Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um menningarmarxisma og önnur gjálfuryrði

Um menningarmarxisma og önnur gjálfuryrði

Málverkið í haus heitir Parthenon og er eftir Frederic Edwin Church frá árinu 1871.


Mörg könnumst við við það að lenda í rökræðu á internetinu — rökræðu, rifrildi, skítkasti — hvort sem er, þá vitum við sem þetta höfum reynt hversu skemmtilegt en jafnframt þreytandi það getur verið að reyna að eiga vitsmunalega samræðu um eitthvað á veraldarvefnum. Þið hafið kannski reynt að eiga þrætu við einhvern um stjórnmálin á Facebook, eins og um það hvort borgarlínan margumrædda eigi rétt á sér eða álíka, eða þið hafið ef til vill tekið þátt í samtali um fyrirbæri eins og kynjamisrétti eða álíka.

Alltaf er eitthvað á döfinni sem rífast má um, og það er mjög auðvelt að taka þátt í þessari umræðu. Það hendir svo af og til að maður mæti einhverjum eða einhverri í samtali sem eru bæði vel að sér í umræðuefninu sem og reiðubúin að skipta um skoðun ef ljóst er að þau höfðu bersýnilega rangt fyrir sér — en það er sjaldan sem maður verður svo heppinn að geta átt alvörugefið samtal sem er nokkurs raunverulegs virði. Þrátt fyrir það getur það verið virkilega áhugavert að fylgjast með slíkum samtölum, þótt maður taki ekki beinan þátt í þeim.

Þegar ég fylgist með rökræðum eða rifrildi á netinu snúast þær oftast nær um einhvern tiltekinn, tiltölulega afskekktan anga stjórnmálakenninga — og ég er hugfanginn af þessum mörgu og margræðu stefnum og hugsunarmátum sem fyrirfinnast nánast eingöngu á vefnum. Ég nýt þess mjög að fylgjast með öfgavinstrimönnum rífast við öfgahægrimenn — þessa hópa sem hafa verið kallaðir alt-left og alt-right. Oftar en ekki snúast rifrildin um kapítalisma og sósíalisma og allt þar á milli — bitbein eins og kenningar Karls Marx, dauðsföllin sem rekja má til sósíalisma 20. aldarinnar, áhrif síðkapítalismans eða heimsvaldastefnu.

Allt er þetta mjög áhugavert umhugsunar, eða það finnst mér, í það minnsta — þess vegna ver ég meiri tíma en ég helst vildi í að kynna mér þessi mál og fylgjast með rökræðum um þau. Nokkuð sem ég hef þó tekið eftir að gerist í sífellt auknum mæli er notkun ákveðins uppnefnis, sem er oftar en ekki eitthvað sem hægrið beitir fyrir sig í árásum sínum á vinstrið. Þetta uppnefni er „menningarmarxisti“ og nýrri tilbrigði eins og „póstmódernískur nýmarxisti“. Í þessari ritgerð hyggst ég kanna grundvallarform þessa tiltekna uppnefnis örlítið nánar og rekja sögu þess og samhengi — því það kemur í ljós að það á sér frekar langa sögu, þrátt fyrir að virðast vera samtímafyrirbæri.

Marxismi og menningarrýni

Hugtakið „menningarmarxismi“ („cultural marxism“ á ensku) á sér langa og undarlega sögu. Það er, eins og ég segi, oft notað í rökræðum og samtölum um stjórnmál þessa dagana, en allt frá upphafi hefur hugtakið verið margrætt og óljóst. Því er oft slengt fram í umræðum á netinu, stundum í tengslum við orð eins og „réttlætisriddari“ eða „snjókorn“. Áður en ég hefst handa við að skýra hugtakið sjálft og tengingar þess vil ég þó snerta ofur stuttlega á því hvað „marxismi“ er, svona almennt séð, og hvernig hann tengist þessu öllu saman. Marxismi, eins og flestir vita, er regnhlífarhugtak yfir kenningar þýska heimspekingsins og hagfræðingsins Karls Marx. Hann var uppi á 19. öld og hafði mikil áhrif á fjölda stjórnmálamanna og stjórnspekinga, og margir angar kenninga hans njóta enn athygli innan akademíunnar.

Hagfræði hans er ekki sérlega mikils metin þessi misserin, en heimspekilegar greiningar hans njóta talsverðs fylgis engu að síður, sætandi sífelldri endurskoðun og upptökum með breytingum. Við höfum ekki beint tíma til þess að fara yfir hugmyndir hans í smáatriðum í þessum stutta pistli, en við getum haft nokkur stikkorð hugföst: Marx taldi kapítalismann ósjálfbæran og var þeirrar skoðunar að hann myndi líða undir lok fyrr en síðar — hrynjandi undan þunga eigin mótsagna. Hann var einnig þeirrar skoðunar að efnislegur grundvöllur samfélagsins, það er framleiðslufyrirkomulag samfélagsins, yrði til þess að skipta fólki upp í svokallaðar stéttir, sem stríddu gegn hvorri annarri. Þetta er allt og sumt sem nauðsynlegt er að hafa í huga að svo stöddu.

Menningarmarxismi, í réttum skilningi orðsins, merkir því rannsókn á menningu út frá marxísku sjónarhorni. Menningarmarxisti gæti þá til að mynda rannsakað poppmenningu út frá því hvaða hugmyndafræðilegu áhrif hún hefur í þágu tiltekinnar ráðandi stéttar, þeirrar sem hefur völd yfir auðmagninu og framleiðslutækjunum — kapítalistunum. Það er því hægt að nota hugtakið á fulkomlega gildan og réttmætan hátt — ef maður er að nota það til að lýsa einhverjum sem beitir marxísku sjónarhorni við menningarrýni. Til að mynda væri hægt að greina hina endalausu endurnýjun poppmenningar sem e.k. hugmyndafræðilegt verkfæri, afþreyingariðnað sem sefar almúgann og beinir athygli hans að glyskenndum tónlistarmyndböndum svo hann taki nú ekki eftir raunverulegri stöðu mála.

Notkun í nútímaorðræðu

Málið er hins vegar að þessi fræðilega merking er sjaldnast meining þeirra sem nota hugtakið menningarmarxisti. Oftast nær hefur það víðtækari merkingu: það er notað til þess að vísa til vinstrisins almennt eða sem samheiti hugtaksins um pólitíska rétthugsun eða rétttrúnað. Femínistar, andfasistar, aðgerðasinnar í baráttu hinseginfólks — hið gróflega skilgreinda vinstri fellur allt undir þessa regnhlíf fólks sem hefur verið smitað af hinum meinfýsna menningarmarxisma.

Það er hér sem það myndast margræðar tengingar við hugtök á við „réttlætisriddari“, sem er þýðing á enska hugtakinu „social justice warrior/SJW“ — kaldhæðið orð sem minnir á Don Kíkóta, orð sem gefur í skyn móðursýki, þráhyggju fyrir einhverri úrkynjaðri hugmynd um réttlæti, tilgangslausa og bjánalega viðleitni til þess að hrinda af stað umbyltingum á því sem ágætt er nú þegar. Oft er þessum réttlætisriddurum enn fremur lýst sem „viðkvæmum snjókornum“, „snowflakes“, sem telja sig svo einstök og sérstök að þau þurfi einhver sérstaklega skilgreind örugg svæði til þess að geta átt tjáskipti án þess að vondir hvítir karlmenn brjóti á þeim á einhvern hátt. Til þess að bæta gráu ofan á svart vill þetta auma pakk þagga niður í tjáningarfrelsi þeirra sem voga sér að gagnrýna þessar hugmyndir þeirra, og neyða alla til þess að lúta svo gott sem maóískum hugmyndum um pólitískan rétttrúnað, „political correctness“!

Allt er þetta orðræða hægrisins sem mér finnst svo áhugavert að fylgjast með á internetinu: vinstrið er gagntekið af þaggandi persónupólitík sem mun ekki hafa neitt annað í för með sér en hrun alls þess sem gerir vestrænt samfélag gott og fallegt (pc), vinstrið er barnalegt og hörundsárt og getur ekki tekið djóki (snowflake), vinstrið er móðursjúkt og sífellt með allt á hornum sér (sjw).

Bill Lind og rétthugsunin

Stundum eru öll þessi fyrirbrigði felld undir eitt hugtak, pólitíska rétthugsun — og það hafa hinir ýmsu hugsuðir hægrisins gert. Einna frægust er ritgerð Bill Lind, „The Origins of Political Correctness,“ sem birtist árið 2000 — þar heldur hann því fram að pólitísk rétthugsun sé einfaldlega marxismi sem hefur gefist upp á því að nöldra um hið efnahagslega og beini því sjónum sínum að sviði menningar umfram svið efnahagslífsins. Hann segir að þetta birtist einna helst í háskólum, sem hann segir að séu orðnar „litlar Norður-Kóreur“ (sem sýnir okkur að þessi retórík um „ástandið í háskólunum“ á sér lengri sögu en marga ef til vill grunar — maður hefði nú reyndar haldið að indoktríneringin væri farin að láta á sér sjá eftir þrjátíu, fjörutíu ár af stöðugum áróðri í háskólum — en það er ekki að sjá að svo sé ef ástand heimsvelda vestrisins er gaumgæft!).

Hann heldur því fram að pólitísk rétthugsun sé „dauðans alvara“ og vísar málstað sínum til stuðnings í heimssöguna — Sovétríkin, Kína, Þýskaland. Hann segir að þetta sé afleiðing hugmyndafræði, að það sé hugmyndafræði almennt sem sé valdurinn að þessu — en tekur þó fram að auðvitað sé íhaldsstefna ekki hugmyndafræði. Sprenghlægileg og mjög vandræðalega léleg grein, satt best að segja! Ég ætla þó ekki að fara mikið nánar út í staðhæfingar þessarar tilteknu ritgerðar hér og nú. Það tæki mikinn tíma og væri sitt eigið verkefni, en hver veit, kannski gæti ég gert það síðar.

Í öllum föllum virðist hægrið hafa keypt þessa hugmynd Lind fullu verði. Hægrimenn eru nefnilega sumir hverjir sannfærðir um að allar þessar hreyfingar réttlætisriddaranna, allt væl þessarra viðkvæmu snjókorna, eigi sér rætur í einu og sama fyrirbærinu: menningarmarxisma. Menningarmarxisti, í hinum víðtækari og samsæriskenndari skilningi, er þá hver sá sem er andvígur hefðbundnum fjölskyldugildum, stöðluðum-hefðbundnum hugmyndum um kyn, kynferði og kynvitund og vill auk þess gera út af við hvíta, gagnkynhneigða karlmenn. Sá sem er menningarmarxisti, segir hægrið nú, er einfaldlega herskár marxisti, maóisti eða stalínisti, sem hefur skipt um umbúðir.

Narratífan er oftast á um það bil þennan veg: Marxistarnir sáu í kringum og eftir fall Sovétríkjanna að marxismi væri ekki lengur í tísku — en í stað þess að játa sig sigraða ákváðu þeir í staðinn að klæða hugmyndafræði sína í glanspappír persónupólitíkurinnar. Nú er það ekki lengur verkafólkið sem er undirokað, segja menningarmarxistarnir (að sögn hægrisins), heldur konur — eða samkynhneigðir — eða transfólk — eða… og svo framvegis. Allt er þetta þó bara innantómt gjálfur, því undirliggjandi markmið alls orðaprjálsins er einfaldlega blóðrauður kommúnisminn. Marxistunum er sama um þessa „undirokuðu“ hópa, segir hægrið — þegar allt kemur til alls vilja þeir bara stofna ógnarstjórnarríki sem Maó myndi blöskra.

Vinstrið, ófært um að sleppa takinu af Stalín og forræðishyggju Sovétríkjanna heitinna, heldur þannig áfram í hugum þessara hægrimanna að innræta annars saklaust en auðtrúa ungt fólk með hillingum um kúgun og byltingu. Barátta transfólks fyrir grundvallarmannréttindum tekur þannig á sig ískyggilegan, maóískan blæ (sjá viðtal Cathy Newman við Jordan Peterson, t.a.m.) — femínistar eru lagðir að jöfnu við Stóra Bróður úr Ókeaníu George Orwell — andfasískir aktívistar virðast ógna tjáningarfrelsinu og eru því fasískir sjálfir. Menningarmarxismi eða pólitísk rétthugsun er alræðishugmyndafræði sem vill leggja allt það sem gott er undir sig og tortíma því.

Hitler, Frankfurtarskólinn, póstmódernismi

Ég hef klórað mér í höfðinu yfir þessu lengi, og eins og ég byrjaði pistilinn á að tala um þá hef ég átt í þó nokkrum rökræðum um þessa heimsmynd. Vegna þess að ég hef átt í þessum rökræðum hef ég aflað mér þó nokkurrar þekkingar um uppruna uppnefnisins um hvert ritgerðin fjallar — og viti menn! — hugtakið á rætur sínar að rekja til nasista, hvorki meira né minna. Í bók sinni, Mein Kampf, skrifaði Adolf Hitler um það hvernig módernísk list væri bolsévismi (Ath. að hlekkurinn er að html útgáfu af Mein Kampf), og nasistaflokkurinn notaði hugtakið menningarbolsévisti sem uppnefni yfir móderníska listamenn, tengjandi þá við úrkynjuðu rússnesku kommúnistana sem vildu ekkert fremur en að sundra hefðbundnum gildum um fjölskyldu, eignir og fleira mikilvægt. Hugtakið hafði hjá þeim ákveðinn gyðingahatursblæ — þótt afkomendur hugtaksins geri það ekki eins sterklega í dag (eða hvað? sjá hér og hér) — en hvað hafði svo sem ekki gyðingahatursblæ þegar það var látið falla af sjálfum Hitler?

Með tímanum breyttist hugtakið þó og það var hengt við Frankfurtarskólann svokallaða, heimspekistofnun sem samanstóð af hugsuðum á við Max Horkheimer, Theodor Adorno, Herbert Marcuse og Erich Fromm. Þeir voru nefnilega sumir raunverulegir menningarmarxistar, í ströngum og réttum skilningi orðsins — Adorno, til dæmis, skrifaði margt um áhrif popptónlistarmenningar og hlutverk hennar sem hugmyndafræðilegt tól. Fyrrnefndur Lind talar um þessa hugsuði í ritgerð sinni, á ansi slælegan hátt — og auðvitað án nokkurra tilvitnana eða annarra sönnunargagna fyrir málflutningi sínum:

„What the Frankfurt School essentially does is draw on both Marx and Freud in the 1930s to create this theory called Critical Theory. The term is ingenious because you’re tempted to ask, “What is the theory?” The theory is to criticize. The theory is that the way to bring down Western culture and the capitalist order is not to lay down an alternative. [...] What Critical Theory is about is simply criticizing. It calls for the most destructive criticism possible, in every possible way, designed to bring the current order down.“

Adorno, Horkheimer, Marcuse og Fromm höfðu hins vegar ekkert sérstakt á móti vestrænni menningu sem slíkri. Þeir voru í stöðugu samtali við vestræna hugsuði — þeir unnu vestrænum listum — Marcuse aðstoðaði að meira segja OSS, stofnun sem átti svo eftir að verða CIA, við að skapa and-nasískan áróður. Það er svo frekar lítið mál að finna uppritað samtal milli Frankfurt-menningarmarxistanna þar sem þeir tala um hvernig þeir ættu best að fara að því að varðveita allt hið góða við vestrænt samfélag. Maður þarf raunar bara að lesa nokkrar bækur eftir og um þessa hugsuði til þess að skilja að orðræða Lind og þeirra sem apa upp eftir honum er innantóm þvæla. Í bókinni Towards a New Manifesto tala Adorno og Horkheimer til að mynda um það hversu mikilvæg áðurnefnd varðveisla er — og í bókinni Grand Hotel Abyss, sem rekur ævisögur þeirra, er talað um að þessir hugsuðir hafi notið tjáningarfrelsisins vestra mjög og talið það mikilvægan þátt í frjálsu samfélagi.

Narratíva hægrisins endar þó ekki með Adorno og Horkheimer. Í stað menningarmarxista Frankfurtarskólans hefur hægrið fundið sér nýja blóraböggla — nú eru það „póstmódernískir nýmarxistar“ sem eiga að vera plága vestrænnar siðmenningar. Jacques Derrida, Michel Foucault og fleiri franskir póststrúktúralískir heimspekingar eru hinir duldu menningarmarxistar, þverhöfðalegir í krossför sinni gegn vesturlöndum. Þeir vilja víst gera út af við Sannleikann, Skynsemina, Hvíta Karlmanninn, auk Hugsunarinnar sjálfrar (maður fær þessar kenningar svo auðvitað beint í æð ef maður fylgist með mönnum eins og Jordan Peterson eða Stephen Hicks. Ég vil í þessu samhengi benda öllum á að horfa á þessa frábæru gagnrýni á verk Hicks, „Explaining Postmodernism“ bók sem er svo til hin eina heimild Jordan Peterson fyrir afstöðu sinni til póstmódernismans).

En getur þetta virkilega verið? Héldu þessir hugsuðir þessu virkilega fram? Nei, auðvitað stenst það ekki skoðun. Þetta fólk var bara að leita sannleikans með skynseminni í gegnum hugsun, og mestmegnis er fólkið í hópnum sem um ræðir líka bæði hvítt og karlkyns. Enginn þessarra frönsku heimspekinga hafði nokkurn skapaðan hlut á móti vestrænni menningu eins og hægrið vill halda. Þeir voru vissulega gagnrýnir á hefðir vestrænnar menningar, en það að gagnrýna eitthvað er ekki að hatast við það, hvað þá að óska því eyðileggingar. Það er barnalegt og meinfýsið að halda slíku fram. Hið sama gildir um hugsuði Frankfurtarskólans.

Hvaðan kemur þetta gjálfur?

Að lokum er vert að velta því fyrir sér hvað það sé sem orsaki þessar samsæriskenningar. Það er að líkindum samblanda ótta og misskilnings á því sem gagnrýnar heimspekikenningar standa fyrir — óttinn um að eitthvað glatist í breytingunum sem gagnrýnin gæti haft í för með sér og misskilningur á textum og hugmyndum sem stafar einfaldlega af því að hafa ekki kynnt sér þá. Það er virkilega erfitt að lesa verk eftir heimspekinga Frankfurtarskólans og draga þá ályktun af textanum að höfundarnir hatist við vestrænt samfélag — og hið sama gildir um frönsku póstmódernistana sem eru reglulega gagnrýndir fyrir að vera meinfýsnir sófistar sem vilja ekkert nema eyðileggingu. Þegar maður verður var við orðræðu eins og við höfum rætt hér að ofan getur maður því eiginlega undantekninga- og milliliðalaust dregið þá ályktun að viðkomandi hafi einfaldlega ekkert kynnt sér hugsuðina sem hann er að tala um.

Vandamálið hér, þegar öllu er á botninn hvolft, er tvíbentur: í fyrsta lagi er um meinfýsna retórík að ræða, í öðru lagi skort á heimspekilæsi. Til eru hugmyndafræðingar hægrisins sem halda því staðfast fram að lokamarkmið vinstrisins sé gereyðing alls þess sem gott er, og þeir halda þessu fram á grundvelli tiltekinnar hugmyndafræði (jafnvel þótt viðvaningar eins og Lind haldi því fram, í dýpsta forarpytti hugmyndafræðinnar, að stefna þeirra sé ekki hugmyndafræði — áttu annan!). Áhrif þessarar retóríkur yrðu þó ekki mikil ef áheyrendur hennar væru læsir á heimspeki og hefðu tímann til þess að sökkva sér ofan í flóknar röksemdafærslur um kapítalisma og menningarstrúktúra. Það er hér sem heimspekilæsið, eða skorturinn þaðan af, kemur til sögunnar.

Það eru tvær ástæður (sem hafa mismikið vægi) að verki í viðtöku almennings á samsæriskenningunni um menningarmarxisma, Frankfurtarskólann, póstmódernisma o.s.frv.: Í fyrsta lagi tímaþátturinn, sem ég tel að hafi meira vægi, og í öðru lagi hroki gagnvart heimspekinni — þessir þættir tvinnast saman í heimspekilæsisvandanum. Tímaþátturinn er mikilvægari og saklausari — auðvitað er ekki hægt að áfellast þau sem heyra einhvern sem virðist lærður halda slíkri samsæriskenningu fram ef þau hafa ekki tímann til þess að kynna sér hlutina til hlítar sjálft (og þar kemur ábyrgð annarra heimspekinga inn í myndina, t.a.m. er þessi grein tilraun til að stemma stigu við þessari ömurðarretórík).

Aftur á móti er til staðar ákveðinn hroki gagnvart heimspeki sem gerir heimspekingum erfitt fyrir um að taka þátt í umræðum um hluti eins og þessa. Fólk er gjarnt á að trúa því að heimspeki sé eitthvað sem hverjum sem er er fært um að iðka án nokkurrar æfingar eða áreynslu — fólk er gjarnt á að trúa því að innst inni séum við nú öll heimspekingar. Það er þess vegna sem menn kippa sér ekkert upp við það þótt þeir standi sjálfa sig að því að lýsa yfir háspekilegum áfellisdómum um fólk hvers ritverk þeir hafa ekki lesið svo mikið sem hálfan boginn stafkrók af. Þetta er einfaldlega filistínismi.

Í hnotskurn er röksemdafærsla mín því sú að 1) til séu hugmyndafræðingar sem halda fram innantómri retórík um hugsuði á við meðlimi Frankfurtarskólans og franska meginlandsheimspeki síðari hluta 20. aldar, 2) að fólk gleypi við þessari retórík sökum vanþekkingar sem stafar af tímaleysi og mögulega einhverjum hroka gagnvart heimspeki, og 3) þetta er ekki gott ástand og okkur ber að breyta því með nýrri og bættri umræðu um þessa hugsuði.

Lokaorð — niðurstaða?

Allt kann þetta að virðast dálítið súrrealískt og jafnvel merkingarsnautt fyrir ykkur sem ekki þekkið til andrúmsloftsins á alnetinu um þessar mundir — og ég áfellist ykkur ekki. Þetta er stórundarlegt allt saman. Þrátt fyrir það skiptir þessi orðræða miklu máli, að mínu mati. Þótt það sé ekki endilega alveg greinilegt í fyrstu hvaða merkingu svona samsæriskenningar hafa fyrir samfélag okkar er hægt að tengja þær á óvéfengjanlegan hátt við voðaverk eins og hryðjuverkaárás Anders Behring Breivik í Noregi árið 2011 — hann skrifaði einmitt um ógn menningarmarxismans í manifestó sínu sem hann sendi með tölvupósti á þúsund netföng rétt áður en hann myrti hátt í áttatíu manns.

Það er því raunverulegur möguleiki á því að til margs sé að vinna með skýrri og gagnrýninni þekkingu á slíkum hugtökum — því ef maður þekkir til þeirra getur maður séð hverjir eru að leiðast inn á varhugaverðar brautir eftir því hvernig hugtakaflóra þeirra er ásýndar. Verði maður var við notkun þessarar orðræðu og annarrar gæti því verið þess vert að taka umræðu við notandann — og reyna að fá á hreint hvort þau eigi nú við marxíska menningargagnrýni eða samsæriskenningu um árás launkommúnista á vestræna siðmenningu. Fái maður þá svar á þá leið að átt sé við seinni hugtakaþyrpinguna væri gott að inna eftir frekari röksemdum fyrir slíkum hugmyndafræðilegum afstöðum með tilvísan í hugmyndirnar sem haldið er fram um að séu illskeyttar kenningar um æskileika gereyðingar siðmenningarinnar.

Mikilvægt er að tala um þessa hluti — ég er ekki að halda því fram að við ættum að hætta að tala um Frankfurtarskólann og hugmyndafræði hans (eða aðra hugsuði sem nefndir eru hér), síður en svo! Ég er mjög áhugasamur um þessa hugsuði og gæti talað lengi og mikið um þá. Til mikils er að vinna með góðri umræðu. Hún þarf þó að fara fram fölskvalaust og á opinn hátt — við þurfum að hætta að hugsa eftir retórískum línum höfunda eins og Lind og byrja að hugsa eins og forvitið fræðafólk sem vill komast að hinu sanna um hugmyndir þessarra hugsuða. Til þess þurfum við að nálgast verk þeirra á sanngjarnan hátt — nokkuð sem ég held að sé alls ekki verið að gera þegar nöfn þeirra koma upp í umræðunni. Ákall mitt er eftir vitsmunalegum heiðarleika og opinni, sanngjarnri, raunverulegri rannsókn — og eftir umræðum um þessar hugmyndir á grundvelli slíkra rannsókna. Það er allt og sumt.

Gettier-vandamál og sönn, rökstudd skoðun

Gettier-vandamál og sönn, rökstudd skoðun

Hvað myndi Jesús gera?

Hvað myndi Jesús gera?