Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Formáli að Útlínum réttarheimspekinnar eftir G.W.F. Hegel í íslenskri þýðingu

Formáli að Útlínum réttarheimspekinnar eftir G.W.F. Hegel í íslenskri þýðingu

Formáli að Útlínum réttarheimspekinnar 

eftir Georg Wilhelm Friedrich Hegel

Þýðing eftir Karl Ólaf Hallbjörnsson


Inngangur þýðanda

Þessi þýðing hefur verið lengi í smíðum og betrumbætt og yfirfarin þó nokkuð oft. Ég hófst handa við að þýða þetta verk Hegels, Útlínur réttarspekinnar og ætlaði þá að ljúka því að þýða það einfaldlega í heild sinni, sem hliðarverkefni (sem gæti enn orðið raunin!). Þó nokkru síðar, þegar ég var ríflega hálfnaður með formála verksins, sagði ég Birni Þorsteinssyni, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, frá því að þetta gengi svona mátulega hjá mér. Björn leyfði mér svo góðfúslega að taka þetta gæluverkefni upp hjá Háskólanum og var mér mikil stoð og stytta við ritstjórn og yfirferð. Ég vil þakka honum eindregið fyrir alla hjálpina og ráðgjöfina. Þýðingin væri ekki næstum jafn stílhrein og slípuð ef Björn hefði ekki komið að verkefninu. Ég hef legið á þýðingunni í meira en ár núna meðan ég nam við Warwick-háskóla, en gaf mér nýlega dulítinn tíma til þess að fara aftur yfir verkið og breyta og lagfæra ýmsu. Eftir að ég lauk minni þýðingu hefur Skúli Pálsson einnig lagt lokahönd á þýðingu sína á formála Fyrirbærafræði andans, og hefur sú þýðing verið gefin út sem lærdómsrit HÍB með frábærum inngangi Björns Þorsteinssonar. Það er mér mikið gleðiefni að loks sé Hegel gefinn gaumur innan íslenska fræðasamfélagsins og að þýðingar séu farnar að birtast. Ég vil þar með ljá ykkur þessa forláta þýðingu mína sem framlag til íslenskrar heimspekilegrar þýðingarstarfsemi og vona að einhver njóti góðs af henni.

Auðvitað er eflaust eitthvað sem mætti betur fara í orðavali hvað viðkemur hugtakanotkun Hegels — og óhjákvæmilega greinir fólki á um hvernig þýða eigi veigamestu hugtökin. Einhver mismunur er á minni þýðingu og svo þýðingu Skúla. Ég hef kosið að þýða orðið “wirklich” og “wirklichkeit” sem virkileg/ur og virkileiki, hugtök sem oftast eru þýdd sem “actual” á ensku. Ef mig minnir rétt þá notar Skúli orðið raunverulegur yfir þetta hugtak í þýðingu sinni. Að sama skapi greinir okkur á um orðið “element” sem Hegel notar stundum, orð sem hefur ríflega sömu merkingu og essið í orðasambandinu “að vera í essinu sínu” — Skúli þýðir það einfaldlega sem element en ég nota hins vegar frumþáttur. Aftur á móti sammælumst við, ef ég fer rétt með það, um að þýða “Idee” sem hugsýn, “vorstellung” sem hugmynd og “Begriff” sem hugtak. Áhugasamir geta dundað sér við að bera saman þennan þýðingarmismun — eflaust er margt hægt að læra af þessum tveimur tilraunum okkar og vonandi munu þær verða til þess að betri þýðingar líti dagsins ljós í náinni framtíð. Enn eigum við eftir að sjá heildræna þýðingu á einu af helstu meistaraverkum Hegels, verkum á við Rökvísindin eða Fyrirbærafræðina, og von mín er sú að slíkar þýðingar birtist fyrr en síðar.


Formáli

 

Beint tilefni útgáfu þessa grunntexta [Grundriß] er þörfin [Bedürfnis] á því að verða áheyrendum mínum út um leiðarvísi [Leitfaden] að fyrirlestrum þeim sem tilheyra embætti mínu og lúta að réttarheimspeki. Þessi kennslubók er ítarlegri og talsvert kerfisbundnari útfærsla á sömu grunnhugtökum [Grundbegriffe] og þegar má finna í öðru verki mínu, Alfræði heimspekivísindanna (Heidelberg, 1817), sem einnig var ætluð til nota við fyrirlestra mína.

Á hinn bóginn varð sú staðreynd að þessi handbók yrði gefin út á prenti og birtist þar með almenningi tilefni þess að víkka út þó nokkuð margar athugasemdir[1] mínar, sem höfðu upphaflega þann tilgang að gera í stuttu máli grein fyrir skyldum hugmyndum eða frábrugðnum, frekari ályktunum og þvíumlíku, þ.e. efni sem hefði annars fengið nauðsynlegar skýringar í fyrirlestrum mínum. Markmiðið með útvíkkun athugasemdanna er að varpa ljósi á hina óáþreifanlegri og torskildari [abstrakteren] hluta textans, sem og það að veita hinum viðteknu hugmyndum þessa tíma góða athygli. Í þessu er að leita skýringarinnar á því að athugasemdum mínum hefur fjölgað talsvert meira [weitläufig] en hæfir stíl og stefnu kennsluefnis [Kompendium] af þessu tagi. Sannkölluð [eigentliches] greinargerð hefur hinsvegar að viðfangsefni sínu það sem talið er vera lokuð hringrás [Umkreis] viðtekinna [angesehenen] vísinda [Wissenschaft]. Það sem er viðeigandi innan hennar—fyrir utan dulitla viðbót hér og þar—er fyrst og fremst samsetning og uppstilling hinna mikilvægustu andráa [wesentlichen Momente] viðfangsins, sem lengi hefur verið vel þekkt og viðtekið, rétt eins og form uppstillingarinnar hefur sínar reglur og hefðir sem hafa lengi verið við lýði. Ekki má þó búast við því af heimspekilegum leiðarvísum að þeir fylgi þessu fyrrnefnda sniði [Zuschnitt], þó ekki væri nema vegna þess að búist er við því að heimspekin gangi til hverfulla starfa sinna líkt og Penelópa að vefnaði sínum, og byrji upp á nýtt hvern einasta dag.

Meginmunurinn á þessari handbók og venjulegri kennslubók [Kompendium] býr vafalaust í aðferðinni sem viðhöfð er. Í þessari bók geri ég fyrirfram ráð fyrir því að framsækinn rannsóknarháttur heimspekinnar, sem leiðir frá einu efni [Materie] til hins næsta, og vísindaleg sönnunaraðferð hennar—hin endurspeglandi [spekulative] uppspretta þekkingar—sé í eðli sínu frábrugðin öllum öðrum aðferðum þekkingaröflunar. Ekkert annað en sú innsýn að slíkur mismunur [Verschiedenheit] sé óumflýjanlegur getur bjargað heimspekinni frá þeirri skammarlegu hnignun sem gegnsýrir hana um þessar mundir. Satt er að form og reglur hinnar gömlu rökfræði—skilgreiningar, flokkanir og rökhendur, auk reglnanna sem stýra því hvaða skilningsþekkingu [Verstandeserkenntnis] er unnt að öðlast—hafa reynst endurspeglandi [spekulative] vísindum ófullnægjandi; raunar hefur þessi misbrestur ekki verið viðurkenndur, hans hefur einungis orðið vart. Þessum reglum hefur verið fleygt úr vegi [weggeworfen], líkt og þær væru ekkert annað en fjötrar, í því skyni að veita hjartanu, ímyndunaraflinu og tilfallandi skoðunum [Anschauung] fullt tjáningarfrelsi. Hins vegar verða speglun [Reflexion] og hugmyndatengingar nauðsynlega að koma inn í myndina, og því hverfur fólk í meðvitundarleysi aftur til hinna forsmáðu aðferða venjulegra ályktana og röksemdafærslna [Räsonnement].

Þar eð ég hef gert grein fyrir eðli hinnar endurspeglandi þekkingar í Vísindum rökfræðinnar hef ég í þessari handbók aðeins bætt við skýringarklausum hér og þar varðandi framgang og aðferðir. Vegna þess hve áþreifanlegt [konkreten] og fjölbreytt viðfangsefnið er í eðli sínu hef ég sleppt því að sýna fram á og útskýra röksemdir mínar í hverju einasta smáatriði. Að hluta til kynni það að hafa virst óþarfi að hafa með slíkar útskýringar fyrir þeim sem þegar hafa haft kynni af heimspekilegri aðferðafræði og gera ráð fyrir henni; að öðrum hluta er ljóst út frá verkinu sjálfu að heildin, rétt eins og uppbygging hinna einstöku hluta hennar, hvílir á hinum röklega anda [dem logischen Geiste]. Frá þessu sjónarhorni óska ég þess að verkið sé lesið og dæmt. Því það sem verkið snýst um eru vísindi, og í vísindunum er innihaldið óhjákvæmilega bundið forminu.

Við megum auðvitað búast við því að heyra frá þeim sem aðhyllast þá djúptæku skoðun að formið sé eitthvað utanaðkomandi og óháð viðfangsefninu, og að hið síðarnefnda sé það eina sem máli skiptir; enn fremur telja þeir að hlutverk höfundarins, sérstaklega þess sem skrifar um heimspeki, sé að uppgötva sannindi, að fullyrða um sannleika, útbreiða sannleika og áreiðanleg hugtök. En ef við veltum fyrir okkur hvernig þetta verk er oftast innt af hendi komumst við að því að í fyrsta lagi er það sama gamla kálið sem er hitað upp æ ofan í æ og framreitt fyrir alla viðstadda. Þetta verk kann að hafa þá kosti að það menntar og örvar hjörtu fólks; en betur færi á því að líta á það sem óþarfan slettirekusperring – „Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.“[2] Við höfum nefnilega fjöldamörg tækifæri til þess að undrast tilgerðarlegan tóninn sem einkennir slíka boðbera sannleikans þegar þeir láta sem heiminn hafi ekkert skort nema þróttmikla útbreiðslu þeirra á sannleikum; eins og upphitaða kálið þeirra framreiddi einhver ný og áður óséð sannindi, hjartans mál sem útheimti óskerta athygli okkar og forgang „um þessar mundir“ og alla daga. Hins vegar uppgötvum við að einu gildir hverju einn heldur fram sem sannindum, það er hrakið með sambærilegum sannindum sem einhver annar aðhyllist. Ef við gefum okkur þá, að eitthvað sé sameiginlegt öllum þeim fjölbreyttu sannindum sem mynda þessa endalausu holskeflu, eitthvað sem er hvorki nýtt né gamalt heldur viðvarandi, hvernig á þá að leiða það út frá þessum vangaveltum sem sveiflast formlausar úr einu í annað – hvernig á að skilja það frá þeim og sanna það, ef ekki með vísindunum?

Hvernig sem á það er litið er hið sanna um rétt, siðleikann [Sittlichkeit] og ríkið eins fornt og hin kunna og viðtekna útlegging þess í opinberum lögum, opinberu siðferði og í trúarbrögðum. Hvað skortir þennan sannleik, að svo miklu leyti sem þenkjandi andi [Geist] lætur sér ekki nægja að búa yfir honum á þann hátt sem okkur er nærtækastur? Svarið er að sannleikann þarf líka að hugtaka [begreifen]; innihaldið sem er þegar rökrænt í sjálfu sér verður að ávinna sér form skynseminnar, þannig að það öðlist réttlætingu í frjálsri hugsun. Slík hugsun lætur sér ekkert nægja sem er gefið, hvort sem það á stoðir sínar í annarlegu kennivaldi ríkisins ellegar í samkomulagi milli fólks, né heldur kennivald innri tilfinninga, hjartans og vitnisburðar andans sem sammælist hinu gefna samstundis. Þvert á móti gengur frjáls hugsun í upphafi út frá sjálfri sér og heimtar þannig að þekkja sjálfa sig í hinni innstu sameiningu sinni við sannleikann.

Hin óvilhalla sál tekur sér þá einföldu afstöðu að fylgja því sem er almennt talið satt með tiltrúarfullri sannfæringu, og byggir hegðun sína og afstöðu í lífinu á þessum bjargfasta grunni. Gegn þessari einföldu afstöðu er strax unnt að vekja athygli á hinum meintu vandkvæðum sem henni fylgja: hvernig er hægt að greina og uppgötva það sem er almennt og undantekningarlaust viðtekið og gilt í hinum óendanlega fjölbreytileika skoðana? Athyglin sem vakin er á þessum vandkvæðum kann í fyrstu að koma okkur fyrir sjónir sem réttmæt og einlæg umhyggja fyrir málefninu [Sache], en í reynd eru þeir sem gorta sig af því að geta bent á þessi vandræði allsendis ófærir um að sjá skóginn fyrir trjánum; vandræðaleikinn sem um ræðir er af þeirra eigin völdum. Öllu heldur eru þessir erfiðleikar þeirra og vandræði sönnur fyrir því að þeir vilji eitthvað annað en það sem er almennt viðurkennt og gilt, eitthvað annað en raunverulegan rétt og siði. Væri þeim nokkur alvara með hinu síðastnefnda hefðu þeir haldið sig við raunveruleika réttarins, sem eru nefnilega boð siðleikans og ríkisins, og stýrðu þá lífi sínu í samræmi við þau í stað þess að stytta sér stundir við hégómleika tiltekinna skoðana.

Erfiðleikarnir aukast svo enn fremur við þá staðreynd að mannveran hugsar og reynir að finna frelsi sitt og grundvöll siðlegs lífs í hugsuninni. Þessi réttur, jafn háleitur og guðdómlegur sem hann er, verður að órétti ef hugsunin telur sig aðeins réttnefnda og frjálsa þegar hún víkur frá því sem er undantekningarlaust viðurkennt og gilt, eða þegar hún uppgötvar að hún geti fundið upp eitthvað tiltekið um sjálfa sig.

Hinar nútímalegu hugmyndir, sem eru þess efnis að frelsi hugsunar og frelsi andans almennt komi aðeins í ljós þegar vikið er á fjandsamlegan hátt frá því sem er opinberlega viðurkennt, gætu virst eiga rætur sínar í sambandi við ríkið; þess vegna gæti sömuleiðis vel virst sem svo að stjórnspeki hafi í eðli sínu það viðfangsefni að uppgötva og kunngera enn eina kenninguna, og nýja, einstaka kenningu þess að auki. Þegar við könnum þessa hugmynd og starfsemina sem henni fylgir gætum við, út frá henni, haldið að það hafi aldrei gerst að eitt einasta ríki eða nokkur einasta stjórnarskrá hafi verið til, hvað þá að til séu ríki í nútímanum, en að núna—og þetta „núna“ varir að eilífu—séum við knúin til að byrja alfarið upp á nýtt og að hinn siðlegi heimur hafi beðið þess í ofvæni að núna hafist verði handa við slík verkefni, rannsóknir og sannanir. Hvað náttúruna varðar gefur fólk sér að heimspekin verði að kynnast henni eins og hún er, að viskusteinninn liggi einhvers staðar falinn, einhvers staðar innan nátturunnar sjálfrar, að náttúran sé í sjálfri sér skynsöm og að þau viðföng þekkingarinnar sem rannsaka á og skilja til hlítar séu einmitt þessi skynsemi sem sé til staðar í henni; ekki uppstillingarnar og tilviljanirnar sem birtast hinum grunnhyggna áhorfanda, heldur ævarandi samhljómur náttúrunnar—samhljómur, að vísu, í skilningi þeirra lögmála og eðlis sem í henni býr. Hins vegar er hinum siðlega heimi, eða ríkinu (þ.e. skynsemi raungerð í frumþætti [Elemente] sínum, sjálfsmeðvitundinni), ekki leyfilegt að njóta hins góða gengis sem sprettur af þeirri staðreynd að skynsemi hefur gert sig bæði að afli og valdi innan þessa frumþáttar sem viðheldur sér og býr þar.


Viðbót:[3] Lög eru tvennskonar; náttúrulögmál og lögmál réttarins. Lögmál náttúrunnar eru einfaldlega það sem þau eru og gild sem slík; þau geta ekki molnað sundur, þótt þau geti fallið niður í einstökum tilfellum. Til þess að geta þekkt lögmál náttúrunnar verðum við að kynnast náttúrunni sjálfri, þar eð lögmál hennar eru rétt og aðeins hugmyndir okkar um þau geta verið rangar. Mælikvarði þessara lögmála er utan okkar; þekking okkar bætir engu við þau né eflir þau; þekking okkar á þeim getur víkkað út, og það er allt og sumt. Þekking á rétti er á einn hátt sambærileg, en á annan hátt er hún það ekki. Við öðlumst þekkingu á lögum í samræmi við tilvist þeirra; þekking borgarans á þeim er nokkurn veginn með þessu lagi, og lögmenn vildarréttarins [der positive Jurist] láta sér að sama skapi duga það sem þeim er gefið. Munurinn á lögum réttarins og náttúrunnar er hins vegar sá að þau fyrrnefndu örva ávallt anda íhugunarinnar, og fjölbreytileiki þeirra dregur alltaf athyglina að því að þau séu ekki algjör. Lög réttarins [Rechtsgesetze] eru eitthvað sem er sett fram [Gesetztes], eitthvað sem á uppruna sinn í mannverum. Milli þess sem af því sprettur og okkar innri raddar getur nauðsynlega orðið hvort sem er, árekstur eða samhljómur. Mannveran lætur sér ekki nægja það sem við blasir [Daseienden], heldur fullyrðir að innra með sér búi hún yfir mælistiku réttarins. Hún kann að vera ofurseld nauðung og valdi utanaðkomandi yfirráðamanna, en þó aldrei á sama hátt og hún er ofurseld nauðsyn náttúrunnar, því hennar innra sjálf kveður alltaf á um hvernig hlutirnir ættu að vera og hún finnur innra með sér staðfestingu eða höfnun á því sem tekið er gilt. Í náttúrunni er hinn æðsti sannleikur sá að þar séu lögmál yfir höfuð; í lögum réttarins er viðfangið ekki gilt fyrir þær sakir einar að það á sér tilvist; þvert á móti krefjast þess allir að það sé samkvæmt sjálfu sér. Hér er því mögulegt að andstaða myndist milli þess sem ætti að vera og þess sem er, milli réttar í og fyrir sjálfum sér [an und für sich] sem er ósnortinn, og svo hinnar tilfallandi ákvörðunar um hvað skuli telja til réttar hverju sinni. Klofning og átök af þessu tagi má aðeins finna innan yfirráðasvæðis andans, en af þeim sökum finnst sumu fólki hið tilviljunarkennda í lífinu svo fráhrindandi að það temur sér að íhuga náttúruna þess í stað, og líta á hana sem fyrirmynd. Hins vegar er það einmitt í þessum átökum milli réttar í og fyrir sjálfum sér og hins tilfallandi réttar sem upp kemur þörfin fyrir að læra að bera kennsl á grundvöll réttarins. Í réttinum verður mannveran að koma til móts við sína eigin skynsemi; því verður hún að íhuga þá skynsemi sem bundin er í réttinn, og þar er einmitt komið viðfangsefni [Sache] vísinda okkar andstætt lögspeki vildarréttarins, sem fæst iðulega við eintómar mótsagnir [Widerspruchen]. Samtíminn hefur auk þess brýna þörf fyrir það að komast yfir þessa þekkingu, þar eð þvert á viðhorf fyrri tíma gagnvart lagabókstafnum, sem var lotningarfult og varkárt, hefur siðmenning dagsins í dag tekið óvænta vendingu [Wendung], og sett hugsunina sjálfa í forstöðuhlutverk gagnvart öllu því sem á að hafa gildi. Kenningar eru settar fram gagnstætt því sem fyrir ber [Daseienden] og eiga að virðast vera réttar og nauðsynlegar í og fyrir sjálfum sér. Héðan í frá er sérstök og aukin þörf fyrir það að við skiljum og hugtökum hugsanir réttarins. Þar eð hugsunin er orðin hið æðsta form verðum við að geta skilið réttinn sem hugsun öðrum þræði. Svo virðist sem þetta opni dyrnar upp á gátt fyrir tilfallandi skoðunum og boði að hugsun skari fram úr rétti; en sönn hugsun er ekki skoðun [Meinung] á viðfangsefninu heldur hugtak viðfangsefnisins sjálfs [der Begriff der Sache selbst]. Hugtak hlutarins verður ekki á vegi okkar fyrir náttúrulegar sakir. Hvaða mannvera sem er hefur fingur og getur átt sér pensla og liti, en þar með er hún ekki orðin að málara. Hið sama gildir um hugsunina. Hugsun um rétt er sannarlega ekki nokkuð sem flestir búa yfir að eðlisfari; þvert á móti er rétt hugsun fólgin í því að þekkja hlutinn og bera kennsl á hann, og skilningur okkar verður þá vísindalegur fyrir vikið. 


Þvert á móti á hinn andlegi heimur að vera ofurseldur tilviljunum og duttlungum, guðsvolaður, og samkvæmt þessu trúleysi hins siðlega heims hvílir sannleikurinn ávallt utan hans. Að sama skapi á skynsemin þó að vera innan hans, sem þýðir það að sannleikurinn getur aldrei verið annað en vandamál [Problema]. Það er, hins vegar, einnig þetta sem veitir hugsuðum ekki aðeins umboð, heldur skyldar [Verpflichtung] þá raunar, til þess að gera sínar eigin tilraunir—þótt þeir eigi ekki að leita viskusteinsins, þar eð nútímaheimspeki sparar þeim ómakið; allir gera ráð fyrir því að þeir hafi steininn í hendi sér, hvar sem þeir standa. Það skal þó viðurkennt að þeir sem lifa innan raungervingar ríkisins og finna fullnægingu vilja síns og þekkingar þar—og þeir eru margir, reyndar fleiri en telja og vita að svo sé, því þegar öllu er á botninn hvolft er þetta grundvöllur [Grunde] allra—eða eru að minnsta kosti meðvitaðir um fullnægingu þarfa sinna innan ríkisins, þeir hlæja að þessum tilraunum og fullvissunum og sjá þær sem eintóma leiki; stundum frekar skondna, stundum alvarlega, stundum ánægjulega, því næst hættulega. Vegna þessa gæti hin eirðarlausa athafnasemi vangaveltna og hégóma, auk þeirra andfanga og viðbragða sem hún hefur hlotið, verið sitt eigið fyrirbæri [eine Sache für sich], sem fer sínar eigin leiðir í þróun og þroska—ef ekki væri fyrir það að heimspeki sem slík hefur uppskorið fyrirlitningu og fengið á sig óorð fyrir það að hafa leyft sér að stunda þessa iðju. Það allra versta við þessa fyrirlitningu, eins og ég hef áður sagt, er að hver og einn er sannfærður um að hann sé nú þegar í aðstöðu til þess að vita allt um heimspeki almennt og fordæma hana. Engin önnur list- eða vísindagrein má sitja undir forsmán í viðlíka mæli, af þeirri hugmynd einni að allir hafi milliliðalaust og algjört vald yfir henni.

Reyndar hafa þær fullyrðingar sem við höfum séð heimspeki nýliðinna tíma varpa fram um ríkið af hinni mestu tilgerð orðið hverjum þeim að réttlætingu sem ræða vill um þessi málefni, og hafa sannfært þá um að þeir séu fullfærir um að gera slíkt hið sama sjálfir og sanna þar með að þeir hafi vald á heimspekinni. Hvað sem það varðar þá hefur þessi sjálfskipaða „heimspeki“ lýst því afdráttarlaust yfir að sannleikurinn sjálfur sé með öllu óþekkjanlegur, að það eitt sé satt sem spretti upp úr hjörtum, tilfinningum og innblástri hvers og eins hvað siðlegar stofnanir varðar—sérstaklega ríkið, ríkisstjórnina og stjórnarskrána. Hefur ekki einna helst verið smjaðrað fyrir ungmennum hvað þetta snertir? Vissulega hafa ungmennin hlustað á það af fúsum og frjálsum vilja. „Svo gefur Hann til sinna í svefni“[4]—þessi orð hafa verið viðhöfð um vísindin og því hefur hver sá sem sefur talið sig til hinna útvöldu—en hugtökin sem hann hlýtur í svefni eru sjálf auðvitað fátt annað en varningur svefnsins.

Forsprakki þessa yfirborðskennda herskara, hinna sjálfskipuðu „heimspekinga“, Herra Fries,[5] hélt þessari skoðun blygðunarlaust fram er hann hélt alvöruþrungna ræðu á almannafæri um „Ríkið og stjórnarskrána“ eins og alræmt er orðið: „Í samfélagi þar sem einlægur almenningsandi ríkti myndi allt líf sem snerist um opinbera sýslan spretta upp frá fólkinu sjálfu; hvert einasta verkefni sem snýr að almennri menntun og opinberri þjónustu yrði helgað lifandi samböndum í gegnum órjúfanlegan sameiningarmátt heilagra viðja vináttunnar,“ og svo framvegis. Þetta er hámark grunnhyggninnar: að grundvalla heimspekileg vísindi ekki í þróun hugsunar og hugtaks heldur á milliliðalausri skynjun og tilfallandi ímyndun; að taka hina ríkulegu innri tjáningu siðlegs lífs, þ.e. ríkið og flokkunarkerfi [Architektonik] skynseminnar, þessa samsetningu sem skapar styrk heildarinnar úr samræmi hlutanna, þar sem ákveðnar aðgreiningar sviða opinbers lífs og réttinda þeirra byggja á því hvernig hverjum einasta stólpa, boga og veggstuðli er haldið saman, og leyfa þessari þróuðu samsetningu að leysast upp í samsuðu „hjartans, vináttunnar og innblástursins“.  Rétt eins og Epíkúros taldi að heimurinn yfirleitt væri ósannur, þá ætti hinn siðlegi heimur, samkvæmt skoðun af þessu tagi, að vera ofurseldur huglægum, tilfallandi skoðanum og duttlungum—þótt hann sé það í reynd alls ekki. Með einföldu húsráði, sem er að eigna tilfinningu afrakstur allrar erfiðisvinnu skynseminnar og skilningsins, vinnu sem spannar margar árþúsundir—er öllum vandkvæðum bæði rökrænnar innsýnar og þekkingar, sem leiddar voru áfram af hugtaki hugsunarinnar, vitaskuld afstýrt. Um þetta segir Mefistófeles Goethes—sem er góður heimildamaður—eitthvað á þessa leið, en þessa tilvitnun hef ég þegar notað annarsstaðar:[6] „Smánirðu skynsemi og vísindi, mannsins allra hæstu gjafir—þá hefurðu djöflinum þig gefið, og verður til grunna að hrynja.“

Um leið liggur þessi skoðun því næst að taka á sig ásýnd frómleika [Frömmigkeit], vegna þess að þessi starfsemi nýtir sér öll tiltæk úrræði í viðleitni sinni til þess að öðlast yfirráð. Hvað guðrækni og Biblíuna varðar, hins vegar, hefur hún sölsað undir sig hina æðstu réttlætingu fyrir því að fyrirlíta skipan siðleikans og hlutlægni laganna: því það er sannarlega guðrækni að umlykja þennan sannleika heimsins, sem birtist okkur á sviði hins lífræna, í hinu einfalda innsæi tilfinninganna. Ef þessi guðhræðsla er hinsvegar af réttum toga þá mun hún hleypa tilfinningalegum hami sínum um leið og hún yfirgefur hið innra líf og gengur út í dagsljósið sem er þróun hugsýnarinnar og opinberun fjársjóða hennar—og vegna innri dýrkunar sinnar á Guði mun hún taka með sér virðingu fyrir lögum og sannleika í og fyrir sjálfum sér sem þar með er hafinn yfir huglæg form tilfinningarinnar.

Hér mætti vekja athygli á tilteknu afbrigði slæmrar samvisku—afbrigði sem kemur í ljós gegnum yfirlætisfulla mælsku slíkrar yfirborðsmennsku; takið fyrst og fremst eftir því að einmitt þegar það er hvað andlausast talar yfirlætið mest um andann, þegar orðfæri þess er hvað þurrast og dauðast eru eftirlætisorðin „líf“ og „að lífga við“, þegar það dregur fram sannanir á hinni tómu sjálfselsku innihaldslauss stolts hvílir orðið „alþýða“ [Volk] einna mest á vörum þess. Það sem raunverulega aðgreinir það, það sem gerir það þungt á brún, er hatur þess á lögunum. Réttur, siðlegt líf og raunheimur réttar og siðleikans eru aðeins skilin [gefaßt] gegnum hugsanir; þær öðlast rökrétt form í gegnum þessar hugsanir, þ.e. almannaeðli og ákvörðun [Allgemeinheit und Bestimmtheit]. Þessi form eru lögin; þau eru það sem segja má með nokkurri vissu að séu höfuðóvinur tilfinningarinnar sem áskilur sér rétt til þess að gera það sem henni lystir, samviskunnar sem staðsetur réttinn í huglægri sannfæringu. Form réttarins í skyldum og lögum eru henni sem kaldir hlekkir, eintóm dauð orð; hún þekkir ekki sjálfa sig í lögunum og viðurkennir því ekki frelsi sitt þar—vegna þess að lögin eru skynsemi viðfangsins [Vernunft der Sache] og skynsemin neitar að heimila tilfinningunum að una sér sáttar í eigin tiltæki. Það er nefnilega einkum þess vegna sem lögin, eins og ég hef orð á einhversstaðar í þessari kennslubók, eru kenniorð [Schiboleth] þeirra sem aðskilja þessa fölsku bræður og vini hins svokallaða „fólks.“ [Volkes]

Þessa stundina hefur þetta geðþóttakennda þvaður [Rabulisterei der Willkür] hrifsað til sín nafn heimspekinnar og tekist að sannfæra stóran hluta almennings um að slíkur hégómi sé heimspeki, sem hefur haft það í för með sér að það er nánast orðið smánarlegt að tala á heimspekilegan hátt um eðli ríkisins; svo ekki er það heiðarlegra manna sök að þeir fyllist óþoli um leið og þeir heyra minnst á heimspekileg vísindi ríkisins. Ekki er heldur að undra að ríkisstjórnir séu sjálfar farnar að veita þess konar heimspeki eftirtekt, þar eð ólíkt öllu öðru er heimspeki okkar ekki, eins og Grikkir töldu, einstaklingsbundin list, heldur er hún aðeins til í opinberu rými, í snertingu við almenning og sérstaklega ef ekki alfarið í þjónustu ríkisins. Ríkisstjórnir treysta þessum fræðimönnum sannarlega fyrir miklu—þeim hefur algjörlega verið falin vöxtur og viðgangur [Gehalt] heimspekinnar—þótt hér og þar hafi það ekki verið traust heldur einfaldlega afskiptaleysi, auk þess sem prófessorsstólum hefur aðeins verið viðhaldið fyrir sakir hefðarinnar (svo dæmi sé tekið skilst mér að prófessorsstöður í frumspeki hafi að minnsta kosti verið lagðar niður í Frakklandi). Traustið sem þeim er sýnt hefur þó ekki verið endurgoldið, og jafnvel þótt maður kysi að líta á það sem afskiptaleysi yrði samt sem áður að líta á útkomuna—hrörnun ítarlegrar þekkingar—sem refsingu fyrir þetta afskiptaleysi. Í fyrstu virðist manni þessi ofangreinda grunnfærni geta farið saman við ytri röð og reglu þar eð hún snertir ekki einu sinni á eðliskjarna hlutanna; engum aðgerðum, eða í það minnsta engum aðgerðum lögreglu[7], mætti beita gegn þeim til að byrja með, hefði ekki verið til staðar þörf fyrir dýpri menntun og innsýn, þörf sem ríkið þyrfti [heimspekileg] vísindi til þess að geta svalað. Grunnfærnishugsun um siðlega reglu,  rétt og skyldu almennt leiðir svo sjálfkrafa aftur til grunnfæru lögmálanna sem grunnfærnin er mynduð úr, þ.e. til grunnlögmála sófistanna sem Platon greindi frá. Rétt sinn finna þessi grunnlögmál í huglægum tilfinningum og tiltekinni sannfæringu og af því hlýst algjört hrun innri siðleika og heiðvirðrar samvisku auk ástar og réttar milli persóna, engu síður en eyðilegging opinberra reglna og laga ríkisins. Ólíklegt er að gert verði lítið úr merkingunni [Bedeutung], sem slík fyrirbæri verða að hafa í augum ríkisstjórna, af þeim sem telja sig eiga tilkall til þess—í krafti réttindanna og traustsins sem þeim er sýnt—að ríkið staðfesti, verji og vegsami það sem spillir hinum altæku lögmálum, sem eru grundvallaruppspretta [substantielle Quelle] alls verknaðar, og að ríkið gefi því jafnvel svigrúm sem býður ríkinu sjálfu birginn, rétt eins og slíkar ögranir væru fullkomlega eðlilegar. „Þeim sem Guð gefur embætti gefur hann einnig skilning [Verstand]“ er orðin gömul kímni og úr sér gengin—enginn tæki hana alvarlega þessa dagana.

Einn er sá þáttur, í hinu nýtilkomna og aðstæðubundna mikilvægi sem ríkisstjórnir hafa ljáð eðli og list heimspekiverka, sem við komumst ekki hjá því að taka eftir; en það er verndin og stuðningurinn sem heimspekilegar rannsóknir virðast þurfa að fá úr mörgum áttum. Leiðið bara hugann að hinni margvíslegu útgáfustarfsemi á sviði raunvísindanna, auk uppfræðandi verka um trúarbrögð og önnur óljós bókmenntaform, sem lýsa öll fyrir lesendum sínum fyrirlitningunni á heimspekinni sem ég hef þegar minnst á—þrátt fyrir að hugsun þeirra sé að öllu leyti óþroskuð og að heimspekin sé þeim að öllu leyti óþekkt, sjá þau hana sem eitthvað sem hægt sé að bægja einfaldlega frá sér. Ekki nóg með það, heldur bölsótast þau gagngert út í hana og lýsa því yfir að innihald hennar, sem er hugtakandi þekking á Guði [begreifende Erkenntnis Gottes] og efnislegri og andlegri náttúru, þekking á sannleikanum, sé flónsk og jafnvel syndug dirfska, meðan skynsemin, og aftur skynsemin, og skynsemin—endurtekið út í hið óendanlega—er leidd fyrir rétt, smánuð og fordæmd. Hvað sem segja má um slík skrif leiða þau okkur í það minnsta fyrir sjónir um það að í augum meirihluta þeirra sem uppteknir eru af því sem virðist vera vísindaleg athafnasemi séu fullyrðingar hugtaksins ákveðinn vandræðagripur sem þeim er þó ófært að flýja. Ég hætti á að halda því fram að hverjum þeim sem stæði andspænis slíkum fyrirbærum gæti komið í hug að hvað þetta snertir sé hefðin ekki lengur virðingarverð, né heldur dugi hún til þess að tryggja umburðarlyndi í garð heimspekilegra rannsókna né heldur geti hún séð þeim fyrir opinberri tilvist.[8]

Hinar hrokafullu afneitanir okkar tíma á heimspekinni setja okkur fyrir sjónir undarlegt sjónarspil sem felst í því að annars vegar hafa þær rétt fyrir sér, vegna þess hve yfirborðskennd vísindagreinin hefur orðið, og hins vegar, að þær hafi einmitt sjálfar rætur í þættinum sem þær snúa sér gegn með vanþakklæti. Með því að lýsa vitsmunalegri þekkingu á sannleikanum sem heimskulegri viðleitni hefur þessi sjálfskipaða heimspeki smættað allar hugsanir og öll umfjöllunarefni niður í sömu lægðina, rétt eins og einræðistilburðir Rómarkeisara gerðu út af við greinarmuninn á aðli og þrælum, dyggð og lesti, heiðri og smán, þekkingu og heimsku. Niðurstaða þessa jöfnunarferlis er sú að hugtökin um hið sanna og lögmál siðlegs lífs verða í sama mæli ekkert annað en skoðanir og huglægar sannfæringar. Lífsreglur hinna verstu afbrotamanna [verbrecherischsten] eru lagðar að jöfnu við þessi lögmál, vegna þess að þær eru sannfæringar; samtímis er hverjum einasta hlut, sama hversu óbrotinn hann er, og hverju einasta viðfangsefni, sama hversu þurrt það er, ljáð sama virði og það sem hagsmunir alls þenkjandi fólks sem og sáttmálar hins siðlega heims samanstanda úr.

Þess vegna ætti að líta á það sem nokkurt lán fyrir [heimspekileg] vísindi—þótt í raun liggi það, eins og ég hef bent á, í hlutarins eðli [Sache]—að þessar heimspekilegu bollaleggingar, sem hefðu, rétt eins og vísdómur skólaspekinnar, viljað halda áfram að spinna sinn vef út af fyrir sig, séu nú komnar í nánari snertingu við virkileikann [Wirklichkeit] og hafi þar með sagt opinberlega skilið við hann, en í þessum virkileika eru grunnsetningar réttar og skyldna alvarlegt mál sem lifir í ljósi meðvitundarinnar um þær.

Það er einmitt þessi afstaða heimspekinnar til virkileikans sem helst er misskilin, og því hverf ég aftur til þess sem ég hef áður sagt: vegna þess að heimspekin er uppgötvun á því sem er skynsamlegt er hún einmitt fyrir þá sök skilningur á því sem er hér og nú, ekki smíði einhvers sem er fyrir handan, einhvers sem á að vera til Guð má vita hvar—eða öllu heldur þar sem við getum einmitt sagt til um hvar er, nefnilega í villu einhliða og innantómrar rökvísi [Räsonierens]. Í meginmáli þessarar bókar hef ég orð á því að jafnvel Ríki Platons, sem er almennt tekið sem innantómri hugsýn, sé í eðli sínu ekkert annað en skilgreining [aufgefaßt] á hinum gríska siðleika. Platon var meðvitaður um að dýpri lífsregla væri að brjóta sér leið inn í siðleikann, lífsregla sem gæti aðeins birst innan hans milliliðalaust sem ófullnægð þrá og því aðeins sem uppspretta spillingar. Til þess að berjast gegn lönguninni þurfti hann að leita hjálpar í lönguninni sjálfri. Þessi aðstoð kom aftur á móti af himnum ofan, og það eina sem Platón var fær um að gera var að leita [aðstoðarinnar] í tilteknu ytra formi hins sama gríska siðleika. Þannig hugðist hann yfirstíga spillinguna, en þar með særði hann einmitt hina dýpri undirliggjandi hvöt—hinn frjálsa og óendanlega persónuleika—herfilegu og djúpu sári. Þrátt fyrir það er sú staðreynd, að þungamiðja einstaks eðlis hugsýnar [Idee] hans sé sama þungamiðjan og heimsbyltingin yfirvofandi snerist um, sönnun þess hve mikilfenglegur andi hans var. 

Það sem er skynsamlegt, það er virkilegt;

og það sem er virkilegt, það er skynsamlegt.[9]

Um þetta er sérhver tilgerðarlaus vitandi vera sannfærð, sem og heimspekin, og frá þessum upphafspunkti leggur heimspekin af stað í rannsókn sinni á hinum andlega og náttúrulega alheimi. Ef speglun [Reflexion], tilfinning eða hvaða annað form huglægrar meðvitundar sem vera skal álítur nútíðina hégómlega [Eitel] og lítur handan hennar með augnaráði þess sem betur veit, finnur hún sjálfa sig innan hégómans, og vegna þess að hún á sér aðeins virkileika í nútíðinni er hún sjálf einber hégómleiki [Eitelkeit]. Ef hugsýnin er aftur á móti álitin vera „einber hugsýn,“ bara hugmynd [Vorstellung] sem mætti lýsa með skoðun, býr heimspekin yfir því innsæi til samanburðar að ekkert sé virkilegt nema hugsýnin. Hið mikilvæga er þá að bera kennsl á íverandi og eilífa verund núsins í sýnd þess sem er skammvinnt og hverfur. Þegar skynsemin, sem er samheiti hugsýnarinnar, öðlast ytri tilvist [Exiztenz] og jafnframt virkileika [Wirklichkeit] sinn, birtist hún í óendanlega ríkulegum formum, fyrirbrigðum og gerðum, og sveipar kjarna sinn marglitri skel [Rind] sem hýsir meðvitund fyrst um sinn, skel sem hugtakið þarf að brjótast gegnum áður en það getur fundið hinn innri slátt og jafnframt fundið hann slá í ytri formgerðum [den äußeren Gestaltungen]. Hin óendanlega margföldu sambönd sem þróast í þessum ytri veruleika [Äußerlichkeit] gegnum skin eðlisins innra með sér [durch das Scheinen des Wesens in sie], þessi óendanlegu efni og uppstilling þess, mynda þó ekki viðfangsefni heimspekinnar. Að snerta á þeim yfirhöfuð er að skipta sér af hlutum sem hafa ekkert með heimspekina að gera; hún gæti einfaldlega sparað sér að gefa góð ráð um slíka hluti; Platon hefði getað látið það eiga sig að mæla með því að brjóstmæður stæðu ekki kyrrar með ungabörn og vögguðu þeim stöðugt í örmum sér, og jafnframt gildir það um Fichte að hann hefði getað sleppt því að halda því fram, sem kallað hefur verið smíðar hans á vegabréfareglugerðum, upp að því marki fullkomnunar að grunaðir þurfi ekki aðeins að skrifa undir vegabréf sín, heldur skuli ásjónur þeirra málaðar á þau þar að auki. Í þess konar athöfnum eru engin vegsummerki heimspekinnar að finna, og hún getur meira að segja [mehr zu sehen] neitað sér um slíka ofurvisku [Ultraweisheit] vegna þess hve frjálslynt viðhorf hennar gagnvart þessu óendanlega kraðaki viðfanga ætti að vera. Með því að taka þessa afstöðu sýna [heimspeki]vísindin fram á það hversu fjarri þau standa hatrinu sem einkennir hégómlegt álit beturvitrunga [die Eitelkeit des Besserwissens] á hinum mikla fjölda uppákoma og stofnana—hatur, þar sem smámunasemin finnur sína mestu nautn—vegna þess að aðeins með því að finna því útrás getur hún fundið til sjálfskenndar [Selbstgefühl].

Þetta fræðirit, að því leyti sem efni þess lýtur að ríkisvísindum [Staatswissenschaft], er því alls ekkert annað en tilraun til þess að gera ríkinu skil og setja það fram sem eitthvað sem er í sjálfu sér skynsamlegt. Sem heimspekilegt rit verður það að vera eins fjarri því og mögulegt er að vera tilraun til þess að smíða ríki eins og það ætti að vera; lærdómurinn sem kann að búa í ritinu getur ekki samanstaðið af því að kenna ríkinu hvað það ætti að vera, heldur getur það aðeins sýnt fram á það hvernig skilja beri ríkið, þennan alheim siðleikans [das sittliche Universum].

 ‍̓̓Ιδοὺ ἡ Ῥόδος, ἰδοὺ καὶ τὸ πήδημα.

Hic Rhodus, hic saltus.[10]

Að hug-taka það sem er, það er verkefni heimspekinnar, vegna þess að það sem er, er skynsemi. Hvað einstaklingnum [Individuum] viðvíkur er hann ávallt sonur síns tíma; þannig er heimspekin einnig sinn eigin samtími færður í hugtök. Það er jafn heimskulegt að gera sér í hugarlund að heimspeki geti hafið sig yfir veröld samtíma síns og að hugsa sér að einstaklingur geti stokkið út fyrir sinn eigin samtíma, stokkið yfir Ródos. Geti kenning hans raunverulega náð út fyrir heiminn eins og hann er smíðar hann sér veröld eins og hún ætti að vera, og þá er sú veröld með sanni til, en að vísu aðeins í hugarheimi hans, þeim auðsveipa efnivið sem móta má í hvað sem manni þóknast.

Eftir dálitla umorðun gæti staðhæfingin hér að ofan hljóðað svo:

Hér er rósin, dansaðu hér

Það sem stendur á milli skynseminnar að því leytinu sem hún er sjálfs-meðvitaður andi [selbstbewußtem Geiste] og skynseminnar að því leytinu sem hún er virkileiki sem er fyrir hendi [vorhandener Wirklichkeit]—það sem greinir hið fyrra frá því síðara og hindrar það í því að öðlast fullnægju í því síðara, er fjötur einnar eða annarrar óáþreifanlegrar hlutleysu sem ekki hefur verið frelsuð og umbreytt í hugtakið. Að bera kennsl á skynsemina sem rósina í krossi samtíðarinnar [Gegenwart] og þar með að njóta samtíðarinnar, þetta er það innsæi skynseminnar sem sættir okkur við virkileikann—sátt sem heimspekin veitir þeim sem hafa í eitt skipti fyrir öll [einmal] fundið hjá sér innri kröfu um hugtaka [zu begreifen], og ekki aðeins að varðveita það sem er raunverulegt [substantiell] í innra frelsi þeirra [subjektive Freiheit], heldur einnig að standa með innra frelsi sínu að því leyti sem það er í og fyrir sjálfu sér fremur en að því leyti sem það er tiltekið og tilfallandi.

Í þessu er einnig fólgið áþreifanlegra [konkreteren] skynbragð [Sinn] á það sem áður hafði verið orðað á nokkuð óáþreifanlegan [abstrakter] hátt um einingu forms og innihalds; þar eð form í sinni áþreifanlegustu merkingu er skynsemi sem hugtakandi þekking [begreifendes Erkennen], og innihald er skynsemi sem raunverulegt eðli [das substantielle Wesen] siðlegs og náttúrulegs virkileika; meðvituð samsemd þessara tveggja þátta er hin heimspekilega hugsýn. — Það er gríðarleg þvermóðska—raunar þvermóðska sem er manneskjunni til mikils sóma—að neita að fallast á nokkra skoðun sem ekki hefur verið réttlætt af hugsuninni. Þessi þvermóðska er einkennandi fyrir nútímann, fyrir utan það að [ohnehin] hún er hið eiginlega grundvallarlögmál mótmælendasiðar. Sú trú á tilfinningu og vitnisburð andans sem hófst með Lúther er einmitt það sem andinn hefur, frá því hann komst til nokkurs þroska, leitast við að fanga í hugtakinu í því skyni að frelsa sig og þar með finna sjálfan sig í hinni líðandi stund [Gegenwart]. Sá málsháttur hefur orðið frægur að hálfkláruð heimspeki [eine halbe Philosophie] leiði mann frá Guði—og það er sama hálfkákið [Halbheit] sem lítur á þekkingu sem nálgun við sannleikann—en sönn heimspeki leiðir mann aftur á móti til Guðs; og sama gildir um ríkið. Skynsemin sættir sig ekki við nálgunina [Annäherung], sem er hvorki heit né köld, og skyrpir henni út úr munni sínum;[11] ekki lætur hún sér heldur nægja hina köldu örvæntingu sem gefur sér að þessi veraldleiki sé í sannleika sagt vondur eða í besta falli í meðallagi [mittelmäßig], en að vegna þess að ekkert skárra sé hér að finna skyldum við finna frið í virkileikanum—nei, hann er hlýrri, friðurinn sem þekkingin færir okkur.

Varðandi þann lærdóm sem heimurinn ætti að draga hvað því viðvíkur sem hann ætti að vera, mætti segja eitt orð—það er að heimspekin komi ávallt of seint til þess að geta veitt honum þessi ráð hvort eð er. Sem hugsun um heiminn birtist hún aðeins eftir að virkileikinn hefur lokið myndunarferli [Bildungsprozeß] sínu og fullklárast. Það sem læra má af hugtakinu, sem er einnig óhjákvæmilega það sem læra má af sögunni, er að aðeins þegar virkileikinn hefur þroskast birtist fyrirmyndin [das Ideale] andspænis [gegenüber] raunveruleikanum [Realen], skilur hann í eðli sínu og byggir sér vitsmunalegt ríki á grundvelli hans. Þegar heimspekin bætir sínu gráa ofan á grátt ber einhver formgerð lífsins ávöxt, og með grámanum ofan í grámann yngist hún ekki upp heldur verður aðeins skiljanleg; ugla Mínervu hefur sig ekki til flugs fyrr en rökkva tekur.

Nú er mál að ljúka þessum formála; sem formáli hefur hans eina hlutverk verið að veita utanaðkomandi og huglægar athugasemdir um sjónarmið ritsins sem á eftir kemur. Ef tala á heimspekilega um innihald [Inhalte] þolir það ekki annað en vísindalega og hlutlæga meðhöndlun, og hið sama gildir um andmæli gagnvart höfundinum sem ekki fjalla á vísindalegan hátt um málið sjálft [die Sache selbst], en þau verða að teljast til huglægra eftirmála eða handahófskenndra staðhæfinga og þau ætti að hunsa.


Neðanmálsgreinar

[1] Þýð: Athugasemdir [þ. Anmerkungen] Hegels eru viðbætur við megintextann. Athugasemdirnar eru þó ekki það sama og viðbæturnar [þ. Zusätze], en þeim var bætt við textann af Eduard Gans, út frá glósum og eftirskriftum úr fyrirlestrum Hegels, eftir að hann lést árið 1831.

[2]  Lúk. 16:29.

[3] Þýð: Þessi viðbót, sem kemur frá Eduard Gans, er tekin úr fyrirlestri Hegels um Náttúrurétt og ríkisvísindi veturinn 1822–23.

[4] Þýð: Eins og oft er hvað Hegel varðar eru tilvitnanir hans skrifaðar upp eftir minni. Þetta er vísun í Sálm 127:2, en þar segir: „Svo gefur Drottinn ástvinum sínum í svefni.“

[5] Þýð: Jakob Friedrich Fries var prófessor við háskólann í Heidelberg árin 1805-1816, en þar kenndi Hegel einnig um skeið. Hegel gerir einnig harðorðar athugasemdir við Fries í Inngangi sínum að Vísindum rökfræðinnar. Ljóst er af þeim athugasemdum að Hegel hafði óbeit á Fries.

[6] Þýð: Tilvitnun Hegels er—eins og venjulega—ónákvæm. Hann notar sömu tilvitnun einnig ónákvæmlega í Fyrirbærafræði andans, §360. Línurnar sem hann vísar til hljóða upprunalega á þessa vegu:  „Smáni hann skynsemi og vísindi, / Þessa mannsins allra hæstu krafta […] / Jafnvel þótt hann hafi ei djöflinum sig gefið/ Þá verður hann að hrynja til grunna.“

[7] Sjá Útlínur réttarspekinnar §231-249 fyrir sérstaklega breiða skilgreiningu Hegels á hugtakinu “lögregla.”

[8] Neðanmálsgrein Hegels: Mér flugu í hug sambærilegar skoðanir við lestur á bréfi Johannes von Müller (Werke [Tübingen 1810 – 19], VIII. hluti, bls. 56). Um ástand Rómarborgar árið 1803, þegar borgin var undir stjórn Frakka, segir hann: „Aðspurður að því hvernig opinberum menntastofnunum gengi svaraði prófessor því til að þær væru „umbornar, eins og hóruhús“.“ Enn heyrir maður fólk mæla með hinni svokölluðu „kennisetningu skynseminnar,“ þ.e. rökfræði, í þeirri trú að sú vísindi séu svo þurr og ábatalaus að enginn myndi eyða tíma í þau, og jafnvel ef einhver geri það fái hann ekkert út úr því nema tómar formúlur, gagnslausar og meinlausar, sem hefði það í för með sér að meðmælin sköðuðu engan, jafnvel þótt þau gerðu engum neitt gott.

[9] Þýð: Á frummálinu: „Was vernünftig ist, das ist wirklich; und was wirklich ist, das ist vernünftig.“

[10] Þýð: „Hér er Ródos; stökktu hér!“

[11] Opinb. 3:15-16.

The Love of Wisdom and the Wisdom in Love

The Love of Wisdom and the Wisdom in Love

(I’ve Had) The Time of My Life: Duration, Intuition and Organism in Bergson

(I’ve Had) The Time of My Life: Duration, Intuition and Organism in Bergson