Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Inngangur að þýðingu á Formála að Réttarspeki Hegels

Inngangur að þýðingu á Formála að Réttarspeki Hegels

Þessi stutta grein fylgdi með þýðingu minni á Formálanum að Réttarspeki Hegels sem nýverið kom út í Hug (32/2021). Hún er skrifuð með það í huga að skýra samhengi og nokkra höfuðpunkta formálans og verksins sem slíks. Mér datt í hug að endurbirta hana hér fyrir áhugasama. Njótið vel.

Málverkið í haus er eftir Thomas Cole og heitir “A View of the Mountain Pass Called the Notch of the White Mountains (Crawford Notch)” (1839).


Grundlinien der Philosophie des Rechts, sem útleggja mætti á íslensku sem Megindrættir réttarheimspekinnar – eða einfaldlega Réttarspekin – er verk um stjórnmálaheimspeki eftir Georg Wilhelm Friedrich Hegel (1770–1831).

Réttarspekin er stórmerkilegt verk og ætti með réttu að vera skyldulestur fyrir öll þau sem leggja stund á stjórnmálaheimspeki af nokkurri alvöru – jafnvel bara vegna þess hve ólíkt öðrum „kanónískum“ stjórnspekiritum það er að forminu til sökum hinnar „spekúlatífu“ aðferðar sem Hegel notast við – aðferð sem stundum er kölluð „díalektísk aðferð“ eða „eðlisrýni“ (e. immanent critique).

Verkið var gefið út árið 1821, en frá upphafi var það ekki hugsað nema sem handbók eða leiðarvísir fyrir nemendur hughyggjuspekingsins þýska – rétt eins og kennarar nú til dags notast við glærusýningar átti Réttarspekin að vera nemendum innanhandar í þeim fyrirlestrum Hegels sem lutu að heimspeki réttar og ríkis. Allt er það og vel – en verkið sem um ræðir er því miður ekki prentað hér í heild sinni á hinu ástkæra ylhýra, heldur hefur undirrituðum aðeins tekist að snara á íslensku formálanum sem birtist á undan heildarverkinu.

Formálinn er þó alls ekki af verri endanum, enda afar bitastæður, ljóðrænn og skemmtilegur. Hegel er óvenju yfirlýsingaglaður og jafnvel glettinn í þessum texta, sem er óvenjulegt fyrir mann sem yfirleitt lék sér að því að nauðbeygja tungumálið í ótrúlegustu uppásnúninga, hringavitleysur og refhvarfakennd glímubrögð. Formálinn einn og sér inniheldur nefnilega háfleygar fullyrðingar – fullyrðingar sem mætti jafnvel segja að hafi verið bitbein ýmissa hugsuða allar götur síðan.

Til að mynda má finna í honum tilvísunina frægu í „uglu Mínervu“, tákn viskunnar, tákn Soffíu – sem „hefur sig ekki til flugs fyrr en rökkva tekur“. Þetta mætti ef til vill lesa á þá leið að heimspekin mæti alltaf of seint á vettvang til þess að geta fengið nokkru breytt um stöðu mála – en eins og flestir vita var Marx nokkur, einn þekktasti lærisveinn Hegels, á allsendis öndverðri skoðun, eins og fleyg orð hans í hinum frægu „Tesum um Feuerbach“ vitna til um.

Sömuleiðis má finna í formálanum þá staðhæfingu að „hið skynsamlega sé virkilegt, og að hið virkilega sé skynsamlegt“, sem hefur svo sannarlega verið rifist um í aldanna rás – en þessa staðhæfingu könnum við örlítið betur hér í framhaldinu. Umræðan um þessi frægu kenniorð Hegels hefur verið öfgakennd á köflum og ýmislegt um spekinginn sagt sem varla á við rök að styðjast.

Einnig má finna í formálanum dularfullar og jafnvel ljóðrænar lýsingar. Til að mynda talar Hegel um að heimspekin „bæti sínu gráa ofan á grátt“ – og svo telja margir að finna megi tilvísun í rósikrúsíanisma eða Rósakrossregluna svokölluðu, leynilegrar dulspekireglu sem naut talsverðra vinsælda meðal lærðra manna á öldum áður, svo sem þegar Hegel minnist á „rósina í krossi samtíðarinnar“, og eins þegar hann segir að „[hér sé] rósin, dansaðu hér“.

Fleira athyglisvert mætti telja upp úr textanum, en ég læt ykkur lesendurna um að halda upptalningunni áfram á eigin spýtur. Vert er að segja örfá orð um það sem Réttarspekin sem slík fjallar um – og hvert markmið formálans sé þá.

Meginhlutverk Réttarspekinnar, ef marka má röksemdafærslu Hegels í þessum formála, er að fanga hugtak ríkisins:

Þetta fræðirit, að því leyti sem efni þess lýtur að ríkisvísindum, er því alls ekkert annað en tilraun til þess að gera ríkinu skil og setja það fram sem eitthvað sem er í sjálfu sér skynsamlegt. Sem heimspekilegt rit verður það að vera eins fjarri því og mögulegt er að vera tilraun til þess að smíða ríki eins og það ætti að vera; lærdómurinn sem kann að búa í ritinu getur ekki samanstaðið af því að kenna ríkinu hvað það ætti að vera, heldur getur það aðeins sýnt fram á það hvernig skilja beri ríkið, þennan alheim siðleikans.

Markmið verksins er því alls ekki að skrifa út ígildi heimspekilegra IKEA-leiðbeininga um það hvernig fyrirmyndarríki eigi að vera í smíðum – heldur er markmiðið einfaldlega að lýsa þeirri rökvísi sem myndar undirstöðu og yfirbyggingu hugtaksins um ríkið (þótt svo leiki auðvitað önnur vídd sína rullu: sagan, sem er sinn eigin kapítuli í heimspeki Hegels eins og margfrægt er orðið).

Þessi „vísindalega“ lýsing er að minnsta kosti hið yfirlýsta markmið Hegels. Vissulega væri auðvelt að gagnrýna þetta markmið á þeim grundvelli að greinarmunurinn á „lýsandi“ (e. descriptive) og „stýrandi“ (e. normative) orðræðu sé óljós í besta falli og gagnslaus í hinu versta – þótt Hegel hafi eflaust verið manna best meðvitaður um slíka próblematík. Þrátt fyrir það væri okkur hollt að byrja á því að taka heimspekinginn á orðinu, að minnsta kosti fyrst um sinn, áður en stokkið er í gagnrýni. Það krefst raunverulegrar og mikillar erfiðisvinnu að ætla að skilja hugsun annarra, og vandkvæðin margfaldast svo ljóslega þegar viðkomandi notast við jafn tyrfinn stíl og Hegel, blessaður karlinn. [1] Það er nefnilega einmitt þar – þegar við tölum um vandkvæðasaman greinarmuninn á lýsandi og stýrandi orðræðu – sem gott verður að huga að venslunum milli hins skynsamlega og hins virkilega á nýjan leik.

Helst hefur tvísetningin svokallaða [þ. Doppelsatz] – þ.e. setningin „hið skynsamlega er virkilegt, og hið virkilega er skynsamlegt“ – verið lesin á þrjá vegu. Í fyrsta lagi hefur hún verið lesin sem blygðunarlaus íhaldsréttlæting á því sem nú þegar er, í öðru lagi hefur hún verið lesin sem byltingarkennt loforð um það sem muni koma, og í þriðja lagi hefur hún verið lesin sem hlutlaus og lýsandi skuldbinding við heimspekilega rökhyggju. [2]

Samkvæmt fyrstu tveimur túlkununum – sem hafa verið bendlaðar við annars vegar hægri og hins vegar vinstri (eða aldna og unga) fylgismenn Hegels – felur tvísetningin í sér stýrandi eða deontólógíska skuldbindingu gagnvart hugtakinu um „hið skynsamlega“, skynsemi sem er þá annaðhvort þegar komin (samkvæmt hægri túlkuninni) eða ókomin en komandi (samkvæmt vinstri túlkuninni). Þriðja túlkunin, aftur á móti, les tvísetninguna á lýsandi vegu: hið virkilega er það sem fyrir ber og okkur er kleift að hugtaka það einmitt vegna þess að það er skynsamlegt.

Þótt fulldjúpt sé tekið í árinni að halda því fram að tvísetningin ein og sér geti þjónað sem fullnægjandi túlkunarfræðilegur lykill að Réttarspekinni allri, telur undirritaður að vel sé þess vert að liggja yfir merkingu setningarinnar, vilji lesöndin komast að rökskynsamlegri niðurstöðu um innihald verksins. Svo afstaðan sé uppi á borði er undirritaður þeirrar skoðunar að best sé að lesa setninguna á þriðja mátann.

Sennilega vill Hegel koma eins konar stjórnspekilegri núvitund til skila til lesenda sinna; rósin í krossi samtíðarinnar er ekkert annað en skynsemin eins og hún hefur raungerst og orðið virkileg í samtímanum – og það er aðeins í gegnum heimspekina sem við getum sæst við skynsemina sem dvelur í virkileikanum sem slíkum. Eins og Hegel kemst svo afbragðsvel að orði: „Hið mikilvæga er þá að bera kennsl á íverandi og eilífa verund núsins í sýnd þess sem er skammvinnt og hverfur.“

Í formálanum er Hegel að biðja okkur um horfast í augu við veruleikann. Hann er að biðja okkur að hugsa málið, vera gagnrýnin, skoða röksemdirnar, kanna hugtakavenslin. Hann er að biðja okkur um að svara kalli heimspekinnar og mæta heiminum af hugrekki og með fullri meðvitund: „[S]annleikann þarf [...] að hugtaka [begreifen]; innihaldið sem er þegar rökrænt í sjálfu sér verður að ávinna sér form skynseminnar, þannig að það öðlist réttlætingu í frjálsri hugsun.“ Frelsi og sjálfs-ákvörðun hugsunar og anda eru að mörgu leyti hjartslátturinn í öllum heimspekilegum skrifum Hegels – þótt hálfheyrnarlausir heimspekingar á við Karl Popper heyri þar fátt annað en fasískan trumbuslátt – og það er þess vegna sem Hegel og verk hans eiga enn erindi við nútímann.

Þýðingin var unnin við Háskóla Íslands árið 2019 undir frábærri ritstjórn og leiðsögn prófessors Björns Þorsteinssonar, sem gaumgæfði hvert orð og var til halds og trausts gegnum allt ferlið. Undirritaður ákvað að láta ýmis orð og orðasambönd úr þýska frumtextanum fylgja með inni í íslenska textanum, lesendum til hliðsjónar og fróðleiks. Vonin er sú að þessi þýðing verði fleirum hvatning til frekari þýðinga á verkum Hegels, sem enn til þessa dags hefur hlotið tiltölulega litla raunverulega athygli innan íslenskrar akademískrar heimspekihefðar, þrátt fyrir að vera sannkallaður risi þegar litið er til spjalda heimspekisögunnar. Vert er minnast á að Skúli Pálsson hefur nýverið gefið út prýðisgóða þýðingu á formálanum að Fyrirbærafræði andans, sem þýðir að nú geta íslenskir Hegel-unnendur lesið tvo fína formála eftir meistarann á íslensku – og það er sannarlega fagnaðarefni.

[1] Skólabræður hans í Tübingen Stift – meðal hverra voru jú Hölderlin og Schelling – kölluðu hann gjarnan „gamla manninn“ (þ. der alte Mann). Það var sennilega full ástæða til.

[2] Fyrir góða umræðu um þetta, sjá t.d. Stern, R. „Hegel’s Doppelsatz: A Neutral Reading“. Journal of the History of Philosophy, vol. 44, no. 2, 2006, bls. 235–266. Project MUSE, doi: 10.1353/hph.2006.0032.

„Varnið þeim eigi“ – málsvörn fyrir barnalýðræði

„Varnið þeim eigi“ – málsvörn fyrir barnalýðræði

Merking eftir Fríðu Ísberg – ritdómur

Merking eftir Fríðu Ísberg – ritdómur