Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hvað er fyrirtæki?

Hvað er fyrirtæki?

Fyrirtæki eru allt í kring um okkur. Flest störfum við hjá fyrirtæki — við mætum til vinnu og störfum þar til vinnutíma okkar er lokið. Við afköstum einhverju í þágu fyrirtækisins, og fyrirtækið greiðir okkur laun fyrir störf okkar. Við sem störfum hjá fyrirtækinu erum semsagt launþegar, meðan fólkið sem fer með eignarhald yfir fyrirtækinu eru atvinnurekendur. Það má hugsa sér þessar tvær flokkanir sem stéttir, þar sem hvor stéttin um sig er háð hinni: ef atvinnurekendur hefðu ekkert vinnuafl til þess að framleiða vörur og þjónustu væri ekkert fyrirtæki fyrir þá að eiga, og sömuleiðis hefði vinnuaflið ekki ofan í sig og á ef það gæti hvergi sótt fjármagn í skiptum fyrir vinnu sína. Hvor stéttin um sig á sín eigin hagsmunagæslusamtök, enda verður alltaf tekist á um það hvert afrakstur framleiðslu fyrirtækisins á að fara — atvinnurekendur eiga sér stór félög eins og Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda, meðan launþegar eru aðilar að misstórum samtökum sem kennd eru við verkalýðinn, verkalýðsfélög svokölluð.

Þetta fyrirkomulag grundvallast á frumforsendu hins kapitalíska samfélags eins og við þekkjum það í dag. Forsendan er sú að hver og einn þegn hins kapitalíska ríkis sem viðheldur þessu fyrirkomulagi búi við stjórnarskrárvarinn rétt til þess að fara með full yfirráð yfir eignum sínum, hverjar svo sem þessar eignir eru. Þetta gerir atvinnurekendum kleift að eiga og ráða yfir framleiðslutækjum samfélagsins, um hver þeir smíða sér oftast nær svokölluð fyrirtæki. Þessi fyrirtæki búa svo allflest við ákveðna innri formgerð sem stillir öllum starfsmönnum fyrirtækisins upp í valdastiga. Einn starfsmaður er forstjóri eða framkvæmdastjóri fyrirtækisins, meðan annar er ef til vill millistjórnandi, og enn annar er svo svokallaður starfsmaður á plani. Takið eftir því að fyrirtæki getur samanstaðið algjörlega af launþegum, án þess að nokkur atvinnurekandi komi að rekstri fyrirtækisins, þótt oft starfi atvinnurekendur innan fyrirtækjanna sem þeir eiga.

Þessi fyrirtæki eru alltumlykjandi í samfélagi okkar. Þau stýra því hvenær við vöknum flest á morgnana, þau stýra því hvenær við förum heim, þau stýra því hvar við stöndum í metorðastiga samfélagsins — þótt allt sé þetta óbein stýring, einfaldlega aukaafurðir þess að við séum allflest launþegar sem seljum afköst okkar til fyrirtækja. Það er því vel þess virði að hugsa eilítið nánar út í þessi fyrirbæri, fyrirtækin, ef ekki aðeins til þess að skilja hverju þau stýra — og að endingu, hvort okkur finnist áhrifamáttur þeirra réttmætur eður ei. Í pistli dagsins ætla ég einmitt að velta upp þessum spurningum, með aðstoð frá bandaríska heimspekingnum Elizabeth S. Anderson. Anderson er bandarískur heimspekingur sem sérhæfir sig í stjórnmálaheimspeki og siðfræði. Í bók sem hún gaf út árið 2017, sem ber titilinn Private Government: How Employers Rule Our Lives (And Why We Don’t Talk About It), fjallar hún einmitt meðal annars um formgerð þessa undarlega og alltumlykjandi fyrirbæris, fyrirtækisins.

Í hugsunartilraun sem staðsett er í öðrum kafla bókarinnar lýsir hún samfélagsformgerð sem kalla mætti kommúníska. Undir slíkri formgerð er strangt valdaskipulag þar sem sumir eru hærra settir en aðrir. Þrátt fyrir að slíkur valdastigi sé við lýði eru fá sem engin lög um það hvernig hátta megi þessu skipulagi. Skipanir þeirra valdamiklu geta verið handahófskenndar og breyst í einni hendingu. Í ofanálag er engin örugg leið fyrir þá sem eru lægra settir til þess að sannfæra yfirmenn sína um að gera hlutina á einn eða annan veg — og það sem virkar kannski einna undarlegast er að hinir valdamestu þurfa alls ekki að svara til neins annars en sjálfs sín fyrir gjörðir sínar. Ríkisstjórnin er kommúnísk að því leytinu til sem hún fer með fulla eign yfir öllum framleiðslutækjum samfélagsins, og úthlutar störfum og launum eftir miðstýrandi ákvarðanatökuvaldi sínu. Í reynd er þessi ríkisstjórn því algjör kommúnísk einræðisstjórn.

Ríkisstjórn þessarar formgerðar gerir lítinn sem engan greinarmun á einkalífi og opinberu lífi, þannig að það sem þegnar ríkisstjórnarinnar segja getur verið notað gegn þeim innan valdaskipulagsins — jafnvel það sem þeir segja á samfélagsmiðlum. Segi þeir eitthvað sem yfirboðurum þeirra líkar ekki er þeim fullfrjálst að lækka þá í tign eða einfaldlega að gera þá brottræka úr samfélaginu. Maður gæti jafnvel verið gerður brottrækur fyrir kynhneigð sína, útlit sitt eða annað tilfallandi aukaatriði. Þrátt fyrir það er ríkisstjórninni ekki heimilt að refsa neinum líkamlega fyrir það sem hún telur vera mistök, né heldur er henni kleift að stinga neinum í steininn. Algengasta refsingin er einfaldlega brottrekstur úr samfélaginu sem slíku.

Þessi samfélagsskipan hljómar ekkert sérstaklega skemmtilega eða aðlaðandi fyrir frjálslynda lýðræðissinna eins og við Íslendingar erum flest. Anderson vill hins vegar meina að við búum nú þegar að einhverju leyti við slíka samfélagsskipan sem launaþegar bundnir fyrirtækjum. Setjum þetta nú í samhengi. Fyrirtækið líkist kommúníska alræðisríkinu að því leytinu til sem þar er einhver efst í valdakeðjunni sem gefur skipanir um hin ýmsu verkefni sem heyra undir framleiðsluferlið sem slíkt. Þessi manneskja er ýmist kölluð eigandinn eða forstjórinn eða framkvæmdastjórinn. Fyrirtækið, sem míkró-hagkerfi, er kommúnískt að því leytinu til að fyrirtækið sjálft og stjórnendur þess fara með öll yfirráð yfir framleiðslutækjum þess. Og að lokum eru lágt settir þegnar ríkisins samheiti launþeganna, hverjum ber að hlýða skipunum einræðisherranna eða forstjóranna í einu og öllu.

Samlíkingin er kraftmikil en brotnar eilítið niður þegar við færum hana upp á íslenskt samfélag. Hérlendis búum við við tiltölulega sterka viðurvist verkalýðsfélaga sem verka á einhvern mismikinn máta sem löggjafarvald gagnvart framkvæmdavaldi atvinnurekendanna. Anderson ætlar hugsunartilraun sinni einna helst að eiga við efnahagsfyrirkomulagið eins og það hefur verið og er að mjög miklu leyti enn þann dag í dag í Bandaríkjunum. Þar er þátttaka í verkalýðsfélögum langtum minni en hún er hér, til að mynda, og alræðisréttur atvinnurekenda er miklu rýmri en þeir komast upp með á Fróni. Þrátt fyrir það er grundvallarskipanin með öllu sínu píramídalaga valdaójafnvægi hin sama — hér eru fyrirtæki í eigu atvinnurekenda sem launþegar starfa fyrir, og starfsemi og verkferlar þessara fyrirtækja eru algjörlega undir samspili geðþótta atvinnurekendanna og markaðssveiflna komin.

Það er þessi grundvallarformgerð sem er sérstaklega mikilvægt að hugsa um. Eins og ég talaði um hér áður stýrir hún svo ákaflega miklu. Og jafnvel þótt atvinnurekendum gefist ekki eins mikið geðþóttavald til þess að reka fólk hér á landi og þeir gera annarsstaðar þá búa þeir samt sem áður yfir jafngildu ákvarðanatökuvaldi sem stýrir og mótar hegðun okkar innan sem utan vinnutímans. Þetta er mjög áhrifaríkt vald. Maður gæti jafnvel hugsað sig tvisvar um áður en maður deilir stjórnmálaskoðunum sínum á samfélagsmiðlum eða annarsstaðar af ótta við að það hafi áhrif á stöðu manns og öryggi innan veggja vinnustaðarins.

Þessi hugleiðing hefur það ekki að markmiði að lýsa yfir algjörum áfellingardómi í garð atvinnurekenda og fyrirtækja. Aftur á móti er markmið hennar að vekja okkur til mikilvægrar umhugsunar um það hver vensl launþega og atvinnurekenda eru í raun og veru. Þetta er þörf umhugsun vegna þess að ýmsir stjórnmálamenn og málpípur hagsmunasamtaka reyna í óðaönn að telja okkur trú um að hagsmunir atvinnurekenda og launþega séu beinlínis þeir sömu. Það er í ljósi slíks málflutnings sem þarft er að minnast verkalýðsbaráttunnar og alls sem hefur áunnist í gegnum hana, auk þess hvaða fórna réttindi okkar nú til dags hafa krafist af höndum verkafólks fortíðarinnar. Spurningin að lokum er því þessi, kæru hlustendur: hvað er bjagað við fyrirkomulagið í dag? Gæti staðan verið jafnari, og ef svo er, hvernig þá? Hverju gætum við þurft að fórna til þess að umbæturnar komist til skila? Gott er að hugsa þetta í sameiningu með djúpsæjum hugsuðum á við Anderson. Kannski ættum við að reyna að gera meira af því.

Fyrirlestrarnótur um Deleuze & Guattari og kapítalismann

Fyrirlestrarnótur um Deleuze & Guattari og kapítalismann

Að vera ekki, heldur verða

Að vera ekki, heldur verða