Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Réttarspeki Hegels — III. hluti: Samningar

Réttarspeki Hegels — III. hluti: Samningar

Í þriðju og fjórðu þáttum ritgerðaraðar minnar hyggst ég fjalla um lok fyrsta hluta Réttarheimspekinnar eftir þýska hughyggjuspekinginn G.W.F. Hegel. Í þessum næstsíðasta þætti fyrstu bókar Réttarspekinnar [Die Grundlinien der Philosophie des Rechts] snertir Hegel á Samningum [Vertrag] milli rétthafa. Að lokum mun ég fjalla stuttlega um það hvernig hugtök Hegels um virði og díalektík veita Karli Marx innblástur til þess að greina mismunandi þætti virðis skiptivörunnar í riti sínu, Auðmagninu. Í næstu ritgerð mun ég svo snerta á Ranglæti [Unrecht].


Samningar

Eins og ég fór yfir í fyrstu ritgerð minni er Réttur [Recht] sem slíkur hver sú tilvist sem er tilvist hins frjálsa Vilja. Einstaklingur sem hefur Rétt er þá með nokkurri rentu kölluð Persóna. Persónur geta beitt Vilja sínum og sett hann í eitthvað, einhvern hlut, sem er ekki Persóna, og gerast þar með eigendur hlutarins. Málin vandast svo örlítið þegar við tölum um margar og mismunandi Persónur í samfélagi, hvaða samfélagi sem er hvar Persónur eigna sér hluti. Það getur verið frumstætt eða háþróað, þéttbýlt eða strjálbýlt, o.s.frv. — gildir einu í þessu samhengi — en það sem skiptir máli er að Persónur (fleirtalan skiptir hér máli) hafi Rétt til þess að eiga hluti.

Þegar fleiri Persónur koma fram á sjónarsviðið, hver fyrir sig eigandi tiltekna hluti og aðra ekki, sumar þeirra viljugar til að koma á viðskiptum við aðrar, aðrar tilbúnar að gefa ástvinum sínum eða kunningjum eignir sínar, og enn fremur vilja fleiri leigja eignir sínar út til annarra. Það er hér sem Samningar koma inn í myndina. Eins og venjulega skiptir Hegel þessum öðrum undirkafla (af þremur) fyrsta hluta bókarinnar (af þremur) í, já, þrennt. Eins og innan annarra undirkafla fyrsta hluta Abstrakt Réttar eru þessi þrjú atriði þó ekki díalektísk per se — Það er að segja, þau eru ekki sín á milli aðskilin augnablik í þríþátta neitun sem endar í/hvarflar á milli upphafningar.

Samningar byggja á þeirri nauðsynlegu forsendu að Persónu-leiki hvers og eins einstaklings sem er hlutaðeigandi að hverju samningsferli sé virtur sem slíkur — sem stakur Vilji með Rétt. Þegar þetta gerist má segja að mannsandinn [Geist] þróist frá því að verða huglægur, einstakur og afmarkaður, og verði hlutlægur, þ.e. afmarkaður sem hlutkenndur og konkret raunveruleiki í efnis/hugheiminum sem við eigum öll sameiginlegan. Reglur Samningsins eru því fyrstu þreifanir mannsandans á hinu hlutlæga sviði andans og eru sem slíkar fyrstu „lögin“ í hversdagslegum skilningi orðsins.

[Það er e.t.v. gott að nefna það fyrir þá sem eru lengra komnir í Hegel-seiðskrattaskap en hafa ekki lesið þetta tiltekna verk þá hleypur hann hér yfir kenningu sína um Meistara/Þræl (hverja ég þekki aðeins yfirborðskennt gegnum Kojéve og mun ekki snerta á fyrr en ég les um hana í PhoS síðar meir) þar eð þessi fyrstu kynni frjálsra Vilja eru eitthvað sem gerist eftir að upphafningu M/Þ díalektíkurinnar er lokið þar eð báðar Persónur verða að virða hvor aðra sem fullmótaðar og jafnréttháar Persónur.]

Díalektík Samnings

Ég, sem Persóna/Vilji í söluhug, inniheld því tvö mótsagnakennd díalektísk augnablik [augenblick] á sama tíma. Í fyrsta lagi hef ég Vilja minn í eigninni og útiloka sem slíkur alla aðra vilja. Eignin er mín og aðeins mín. Það er ómögulegt fyrir nokkurn annan að koma vilja sínum fyrir í eigninni því það er ekki þeirra Réttur — það sem áður var hlutur er nú orðið einskonar framlenging á mér, á mínum Rétt. Í öðru augnablikinu læt ég af eign minni í krafti eignarhalds míns (þ.e.a.s., ég gæti ekki látið af henni nema að ég ætti hana til að byrja með) til þess að skapa rúm fyrir öðrum Vilja, til þess að láta einhverjum öðrum en mér eign hlutarins í té. Á sama tíma vil ég því eiga hlutinn og ekki eiga hann.

Ég mæli með því að þið hægrismellið á myndina, opnið hana sér og skoðið þannig.

Ég mæli með því að þið hægrismellið á myndina, opnið hana sér og skoðið þannig.

Það sem gerist að lokum er að huglægur Vilji minn gengur í gegnum tímabundna upphafningu [Aufhebung] hvar hann verður hlutlægur — hann sameinast Vilja annarrar persónu og myndar þar með svið hins hlutlæga Anda (e. Objective spirit) í fyrsta sinnið. Utanliggjandi hluturinn sem eigendurnir skiptu á milli sín er orðinn eins konar hlutgerving einingar Viljanna tveggja, eða sameiginlegur Réttur. Það sem gerir hann hlutlægan er að hann er ekki bara innan hugarheims þessarar eða hinnar meðvitundar og frjáls Vilja heldur hefur Rétturinn hlotið efnislegt gervi og ekki nóg með það heldur er annar mannsvilji kominn inn í spilið sem umturnar öllu. Viljinn eins og hann birtist á sviði hlutlægs Anda kallast altækur Vilji.

Í gegnum Samninga geri ég Vilja minn hlutlægan fyrir sjálfum mér, ýti honum út í umheiminn, og fæ hann svo aftur, til staðfestingar um að hann sé þó enn til og minn eigin. Þetta gerist þó aðeins þegar hann kemst í snertingu við annan frjálsan Vilja, hvar tveir Viljar Persóna sameinast og ná einingu. Það er þó þess vert að taka fram að þessi eining felur ekki í sér að Viljarnir tveir séu nákvæmlega eins, því það eru þeir ekki. Þeir gætu einmitt ekki náð neinni einingu til að byrja með væru þeir það, því þeir þyrftu þess ekki. Þeir væru bara það sama.

Samningar verða til uppúr geðþóttaákvörðunum Vilja og eru sem slíkir aðeins staðhæfðir/fullyrtir af viðkomandi samningsaðilum. Þeir lýsa því aðeins tilteknum hlutlægum Vilja sem er ekki enn orðinn altækur. Við komumst síðar að því hvernig einstaklingsViljinn getur orðið hliðstæður eða samsvarandi þessum altæka Vilja, sem felst að sögn Hegels í hugmyndinni um Ríkið. Samningur staðsetur eignina (í hverjum vilji Persónunnar er bundinn við hlut sem gerir hann að eign per se), á sviði hins hlutlæga anda, þ.e., eitthvað sem mætti kalla Hlutlægan Vilja kemur fram á sjónarsviðið. Þegar ég kem á Samningum við einhvern, hvort sem er í gegnum gjöf, skipti eða leigu, er ég að staðfesta það að ég sé raunverulegur og hlutlægur eigandi hlutar, en aðeins til þess að afsala mér eigninni — áframselja hana til einhvers annars, sem tekur þá við henni og setur vilja sinn í hana.

Þetta fyrsta skipti og þau næstu sem á eftir koma eru þó aðeins eins og neistar í myrkri — því við höfum ekki enn komist á stig siðferðisvitundar eða siðlegra stofnana, sem kristalla þennan hlutlæga Anda í hinu raunverulega/skynsama/hlutstæða. Við komum að því síðar, í stofnunum hins Siðlega Lífs [Sittlichkeit].

Gjöf, Skipti, Heit — og munurinn á eignum og yfirráðum yfir þeim

Nú þegar ég hef skilgreint eðli Samningsins á þennan grundvallarhátt vil ég rétt snöggvast snerta á hinum þremur flokkum samninga sem Hegel útlistar, þótt þeir séu ekki sérlega veigamiklir eða einu sinni flóknir skilnings í textanum. Þessir flokkar eru Gjöf, Skipti og Heit. Þau eru nokkuð sjálfskýrandi hugtök, en ég vil engu að síður koma stuttlega við þau svo ég fari nú rækilega yfir allan kaflann.

Gjöf er endurgjaldslaus tilfærsla eignarhalds á eign milli einnar persónu til annarrar, hvort sem um er að ræða hlut, lán eða greiða: allt framkvæmir sá gjafmildi án þess að búast við eða gera kröfu til þess að hinn aðilinn veiti einhverja þjónustu eða endurgjald á móti. Hér er þó nauðsynleg forsenda þess að gjöfin gangi upp sem gjöf sú að viðtakandinn langi yfir höfuð að eiga þennan hlut — einhvern langar e.t.v. að gefa mér hund, en sjái ég mér ekki fært að bera ábyrgð á lífi og vellíðan gæludýrs get ég neitað því að taka við gjöfinni og Samningurinn endar því á þann veg að ekkert varð úr honum; Viljar beggja sameinuðust ekki.

Skipti hins vegar liðast niður í tvo megindeili: I. Skipti: a) hrein og klár vöruskipti og b) kaup á vöru með peningum eða öðru verðmæti og II. Leigu: a) útleiga á hlut og b) útleiga á hreinu virði sem slíku, eins og í peningaláni. Ég vil snerta sérstaklega á þessu nánar með tilliti til skiptivörunnar eins og Marx skilgreinir hana, og geri það í næsta hluta ritgerðarinnar — svo ég vil halda þessum lið stuttum.

Að lokum er svo um að ræða svokölluð Heit (note: hafði áður notað orðið Leiga, sem mér finnst ekki viðeigandi lengur). Þau þarfnast ef til vill dálítillar útskýringar umfram nafn hugtaksins eitt og sér þar eð annar greinarmunur kemur hér inn í myndina. Heit snúast um það hvernig maður fullgerir formlegan samning — hvernig maður lofar hinum aðilanum, til að mynda, að maður sé að fara að greiða fullt verð fyrir leiguna á húsinu — eða hinum megin frá, að maður lofi að nota ekki húsið sjálfur á meðan hinn aðilinn hefur það á leigu. Greinarmunur á eign og yfirráðum er hér nauðsynlegur — því þótt ég eigi húsið sem ég er að leigja út þá hef ég ekki yfirráð yfir því, ég hef heitið því að skilja við notin til þess að fá notavirðið í hendurnar í formi peninga eða álíka í staðinn fyrir að geta notað hlutinn sjálfan.

Þessi greinarmunur á eign og yfirráðum vekur svo upp áhugaverða spurningu um virði hlutar, eins og hann raungerist í viðskiptum og Samningum milli manna — og nú næst hyggst ég rannsaka þetta virði og innra ferli þess nánar, eins og það birtist í Auðmagni Karls nokkurs Marx. Þið sem engan áhuga hafið á Marx og hans hugsunum getið því hætt að lesa hér — kaflanum um samninga er nokkurn veginn lokið.

Díalektík skiptivörunnar

Eins og allir vita bygði Karl Marx, höfundur frægra rita á við „Gagnrýni á Gothastefnuskrá þýska verkamannaflokksins,“ og „18. Brumaire Loðvíks Bonaparté,“ hugsun sína að miklu leyti á skrifum Hegel, en sérstaklega hreifst hann af hugtakinu um hina hegelsku díalektík — þó hann væri ekki allsáttur við það eins og Hegel beitti því fyrir sig. Honum fannst það of dulspekilegt, of hughyggjulegt — svo hann ákvað að snúa henni á hvolf, eins og frægt er. Hann reyndi að smíða sér efnishyggjulega díalektík, og mörgum finnst honum hafa tekist ágætlega upp með þá tilraun. Nú ætla ég hins vegar að fjalla stuttlega um skilning Marx á skiptivörunni, eins og hún birtist fyrst í fyrsta bindi Auðmagnsins, hans stærsta og umdeildasta verki.

Auðmagnið sjálft, að undanskildum formálum þýðenda og útgefenda, Marx sjálfs, inngangi og öðrum blúndum, hefst á þessum orðum (Penguin 1979):

The wealth of those societies in which the capitalist mode of production prevails appears as “an immense accumulation of commodities”; the individual commodity appears as its elementary form. Our investigation therefore begins with the analysis of the commodity.
— Karl Marx

Marx byrjar á því að tala um skiptivöruna (e. commodity), mögulega vegna þess að hún kemur við líf okkar allra — ekkert okkar kemst hjá því að komast í snertingu við skiptivörur. Við neyðumst til þess að neyta þeirra svo við deyjum ekki, við neyðumst til að framleiða þær til þess að við deyjum ekki, og svo framvegis. Skiptivörur eru okkar lifibrauð, okkar súrefni — og því er við hæfi að byrja þar. Það skondna við skiptivöruna er að hún er að miklu leyti kapitalískt fyrirbæri — í þeim skilningi að hún tók ekki á sig þá mynd sem hún hefur í dag fyrr en kapítalismi hófst — þegar markaðir tóku við sem meginframleiðslustillir mannlegra samfélaga. Fyrir þann tíma framleiddi flest fólk aðeins ofan í sig og sína, án þess að þurfa að hugsa út í markaðsvirði framleiðslu sinnar.

Skiptivörur eru frábrugðnar öðrum framleiðsluvörum á þann hátt að virði þeirra er tvíþætt. Í hverjum hlut sem framleiddur er innan gefins kapitalísks hagkerfis hefur hluturinn bæði notavirði og skiptivirði (e. use-value/exchange-value), sem eru mótsagnakennd. Það er að segja, ef þú vilt skipta hlutnum, þá hefur hann sjálfur engin not fyrir þig, en á sama tíma verður hann að hafa notagildi fyrir einhverjum öðrum til þess að hægt sé að skipta honum yfir höfuð. Því má segja að notagildi og skiptigildi eyði hvoru öðru en viðhaldi hvoru öðru — notavirði skiptivörunnar fyrir seljandanum er þá skiptivirði hennar, og skiptivirði vörunnar fyrir kaupandanum er á sama hátt notavirði hennar fyrir þeim. Þannig sveiflast virði vörunnar milli þess sem það er í notkun og þess sem það er í skiptum. Það er aðeins í krafti þessarar mótsagnakenndu hreyfingar sem við getum talað um skiptivöru yfir höfuð — að því leytinu til að þessi togstreita er innifalin í henni, og er það sem gerir hana að því sem hún er.

Marx hefur að líkindum fengið einhverjar hugmyndir hvað þetta varðar að láni frá Hegel, sem lýsir því í kafla sínum um Samninga að það sé virði eignanna sem samið er um sem viðhelst frá manni til manns — þegar maður a kaupir eitthvað fyrir peningana verður virði eignarinnar og peninganna að vera (eða líta út fyrir) að vera jafngilt. Mæti það þessum kröfum ekki verður ekkert úr Samningnum, nema að sá sem vöruna á ákveði að gefa hana frá sér. Hins vegar getur það einnig skeð, að söluaðilinn er ómeðvitaður um hið raunverulega skiptivirði vörunnar sem hann er að láta frá sér — og þá er einmitt um Ranglæti að ræða, annars stigs Ranglæti nánar tiltekið: pretti, fjársvik.

En nóg í bili. Ég hlakka til að birta næstu færslu í umfjölluninni um Réttarspekina. Það verður eitthvað meira efni á milli þar til þá — en ég er byrjaður að rissa upp drög að Ranglætinu. Endilega smellið í læk á Facebook og látið mig vita, ef þið lásuð, hvernig ykkur fannst.

Málverkið efst heitir Landscape with the Ashes of Phocion (1648) og er eftir Nicolas Poussin (1594–1665).

Mikillæti, ofurmenni og  heimssagan sjálf

Mikillæti, ofurmenni og heimssagan sjálf

Berlínskt frelsi og falskar meðvitundir

Berlínskt frelsi og falskar meðvitundir