Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Tími, rúm og allt þar á milli

Tími, rúm og allt þar á milli

Þessa ritgerð skrifaði ég í áfanganum Nýaldarheimspeki í Háskóla Íslands. PDF-útgáfu af ritgerðinni, sem inniheldur tilvísanir og neðanmálsgreinar, hlekkja ég við hér fyrir áhugasama. Málverkið heitir At the Fountain og er eftir Henryk Hektor Siemiradzki.


Tími, rúm og allt þar á milli

Immanuel Kant og form skynhæfninnar

Immanuel Kant gaf út meistaraverk sitt, Gagnrýni hreinnar skynsemi (sem ég mun héðan í frá vísa í einfaldlega sem fyrstu gagnrýnina) árið 1781. Í verkinu útlagði hann hugmyndir sínar um forsendur allrar mögulegrar skynjunar og útlistaði hvaða afleiðingar niðurstaða sín hefði á frumspeki- og þekkingarfræðilegar kenningar. Vegna þess hve torskilið verkið var vakti það ekki viðbrögðin sem Kant hafði vonast eftir í fyrstu. Það var ekki fyrr en eftir að hann gaf út bæði svokallað Forspjall árið 1783 sem og nýja og endurbætta útgáfu fyrstu gagnrýninnar árið 1787 — auk þess sem nauðsynlegur tími leið til þess að fólk gæti melt og meðtekið það sem höfundurinn sjálfur áleit vera ígildi „kóperníkusarbyltingar í heimspeki,“ (Bxvi) — sem verkið hlaut þá viðurkenningu sem það verðskuldaði.

Þótt Kant sé best þekktur fyrir heimspeki sína var hann einnig vísindamaður, en eitt hans helsta verkefni í Forspjallinu var að tvinna saman svið raunvísinda og frumspeki. Það reyndi hann meðal annars að gera með hugtaki sínu um svokölluð form skynhæfninnar, undir hver hann felldi tímann og rúmið. Í þessari ritgerð hyggst ég rannsaka hvernig Kant sá fyrir sér bæði rúm og tíma. Ég mun gera tilraun til þess að skýra fyrst hvað það þýðir yfir höfuð að eitthvað sé form skynhæfninnar. Því næst kanna ég hvað það þýðir fyrir tilvist tíma og rúms að þau séu lækkuð í tign innan þekkingarfræði- og frumspekilegs kerfis Kant. Að lokum velti ég því stuttlega fyrir mér hvar kenning Kant stendur í nútímanum.

Nýaldarheimspekingar eins og Isaac Newton og Gottfried Wilhelm von Leibniz höfðu varið miklum tíma og bleki í að hugsa um rúm og tíma fyrir tíma Kant. Hvort er rúmið algjört og raunverulegt eða eitthvað afstætt sem verður til út frá samhengi hlutanna? Hvort er það efnislegt eða huglægt? Kant taldi sig hafa leyst þennan ágreining með forskilvitlegri hughyggju sinni. Eins og áður segir er Kant best þekktur fyrir fyrstu gagnrýni sína, en það er í fyrsta hluta verksins, Transcendental Aesthetic (A19/B33), sem hann lýsir hugmyndum sínum um rúm og tíma. Þessar hugmyndir hans eiga sér þó lengri forsögu. Til að mynda fjallaði svokölluð doktorsritgerð hans, Form og lögmál heima skynfæra og skilnings, um form skynjunarinnar, skilningsins og hinar aðskildu veraldir sviðanna tveggja – en í ritgerðinni neitar hann því í fyrsta sinn að tími hafi hlutlæga og raunverulega tilvist:  

Tími er ekki eitthvað hlutlægt og raunverulegt, hvorki efni né tilfallandi eiginleiki né vensl; fremur er tíminn forsenda sem verður að fullnægja ef viðföng skynjunarinnar eiga að geta verið tengd sín á milli með föstum lögmálum. Það er eðli hugans sem setur þessar forsendur, og því er tíminn huglægur.  

Kant heldur áfram í sambærilegum streng þegar hann fjallar um rúmið í sama riti. Til þess að skilja hugsun heimspekingsins um rúm og tíma í öðrum ritum hans, eins og Forspjalli að frumspeki og hinni fyrrnefndu fyrstu gagnrýni, skulum við byrja á að skilgreina nokkur kjarnahugtök heimspekingsins.

Við byrjum á þýska orðinu “Vorstellung” sem hefur verið þýtt sem hugmynd, og merkir huglæga mynd eða hug-mynd í hinum víðtækasta mögulega skilningi. Undir þetta fyrsta hugtak falla svo meðvitaðar hugmyndir og ómeðvitaðar, en við þurfum aðeins að hugsa um hinar meðvituðu hugmyndir í þessari ritgerð. Undir hinum meðvituðu hugmyndum finnum við skiptingu í hlutlægar og huglægar meðvitaðar hugmyndir. Þær huglægu eru skynjanir okkar meðan hinar hlutlægu meðvituðu hugmyndir okkar skiptast enn í tvennt: í hugtök og skoðanir. Hugtök eru virk meðhöndlun skilningsins og eiginlegt tak hugarins á viðfangsefni hugmyndarinnar — þegar hugurinn beitir kvíum skilningsins á hugmyndir fást hugtök, og hrein hugtök eru í raun þessar kvíar. Skoðanir, hins vegar, eru óvirk grundvallarform skilningsins, einföldustu mótin sem gögnum skynfæranna er steypt í, og þau allra fyrstu. Að lokum skilgreinir Kant hreinleika — en þær hugmyndir eru hreinar sem hafa ekki sem hina minnstu ögn af upplifunum reynslunnar blandaða saman við myndina sem hugurinn hefur frammi fyrir sér (A320/B376-77).

Vopnuð þessum skilningi á hugtökum Kant getum við loks séð fyrir okkur hina hreinu skoðun. Kant talar um að hún birtist okkur sem form svokallaðrar skynhæfni. Þetta segir hann vegna þess að skoðanir eru óvirk mót/form (sbr. ofangreindan greinarmun á hugtökum og skoðunum) sem öll skyngögn, eða viðfangs-efni — efni sem falla inn í form — verða að uppfylla áður en við getum beitt hinum virku hugtökum eða kvíum á þau. Þegar við hreinsum burt öll þessi skyngögn sitjum við uppi með hinar hreinu skoðanir: formleg a priori frumskilyrði þess að skynjanir séu skiljanlegar. Því má segja að hreinar skoðanir geri okkur hæf um að skynja, eða ljái okkur skynhæfni (A19/B33). Form skynhæfninnar, segir Kant,  eru svo þegar öllu er á botninn hvolft aðeins tvö: rúm og tími (A22/B36).

Rök Kant fyrir því að rúm og tími séu grundvallarform og forsendur allrar mögulegrar skynjunar eru þau að tími og rúm séu nauðsynlega a priori: tími og rúm eru ekki reynslubundnar hugmyndir: til þess að ég uppgötvi eitthvað annað fyrir utan mig þarf ég fyrst að hafa form rúmsins til þess að skilgreina hvað það er að vera „fyrir utan“ (A23/B38). Sambærilegar röksemdir gilda um tímann — til þess að skoða hvort eitthvað hafi gerst samtímis, á undan eða á eftir þarf fyrst að gera ráð fyrir tímanum. Að sama leyti telur Kant ómögulegt að hugsa sér eitthvað sem er annaðhvort ekki í rúmi eða tíma og hefur þó verufræðilega merkingu fyrir huganum (A24/B39). Hann telur ljóst að ef ekki væri fyrir form tímans væri engin breyting, og að ef ekki væri fyrir form rúmsins væri engin staðsetning — og án þessarra tveggja hugtaka hverfa önnur grunnhugtök, t.d. hugtök efnis og orku, um leið.

Rúm og tími eru því huglæg form, eitthvað sem bindur skyngögn og skipuleggur þau, skapar umgjörð innan hverrar skilningurinn getur beitt hugtakakvíum sínum. En þýðir þetta ekki að rúm og tími séu tilfallandi, huglæg fyrir hverjum og einum? Ef þau eru hvorki algjör né spunnin út frá venslum hluta í heiminum heldur huglæg hljóta þau að vera breytileg — ekkert getur verið algjörlega staðsetjanlegt í rúmi eða tíma og skoðun eins er jafngild skoðun annars hvað viðkemur hvaða þekkingu sem er. Er þá einu sinni hægt að tala um að tími og rúm séu raunveruleg, eigi sér rætur í alvöru heiminum?

Svar Kant við þeim sem spyrja að þessu er tvíþætt. Í fyrsta lagi þvertekur hann fyrir að rúm og tími og hlutir í þeim séu tilfallandi og ekki þekkjanlegir með vissu. Þótt tíminn og rúmið sem form séu huglæg beitum við þeim alltaf á hrá og hlutlæg gögn frá skynfærum okkar. Hlutlægni skyngagnanna kemur til móts við huglægni huga okkar og verður að taka á sig mynd sem er honum skiljanleg. Af þessu leiðir að formin hafa raunveruleika í reynslu okkar — en þessi sami raunveruleiki hyrfi eins og dögg fyrir sólu ef við útilokuðum möguleikann á reynslu (A28/B44). Formin „tími“ og „rúm“ eru því óneitanlega raunveruleg — það eina sem Kant segir er að þau séu aldrei eiginleikar hlutanna í sjálfum sér heldur alltaf fyrirbæri.

Tíminn gildir um öll möguleg ástönd, okkar innri andlegu ástönd meðtalin, jafnt sem ytri ástönd í rúmi — meðan rúmið á aðeins við um ytra skyn okkar. Um bæði formin gildir þó eins og áður segir að þau setja skynjuninni ákveðnar forsendur, sem hefur það í för með sér að allt sem við skynjum eru sýndir, fyrirbæri — en aldrei hlutir í sjálfum sér. Um leið og við beitum verkfæri hugans til þess að grípa hlutinn höfum við marið hann, breytt honum, útilokað fullkomna þekkingu á hlutnum. Kant leggur nánast melankólíska áherslu á að við getum aðeins talað um hið mannlega sjónarhorn (A26/B47) — að með því að eta af tré þekkingarinnar höfum við skapað okkar eigin útlegð frá Eden.

Kenning hans skapar því einskonar þekkingarfræðilega gjá: á meðan hún leggur okkur línurnar um það hvað nákvæmlega gæti talist til þekkingar og hverjar forsendur hennar eru setur hún okkur einnig takmörk um hvað geti ekki talist til þekkingar. Í Forspjalli sínu spyr Kant hinnar geigvænlegu spurningar hvort frumspeki sé yfir höfuð möguleg — og svarar henni játandi: að hún sé möguleg að svo miklu leyti sem hún fæst við kyrfilega skilgreinda forskilvitlega þekkingu og beitir gagnrýninni aðferðafræði. Rúm og tími, form skynhæfninnar, eru þekkingarfræðilegar frumforsendur og því takmarkandi, en þrátt fyrir eða enn fremur vegna þess gera þau okkur kleift að öðlast sameinandi þekkingu óháð allri mögulegri reynslu, a priori og apódiktískt.

Við spyrjum þá að leikslokum: hvaða arfleifð hafa þessar hugmynd Kant haft? Síðan fyrsta gagnrýnin var gefin út hefur tíma og rúmi til að mynda verið skeytt saman í eitt hugtak: rúmtíma. Afstæðiskenning Albert Einstein auk óevklíðskrar rúmfræði þeirra C.F. Gauss, Bernhard Riemann og fleirra hafa einnig fært okkur nýjar kenningar um það hvernig rúmið virkar. Kenningar Kant um tíma og rúm hafa verið umdeildar í seinni tíð, en meðal annars voru þær gagnrýndar af Hans Reichenbach. Út í þessa gagnrýni höfum við ekki pláss til að fara í þessari ritgerð, þótt áhugaverð sé. Engu að síður höfðu kenningar Kant um forskilvitlega hughyggju gífurleg áhrif — svo mikil, raunar, að þær gáfu af sér heilan skóla sem kenndur er við þýska hughyggju. Það er þess vegna sem mikilvægt er að skilja frumspekilega afstöðu Kant til tíma og rúms og þekkingarfræðilegu afleiðingarnar sem þessi afstaða hefur í för með sér. Von mín er sú að lesendur ritgerðarinnar yfirgefi hana fróðari um forsendur fróðleiksins en þau voru þegar þau hófu lestur.


Heimildaskrá

Einstein, Albert. “On Space-Time”. Encyclopædia Britannica, 1926. Sótt af <https://www.britannica.com/topic/Albert-Einstein-on-Space-Time-1987141> þann 29. apríl 2017. 

Friedman, Michael. “Einstein, Kant, and the relativized a priori.” Constituting Objectivity: Transcendental Perspectives on Modern Physics. Ritstjórar Michel Bitbol, Pierre Kerszberg, og Jean Petitot. Dordrecht: Springer, 2009. Bls. 253–267.

Friedman, Michael. “Space in Kantian Idealism.” Skilað til birtingar árið 2013 í enn óútkomnu riti, Space: A History. Ritstýrt af A. Janiak. Sótt af vef Friedman þann 15. apríl. URL:<https://philosophy.stanford.edu/sites/default/files/publications/friedman_spacekantianidealism.pdf

Gary Hatfield. “Kant on the perception of Space (and Time)”. The Cambridge Companion to Kant and Modern Philosophy. Ritstýrt af Paul Guyer. New York: Cambridge University Press , 2006. Bls 74.

Janiak, Andrew. "Kant's Views on Space and Time". The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Vetrarútgáfa 2016). Ritstýrt af Edward N. Zalta. URL: <https://plato.stanford.edu/archives/win2016/entries/kant-spacetime/

Kant, Immanuel. Critique of Pure Reason. Þýð. Max Müller. Penguin Classics: St. Ives, 2007. Allar vísanir í þetta verk fylgja hefðbundnu (A/B) formi í ritgerðinni.

Kant, Immanuel. Forspjall að sérhverri vísindalegri frumspeki framtíðar. Inngangur eftir Günter Zöller. Þýð. Skúli Pálsson. Reykjavík: Heimspekistofnun, 2008.

Kant, Immanuel. The Form and Principles of the Sensible and Intelligible World. Þýð. Jonathan Bennett. 2012. Sótt af www.earlymoderntexts.com þann 20. apríl 2017.

Kline, Morris. Mathematical Thought from Ancient to Modern Times. Þriðja bindi. New York: Oxford University Press, 1972.

Internetið sem formgerving hins illa

Internetið sem formgerving hins illa

Réttarspeki Hegels — IV. hluti: Ranglæti

Réttarspeki Hegels — IV. hluti: Ranglæti