Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Að grípa heiminn með huganum

Að grípa heiminn með huganum

Íslenska orðið „hugtak“ er dálítið áhugavert. Það virðist gefa í skyn að hugurinn hafi „tak“ á einhverju — eins og hann geti teygt sig út í raunheiminn með galopna lúkuna og gripið það sem fyrir ber, tekið það inn í sig og því næst einfaldlega átt það. Það gæti einnig verið skilið sem e.k. verkfæri með hverju við grípum hlutina — hugtakið sjálft er þá eins og kló sem grípur viðföng heimsins.

G.W.F. Hegel talar um þetta viðhorf gagnvart hugtakinu í inngangi sínum að Fyrirbærafræði andans, þar sem hann gagnrýnir þá sem telja að hugtakið afmyndi óhjákvæmilega viðfang sitt — að með því að grípa utan um viðfang þekkingarinnar beyglist það eða bogni og verði ekki lengur það sem við hugðumst grípa út úr heiminum.

Talandi um Hegel, þá má sama viðhorf og í íslenska orðinu „hugtak“ finna í þýska orðinu „Begriff“ — orð sem skipta má upp í Be og Griff. Griff þýðir þá „grip“, nákvæmlega eins og það hljómar, og er eiginlega það nákvæmlega sama og „takið“ í „hugtak“. Þýska hugtakið yfir hugtak er eiginlega nafnorðsgerving sagnarinnar „begreifen“ sem samkvæmt netorðabók Duden þýðir einfaldlega að grípa eitthvað með huganum.

Sambærilega sögu má segja um enska orðið „concept“. Það á rætur sínar að rekja til Latínunnar góðu og úr orðunum concipio, sem er samsett úr „con“ og „capio“. „Con“ er forskeytisútgáfa af orðinu „cum“ sem merkir einfaldlega „með“ eða samsetningu margra þátta í einn. „Capio“ þýðir hins vegar að grípa, taka, fanga. Concipio merkir því „að meðtaka“ eða „að grípa“.

Aftur á móti er annað orð í ensku sem heitir „perception“ eða skynjun — tengt orðinu „percept“, sem merkir hinn skynjaða hlut — og það er leitt af sama orðinu og „concept“, þ.e. „capio“. Munurinn á percept og concept er líklega sá að „percept“ er eitthvað sem gengur inn í mann, en maður þarf að „grípa“ það — skilja það með huganum, skilja það frá öllu hinu sem vellur inn — til þess að það verði „concept“.

Í bilinu milli concept og precept er því um að ræða það sem kalla mætti greinarmuninn á hrifum og skilum. Við hrífumst af heiminum og skil-yrðum hann í eindir til þess að geta betur komist af í honum, eignað okkur hann, gripið hann. Undir öllu þessu hvílir þráin, uppspretta vitundarinnar og heimsins eins og hann ber fyrir okkur. 

Er hægt að komast hjá skil-yrðingunni? Er hægt að vera orðalaus, eins og Wittgenstein orðar það í sjöundu og síðustu setningu Tractatus Logico-Philosophicus: „Wovon man nicht sprechen kann, darüber muss man schweigen.“? Eru til hrif fyrir skilyrðingu, eða eru þessi tvö ferli nauðsynlega tvinnuð saman í eitt?

Hér virðumst við vera að nálgast hugtak Kyoto-spekingsins Kitaro Nishida (西田 幾多郎) um „hreina upplifun“ — „pure experience“ — upplifun handan allrar skilyrðingar. Það væri vert að skrifa nánar um hugsun Kitaro innan skamms — kannski maður vindi sér í það. Nýlega varð ég mér út um PDF-útgáfu bókar sem heitir „The Kyoto School's Takeover of Hegel“ — og ég gæti tvinnað hana saman við umfjöllunina.

Kyoto-skólinn er einstaklega áhugaverð heimspekihreyfing sem hefur agnarlitla ef ekki nákvæmlega enga umfjöllun hlotið innan íslenskra heimspekiskrifa. Internetleit ljáir mér engar niðurstöður — fyrir utan tvær skemmuritgerðir til B.A. prófs í japanskri tungu og menningu og viðskiptafræði. Það er því hér með komið á dagskrá hjá mér að skrifa greinargóða umfjöllun um hugsun Kitaro Nishida og fleiri samstarfsmanna hans við Kyoto-háskóla á 20. öld. Þar til þá!


Málverkið í haus heitir Snow Storm: Steam-Boat off a Harbour's Mouth og er eftir J. M. W. Turner frá árinu 1842. Getur maður réttilega og með vissu greint gufubátinn frá öllu sem umkringir hann?

Angist og matematík í Heidegger

Angist og matematík í Heidegger

Kaldhæðni og hreinskilni

Kaldhæðni og hreinskilni