Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hinn sókratíski Elenkos

Hinn sókratíski Elenkos

Elenkos [g. ἔλεγχος] Sókratesar hefst ávallt á því að Sókrates spyrji viðmælanda sinn um að útskýra eitthvað eins og það er í sjálfu sér. Þannig mætti segja að elenkosinn byggist á spurningunni: „varðandi gefið hugtak 'F' — hvað er þá F-leiki?“. Þannig gæti Sókrates spurt viðmælanda um hvað réttlæti sé, og skammað viðmælandann þegar hann gefur bara eitt einstakt dæmi um hvað sé réttlátt — þegar Sókrates er að leita að svari við því hvað réttlæti sem einstakt og abstrakt hugtak er í eðli sínu. Þetta er hin yfirlýsta aðferð. Það eru þó niðurstöðurnar, sem eru alltaf á skjön við þær sem Sókrates segist búast við, sem eru það áhugaverða við elenkosinn.

Hinn elenkíski stíll Sókratesar gengur þannig fyrir sig að viðmælendur heimspekingsins eru spurðir spjörunum úr, reyndir, með tilliti til þekkingar sinnar á einhverju tilteknu viðfangsefni. Þannig spyr Sókrates Evþyfró hvað guðrækni sé í raun og veru, og Krító hvað réttlæti sé. Hann byrjar á grófum dráttum, með því að spyrja hvernig viðmælandi sinn skilgreini hugtakið sem um ræðir. Því næst spyr hann aukalegra spurninga, sem í fyrstu kunna að virðast hafa ekkert að gera með hugtakið sjálft, en undir lokin hnýtir hann svör viðmælenda sinna við spurningunum saman í samloðandi heild sem virkar eins og hrakning á skilgreiningu þeirra komandi frá þeim sjálfum. Elenkusinn er í raun prófun á því hversu sjálfum sér samkvæmir viðmælendur hans eru — hvort þeir skilji fullkomlega hvað þeir eru að fullyrða og hvað það hefur í för með sér.

Elenkosinn má skýra nánar með tilvísun í Málsvörn Sókratesar, hvar hann lýsir því hvers vegna hann er vitrastur allra Aþeninga. Hann segir að félagi sinn hafi heimsótt véfréttina í Delfí og spurt hana hver sé vitrastur manna. Véfréttin svarar því að það sé Sókrates. Vinurinn færir Sókratesi þessar fréttir og hann er gáttaður — augljóslega er hann ekki vitrastur, margir aðrir eru um margt klárari en hann, þ.m.t. stjórnmálamenn, sófistarnir, listafólk og svo framvegis. Svo Sókrates heldur af stað í leiðangur til þess að reyna að afsanna fullyrðingu véfréttarinnar. Hann gengur á fólk hvaðanæva að og spyr það spurninga um það sem það segist vera viturt um. Sókrates kemst að því með þessum hætti, að spyrji hann þá sem telja sig hafa örugga þekkingu nógu lengi, lendi hann á endanum á grjóthörðum og þurrum botni viskubrunnsins — það kemur í ljós að þekkingin var byggð á þvælu eða mótsagnakenndum forsendum. Sókrates kemst loks að þeirri niðurstöðu að hann sé eftir allt saman sá vitrasti — en aðeins í þeim skilningi að hann sé meðvitaður um fávísi sína, öruggur í heimsku sinni.

Elenkosinn þjónar einmitt þessum tilgangi; að fá viðmælendur Sókratesar til þess að endurhugsa hugmyndir sínar og forsendurnar fyrir þessum hugmyndum. Sem slíkur er elenkosinn því frekar negatíf aðferðafræði — hún tekur einhverja þekkingu sem virðist augljós og rífur hana í sig með gagnrýninni hugsun og beittum klóm kaldhæðninnar. Sókratískar samræður enda oftar en ekki í apóríu [g. απορια], óvissuástandi þar sem enginn hefur rétt fyrir sér og allir fara heim ringlaðri en áður, vegna þess að Sókrates hélt því alltaf fram að hann vissi sjálfur ekkert og lagði því ekkert nýtt til málanna, reyndi aldrei að bera upp skilgreiningar til prófunar sjálfur. Ekkert var byggt upp í samræðunni, það eina sem átti sér stað var niðurrif. Þekkingaröflun er því ekki möguleg í elenkosaraðferðinni eins og Sókrates beitir henni. Það var þetta sem Platóni fannst vanta í jöfnuna.

Platón gagnrýnir elenkos Sókratesar í gegnum þversögn sem hann setur upp í samræðunni Menón. Í henni lýsir samnefndur Menón því yfir að ómögulegt sé að afla sér þekkingar. Í fyrsta lagi, segir hann, er gagnslaust að leita að því sem maður veit, vegna þess að maður veit það og þarf því ekki að leita að því, og það er ekki heldur hægt að leita að því sem maður veit ekki, því hvernig veit maður þá að hverju maður leitar? Elenkosinn, sem snýr að því rannsaka trúverðugleika og samræmi skoðunar viðmælanda Sókratesar, endar einmitt alltaf í apóríu, vegna þess að Sókrates lýsir ávallt yfir fávísi sinni. Gagnrýni Platóns hljóðar því á þessa vegu: Hvernig ætlar Sókrates að ætlast til þess að eiga samræðu við viðmælendur sína um það hvað réttlæti sé, eða hvað annað sem er, þegar enginn veit hvað réttlæti er til að byrja með? Eða, með öðrum orðum, hvernig veit maður að hverju maður leitar þegar maður veit ekki það sem maður leitar að?

Á þessum tímapunkti í Menóni breytist Sókrates. Hann hættir að vera Sókrates eins og Platón þekkti hann og verður að málpípu Platóns. Allt í einu leggur hann til að hægt sé að komast að þekkingu sem sálin hlaut í einhverjum yfirskilvitlegum heimi, heimi frummyndanna, og það sé hægt að rifja hana upp með einskonar elenkískri aðferð (sem er þó öfug við þá sem Sókrates beitti venjulega) þar sem þræll er spurður leiðandi spurninga um flatarmál ferninga. Hann beitir upprifjunarkenningunni til þess að sýna fram á að menn búi yfir einhverri innbyggðri a priori þekkingu, líkt og hann sýnir fram á þegar Sókrates kennir ómenntuðum þræl Menóns á samband hliða ferhyrnings — með þeirri aðferð einni að spyrja þrælinn spurninga!

Upprifjunarkenning Platóns grundvallast á því að sál mannsins sé ódauðleg og sé fær um að taka sér bólfestu í nýjum líkama í hvert sinn sem hún deyr. Milli þess sem hún er lifandi aðhefst hún þó í heimi frummyndanna — heimi sem efnislegur líkaminn er ófær um að komast í snertingu við — og það er þar sem sálin öðlast þessa yfirskilvitlegu þekkingu á eðli hlutanna eins og þeir eru í raun og veru, óháð brigðulum skynfærum okkar. Upprifjunarkenningin leggur því upp fyrir Platón eina risastóra þriggja stiga körfu í formi kenningar sem þekkt er á íslensku sem frummyndakenningin.

Frummyndakenningin byggir á því að til séu einskonar frummyndir allra hluta — sem efnislegir skynheimshlutir taka mið af og herma eftir, eða eru eins konar skuggamyndir, sem fanga raunveruleikann aldrei alveg. Þó höfum við mannfólkið aðgang að þessum frummyndum; aðgang sem fæst í gegnum hugann, skynsemina og hugsunina sjálfa. Við getum hugsað um frummynd hrings eða frummynd þríhyrnings, fullkominna eintaka þessa flata, en við munum aldrei rekast á slíkt fullkomið eintak í raunheiminum, heimi skynfæranna. Heimspekin, fyrir Platóni, snýst því um að rannsaka þessar frummyndir og komast að hinum raunverulega sannleika á bak við skynsýndirnar.

Frummyndakenninguna má með sanni kalla sparneytna vegna þess að hún svarar verufræðilegum, siðfræðilegum og þekkingarfræðilegum spurningum, öllum á einu bretti! Eins og ég sagði hér að ofan, þá segir Platón okkur öðlast þekkingu á hlutum — örugga þekkingu, það er — með því að komast í tæri við frummyndirnar meðan við erum dauð, og þessi hluti lýtur þá að þekkingarfræðinni. Siðfræðilegi hluti kenningarinnar snýr að því að Platón álítur þekkinguna á þessum frummyndum hina æðstu dygð, þar eð hún er forsenda þess að maður geti yfir höfuð breytt rétt. Verufræðilegum spurningum á borð við hvert eðli hlutarins sé í raun, óháð skynheiminum, er svarað með vísan til frummyndanna, sem eru yfirskilvitleg og aðeins útskýranleg í krafti skynseminnar, e.g. þá er það frummynd borðs sem útskýrir hvað það er sem borð, eins mismunandi og fjölbreytt þau geta verið í skynheiminum, er í eðli sínu.

Það er lengi hægt að velta vöngum yfir þeim komráðum, Platóni og Sókratesi, og velta fyrir sér meiningum þeirra í verkum þess fyrrnefnda. Sjaldan er allt sem sýnist — og oft leynast gulllíkneski falin innra með skítugum viðarstyttum Marsýasar.

Föstudagsljóð I

Föstudagsljóð I

Litið um öxl

Litið um öxl