótt flestir maurarnir hafi verið drepnir. Rísómið hefur sitt eigið innra skipulag, sínar eigin lagskiptingar, merkingar og svæðingar — en það hefur líka flóttaleiðir, afsvæðandi línur. Fimmta reglan er regla kortagerðar og afritunar, og það er fimmta reglan sem er meginviðfangsefni okkar hér. Þar eð rísómið er einvörðungu mergð samtenginga og brigða, magnfræðilega ákvarðaður massi verðandinnar, getur það ekki verið afrit af neinu — eins og við höfum séð. Rísómið er þvert á móti kort, og sú sem smíðar sér rísómatísk hugtök stundar kortagerð.

En hvað, nákvæmlega, er kort? Þegar við gerum landakort, til að mynda, hvað erum við þá að gera? Landakort, til dæmis, er ekki afrit af landslaginu heldur er það fremur e.k. módel eða táknrit sem tjáir þrívíða krafta og massa á tvívíðan máta; ár, fjöll, hóla, dali, o.s.frv. Á sambærilegan hátt eru öll önnur kort, genamengjakort, til dæmis, ámóta samhengissetningar í hugsuðu rúmi eða á plani — þau eru dýnamísk með tilliti til innihalds, breytileg eftir því sem hentar, því sem þarf. Kortlagning er fyrst og fremst praktísk og hefur að gera með frumlega og virka frammistöðu: hvernig get ég tjáð vensl þessara krafta mér til gagns? Afritið, aftur á móti, er alltaf að reyna að uppfylla einhvern fyrirframgefinn staðal, eitthvað sem það þarf að líkjast sem allra best. Mynd eða álíka afrit getur því alls ekki verið kort. Kort sem væri afrit af landslaginu yrði fullkomlega gagnslaust, eins og örsagan eftir Borges leiðir strax í ljós, sama hversu vel afrits-kortið afritaði landslagið.

En hvers vegna ættum við að kortleggja í stað þess að afrita? Greinarmunurinn á kortinu og afritinu virðist vera ný tvíhyggja — kortið gott, afritið slæmt. Það er þó ekki svo einfalt. Við munum að líkindum ekki geta losað okkur svo auðveldlega við trén, afritunina — og það er heldur ekkert markmiðið. Rísómið, kortlagningin, er einfaldlega ný aðferð — kleyfgreiningin kemur ekki í staðinn fyrir sálgreiningu heldur verður sálgreiningin aðeins skilin til fulls þegar hún sjálf hefur verið kleyfgreind. Það verður að kortleggja afritin sjálf, svo að segja. Það sem er spennandi við rísómið sem kortleggur er einmitt hvað það er nýtt, hvernig það býður upp á möguleika sem voru áður óhugsandi. Kortlagningin beinist algjörlega að tilraunastarfsemi gagnvart og í snertingu við Raunina — hún er opin fyrir hinu nýja, hinu ókomna, ólíkt afritinu, sem er algjörlega undirgefið hinu gamla. Ef til vill snýst hugmyndin um rísómið og kortlagninguna einmitt bara um það að færa heimspekinni nýtt blóð, að skapa fyrir hana nýjar tengingar sem áður hefðu ekki talist heimspekilegar.

En jafnvel þá, þegar við höfum einsett okkur að hugsa rísómatískt, tilraunakennt — þegar við höfum tileinkað okkur að kortleggja í stað þess að afrita — er erfitt að komast hjá því að falla aftur á (fr. rabat sur) tvíhyggjuhugsun, forneskjulega hugsun. Kortið og afritið eru að vissu leyti tvíhyggja, rétt eins og tré og rísóm mynda tvíhyggju — þótt hún sé ekki algjör eins og um einhverja forkantíska frumspeki sé að ræða, rísómið getur tengst við rætur trésins og hver veit nema að rísóm verði til í hjarta trésins. Punkturinn, segja Deleuze og Guattari, er nefnilega ekki að staldra við hverja og eina tvíhyggju, heldur að gagnrýna tvíhyggjumódelið sjálft með því að stilla tvíhyggjum upp á móti hvorri annarri — með því að stokka þær upp í sífellu, eins og húsmóðir sem hættir ekki að endurraða húsgögnunum inni í stofu. Deleuze og Guattari eru í leit að e.k. spekúlatífri frumspeki verðandinnar (en þó and-hegelskri — eða hvað…?), þar sem vera er einradda (e. univocal) en samstundis mörg, vera verðandinnar, vera mismunarins. Vera er alltaf sama veran, jafnvel þótt við tölum um óendanlega marga hætti verunnar: „Vera er sögð á hinn sama einstaka hátt um allt það hún er sögð, en það sem hún er sögð um er mismunandi: hún er sögð um mismuninn sjálfan.“

Rísómið er því að vissu leyti verufræðilegt hugtak, lýsing á verunni sem skilur hana sem Eina jafnt sem Marga, Fjölhyggja = Einhyggja. Rísómið er einhyggja og fjölhyggja á sama tíma vegna þess að rísóm er mergð mismunarins, og þessi mismunur er það sem er. Allar samsemdir, samkvæmt Deleuze, eru smættanir, einfaldanir — eða heildanir, ólíkt mismuninum sem er diffrandi — ef við viljum hugsa um það í samhengi við örsmæðareikninginn, sem Deleuze var annt um að ljá frumspekilega vídd á ný.

Athuga má að heimspekina sjálfa má hugsa sér sem einskonar kortlagningu — og raunar vísindin sömuleiðis — samkvæmt heimspeki Deleuze. Þau kortleggja sýndina, diffursvið mögulegra breytinga efnislegra kerfa, en á mismunandi máta. Heimspekin gefur sýndinni áferð með því að smíða hugtök um kraftana sem þessi kerfi samanstanda af og kortleggja vensl þeirra út frá möguleikunum sem búa í þeim — hún hugtekur þá og gerir möguleikum þeirra skil. Vísindin, aftur á móti, virka á vissan hátt sem föll, þau kortleggja það sem hefur gerst og mun að líkindum gerast — þau kortleggja raungervingu sýndarinnar. Í síbreytilegum heimi verðandinnar eru afrit vitagagnslaus — þau sýna okkur aðeins annað hvort það sem er liðið og engin trygging er fyrir að komi aftur, eða þau sýna okkur eitthvað sem aldrei hefur orðið og aldrei mun verða — þau eru því annaðhvort forneskjuleg eða helber ímyndun. Það er þess vegna sem við erum beðin um að kortleggja í stað þess að afrita — ekki vegna þess að afrit eru ill og kort góð, heldur vegna þess að kortin eru langtum gagnlegri.


Um vitund, ómeðvitund og þrá í lestri Deleuze á Spinoza

Til að byrja með er vert að taka það fram að Deleuze er efnishyggjumaður og íverusinni og er sem slíkur andstæðingur allrar tvíhyggju og handanheimshugsunar. Ásamt Spinoza hampar hann því einhyggju hugar og líkama, eða hann telur þessa tvo hætti ekki vera mismunandi að súbstansinum til, hann telur veruna einradda (e. univocal) — þótt hann að vissu leyti geri samtímis út af við súbstansinn almennt. Eins og ég skýri í svarinu að ofan er líklega einna best að hugsa um frumspeki Deleuze sem einradda mergð, veru verðandinnar og mismunarins. Í ofanálag á Deleuze e.k. þrá-hyggju (nýyrði mitt) sameiginlega með Spinoza rétt eins og með Nietzsche — allir telja þeir einhvern undirliggjandi lífskraft einkenna allt líf og líkama, hvort sem þessi kraftur er hugsaður sem conatus, vilji til valds eða þrá.

Með þetta í huga getum við snúið okkur að viðfangsefninu og reynt að skýra fullyrðingu Deleuze í „Hvernig Siðfræðin greinir sig frá hvers kyns siðferði“. Hugsum fyrst um vitundina. Vitundin er meðvitaður hluti líkamans, hún það sem tekur eftir og veitir athygli. Þessari vitund hefur í gegnum sögu heimspekinnar verið veittur ákveðinn heiðurssess, og til þessa dags er hún enn í hávegum höfð. Það er ekki fyrr en við upphaf 20. aldarinnar sem fólk fór fyrst og fyrir alvöru að hugsa út í ómeðvitundina, nokkuð sem Freud átti stóran hluta í að gera vinsælt umhugsunarefni, en áður höfðu Nietzsche og einmitt Spinoza einnig tekið tillit til ómeðvitundarinnar.

Það sem er ómeðvitað er svo eftir allt saman hluti af líkamanum, ómeðvitundin er líkamlegt fyrirbæri — hún er bara sá hluti líkamans sem við erum ekki meðvituð um. Þegar Spinoza (og Deleuze með og í gegnum Spinoza) leggur áherslu á að við „vitum ekki hvers líkaminn er megnugur“ er hann ekki að benda á neitt annað en það að við séum ekki meðvituð um allt það sem líkaminn raunverulega gerir, að vitundin nái bara svo og svo langt — og að vitundin sé í reynd alls ekki sérstaklega vísindalegt verkfæri, nema auðvitað að því leytinu til sem hún getur gert athuganir og skráð þær niður, og þar með tekið þátt í hinu vísindalega ferli.

Vitundin er „náttúrulegur bústaður blekkingar,“ heldur Deleuze fram, og lýsir hinum þremur stóru blekkingum vitundarinnar: blekkingunni um tilgangsorsök, blekkingunni um frjálsan vilja og blekkingunni um Guð.

Röksemdafærslan fyrir fyrstu blekkingunni er nokkurn veginn þessi: vitundin þekkir sig aðeins að því leytinu til sem hún hefur hugmyndir um áhrif sem líkaminn verður fyrir (skv. E II P23), og þekkir raunar líkama sinn og ytri hluti ekki heldur nema að því leytinu til sem líkaminn verður fyrir áhrifum af þeim (skv. E II P19 & P26). Hún getur því aðeins vitað af afleiðingum þess að aðrir líkamar verka á líkamann sem hún er meðvituð um, eða hún sjálf er ekkert nema þessar afleiðingar. Hún hefur því alltaf aðeins ófullkomna hugmynd um aðra líkama, hún veit aðeins af þeim að því leytinu sem þeir hrífa líkamann hvers vitund hún er. Þrátt fyrir það reynir hún að draga ályktanir um orsakir afleiðinganna — sem er eins og að reyna að draga ályktun um forsendur röksemdafærslu af niðurstöðunni einni. Það sem vitundin telur sér trú um er að líkamarnir sem verkuðu á líkama hennar hafi ætlað að verka á sig, og hefur þaðan hugmyndina um tilgangsorsök.

Önnur blekkingin gengur út frá blekkingunni um tilgangsorsökina — vitundin telur sér trú um að hún sjálf sé e.k. orsakavald sem getur haft meðvituð áhrif á heiminn með ákveðinn tilgang í huga. Þaðan reynir vitundin að seilast lengra en hún getur séð sjálfa sig fyrir sér sem orsök og gefur sér að þar sé yfirskilvitleg og almáttug yfir-vitund sem hafi ákvarðað allt fyrirfram — aristótelíska frumhreyfingin — og þessi yfir-vitund er engin önnur en Guð.

Það sem við verðum fær um að gera þegar við hættum að veita meðvitundinni sérstaka meðferð og byrjum að einbeita okkur betur að líkamanum er að við komumst að því (einmitt í gegnum hugsun og tilraunir) hver virkni hins ómeðvitaða er í raun og reynd — við getum komist að því hvers líkaminn er megnugur og við getum frelsað okkur undan oki óhollra ástríðna sem við erum ómeðvituð um að verki á okkur — með því að rannsaka og gera tilraunir og komast þannig til skilnings um það. Vegna þess að það er svo enginn greinarmunur á hug og líkama komumst við einmitt líka að því hvers hugurinn er megnugur — hann er okkur alveg jafn dularfullur og líkaminn, og á nákvæmlega sama hátt.

En til hvers ættum við að vera að reyna að komast að því hvers líkaminn er megnugur? Eins og áður segir deila Spinoza og Deleuze þeirri skoðun að líkamar eða lífverur búi yfir einskonar lífskrafti, hvort sem við viljum kalla hann conatus eða þrá. Þessi lífskraftur er ekki aðeins varðveitandi vilji, vilji til að lifa af, heldur er hann vilji til aukins máttar eða vilji til valds. Spinoza skilgreinir hamingjuna á þann veg í Siðfræðinni að hún sé kennd sem líkami finnur þegar hann kemst í snertingu við annan líkama sem eykur við mátt hans. Þegar við kynnumst líkamanum og öðrum líkömum getum við þannig komist í skilning um það hvaða líkamar auka við mátt okkar þegar við komumst í snertingu við þá og hverjir draga úr mætti okkar. Heimspeki Spinoza, rétt eins og heimspeki Deleuze, er að mjög mörgu leyti heimspeki gleðinnar og jákvæðninnar.

Frá þessu sjónarhorni verður heimspeki mjög praktísk iðkun — til þess að geta lifað hamingjusömu lífi verðum við að gefa líkömum okkar og venslum þeirra sérstakan gaum og hætta að einblína á sólipsíska blekkingarleiki vitundarinnar sem hefur aðeins hálfbakaðar og ringlaðar hugmyndir um það sem er að eiga sér stað fyrir líkamann sem hún er meðvituð um. Það er eins og Spinoza segir, þekking á Guði (sem er auðvitað samheiti yfir náttúruna) er hugarins æðsti fjársjóður. Það er vegna alls þessa sem mikilvægt er að hætta að einblína á vitundina og byrja þess í stað að rannsaka líkamann og alla þá virkni hans sem vitundin hefur ekki glóru um að sé til staðar. Þetta hefur líka gerst í auknum mæli með tímanum — taugalæknisfræði og sálfræði hafa sýnt okkur á margvíslegan máta að við erum alls ekki öll þar sem við erum séð frá sjónarhóli vitundarinnar — og það hefur leitt til gífurlegra framfara í sálfræðilegum og læknisfræðilegum meðferðum.


Heimildaskrá:

Borges, J. L. „On Exactitude in Science” úr A Universal History of Infamy. Þýtt af Norman Thomas de Giovanni. (London: Penguin Books, 1975.) Lesa má söguna með því að smella hér.

Daniel Smith og John Protevi, "Gilles Deleuze". The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vorútgáfa 2018), ritstýrt af Edward N. Zalta. URL.

Gilles Deleuze, „Hvernig Siðfræðin greinir sig frá hvers kyns siðferði,“ Björn Þorsteinsson (þýð.), Hugur 16 (2004): 170–179.

Gilles Deleuze, Difference & Repetition. Þýð. Paul Patton. New York: Columbia University Press, 1994.

Gilles Deleuze og Félix Guattari, „Rísóm,“ Hjörleifur Finnsson (þýð.), í Heimspeki verðandinnar. Rísóm, sifjar og innrætt siðfræði, Geir Svanson (ritstj.), (Reykjavík: Reykjavíkur Akademían, 2002).

Spinoza, Baruch. Ethics. Þýdd af Edwin Curley, inngangur eftir Stuart Hampshire. Penguin Classics. St. Ives: Penguin, 1996.

Að endurtúlka endurkomuna — upp á nýtt

Að endurtúlka endurkomuna — upp á nýtt

Feðraveldi, kvenhatur og tragikómískt Twitter-röfl

Feðraveldi, kvenhatur og tragikómískt Twitter-röfl