Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Að vera ekki, heldur verða

Að vera ekki, heldur verða

Simone de Beauvoir er einn frægasti heimspekingur 20. aldarinnar. Einna helst er hennar minnst fyrir verk sitt, Hitt kynið, stóran doðrant um femínisma. Sú bók er klárlega eitt af fremstu heimspekiverkum 20. aldarinnar og margar frábærar hugmyndir sem hún raddar í verkinu eiga vel við enn þann dag í dag. Jafnvel þau okkar sem hafa ekki kynnt sér heimspeki að neinu sérstöku marki eru líkleg til þess að hafa heyrt slagorðið „maður fæðist ekki kona, heldur verður maður að konu,“ sem verður að játa að hljómar dálítið klunnalega með öllum þessum mönnum í íslensku þýðingunni. Slagorðið merkir í grunninn að til þess að skilja kynjun sé algjörlega nauðsynlegt að hugsa um hana í samhengi félagslegra, verufræðilegra, efnahagslegra og lífeðlisfræðilegu samhengi auk hins líffræðilega. Þess að auki er hennar minnst sem einna höfuðkenningasmiða hinnar svokölluðu tilvistarheimspeki, ásamt heimspekingum á við Jean-Paul Sartre og Albert Camus, sem eru frægir bæði fyrir heimspekirit sem og skáldsögur sínar, sem oft voru ritaðar með heimspekilegu ívafi. Í pistli dagsins ætlum við þó ekki að tala um Camus og Sartre eða aðra tilvistarspekinga, heldur ætlum við að kanna í sameiningu fyrstu útgefni heimspekiritgerð Simone de Beauvoir, sem heitir Pyrrhos og Kíneas.

Pyrrhos og Kíneas kom út árið 1944, ári eftir að hennar fyrsta skáldsaga, L’Inviteé eða She Came to Stay á ensku, var gefin út. Skáldsagan var nógu heimspekileg í sjálfri sér en í Pyrrhos og Kíneas gengur hún vasklega beint til verks við að greina hið mannlega ástand og upplýsa okkur lesendurna um eðli þess. Tilefni þess að ég fjalla um þetta tiltekna verk er reyndar að það var gefið út tiltölulega nýlega hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi í íslenskri þýðingu Móheiðar Hlífar Geirlaugsdóttur, sem einnig ritar inngang. Þá skrifar Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur eftirmála. Þýðingin er prýðileg og verkið er auðlæsilegt á íslensku fyrir vikið, og á Móheiður mikið lof skilið fyrir þýðinguna, auk þess sem inngangur og eftirmáli eru fræðandi og skemmtilegir textar sem er vel þess vert að gaumgæfa rækilega fyrir og eftir lesturinn.

En — að innihaldi verksins sem slíks. Verkið grundvallast, eins og titillinn gefur til kynna, á persónunum Pyrrhos og Kíneas, en þessar persónur eiga sér fyrirmyndir í heimssögunni. Pyrrhos var grískur hershöfðingi og leiðtogi á helleníska tímabilinu. Við nútímafólkið eigum hugtak sem nefnt er eftir honum, eða réttara sagt eftir bardaga sem hersveitir hans háðu við Asculum — hugtakið „pyrrhískur sigur“. Það vísar til sigurs sem er virkilega naumlega unninn, með miklum fórnarkostnaði — dýrkeyptur sigur, það er að segja. Kíneas, aftur á móti, var ráðgjafi og vinur Pyrrhosar. Í upphafi verksins lýsir Beauvoir samtali milli kumpánanna þar sem Pyrrhos segist huga á landvinninga. Fyrst vill hann taka Grikkland, sagði hann, og Kíneas spyr hann — „Hvað svo?“ Pyrrhos svarar: „Þá leggjum við Afríku undir okkur.“ Enn spyr Kíneas: „En á eftir Afríku?“ Þannig ræða þær saman þar til Pyrrhos hefur talið upp allt sem hann vill leggja undir sig, og þar til Kíneas spyr sömu spurningar og áður: „Og hvað svo?“ Pyrrhos svarar því þá á þann veg að, æ, þá skuli hann nú hvíla sig. Kíneas spyr þá stóru spurningarinnar: „Hvers vegna hvílirðu þig ekki bara strax, Pyrrhos?“

Þessi dæmisaga ljóstrar upp um grundvallarvandamál mannlegrar tilvistar, segir Beauvoir, og ég held að hún hitti naglann á höfuðið. Lokaspurning Kíneasar er í raun spurningin um það hvers vegna í ósköpunum við erum alltaf að býsnast þessi ósköp — þetta virðist aldrei ætla að taka enda. Eftir hvern landvinning tekur við nýr landvinningur — og ef lokamarkmiðið er að endingu hvíldin ein gæti maður spurt sig til hvers maður ætti yfir höfuð að byrja á þessum blessuðu landvinningum. Maður gæti spurt sig að því sama nú til dags — við vinnum og vinnum og vinnum til þess að hafa í okkur og á allt þar til við öldrumst og fáum loksins hvíld. Í öllum föllum virðast spurningar Kíneasar ljóstra upp um viðhorf hans til lífsins — hann sér ekki hvers vegna maður ætti að vera að býsnast við þetta allt ef það verður svo allt til einskis, eða ef það tekur alltaf við nýtt markmið í hvert skipti sem maður lýkur hinu gamla af. Af spurningum hans að dæma gæti honum vel virst það fáránlegt, hreint út sagt.

Beauvoir telur hins vegar, að ég held, viðhorf Pyrrhosar talsvert heilbrigðara en viðhorf Kíneasar. Það eina sem Pyrrhos skortir er ímyndunaraflið — hvert gæti hann mögulega farið næst? Að mati Beauvoir er eðli mannsins fyrst og fremst hin svokallaða handanvera: maðurinn er aldrei það sem hann er, vegna þess að hann mun ávallt yfirstíga það í átt að framtíðinni. Við erum stöðugt að fara fram úr því sem við höfum verið til þessa, við erum alltaf að yfirstíga sjálf okkur. Við erum í grunninn einskonar óróleiki, það er eitthvað sem drífur okkur áfram eins og mótorinn keyrir öxulinn og þar með hjólin í hringi. Rétt eins og hjólið snúumst við umhverfis einhvern miðlægan kjarna, en ólíkt hjólinu breytist kjarninn með hverjum snúning sem við förum umhverfis sjálf okkur.

Þetta er auðvitað ekki laust við mótsagnir, þessi undarlega mannlega tilvist. Eins og Beauvoir bendir réttilega á erum við vissulega alltaf að reyna að fara fram úr sjálfum okkur, en í hvert sinn sem við gerum það fastsetjum við okkur einhvern endapunkt, jafnvel þótt við vitum að hann sé alls ekkert endapunktur. Eða vitum við það raunverulega? Það er nánast eins og við neyðumst til þess að búa við einhverja blekkingu til þess að geta fúnkerað — því það er ekki fyrr en mótsögnin birtist okkur sem við fyllumst kvíða eða tilgangsleysi eins og Kíneas virðist upplifa. Til hvers erum við eiginlega að þessu, spyrjum við — en við spyrjum þess aðeins þegar meðvitund okkar er hafin upp yfir tiltekna markmiðið að hverju sinn, þegar meðvitundin speglar sig í sjálfri sér og verður vör við grundvallandi fáránleikann sem við reynum að hylma yfir á hverjum degi. Ef til vill er það þessi speglandi sjálfsmeðvitund sem er undirstaða tilvistarspekinnar sem slíkrar.

Við virðumst vera handan ástæðna og handan tilgangs, eins og Beauvoir segir — en hvað þýðir þetta fyrir mannlega ástandið? Mér virðast strax spretta upp tveir valmöguleikar: það er annars vegar hægt að bregðast við með vonleysi og hugsa sér að ekkert skipti þá máli, þar eð það eru engar altækar lokaástæður, ekkert stórt markmið — en hins vegar er hægt að skilja þetta grundvallarleysi sem sinn eigin grundvöll og komast í skilning um að við séum fullkomlega frjáls til þess að velja okkar eigin markmið og okkar eigin ástæður. Kannski eru þetta ekki útilokandi viðbrögð — kannski getum við orðið dálítið óttaslegin en jafnframt vongóð samtímis.

Í öllum föllum er virkilega gefandi að hugsa með Beauvoir um hvað við erum fær um að gera sem og um það hvers vegna við gerum þessa hluti. Það virðist vera einhver sannleikur í staðhæfingum hennar þegar hún heldur því fram að maðurinn, og konan auðvitað, geri til þess að vera. Mannleikinn felst í því að fara stöðugt fram úr sér, að vera ekki heldur verða. Við eigum öll okkar sérstöku markmið — við lesum bækur, við hlaupum maraþon, við ferðumst, við sköpum — þessi óróleiki, þessi innri skortur, virðist vera kjarni veru okkar, að einhverju leyti. Við köstum okkur inn í þennan heim og setjum okkur okkar eigin stefnu, okkar eigin markmið. Til þess erum við frjáls að því leytinu til sem við erum við sjálf — meðvitaðir líkamar bundnir ákveðnum aðstæðum. Það er fagurt að hugsa út í þessi stóru vandamál samhliða risum hugsunarinnar, og þýðing Móheiðar á þessu ágæta riti Beauvoir gerir okkur einmitt kleift að gera það.

Hvað er fyrirtæki?

Hvað er fyrirtæki?

On two different conceptions of liberty

On two different conceptions of liberty