Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Feðraveldi, kvenhatur og tragikómískt Twitter-röfl

Feðraveldi, kvenhatur og tragikómískt Twitter-röfl

Pistill í lestinni 3. apríl 2019. Myndin í haus heitir “Lost in Paris” og er eftir Norman Rockwell frá árinu 1932.


Við Íslendingar erum flest meðvituð um kynjamisrétti, enda eigum við að heita feminískasta þjóð heims — og að mörgu leyti erum við það — svo það er ekki að tilefnislausu að við höfum eignast þetta viðurnefni. Þrátt fyrir að við njótum öll góðs af þessu ágæta orðspori var það sannarlega ekki öll þjóðin sem krafðist þess að breytingar yrðu gerðar heldur frekar fámennur hópur feminískra aðgerðasinna, kvenna sem börðust og berjast enn fyrir jafnrétti og betra samfélagi. Tilefni þessa pistils er að nú um daginn varð til vægast sagt áhugaverðra orðaskipta á samfélagsmiðlinum Twitter milli nokkurra þjóðþekktra einstaklinga. Þá hafði Sóley Tómasdóttir, sem þekkt er fyrir störf sín á sviði stjórnmálanna forðum, sem og störf sín sem feminískur aðgerðasinni, lýst þeirri skoðun sinni að hún hefði hvorki samúð né húmor með körlum með ofvaxin egó, sem hefðu ótakmarkaða möguleika á því að ógna stöðugleika og velferð almennings. Þar vísar hún til Skúla Mogensen, stofnanda flugfélagsins WOW, sem fór á hvínandi kúpuna nú á dögunum, og varð til þess að um 1100 manns misstu vinnuna.

Það er nú svo það fyrirsjáanlegasta í alheimi öllum að þessi ummæli Sóleyjar, saklaus sem þau voru, hlutu þvílíka heiftarútreið — nánast eins og karlheimur allur fyndi til líkamlegs sársauka. Sérlega vakti athygli að tveir þjóðþekktir karlmenn, þeir Theodór Elmar Bjarnason, landsliðsmaður í fótknattleik, og Sigmar Vilhjálmsson, betur þekktur í mínum hringjum sem Simmi úr 70 mínútum, ákváðu að tjá sig um skoðun Sóleyjar. Báðir voru þeir afar ósáttir við framferði hennar og töluðu um að hún „gerði lítið úr málstaðnum,“ en málstaðurinn í þessu samhengi er femínisminn sjálfur. Æsifréttableðillinn DV skrifaði um þessi atvik tvær fréttir þess efnis að karlarnir tveir hefðu skoðun á því sem Sóley hafði sagt á Twitter. Í fréttunum var þeim stillt upp eins og þeir hefðu eitthvað raunverulega eftirtektarvert til málanna að leggja, sem þeir gerðu auðvitað alls ekki. Það sem greip athygli mína sérstaklega var þó einna helst orðræða æsifréttasnepilsins og málfar hans. Undirfyrirsögnin við báðar fréttir var: segir Sóley til syndanna.

Elmar og Simmi segja Sóley til syndanna. Elmar og Simmi segja að Sóley sé að skemma femínismann, málstaðinn sem þeim er svo annt um. Elmar gekk jafnvel svo langt að halda því fram að það væri athugasemdum Sóleyjar kenna að sumt fólk vildi ekki kalla sig femínista heldur jafnréttissinna. Þetta eru auðvitað hlægilega rangar skoðanir, og ég myndi hlæja ef ekki væri fyrir þá staðreynd hversu útbreiddar þær eru — þær fá jafnvel umfjallanir í fréttamiðlum! Mér virðist fullkomlega út í hött að fjölmiðlar sjái þessi viðbrögð Simma og Elmars sem þess verð að skrifaðar séu fréttir um þau. Tveir karlar sem hafa að mínu viti ekki gert nokkurn skapaðan hlut fyrir „málstaðinn“ að segja feminískum aðgerðasinna „til syndanna“! Og fyrir hvað — að hún hafi sagst vera sama um Skúla Mogensen á internetinu?

Nóg er þó um þennan þvætting í bili — því nú víkur sögu að heimspekinni, kæru hlustendur. Ég ætla að segja ykkur frá bókinni Down Girl eftir ástralska heimspekinginn Kate Manne. Sérstaklega ætla ég að segja ykkur frá því hvernig Manne endurhugsar og umbætir hugtök kvenhaturs eða kvenfyrirlitningar, sem á ensku heitir misogyny, og svo kynhyggjunnar, sem er þýðing mín á enska orðinu sexism. Röksemdafærsla hennar í bókinni er afar vönduð og góð, og ég tel að hugmyndir hennar séu verðmætt innlegg — sem geti jafnvel hjálpað okkur að skilja þessi tragikómísku Twitter-samskipti örlítið betur.

Byrjum á almennum skilningi orðsins kvenhatur. Í hversdagslegri notkun vísar orðið til ákveðins viðhorfs eða hugarástands einstaklings. Segjum að maður að nafni Jón sé kvenhatari — hvað þýðir það? Almenni skilningurinn fæli í sér að hann hefði óbeit á konum, gæti ekki hugsað sér að vinna með þeim, teldi þær ófærar um að gegna ábyrgðarstöðum, bæri enga virðingu fyrir þeim. Það sem þetta afstöðuknippi eða þetta lífsviðhorf grundvallast á er einhver heiftræknis- og haturstilfinning. Kvenhöturum finnst konur viðbjóðslegar, þeir hata þær fyrir einhverjar óútskýranlegar og órökrænar ástæður. Þeim finnst þær jafnvel varla mannlegar. Kenning Manne kallar þetta viðtekna, almenna viðhorf til kvenhaturs “naive misogyny” — það er, einfalt eða barnslegt kvenhatur, og sem hugtak getur það ekki verið mjög nytsamleg fyrir femínismann.

Kvenfyrirlitning, í endurbættum skilningi Manne, er allt annað og langtum nákvæmara fyrirbæri. Hún segir kvenfyrirlitningu og kynhyggju, sexisma, vera tvær hliðar á sama feðraveldispeningnum — tvær mismunandi stofnanir sem starfa að viðhaldi hins kynjaða valdaójafnvægis.

Kynhyggja, eða sexismi, er hugmyndafræðilegt kerfi sem úthlutar tilteknum kynjum ákveðin fastsett hlutverk. Sexismi segir: konur eru í eðli sínu öðruvísi en karlar á þennan, hinn og annan máta, og því eru þær aðeins færar um að fara með þessi tilteknu hlutverk. Kynhyggjan segir, til dæmis, að konur séu í eðli sínu í tilfinningalegu ójafnvægi vegna hormónaframleiðslu, og að því séu þær verri kostur en karlmenn þegar kemur að því að úthluta valdastöður. Svo eru endalaus dæmi um slíka greinarmuni, sem kynhyggjan tekur upp og fleygir svo eftir hentisemi, eftir tíðaranda eða einhverju álíka.

Kvenfyrirlitning, aftur á móti, er það sem knýr fram og heldur uppi þessum kynhyggjustrúktúr. Þegar konur fara út fyrir sitt afmarkaða svið eru þær að brjóta á kennisetningum kynhyggjunnar og þá þarf einhver útsendari hennar að setja þær niður. Kvenfyrirlitning væri þá röddin sem úthúðar konu fyrir að hegða sér eins og karl — til dæmis með því að sækjast eftir valdastöðum eða setja ferilinn í fyrsta sæti á kostnað fjölskyldunnar. Slíkar konur kallar kvenfyrirlitningin kaldar, stjórnsamar tíkur, rægir þær og ber þeim ljúgvitni, sakar þær um hvers kyns ranglæti — allt til þess að viðhalda valdastrúktúr feðraveldisins.

Gott dæmi sem Manne tekur í bók sinni er fjöldamorðinginn Elliot Rodger sem myrti sjö manns og særði fjórtán í Isla Vista, Kaliforníu, árið 2014. Ástæðan fyrir árás Rodger var sú að hann var sannfærður um að konur skulduðu sér ást, alúð og kynlíf, og að það væri undir honum komið að refsa þeim fyrir það að hann fengi það ekki frá þeim. Rodger var sumsé sannfærður um ákveðnar kennisetningar kynhyggjunnar, nefnilega þær að konur ættu að gefa körlum ákveðna athygli, ást og alúð, og að konurnar sem hann umgekkst væru að fara út fyrir þetta hlutverk sitt með því að veita honum ekki það sem hann verðskuldaði. Þegar hann fer og skýtur og stingur þær svo með hníf, segir þeim til syndanna, svo að segja, er hann að senda öllum konum skilaboð um það hvert hlutskipti þeirra á að vera — þá gerist hann sekur um kvenfyrirlitningu.

Í þessum endurbætta skilningi Manne er kvenhatur því líkt og lögregla og kynhyggja líkt og lagakerfi: lögreglan sér til þess að lögunum sé framfylgt. Þetta er nytsamleg afstaða vegna þess að hún gerir út af við tilfinningalega skilninginn. Undir slíkum skilningi gat hver sem sakaður var um kvenhatur einfaldlega svarað með: „Ha, ég? En ég elska mömmu mína! Hvernig gæti ég verið kvenhatari?“ Slíkum afsökunum er nú auðsvarað: þeir sem gerast sekir um kvenhatur búa ekki yfir neinu heiftúðugui hatri gagnvart konum almennt, heldur beinist kvenhatur þeirra aðeins að þeim konum sem stíga út fyrir hlutverkin sem feðraveldið setur þeim. Aðeins sá sem virðir bara „hlýðnar“ og „góðar“ konur, en refsar hins vegar þeim sem fara út fyrir sitt athafnasvið eða kynhlutverk, er því kvenhatari: hann er að fara með hlutverk löggæslustofnunar feðraveldisins, og þá skiptir engu máli hvort hann finnur til reiði eða haturs í garð konunnar. Slíkt hugarástand kemur málinu bara ekkert við.

Þá er spurning — svo ég komi aftur inn á upphaf pistilsins — hvort ekki sé réttast að skilgreina karlmennina sem hraunuðu yfir Sóleyju Tómasdóttur fyrir að voga sér að gagnrýna flotta bisnessmanninn sem gerði svo mikið fyrir alþjóð — hvort það sé ekki nákvæmast að skilgreina þá sem kvenhatara, ósköp einfaldlega? Þeir voru, eftir allt saman, að úthúða henni fyrir að voga sér að vera ósammála karllægu hetjudýrkuninni sem einkennir viðbrögð margra karlmanna við þessu þroti flugfélagsins. Það er nánast eins og kapítalistinn sem fer í þrot sé einhver  maskúlín-stríðshetja sem verðskuldar virðingu okkar allra fyrir það eitt að hafa lagt allan peninginn sinn undir í æðisgenginni gróðaleit. Spurningin er hvort þeir hefðu brugðist svona við hefði karlmaður lýst yfir sömu skoðun og Sóley gerði. Svarið er — nei, þeir hefðu auðvitað ekki gert það.

Ætli ég verði ekki, að endingu, að láta ykkur um að leggja mat á þetta, kæru hlustendur. Í öllum föllum finnst mér þessi endurskilgreining hinnar frábæru Kate Manne á áður óræðu hugtaki kvenhatursins frábært framlag til heimspekilegrar umræðu um kynjajafnrétti og tengd svið — og ég held að við ættum öll að byrja að tileinka okkur uppfærslu hennar fram yfir þá gömlu og almennu hugmynd sem við notumst mörg hver við. Hún veitir okkur tækifæri til þess að yfirstíga gömlu, barnslegu hugmyndina um kvenfyrirlitningu sem heiftrækni og fært okkur nær því að skilja hana sem formgerðarbundið vandamál, viðbragð valdastrúktúrs feðraveldisins við óhlýðni.

Tveir textar um Deleuze: kort og líkamar

Tveir textar um Deleuze: kort og líkamar

Smásaga: Fúga

Smásaga: Fúga