Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Fáfarinn vegur Parmenídesar

Fáfarinn vegur Parmenídesar

Þessi ritgerð var skrifuð snemma árs 2018. Hún fjallar um forsókratíska heimspekinginn Parmenídes sem hélt því fram, eins og frægt er, að allt væri Eitt, að engin breyting væri möguleg, og að heimur skynsemdarinnar, þ.e. þess sem við skynjum, væri tálsýn. Ritgerðin er frekar tæknileg og snertir helst á þýðingarvandkvæðum varðandi ljóðabrot Parmenídesar. Ritgerðin er því alls ekki fyrir alla — og óhjákvæmilega aðeins áhugaverð fyrir sumum. Njótið vel — þið fáu sem hafið áhuga! Hér er prýðilegt inngangsmyndband um Parmenídes fyrir áhugasama eftir próf. Angie Hobbs, og hér má lesa ágæta endurbyggingu á röksemdafærslu hans eftir próf. Christopher Shields.

Málverkið í haus heitir Via Appia at Sunset og er eftir Alexander Ivanov frá árinu 1845.


Í ljóðinu „Um náttúruna“ segir heimspekingurinn forni Parmenídes af Eleu frá því hvernig guðleg uppljómun færðist yfir hann og skýrði honum frá hinu raunverulega eðli heimsins. Hann er dreginn á hestvagni að hliðinu sem aðskilur dag og nótt þar sem hann lærir hin óvéfengjanlegu sannindi Réttlætisgyðjunnar — en þar lærir hann einnig um innantómar og falskar skoðanir hinna dauðlegu manna (28B 1.28-1.30). Hinn ævarandi sannleikur er sá að Veran er og að Neindin er ekki. Neindin hefur ekki einu sinni tilvist að því leyti að við getum hugsað um hana — og þegar við svo mikið sem gerum tilraunir til þess erum við mótsagnakennd (28B 6.6-6.9). Af þessu leiðir hann svo þá niðurstöðu að allt sé Eitt, óbifanlegt og eilíft.

Ljóðbrot Parmenídesar eru mjög torræð — og ekki hjálpar til að aðeins hafi brot varðveist. Þetta veldur því að til eru margar túlkanir á ljóðbrotunum — til að mynda telur færslan um Parmenídes á heimspekivef Stanford-háskóla fimm mismunandi algengar túlkanir á ljóðbrotunum. Ljóst er að nóg er um að hugsa þegar kemur að þessum flókna fornspekingi. 

Sérlega athyglisvert er hvernig Parmenídes setur frásögn sína upp — í ljóðinu segir gyðja Réttlætisins honum frá hinum tveimur hugsanlegu „vegum“ lærdóms (28B 2.1-2.5). Þessi frásögn Réttlætisgyðjunnar hefur leitt af sér mikinn túlkunarágreining sem er ekki síst þýðingarvandkvæðum að þakka — og hér er til margs að vinna, vegna þess að fullyrðingarnar sem um ræðir skipta að mínu mati lykilmáli í túlkun ljóðsins.

Í þessari ritgerð hyggst ég rannsaka hinar helstu frumspekilegu forsendur sem og aðferðafræði Parmenídesar. Í því ljósi skoða ég því næst nánar hvaða hlutverki „vegir“ Parmenídesar gegna, eins og hann lýsir þeim í ljóði sínu um sannleikann, og velti því fyrir mér hvort honum takist að sýna fram á að einn veg og aðeins einn sé yfir höfuð mögulegt að rannsaka. Að lokum kemst ég að því að æskilegt sé að túlka Parmenídes á þá vegu að hann sé að vissu leyti frumspeki-þekkingarfræðingur: kenning hans er tilraun til þess að útskýra hvernig sú staðreynd að „það sé“ geti verið okkar eini trausti grundvöllur til rannsóknar og raunverulegs skilnings.

Byrjum á því að leggja línurnar fyrir rannsókn Parmenídesar. Í fyrsta lagi gefur hann sér tilvist tveggja fyrirbæra: hugsandi tilvistar (sjálfsins) og einhvers viðfangsefnis (alls sem er) (28B 1.28). Því næst staðhæfir hann lögmál: til þess að hugsun geti verið hugsun verður hún að vera um eitthvað sem er — hún verður að mynda hugsunartengsl við eitthvað viðfangsefni sem hefur tilvist. Sé þessum skilyrðum ekki fullnægt verður engin hugsun (28B 8.34-8.36). Þessi tengsl eru skilningur eða þekking — sbr. orðaval Parmenídesar í 28B 2.2; νοῆσαι/noesai, sagnorð merkjandi „að skilja“ eða að „dæma um að vera á einn eða annan hátt.“ Af þessum grunnforsendum leiðir Parmenídes svo þá staðhæfingu að sé eitthvað hugsað og/eða skilið verði bæði hugsandin og þetta tiltekna eitthvað sem hugsað er nauðsynlega að búa yfir tilvist.

Mikilvægt er þó að skilja að Parmenídes staðhæfir ekki í þessu samhengi að það sem sé hafi háttarökfræðilega nauðsynlega tilvist — þ.e. að vegna þess að eitthvað sé hljóti það vegna þess nauðsynlega að vera (∃α→ ◻∃α) — sem er ósönn staðhæfing de re þótt hún geti verið sönn de dicto (t.d. er tilvist þessarar ritgerðar ekki nauðsynleg þótt hún hafi tilvist). Þvert á móti segir hann að „til þess að mögulegt sé að einhver hugsun hafi tilvist (◊∃γ) er í öllum tilfellum hugsunar nauðsynlegt (◻∀γ) að bæði gefin hugsandi (α) og viðfang hugsandinnar (β) hafi tilvist“, eða formlega: (◻∀γ)((∃α ∧∃β) ≡ ◊∃γ).

Til þess að hugsun geti yfir höfuð orðið (◊∃γ) þurfa bæði α og β að vera til (∃α ∧∃β), en tilvist α og β og ein og sér tryggir hins vegar ekki tilvist hugsunarinnar (∃γ) — hún er aðeins möguleg (◊∃γ). Samkvæmt sanntöflu jafngildisleiðingar er leiðing sönn þegar báðir liðir eru sannir eða báðir liðir ósannir (í þessu samhengi ef bæði eru til hugsandi og viðfang og möguleiki er á skilningi) en ósönn þegar annar liðurinn er sannur en hinn ósannur (í þessu samhengi ef hugsandi væri til en viðfang hugsandinnar væri ekki til, en þrátt fyrir það væri mögulega til hugsun eða skilningur). Jafngildisleiðingin væri þá sönn a) ef ósatt væri að annað hvort eða bæði hugsandi og viðfang séu til og ósatt væri að skilningurinn gæti mögulega verið eða b) ef bæði hugsandin og viðfangið hefðu tilvist og skilningurinn mögulega tilvist. Leiðingin væri hins vegar ósönn ef c) annað hvort eða bæði hugsandin eða viðfangsefnið væru ekki til og hugsunin væri mögulega til eða ef d) hugsandin og viðfangsefnið væru til en hugsunin væri ekki mögulega til. Það er svo af þessum frumsendum sem hann leiðir þá staðhæfingu að „hið sama sé [hafi Veru] og það sem mögulegt er að skilja [mynda tengsl við gegnum hugann]“ (28B 3).

Vopnaður þessum grunnforsendum um tilvist hugarins hugsandi og viðfangsefnisins umhugsaða sem og um tengsl þeirra hefur Parmenídes allt sem þarf til að hafa mótandi áhrif á sögu heimspekinnar. Við getum nú reynt að komast að því hvaða niðurstöður Parmenídes dregur af þessum forsendum. Í því skyni skulum við snúa okkur að öðru ljóðbroti — því sem snýr að hinum mögulegu vegferðum.

Í ljóðbrotinu segir gyðjan frá því að tvær leiðir séu skilningnum mögulegar: í fyrsta lagi sú að „það sem er, sé, og að ómögulegt sé fyrir það að vera ekki“ — í öðru lagi að „það sé ekki og að það sé rétt að það sé ekki“ (28B 2.1-2.5). Fyrri leiðin er rannsókn á Verunni, meðan síðari leiðin er rannsókn á Neindinni. Fyrri leiðin, segir gyðjan, er leið Sannfæringar, meðan síðari leiðin er „ófær til rannsóknar“ (28B 2.6-2.8). Þetta leiðir af röksemdafærslunni sem gert hefur verið grein fyrir hér að ofan: ef við setjum inn í rökstæðuna okkar (◻∀γ)((∃α ∧∃β) ≡ ◊∃γ)  að (∃α) sé satt en (∃β) ósatt (einhver hugsar, en um ekkert) og þar með að (∃α ∧∃β) sé ósatt er um leið ósatt að mögulegt sé að skilningurinn hafi tilvist. Af þessu leiðir að ef raunverulega ekkert er viðfang hugsandinnar getur ekki verið neitt sem heitir hugsun eða skilningur. Rannsókn á Neindinni væri því með öllu óskiljanleg og þar með „handan allra fregna“. Því eru til tvær hugsanlegar leiðir rannsóknar — en aðeins ein þeirra er raunverulega fýsileg að því leyti sem hún gæti ljáð manni þekkingu á veruleikanum. Mér virðist þessi niðurstaða gild og sönn, leiðandi nauðsynlega af frumsendunum sem hann gefur sér varðandi tilvist og hugtengsl. 

Notkun Parmenídesar á háttarökfræðilegu virkjunum „nauðsynlegt“ og „ómögulegt“ í þessu ljóðbroti er sérstaklega áhugaverð. Að mínu mati er líklegt að hann hafi verið að reyna að koma stoðum undir nauðsynleg skilyrði öruggrar þekkingar, að því gefnu að túlkun mín á frumsendunum tveimur varðandi tilvist og hugtengsl standist. Þessi túlkun útskýrir m.a. hvers vegna gyðja Réttlætisins greinir Parmenídesi ekki aðeins frá Sannleikanum heldur einnig frá hinum hverfulu δόξα/doxa (ísl. skoðunum) dauðlegra manna: þrátt fyrir að skynheimurinn sé óáreiðanlegur og stöðugt undirlagður af þvælukenndum þversögnum getum við ávallt verið sannfærð um sannleika þess að Veran er og að Neindin er ekki. Gyðjan greinir því frá báðum frásögnum með það að markmiði að stofna til samanburðar milli þess sem er óyggjandi og öruggt og þess sem er óáreiðanlegt. 

Helst hafa þó háttavirkjarnir sem Parmenídes notar í þessu tiltekna ljóðbroti vakið athygli heimspekinga vegna þess að deilt er um hvernig eigi að túlka þá. Í bók sinni The Presocratic Philosophers (bls 131-132) hefur Jonathan Barnes reynt að „endurbyggja“ þá röksemdafærslu Parmenídesar sem viðkemur vegferðunum þremur. Hann notast við brot 28B 2, 28B 6 og 28B 7 til þess að smíða formlega röksemdafærslu úr ljóði Parmenídesar. Hann fer vel að uppsetningunni, að mér finnst — fyrir utan eitt atriði. 

Í uppsetningu sinni á rökleiðingunni fyrir því að ekki sé mögulegt að rannsaka veginn hinn síðari, veginn sem leiddi Parmenídes niður öngstræti Neindarinnar, setur hann hann upp rökstæðuna (∀x)(¬∃x→ ¬ ◊∃x) sem eina forsendu af mörgum. Forsenduna leiðir hann út frá fyrstu tveimur línum ljóðabrots (28B 6.1-6.2), sem hljóða svo í enskri þýðingu Barnes: „What is for saying and for thinking of must be; for it is for being, but nothing is not: those things I bid you hold in mind.“ Þessi tiltekna þýðing er sérlega mikilvæg vegna þess að síðar í greiningu sinni lýsir Barnes þeirri skoðun sinni að vegna þess að forsendan (∀x)(¬∃x→ ¬ ◊∃x) sé ósönn (fyrir öll x gildir að ef x er ekki til þá er ekki mögulegt að x sé til) leiði niðurstaða röksemdafærslu Parmenídesar, eins og Barnes setur hana upp, ekki nauðsynlega af forsendunum.

Að mínu mati er hins vegar ekkert sem bendir til þess að út frá ljóðbroti 28B 6.1-6.2 megi fullyrða um Parmenídes að hann segi að það sem ekki sé geti ekki mögulega verið — fremur segir hann að það sem hægt sé að segja og/eða hugsa verði nauðsynlega að vera, vegna þess að það er „fyrir Veru“, öfugt við það sem ekki er. Í versta falli ætti hann að fá að njóta vafans — því það er vafamál hvort réttlætanlegt sé að nota háttavirkjann „must“ í samhengi Neindarinnar. Patricia Curd gerir það t.a.m. ekki í þýðingu sinni: „It is right both to say and to think that it is what-is: for it can be, but nothing is not: these things I bid you to ponder;“ og ekki John Palmer heldur: „It is necessary to say and to think that What Is is; for it is to be, but nothing it is not,“ meðan John Burnet notast við virkjana „possible“ og „not possible“ í þýðingu sinni frá 1892: „It needs must be that what can be thought and spoken of is; for it is possible for it to be, and it is not possible for, what is nothing to be.“

Ljóst er að eilífur túlkunarvandi mun ríkja í kringum ljóðbrot Parmenídesar — og manni virðist sem engri einni túlkun takist að skýra alla hluta ljóðsins sem eina samræmda heild. Ljóst er hve mikil áhrif það getur haft að þýða stakt orð á einn en ekki annan hátt, sem og hvaða frumsendur maður les úr Parmenídesi. Sérstaklega hefur eitt textabrot þvælst fyrir mörgum við túlkun á Parmenídesi — textabrot (28B 3), sem hljóðar svo: „... τὸ γὰρ αὐτὸ νοεῖν ἐστίν τε καὶ εἶναι,“ eða í enskri þýðingu John Palmer: „… for the same thing is for thinking and for being.“ Meðal annars byggir enski rökgreiningarheimspekingurinn G.E.M. Anscombe ritgerð sína um Parmenídes, „Parmenides, Mystery and Contradiction“ á þessu broti — en í ritgerð sinni notast hún einmitt við þetta tiltekna brot í 1892 þýðingu John Burnet, sem hljómar svo: „For it is the same thing that can be thought and that can be.“ (skáletrun ritgerðarhöfundar). Taki maður þessu broti í þessari tilteknu þýðingu sem gefnu getur maður skilið kenningu Parmenídesar á mjög sérstakan hátt — hátt sem ég tel óréttmætan — þar eð orðið „can“ er notað tvisvar á að því er virðist háttarökfræðilegan máta, táknandi möguleika og í þessu sambandi nauðsyn. Það er nákvæmlega þetta sem Anscombe gerir í ritgerð sinni — þar eð hún byrjar hana á að lýsa „röksemdafærslu Parmenídesar“, beitandi þessu textabroti sem meginforsendu. Það er þó umdeilt hvaða stöðu þetta tiltekna textabrot hefur innan kenningar Parmenídesar. Til að mynda efast heimspekingurinn Denis O’Brien um að þessi fyrsta forsenda Anscombe  geti þjónað sem raunveruleg frumstæða í röksemdafærslu. Í grein sinni, „Parmenides and Plato on What Is Not“, færir O’Brien rök fyrir því að þýðing Burnet frá 1892 sé vafasöm, auk þess sem ljóðbrotið (sem fengið er úr textum eftir Plótínos og St. Clement) kunni að vera umorðun á annarri fullyrðingu Parmenídesar í áttunda broti ljóðsins, línu 34: „Ταὐτὸν δ' ἐστὶ νοεῖν τε καὶ οὕνεκεν ἔστι νόημα,“ eða í enskri þýðingu Patricia Curd: „What is for thinking is the same as that on account of which there is thought.

En nóg um þýðingarvandkvæði. Mín eigin túlkun, eins og áður segir, hallast að því að Parmenídes sé að lýsa skilyrðum öruggrar þekkingar, eins og ég reyni að sýna fram á hér að ofan: meginviðfangsefni Parmenídesar er verufræðilegt samband hugsunar og viðfangs og þar með forsendur þekkingar. Flóknara er hins vegar að segja til um hvað þessi þekkingarfræðilega túlkun þýðir hvað varðar einhyggju. Ég tel líklegt að Vera Parmenídesar sé e.k. rökskynsamleg eða frumspekileg uppspretta alls þess sem getur verið fyrir tiltekna meðvitund — og sé Veran rannsökuð og skilin í sjálfu sér hljóti hún óhjákvæmilega að vera ein, óendanleg, og óumbreytanleg, sbr. 28B 8. Öðru máli gegnir um rannsóknir gegnum skynfærin, sem skrásetja tiltekið viðfang bæði sem verandi á einum tímapunkti og ekki verandi á öðrum, sem gerir það að verkum að verðandin sé því ávallt óáreiðanlegur grundvöllur „sann-gjarnrar“ rannsóknar, sbr. 28B 1.30 og 28B 6.4-6.9. Mér finnst því ekki fjarstæðukennt að lesa „Hið Eina“ Parmenídesar sem klett sem á væri hægt að reisa bjarghyggju, e.k. þekkingarfræðilega einhyggju — en vissulega er það aðeins ein túlkun.

Það mætti segja að með ljóði sínu komist Parmenídes að sjálfum kjarna frumspekinnar: rannsókn á veru að því leyti sem hún er vera — sem og að kjarna þekkingarfræðinnar, hugsun um rannsókn að því leyti sem hún er rannsókn. Með kenningu Parmenídesar opnast  þekkingarfræðileg gjá milli raunheims og hugarheims: hann lýsir skynfærunum og upplýsingunum sem þau færa okkur sem hverfulum meðan hann kemst að þeirri niðurstöðu að kraftar skynseminnar færi manni hinn raunverulega frumspekilega sannleik. Parmenídes mætti því ef til vill kalla „þekkingarfrumspeking“ — þar eð hann tvinnar leitina að uppsprettunni saman við leitina sjálfa, aðferðina — og það kann að vera hans helsta framlag til heimspekinnar.

Þýski hughyggjuspekingurinn G.W.F. Hegel segir í fyrirlestrum sínum um sögu heimspekinnar að með Parmenídesi hefjist hin eiginlega heimspeki raunverulega, þar eð í Parmenídesi sé að finna fyrstu svaðilförina til heims hugsjónarinnar. Það er margt til í því — þótt Hegel sé ljóslega að lesa aftur í tímann á sínum eigin forsendum — vegna þess hve mjög þetta litla ljóðbrot mótaði „heim spekinnar“ sem slíkan.


Heimildaskrá

Anscombe, G.E.M. „IX—Parmenides, Mystery and Contradiction“. Proceedings of the Aristotelian Society. 69. bindi. London: Proceedings of the Aristotelian Society, 1969. Bls. 125-132.

Barnes, Jonathan. The Presocratic Philosophers. Ritstýrt af Ted Honderich. Suffolk: Routledge, 2002. Bls. 155-175.

Perseus Digital Library. Ritstýrt af Gregory R. Crane. Tufts University. URL: <http://www.perseus.tufts.edu/hopper/> (sótt 1. febrúar 2018).

Hegel, G.W.F. Lectures on the History of Philosophy. Þýtt af E.S.Haldane. Lincoln: University of Nebraska Press, 1995. Bls 254.

Garson, James W. Modal Logic for Philosophers. Cambridge: Cambridge University Press, 2006. doi:10.1017/CBO9780511617737.

O’Brien, Denis. „Parmenides and Plato on What Is Not“. The Winged Chariot: Collected Essays on Plato and Platonism in Honour of L.M. De Rijk (Brill's Studies in Intellectual History). Ritstjórar Maria Kardaun og Joke Spruyt. Leiden: Brill, 2000. Bls. 19–105.

Palmer,  John. Parmenides and Presocratic Philosophy. Oxford: Oxford University Press, 2012. Bls. 367.

Palmer, John. „Parmenides“. The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vetrarútgáfa 2016). Ritstýrt af Edward N. Zalta. URL: <https://plato.stanford.edu/archives/win2016/entries/parmenides/> (sótt 1. febrúar 2018).

Parmenídes. On Nature. Þýð. John Burnet. 1892. Sótt af <http://philoctetes.free.fr/parmenidesunicode.htm> þann 1. feb 2018.

Parmenídes. Readings In Ancient Greek Philosophy: from Thales to Aristotle. Ritstýrt af S. Marc Cohen, Patricia Curd og C.D.C. Reeve. Indianapolis: Hackett Pub. Co., 1995. Bls. 40-47.

Um merkingu, tilvísun, skilning og lýsingu

Um merkingu, tilvísun, skilning og lýsingu

Epli, altök, eintök og tiltök

Epli, altök, eintök og tiltök