Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Réttarspeki Hegels — I. hluti: Inngangur / Frjáls Vilji

Réttarspeki Hegels — I. hluti: Inngangur / Frjáls Vilji

Réttarspeki Hegels, I. hluti

Eftirfarandi texti er hluti af framsögu sem ég flutti ásamt fleirum í áfanganum Stjórnmál og samfélag í Háskóla Íslands. Í framsögunni sjálfri skrifaði ég aðeins um fyrsta hluta verksins en ég vil fjalla nánar um annan og þriðja hluta þess að sama skapi. Þetta verður þá sería, ef allt gengur eftir. En á meðan ég les afgang verksins getið þið, kæru lesendur, notið þessarar byrjunar. Bon appétit!

Hver var Hegel?

G.W.F. Hegel var þýskur heimspekingur. Hann fæddist árið 1770, sama ár og William Wordsworth og Ludwig van Beethoven. Sex árum síðar lýstu Bandaríkin yfir sjálfstæði sínu og þegar Hegel var 11 ára gamall gaf Immanuel Kant út verk sitt, Gagnrýni hreinnar skynsemi. Síðar gekk Hegel í Tübinger Stift lærdómssetrið þar sem hann kynntist skáldinu Hölderlin og heimspekingnum Schelling en þeir ku hafa haft mikil áhrif hver á annan.

Því næst flytur Hegel til Jena þar sem hann leggur augu á alheimskeisarann Napóleon Bonaparte rétt í þann mund sem hann vinnur að því að leggja lokahönd á sitt fyrsta stóra verk, Fyrirbærafræði andans [Phänomenologie des geistes]. Hegel lifði því mikla umbrotatíma, jafnt pólitíska sem heimspekilega. Kant og eftirmenn hans Schelling og Fichte störfuðu að því að fullkomna kerfi þýskrar hughyggju og stórfengleg alda lýðræðisbyltinga dundi á meginlandi Evrópu. Ljóst er því að margt var að ske meðan Hegel lifði.

Varðandi verkið

Réttarspekin var gefin fyrst út árið 1820 en í grunninn er hún handbók til hjálpar nemendum Hegels — til útskýringar á fyrirlestrum hans sem hann hélt á þeim tíma við Heidelbergháskóla. Hún var því aldrei ætluð af höfundi til þess að vera lesin til hlítar sem eitt sjálfstætt verk. Hegel gerði nánari grein fyrir hugmyndum sínum um Rétt og ríkið í öllum þremur bindum Alfræði sinnar [Encyclopedia]. Til merkis um eðli bókarinnar er sú staðreynd að með mörgum málsgreinum verksins fylgja svokallaðar „viðbætur“, en þær reit Eduard nokkur Gans, nemandi Hegels, upp úr minnispunktum Hegels og eftirritum tveggja nemenda Hegels, þeim Heinrich Gustav Hotho og Karl Gustav von Griesheim. Þar eð „viðbæturnar“ eru ekki skrifaðar af Hegel sjálfum þarf því að taka þeim með ögn af salti. Þrátt fyrir það eru þær oft mjög nytsamlegar til skýringar við upprunalegar málsgreinar Hegels.

Verkið skiptist í fyrstu í fjóra hluta:

  1. Inngangur — Frjáls Vilji
  2. Réttur í sjálfum sér [Das abstrakte Recht]
  3. Siðferði [Die Moralität]
  4. Siðlegt líf [Die Sittlichkeit]

Eftir innganginn hefst greinargerð Hegel á réttarspekinni fyrir alvöru, en hlutarnir þrír samanstanda af þremur undirköflum hver og sumir þeirra innihalda aðrar undirþrennur. Saman myndar verkið heildstæðan díalektískan sambræðing sem kórónast svo í lokahlutanum um Ríkið sem æðsta markmið Siðleikans.

Ég hef gert heiðarlega tilraun til að lýsa verkinu í megindráttum í þessari skýringarmynd hér:

Viljinn í sjálfum sér

Hegel hefur Réttarspekina á umræðu um það hvaða spurningum réttarspeki á yfir höfuð að svara. Verkið allt grundvallast á því að maðurinn (sem abstrakt ókynjuð persóna, að sjálfsögðu) sé sjálfsmeðvitaður og hafi eitthvað sem heitir „Frjáls Vilji”, svo hann byrjar á því að skilgreina hvað það nákvæmlega er og hvernig hann er frábrugðinn Vilja og einfaldri meðvitund. Mannveran Hugsar og hún Vill, en Hegel segir óþarft að aðgreina þetta tvennt — þær séu einfaldlega tvær hliðar á sama pening, önnur þeirra snúist að hinu teoretíska og hin að hinu praktíska.

Í fyrsta lagi höfum við Sjálfið. Sjálfið getur tekið á sig tvær myndir, hið markvissa og hið ómarkvissa. Þessar tvær myndir verða svo að tveimur díalektískum augnablikum [Augenblick] sem sameinast svo í einn ræðan Vilja:

α: Í fyrsta lagi er Sjálfið ómarkvisst, í þeim skilningi að það getur frelsað sig frá öllu áreiti heimsins og orðið hreint Sjálf. Fyrsta augnablikið er því einfaldlega hæfileikinn til að framkvæma, eða Sjálfið Sjálft, í sjálfu sér og abstrakt. Þetta fyrsta andartak felur það í sér að það er með öllu óbundið umheiminum, sem þýðir að Sjálfið er ófært um að framkvæma, fremja verknað.

β: Í öðru lagi er Sjálfið hreyfingin frá því að vera hinn hreini vilji í átt að því að verða hið ákveðna eða markvissa Sjálf. Það er ekki nein sérstök ákveðni, eins og að ákveða að ganga eða borða, heldur er það ákveðnin í sjálfri sér. Þetta seinna andartak Sjálfsins felur í sér bindingu við heiminn, í þeim skilningi að þegar við ákveðum eitthvað ákveðum við einnig ekki allt það sem við ákváðum ekki. Sjálfið einsetur sér eitthvað og yfirgefur þannig hreina sjálfið markvisst til þess að komast að þessu einhverju.

γ: Viljinn sem slíkur er svo hinn synthesíski samruni og eining þessarra tveggja augnablika Sjálfsins. Þetta er nokkuð erfitt að útskýra, en Einingin verður þegar Sjálfið (krafturinn) verður markvisst með Sjálfið að marki (stefnu) sínu. Hér myndast óendanleg runa þar sem Sjálfið sækist eftir sjálfu sér, beinist í óendanlega spegilrunu þar sem það einblínir á sjálft sig og hefur sig sem markmið. Viljinn er því óhjákvæmilega bundinn sjálfsmeðvitund sem slíkri. Hlutir, sem hafa eða hafa ekki meðvitund, geta ekki haft Vilja, þar eð þeir fara aldrei hringinn inn í sjálfsmeðvitundina.

[Side note: Að lokum kemst Hegel að Gamma, sbr. klausan að ofan. Því má ef til vill lýsa með hugtaki úr stærðfræðiheiminum — hugtakinu um vigur (e. vector). Vigur hefur tvær hliðar; kraft og stefnu. Alfa er þar kraftur vigursins og Beta stefna hans — en Gamma sjálft er samruni þessarra tveggja eiginleika.] 

Frjáls vilji

Þá eigum við eftir að kanna hvernig Viljinn verður frjáls. Í fyrsta bragði er Viljinn beinn, tafarlaus. Hann getur beinst að hverju sem er — við getum viljað reykt sígarettu, við getum viljað fara í göngutúr. En þegar hann er beinn eða tafarlaus er hann ekki enn orðinn frjáls. Hann er vissulega fær um að gera hvað sem hann lystir, en það er ekki raunverulegt frelsi að hafa óheft athafnafrelsi.

Viljinn verður aðeins frjáls þegar hann er skynsamur — sem felst í því að hann vill sjálfan sig. Frjáls Vilji vill viðhalda sjálfum sér, viðhalda frelsi sínu. Til þess að viðhalda frelsi sínu verður Viljinn að temja sig, hugsa skynsamlega um hvaða gjörðir munu tryggja sér áframhaldandi viljafrelsi. Frjáls Vilji er til að mynda meðvitaður um það að þótt hann geti reykt sígarettu sé það að líkindum heftandi fyrir frelsi Viljans. Þar eð hann vill ekki hefta frelsi sitt kýs hann því að vilja ekki sígarettuna. Frjáls Vilji er því einskonar meta-vilji.

Út frá hugtakinu um frjálsan vilja í sjálfum sér gengur Hegel svo að því að skilgreina Rétt, Eign, Samninga og Ranglæti — sem mynda svo undirstöðu fyrir frjálst og réttlátt mannlegt samfélag og Siðleikann sjálfan. Ég mun halda áfram að fjalla um verkið í næstu færslum hér á Sýsifos — bíðið spennt!

Réttarspeki Hegels — II. hluti: Réttur og Eign

Réttarspeki Hegels — II. hluti: Réttur og Eign

Óklárað brot um muninn á hinu altæka og einstaka

Óklárað brot um muninn á hinu altæka og einstaka