Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Merking eftir Fríðu Ísberg – ritdómur

Merking eftir Fríðu Ísberg – ritdómur

Málverkið í haus er eftir Edmund Blair Leighton og heitir Stitching the Standard (1911).

Ég eignaðist eintak af Merkingu eftir Fríðu Ísberg nú á dögunum. Ég las bókina af áfergju og naut hennar í döðlur. Þegar ég lauk við hana var ég svo uppveðraður og innblásinn að ég stóðst ekki mátið að skrifa um hana ritdóm, eða ef til vill hugleiðingapistil. Hér er pistillinn – óformlegur og sennilega nokkuð villtur í uppsetningu. Ég vona að þið njótið lestursins og verðið ykkur svo úti um eintak af þessari mögnuðu bók. Hún á erindi við okkur öll. Hefjumst þá handa á ritdómnum.

Merking kom út árið 2021 og er fyrsta skáldsaga Fríðu Ísberg. Merking er 266 blaðsíðna löng og er gefin út af Máli og menningu (sem er hluti af Forlaginu). Listaverkið á kápunni er eftir Kristínu Helgu Ríkharðsdóttur og Kristínu Karólínu Helgadóttur. Meginmálsletur er Minion Pro. 

Fríða hefur áður sent frá sér ljóðabækurnar Slitförin (2017) og Leðurjakkaveður (2019), auk smásagnasafnsins Kláði (2020). Þá hlaut Fríða Bókmenntaverðlaun bóksala fyrir Slitförin, en þessi forláta frumraun var þess að auki tilnefnd til Fjöruverðlauna. Kláði hlaut þá einnig Fjöruverðlaunatilnefningu og var jafnframt tilnefnd fyrir Íslands hönd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þess að auki hefur hún gefið út ljóð í bókunum Ég er ekki að rétta upp hönd (2017), ég er fagnaðarsöngur (2018) og Nú sker ég reipin mín (2019), en það gerði hún ásamt hæfileikaríkum stöllum sínum í ljóðakollektífi sem kallar sig Svikaskáld. Nýverið sendi kollektífið frá sér skáldsöguna Olía (2021), sem þær skrifuðu saman.

Allt höfundarverk Fríðu hingað til hefur hlotið svo gott sem einróma lof, og fólk beið skáldsögunnar frá Fríðu með ofvæni, ef marka má óformlega tilfinningu undirritaðs fyrir bókmenntasenunni á Íslandi undanfarin ár. Var undirritaður þar engin undantekning.

Merking gerist í Reykjavík framtíðarinnar, þar sem svokallað samkenndarpróf hefur verið tekið til notkunar í íslensku samfélagi. Prófið byggir á nýrri tækni sem metur tilfinningaleg viðbrögð próftakans. Ef viðkomandi mælist yfir lágmarksviðmiðum prófsins má segja með vissu að þau búi yfir samkennd. Þá er þeim gert kleift að merkja sig í opinberan Kladda sem haldið er úti af Sálfræðingafélagi Íslands. Þannig getur fólk sýnt svart á hvítu fram á það að þau séu ekki siðblind, merkt sig sem „heilbrigðar manneskjur.“

Þess að auki má finna ýmiskonar framtíðartækni í Merkingu; Zoé er e.k. gervigreindarþjarkur, heiló-ið er að því er ég fæ best skilið e.k. aukaveruleikabúnaður (e. augmented reality), Sporið er einhverskonar háþróaður rakningarbúnaður, fólk sendir “grömm” sín á milli, og svo mætti áfram lengi telja. Því má tvímælalaust segja að verkið innihaldi mýmörg einkenni vísindaskáldskapar – þótt það teldist ekki þar með eingöngu til formgerðarinnar.

Undirrituðum varð oft hugsað til höfundarverks Philip K. Dick á meðan á lestrinum stóð, enda vann PKD oft með hugmyndir sem kalla mætti áþekkar þeim sem finna má í Merkingu. Dick var upp á sitt besta þegar hann ímyndaði sér ekki aðeins tæknilegar eða vísindalegar framfarir eða uppgötvanir, heldur kannaði samhliða þeim áhrifin sem þau hefðu á sálarlíf, siðferði og samfélag. Kvikmyndin Minority Report (2002), sem byggir á samnefndri smásögu eftir Dick, gerist í heimi þar sem stökkbreyttar mannverur sjá alla glæpi fyrir áður en þeir eiga sér stað. Þessi þekkingarfræði- og vísindalega nýjung hefur í för með sér algjöra umbyltingu viðtekins siðferðisskyns. Fólk er stimplað sem glæpafólk áður en það fremur nokkurn glæp, og staða manneskjunnar sem sakbornings virðist bergmála fram og aftur gegnum rúmtímann. Það kallar auðvitað upp ótal aðkallandi spurningar. 

Sambærilega tekst Fríðu að mála upp afar sannfærandi mynd af róttækri samfélagslegri umbyltingu í kringum tækninýjungina sem er samkenndarprófið. Samfélagsumræðan skautast um prófið og þekkingarfræðilegu möguleikana sem það veitir okkur: er réttlætanlegt að “merkja” einstakling sem er annars blásaklaus sem “líklegan til andfélagslegrar hegðunar” á grundvelli magnfræðilegra mælinga á taugaviðbrögðum? SÁL (Sálfræðingafélagið) og andstæðingar þeirra, KALL, hópur sem berst gegn aukinni merkingu, takast einmitt á um þessa spurningu, og oftar en einu sinni kemur til pólitísks ofbeldis og mótmæla í verkinu. Flestum hryllir okkur sennilega dálítið við tilhugsunina um samfélag sem ostrasíserar fólk fyrir það eitt að mælast undir einhverri tilfallandi normative-kúrfu taugafræðilegra viðbragða, og sennilega réttilega svo. Það er nánast höfuðlagsfræðileg einföldun að smætta manneskjuna og breytni hennar niður á þennan hátt. Eðlislægt viðbragð okkar flestra er sennilega að finnast þetta brjóta gegn sæmd manneskjunnar á einhvern hátt.

Það er ekki hægt að sleppa því að bera samkenndarprófið og skautunina sem af því hlýst við samfélagslegu umræðuna sem við erum að upplifa nú til dags um #MeToo – jafnvel þótt samanburðurinn virðist svo augljós að það verður svo gott sem klént að segja það upphátt. Við komumst sennilega ekki hjá því að tala um hann á einhverjum tímapunkti, og ég er með glósur tilbúnar um það – en ég vil fresta þeirri umræðu um sinn og fara þess í stað á aðrar almennari lendur. Mér finnst nefnilega eins og Merking fjalli svo einstaklega skilmerkilega um ævarandi og erfiðar spurningar mannlegrar tilveru á mun dýpri hátt – hún ristir mun dýpra en svo að hægt sé að láta nútímasamanburðinn duga. Merking nær nefnilega raunverulegu taki á því sem er í húfi á hátt sem fáum öðrum skáldsögum hefur tekist að komast upp með.

Merking er ekki bara verk um merkingar. Öðru fremur er Merking verk um tengingar, verk sem fjallar um vensl. Merkingin sem slík er afleiðing vensla, ekki orsök þeirra, og Fríðu tekst að sýna fram á það bæði í gegnum formgerð frásagnarinnar sem slíkrar sem og í innihaldi verksins. Við lesturinn er manni gert skilið að merking sem slík (bæði í skilningnum „að setja merkimiða á“ og „að búa yfir merkingu“) spretti upp úr venslum, samböndum, tengingum. Við erum að tala um samfélagslegar tengingar, sjálfstengingar, tæknilegar tengingar, pólitískar tengingar, blóðtengingar, rómantískar tengingar. Merkingin sprettur upp úr þessum tengingum á óumflýjanlegan hátt, á vegu sem er handan góðs og ills, handan siðferðishefðarinnar. Siðferði verður til upp úr tengingunum, ekki öfugt: við tengjumst fyrst, og komum okkur svo upp siðferði. 

Það er til marks um það sem koma skal – og á sama tíma merki um hið ótrúlega gagnsæi og sjálfsmeðvitund sem ritverkið virðist búa yfir og bjóða upp á – að Friedrich Nietzsche sé nefndur á nafn á annarri blaðsíðu verksins. Sjálfsmeðvitund verksins er svo fíngerð, svo næm, að hún verður aldrei yfirþyrmandi eða klisjukennd, brýtur aldrei flæði lesandarinnar. Hún ljáir verkinu ákveðið tímamótayfirbragð. Lesöndin fær það á tilfinninguna að Merking sé nærgætin og forvitin rannsókn á þjóðarsál Íslendinga okkar tíma, speculum (í tvöföldum skilningi!) sem býður lesöndinni að staldra við og taka þátt í rannsókninni á sjálfri sér að því leytinu til sem hún tilheyrir þessari þjóðarsál. Merking gerir okkur kleift að sjá sjálf okkur í tærri upplausn, handan afskræmandi hugmynda um fagurt og ljótt, gott og illt – hún opnar glugga inn í innsta sannleika hinnar lifandi og líðandi þjóðarsálar. 

Það er eitthvað mennskt og satt við verkið, satt að því einstaka leytinu til sem raunveruleg list getur fangað einhvern annars óræðan sannleika um mannlega tilveru, sannleika sem er annars ómögulegt að fanga með því að útlista staðreyndir og lögmál.  Frásögnin nær nefnilega að halda ákveðnum heimspekilegum grunntón gangandi gegnum verkið allt, grunntón sem ómar eins og ákall um að hugsa hlutina til enda, fara hægar, kanna venslin sem móta okkur og dvelja í forundran frammi fyrir mannverunni, þessu óræða og erfiða fyrirbæri sem við erum öll. 

Fríðu tekst að gera nokkuð sem er ansi fáséð: í gegnum verkið viðheldur hún frestun dóms, ákveðinni meta-frestun, sem er nauðsynleg til þess að leiða þennan óræða mannlega sannleik í ljós. Með því að skipta stöðugt um sjónarhorn og tvinna persónurnar hægt og rólega hvora við aðra neyðir hún lesöndina til þess að vega og meta afstöðu sína gagnvart merkingum í sífellu. Hún skiptir snöggvast úr sjónarhorni siðblindrar konu (sem berst með kjafti og klóm til þess að viðhalda stöðu sinni í samfélagi sem vill skera hana burt eins og æxli) yfir í sjónarhorn vandræðaunglings (sem óttast að ná ekki prófinu og missa þar með allan möguleika á því að eiga þak yfir höfuðið og heiðarlega atvinnu), og þaðan rakleiðis yfir í sjónarhorn grunnskólakennara (sem þarf að takast á við innleiðingu prófana á börnum, viðbrögð foreldra og eigin tilfinningar gagnvart þeim), og svo koll af kolli. Svo lætur hún þessar annars misvel tengdu persónur rekast á hvora aðra, mynda nýjar tengingar, glata öðrum tengingum, og svo framvegis. Hvert sjónarhorn fyrir sig fær þar með að vera eins og kastljós sem myndar smátt og smátt heildrænan og millipersónulegan raunveruleika. 

Manni líður eins og maður sé hjá og með persónunum, samhliða þeim í þeirra eigin lifaða tíma. Þá gerast raunverulegu töfrarnir. Fyrr en um síðir hættir hugurinn svo einfaldlega að vega og meta og leggja dóm á hina eða þessa kosti merkingarinnar sem slíkrar. Áður en maður veit af er maður dreginn inn í skýra núvitund um flæði frásagnarinnar. Lesöndin er leidd í gegnum afstæða og ófullkomna þekkingu þess sem aðskilur og aðgreinir, þekkingu skilningsmáttarins sem þekkir utan frá – og þaðan inn í heildrænni og fullkomnari þekkingu innsæisins, þekkingu sem þekkir innan frá. Í stað þess að dæma og aðskilja í sífellu fellur hugurinn í afslappaða og áreynslulausa dvöl með því sem fyrir ber í frásögninni. Svo lífleg, lífræn, svo lifandi er hún. Fáum höfundum hefur tekist þetta jafn vel og Fríðu tekst í Merkingu. Hún á sannarlega skilið lof fyrir.

Fríða leikur sér að tungumálinu gegnum bókina alla, og það er sem leir í höndum hennar. Persónurnar og samtökin sem þær mynda eru náttúruleg og trúverðug. Rithátturinn, hugtakanotkunin, slanguryrðin og áferðin sem hún notar að hverju sinni fangar hartnær alltaf hugarástand, manngerð og lifaðan tíma persónunnar sem hún er að skrifa út að hverju sinni á óaðfinnanlegan hátt. Lesöndin finnur glöggt hvernig hvernig umhverfi og líf persónanna mótaði þær – og hér finnum við aftur mjög glöggt hvernig Merking er verk um tengingar. Þá leikur Fríða sér listilega vel með nýyrðasmíð, eins og ég snerti á hér að ofan, og tekst það svo vel og náttúrulega að maður fær það á tilfinninguna að hún sé skyggn, hafi raunverulega séð framtíðina opinberast sér, á nánast sama hátt og við sjáum hjá Andra Snæ í LoveStar (2002).

Framtíð og nútíð mætast nefnilega á einstaklega tímabæran hátt í verki Fríðu. Það er ekki fyrir einhverja einskæra tilviljun sem Merking fjallar um siðblindu og samkennd. Þetta eru viðfangsefni sem spretta beint upp úr samfélagsumræðu nútíðarinnar. Ofbeldi er sjúkdómsvætt í síauknum mæli: það er ekki lengur hægt að halda því fram að fólk brjóti af sér og skaði annað fólk vegna þess að það sé illt eða meinfýsið. Í besta falli væri það talin barnaleg ofureinföldun, í versta falli skaðlegt og próblematískt. Við erum sífellt að færast nær því að skilgreina glæpi og afbrot sem sjúkdómseinkenni. Til að mynda var umfjöllun í Kveik nú á dögunum sem fjallaði um heilaskaða. Þar sagði meðal annars: „Erlendar rannsóknir benda til þess að í það minnsta helmingur fanga sé með heilaskaða. Í rannsókn á sænskum heilbrigðisgögnum og fangelsisskýrslum kom í ljós að fólk með heilaskaða var þrisvar sinnum líklegra til að fremja ofbeldisglæpi en aðrir og helmingi líklegra til þess en ósködduð systkini. Í flestum tilvikum má rekja þetta til framheilaskaða.“ 

Vert er að geta þess að með því að draga að þessu athygli er ég ekki að taka afstöðu með eða á móti þessari þróun í orðræðu okkar og meðvitund um þessi fyrirbæri. Þvert á móti er meining mín sú að sem bókmenntaverk sé Merking einstaklega vel til þess fallið að opna á gagnrýna og meðvitaða umræðu um hvað þetta merkir allt saman. Verkið gerir okkur kleift að taka þátt í stórri hugsunartilraun: hvað ef við myndum bókstaflega byrja að merkja fólk sem hefur ákveðna taugafræðilega eiginleika sem sérstakan þjóðfélagshóp – þjóðfélagshóp sem þarfnast læknis- og sálfræðilegrar aðhlynningar og meðferðar til þess að geta tekið þátt í samfélaginu á heilbrigðan máta? Væri það réttlátt? Væri það betra eða verra? Hvernig myndi það birtast okkur? Hvaða spurningum þurfum við að velta fyrir okkur?

Við gerum þetta auðvitað nú þegar. Nú þegar skilgreinum við suma líkama sem veika út frá miðlægum punkti sem er skilgreindur út frá heilbrigða líkamanum. Veikindi eru meiri eða minni skortur á heilbrigði. Gott og vel, en hvað er heilbrigði? Ástand sem einkennist af heildrænni og langvarandi velmegun, vellíðan og hamingju – eitthvað í þá áttina, er það ekki? En hvað er velmegun þá, hvað er hamingja? Hvað er vellíðan? Um leið og við köfum undir yfirborðið verður okkur ljóst hvernig þessi tvíundarskilgreining byggir fyrst og fremst á gildisdómi: „þetta er heilbrigt og gott vegna þess að það lætur mér líða vel.“ Hvað þýðir það fyrir skilning okkar? Ef til vill þýðir það að skilningur okkar á heilbrigði og veikindum velti óhjákvæmilega á lífrænum hagsmunum líkamans. Við vitum að líkamar eru fjölbreyttir: það sem þjónar einum líkama þjónar ekki endilega öðrum líkama. Einn líkami þarf örvun til þess að öðlast velmegun, annar líkami þarfnast hvíldar – og svo framvegis. Þess vegna komumst við ekki hjá því að jafna þennan einstaklingsmun út þegar við notum hugtakið í almennum eða altækum skilningi (e.t.v. gætum við farið alla leið í þróunarfræðilegu kanínuholuna við altæku skilgreininguna og sagt: heilbrigður líkami er sá sem nær að fjölga sér sem mest). Heilbrigði sem slíkt er aðeins ástand tiltekins líkama sem hefur tilteknar þarfir, og það er í vissum skilningi mótsagnarkennt að tala um heilbrigði sem almennan staðal.

Stöðlunin er það sem skiptir máli í vangaveltum okkar um Merkingu – því það er innan þessa staðals sem við erum merkt, það er innan staðalsins sem skilgreiningin „veikur“ á uppruna sinn, en staðallinn tekur ekki mið af einstaklingsbundnu afstæðunum sem hugtak eins og heilbrigði þarf nauðsynlega að innifela. Hvað er þessi staðall þá eiginlega?

Ef til vill mætti segja að staðallinn um heilbrigði sé hagsmunamiðað verkfæri sem er notað til þess að viðhalda heilbrigði sem flestra. Einstaklingur sem hefur mikla samkennd (sem við verðum að íhuga handan góðs og ills hér!) nýtur ef til vill aukins heilbrigðis, eða það þjónar þeirra hagsmunum, þegar fólk sem skortir samkennd er skilgreint sem óheilbrigt, einangrað og því veitt ákveðið eftirlit og aðhald. Þessi einstaklingur upplifir sig sem veikburða frammi fyrir fólki sem skortir samkennd vegna þess að hann telur það fært um að skaða sig og telur sig ekki einan og sér nægilega sterkan til þess að varnast því. Það er því samkenndarfólki í hag að skilgreina „siðblindu“ sem sjúkdóm (lesist: illsku) og samúð sem heilbrigði (lesist: gæsku). Það er meðal annars vegna þessa sem ég tel að Merking fjalli fyrst og fremst um tengingar – vensl eða tengingarnar eru nefnilega alltaf mörkuð af valdaójafnvægi. Völd, máttur, kraftur – hvað sem þú vilt kalla það – þetta er eiginleiki sem skilgreinir bókstaflega veröldina okkar, fyllir hana af merkingu. Það sem eykur við mátt okkar hefur merkinguna „gott“ og það sem dregur úr honum hefur merkinguna „illt“.

Andi Nietzsche hefur fylgt okkur frá annarri blaðsíðu Merkingar, hljóðlátur en sífellt nálægur eins og skugginn, en nú fyrst verður hann alveg yfirþyrmandi. Hér væri einfalt að stökkva rakleiðis til einföldustu niðurstöðunnar, þar eð hún virðist blasa við: boðskapur Merkingar er enginn annar en sá að sjúkdómsvæðing ofbeldis sé framlenging eða endurmörkun á kristnu þrælasiðferði. Ég legg þó til að lesöndin geri sitt besta að hrapa ekki að ályktunum of snemma. Þótt andi Nietzsche svífi hér yfir vötnum er ekki þar með sagt að við þurfum að komast að sömu niðurstöðum og hann. Munum að Merking er skáldverk, ekki heimspekileg röksemdafærsla – verkið er fyrst og fremst list. Fríða er ekki að reyna að troða svo einföldum boðskap niður kokið á okkur eða neyða okkur með mætti röksemdafærslunnar til þess að samþykkja áfellisdóm um hrörnun samfélagsins. Henni er sennilega mun fremur efst í huga að verkið fangi einhvern lifandi takt, einhvern sannleika, grípi eitthvað andrúmsloft og sé fallegt og áhugavert. Það tekst henni með afburðum vel.

Ég las Merkingu sem verk sem fjallar um það að vera lifandi. Merking dregur fram lífið í öllum sínum litum og biðst hvergi afsökunar á því. Umfram það finnst mér raunar sem svo að Merking sé að vissu leyti bók sem hefði ekki getað verið skrifuð fyrir tíð Darwins, og ekki bara vegna þess að þróunarkenningin mótar ákveðinn skilning nútímamannsins heldur vegna þess að verkið fangar ákveðinn rytma eða andblæ sem kalla mætti darwinískan. Það er ákveðið innsæi um lífið og þróunina sem hljómar í gegnum verkið allt – þetta samspil hins huglæga og hlutlæga – lífrænn, lifandi hlutleiki sem skapar stóru myndina. 

Ég ætla að láta staðar numið hér. Vonandi virkar þessi litli ritdómur minn ekki of hástemmdur, en ég í fullri hreinskilni sagt hef ekkert slæmt um bókina að segja. Í öllum föllum hvet ég þig, kæri lesandi, til þess að láta þetta forláta og margbrotna ritverk ekki fram hjá þér fara. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta sé tímamótaverk sem enginn má missa af.

Inngangur að þýðingu á Formála að Réttarspeki Hegels

Inngangur að þýðingu á Formála að Réttarspeki Hegels

Measure for Measure

Measure for Measure