Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Berlínskt frelsi og falskar meðvitundir

Berlínskt frelsi og falskar meðvitundir

Í ritgerð sinni frá 1958, „Tvö hugtök um frelsi,“ gerir heimspekingurinn Isaiah Berlin tilraun til þess að rannsaka hið síkvikula hugtak um frelsi. Hann velur á því tvo póla, þann neikvæða og hinn jákvæða, sem hann telur að séu hvað veigamestir, og rannsakar þá nánar. Sá neikvæði, í stuttu máli, lýtur að því sviði sem umkringir hvern einstakling eða hvern hóp og gerir honum eða þeim kleift að vera eða gera það sem þau eru fær um að vera eða gera, án þess að nokkur annar fái að skipta sér af því sem þau eru eða gera. Hins vegar snýr jákvæði póllinn að því að skilgreina hvað það er nákvæmlega sem er uppspretta þeirrar stjórnunar eða afskipta, sem getur ákvarðað að einhver sé eða geri eitt fremur en annað.

Neikvætt frelsi

Neikvætt frelsi í pólitískum skilningi er það frelsi sem felst í afskiptaleysi annarra af athöfnum mínum. Dæmi um grundvallarboðorð hins neikvæða frelsis eru til að mynda frelsi til eignar, frelsi til tjáningar og frelsi til sjálfsákvörðunar. Þessi neikvæði póll frelsisins er því einfaldlega það svæði athafna sem ég hef til athafna, óhindraður af öðrum mönnum. Þá telst ekki til ófrelsis að vera ekki fær um eitthvað vegna hindrana sem spretta af manni sjálfum — svo sem ef maður fæddist blindur eða haltur, og gæti þess vegna ekki lesið eða stokkið. Aðeins er átt við frelsissviptingar sem aðrir menn neyða upp á mann. Pólitískt frelsi snýst því aðeins um áhrif annarra manna á mann sjálfan. 

Ef til vill mætti lýsa neikvæðu frelsi sem einskonar möguleikaramma utan um hverja og eina persónu. Persónan getur gert hvað sem er innan rammans, en á sama tíma getur hún aldrei farið inn um ramma hjá öðrum. Þannig er maður bæði verndaður af rammanum en á sama tíma hamlar hann manni frá því að snerta aðra á sviðum hverjum maður hefur ekki erindi til að snerta á. Neikvæði ramminn sem umlykur okkur verndar okkur þó ekki aðeins frá öðrum einstaklingum og hópum, heldur einnig frá yfirþjóðfélagslegum kerfum og stofnunum á borð við ríkisvald. Ríkið getur því ekki brotið á neikvæðu frelsi mínu fremur en Jón nágranni getur það. 

Neikvætt frelsi, eins og það hefur einna helst verið skilgreint af hugsuðum á borð við Mill, hefur þó það einkenni að það krefst engrar sjálfsstjórnar sem slíkrar. Segjum að yfir okkur ríki einvaldur, sem þó lætur þegnum sínum eftir mikið einstaklingsfrelsi, eða neikvætt frelsi. Slíkur einvaldur gæti stuðlað að ótakmörkuðum ójöfnuði og látið sig eftirsóknarverð gildi eins og þekkingu, siðgæði og reglufestu litlu varða. Í þessum skilningi frelsisins er það með öllu óskylt hugmyndum um sjálfsstjórn og lýðræði. Hér skilur einmitt á milli neikvæðs og jákvæðs frelsis — lýsa mætti muninum á hugtökunum tveimur í svörunum við tveimur spurningum: „Hve mikið skiptir stjórnin sér af mér?“ væri þá svarað með því að sýna fram á einhverja tiltekna gráðu neikvæðs frelsis, meðan svarið við spurningunni „Hver stjórnar mér?“ væri þá byggt á einhverri birtingarmynd jákvæðs frelsis.

Jákvætt frelsi

Berlin telur það nefnilega ekki nóg að einfaldlega hafa þennan neikvæða ramma til þess að fullgera einstaklingsfrelsið sem slíkt. Í hugtakið skortir skilning á þessari djúpstæðu þrá hvers og eins einstaklings til þess að vera sinn eigin herra, taka ákvarðanir sjálfur af eigin rammleik og vilja. Það vill enginn láta stýra sér af ætlunum sem ekki spretta af manns eigin huga — hvort sem þessar ætlanir eru náttúrulegar eða samfélagslegar. Við viljum vera meðvituð um sjálf okkur sem sjálfstæða veru með sjálfstæðan vilja.

Jákvætt frelsi er það að taka sínar eigin ákvarðanir og hugsa sínar eigin hugsanir, óháð utanaðkomandi öflum heimsins sem kunna að sveigja okkur á sitt band þannig að við séum að framkvæma án þess að raunverulega vilja það. Þessi jákvæði póll er samt sjálfur auðsveigjanlegur hvað skilgreiningu varðar — það er auðvelt fyrir einvald að réttlæta pólitískar ákvarðanir sínar á því að hann framkvæmi fyrir hönd hins raunverulega sjálfs einhvers, sjálfsins sem hann er ekki í snertingu við — að þessi einstaklingur sé þræll ástríða sinna eða markaðsafla, og þess vegna kjósi ég fyrir hann. Þetta er það sem Berlin telur okkur þurfa að varast í allri umræðu um jákvætt frelsi. Öllum fyrirvörum sleppt er þessi svipur frelsisins þó gífurlega mikilvægur þótt vandskilgreindur sé og ekki sérlega meðfærilegur í praxís.

Sjálfur tel ég að varandi jákvætt einstaklingsfrelsi eigi sér tvær forsendur. Í fyrsta lagi þarf hver og einn einstaklingur að hafa hlotið viðunandi menntun frá unga aldri, til þess að geta skilið grundvöll mannlegrar þekkingar.  Þetta hlýst auðvitað með því að tryggja öllum aðgang að menntun, eins góðri og kostur er á — og samkomulag um þetta er að vissu leyti við lýði í dag, ef vangaveltum og dómum um gæði umrædds náms er frestað um stund. Í öðru lagi þarf einstaklingurinn sem um ræðir að viðhalda ákveðnu kartesísku dubito það sem eftir lifir. Þau þurfa að vera meðvituð um hlutverk hugmyndafræði í heimssýn okkar, meðvituð um fyrirframgefnar forsendur sínar, kafandi í sjálfið eins djúpt og unnt er áður en maður á í hættu á að krukka í einhverju sem ekki ætti að snerta við. Þessar tvær forsendur krefjast þess auðvitað að hver og einn hafi tíma til þess að hugsa um þessa abstrakt og flóknu hluti, sem er ekki eitthvað sem fólk af hvaða stétt sem er hefur nú til dags. Mér finnst því líklegt að okkur Íslendinga skorti jákvætt frelsi, að einhverju leyti.

Fölsk meðvitund

Hegel og Marx/Engels höfðu sína hverja hugmynd um það sem þeir kölluðu falska meðvitund, sem lýsir því hvernig þorri fólks getur talið sig hafa „meðvitund“ um hvatirnar sem það byggir ákvarðanir sínar á — þegar þessar hvatir hafa ekkert með hina raunverulegu ástæðu ákvörðunarinnar að gera. Hegel taldi, í mjög stuttu máli, að fölsk meðvitund yrði til meðal öreigastéttar hvers ríkis fyrir sig, þegar fátæktin snýr upp á réttlætisskyn þeirra og Réttur og Ranglæti glataðist. 

When the standard of living of a large mass of people falls below a certain subsistence level – a level regulated automatically as the one necessary for a member of the society – and when there is a consequent loss of the sense of right and wrong, of honesty and the self-respect which makes a man insist on maintaining himself by his own work and effort, the result is the creation of a rabble of paupers [Pöbel]. At the same time this brings with it, at the other end of the social scale, conditions which greatly facilitate the concentration of disproportionate wealth in a few hands.
— G.W.F. Hegel, Outlines of the Philosophy of Right, § 244

Falsmeðvitund Hegel byggir á því að pöpullinn telji sig Rétthafa á einhverju sem þeir eiga ekki tilkall til, og svo virðist sem hann gefi sér þá forsendu að efnisleg framfærsla sé hér kveikjan að hugmyndafræðilegri þróun/breytingu, sem kann að koma þeim sem bendla hann við „harða“ hughyggju á óvart (raunin er sú að þótt hann hafi vissulega verið ídealisti var hann á engan hátt berkeleyískur ídealisti — hann taldi efnisheiminn ekki tilfallandi á hugmyndum okkar um hann).

Þannig getur pöplinum fundist vera brotið á sér, þegar raunin er sú að allir innan Ríkisins eru innan Réttar síns. Hér er ég þó enn sem komið er óviss, því ég þykist ekki geta fullyrt um það hvort Ríkið sem Hegel talar um hér sé „við endalok sögunnar“ eða liður í þróun þess. Í fyrra tilfellinu hefur pöpullinn einfaldlega rangt fyrir sér — ekki er brotið á honum og hann skynjar ekki að raunverulegt frelsi er í vinnu og sjálfsvirðingu — en í síðara tilfellinu eru pöpullinn liður í Húsbónda/Þræls díalektík, og er ætlað að bylta yfirstéttinni í gegnum sögulega vinnu sína. Hvor túlkunin sem er vekur upp áhugaverðar spurningar varðandi síðari skilning Marx á þessum skrifum Hegels.

Hvað varðar þessa lykilmálsgrein og fleiri á sama stað í Réttarspekinni, þá urðu þær Marx svo kveikjan að stærri og viðameiri greiningu á háttaferlum kapítalismans, sem skapar þennan svokallaða pöpul og aðstæður hans.

Engels og Marx höfðu svo sinn eigin skilning á falsmeðvitund — sem þeir töldu Hegel, meðal annarra hugsuða, þjást óhjákvæmilega af í hugsun sinni. Marteinn Lúther og Kalvín bylta kaþólskunni, Hegel upphefur [Aufhebung] Fichte og Kant, Rousseau tekur fyrir Montesquieu, og svo framvegis — og allar þessar hreyfingar eru táknaðar innan hinnar almennu hugmyndafræði sem hreyfingar bundnar innan sinna tilteknu hugsunarsviða; guðfræði, heimspeki, stjórnmálafræði. Þær fara þó aldrei út fyrir þessi svið, og Engels segir hugmyndafræðina vera það sem meinar okkur að sjá hinar raunverulegu uppsprettur þessara hreyfinga: efnislegir framleiðsluferlar,  hagfræðilegar forsendur og stéttabarátta.

Ekki veit ég til þess að Marx sjálfur hafi nokkru sinni beitt orðasambandinu „false consciousness“ fyrir sér í ræðu eða riti, en Engels notast við það hér, í bréfi sínu til Franz Mehring:

Ideology is a process accomplished by the so-called thinker consciously, indeed, but with a false consciousness. The real motives impelling him remain unknown to him, otherwise it would not be an ideological process at all. Hence he imagines false or apparent motives. Because it is a process of thought he derives both its form and its content from pure thought, either his own or that of his predecessors. He works with mere thought material which he accepts without examination as the product of thought, he does not investigate further for a more remote process independent of thought; indeed its origin seems obvious to him, because as all action is produced through the medium of thought it also appears to him to be ultimately based upon thought.
— Frederick Engels, 1893

Þessi glögga greining bendir á það að þótt hugsuðum finnist þau vera einvörðungu að kljást við hugmyndir, óefnislegar og vofukenndar, þá liggi þeim ávallt að baki einhver efnislegur og hagfræðilegur bakgrunnur valdaskiptingar og eignar, sem mótar hugsun þeirra og stofnanirnar sem þau lifa og hrærast í meira en þau eru meðvituð um. Þar af leiðandi er hvöt þeirra til skrifa sinna fölsk, og raunverulega ástæðan að baki hugsuninni liggur að einhverju leyti í öðrum ytri hlutum.

En rétt eins og Berlin skrifar í riterð sinni, sem hefur öðlast réttmæta frægð, er gífurlega erfitt að meta slíka falska meðvitund og enn vandmeðfarnara að eigna einhverjum öðrum hana. Jákvætt frelsi hans og falsmeðvitund þýsku hugsuðanna þriggja sem hér var reifuð eiga því sitthvað sameiginlegt, og jafnvel er mögulegt að hugmynd Berlin um jákvætt frelsi hafi mótast allverulega af hugmyndinni um falsmeðvitund — en Berlin hefur söguna að baki sér, og hefur t.a.m. séð Sovétríkin byggja gífurlegt misrétti á þeirri hugsjón að verið sé að leiðrétta fyrir ákveðna falska meðvitund eða álíka.

Mál þetta er flókið mjög, en það ætti ekki að aftra okkur frá því að hugsa um það, vel og rækilega. Öllum þjóðhagslegum og stéttartengdum hugsunaræfingum um frelsi sleppt, þá er góður vani að reyna að kafa dýpra í eigin hvatir, og greina eins hlutlægt og unnt er hversu annarlegar eða ákjósanlegar þær eru í raun. Það er fyrsta skrefið í átt að sjálfstæðara og frjálsara lífi.

Forsíðumálverkið er Country Lane with Peasant eftir Léon Bonvin.

Réttarspeki Hegels — III. hluti: Samningar

Réttarspeki Hegels — III. hluti: Samningar

Föstudagsljóð I

Föstudagsljóð I