Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Nærvera þarverunnar—glósur upp úr Heidegger

Nærvera þarverunnar—glósur upp úr Heidegger

Nýlega hef ég verið að lesa og endurlesa Sein & Zeit og „Was Ist Metaphysik?” hans Martin Heidegger. Stórvirkið Vera og tími kom út árið 1927 en fyrirlesturinn „Hvað er frumspeki?” var haldinn árið 1929 fyrir Háskólann í Freiburg. Í fyrra ritinu er viðfang heimspekingsins fyrst og fremst spurningin um merkingu Verunnar, sem hann gerir tilraun til þess að útlista í gegnum svokallaða tilvistargreiningu á verunni fyrir hverri Veran er spursmál: þarverunni, Dasein. Í hinu seinna einbeitir Heidegger sér að spurningunni um „ekkert”: hvað er „ekkert”? Er hægt að upplifa ekkert, lýsa því fyrirbærafræðilega? 

Þessi færsla er eiginlega bara margvíslegur glósubanki sem ég vildi deila opinberlega, en jafnframt léttvæg tilraun til þýðingar og túlkunar—ekki færsla til þess að taka alvarlega, þannig séð, (þótt hún sé kannski færsla til þess að taka al-varlega, að því leytinu til sem hún er ekki til þess að taka alvarlega!) en mögulega er þetta færsla sem getur verið einhverjum til gagns og upplýsingar—nú eða þá hvatningar til þess að lesa og kynna sér nánar hvað þetta snýst nú allt um. Færslan er í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn er um Veru og tíma, sá seinni er um „Hvað er frumspeki?”.

Málverkið í haus heitir Jason & Medea og er eftir John William Waterhouse frá árinu 1907.

1. Sein & Zeit

Til að byrja með er vert að punkta örlítið um stíl og hugtakanotkun Heidegger. Hann er sérstakur—notar mikið af bandstrikum, býr til orð (eins og [eigentlichkeit] og [nichtet]—auglj. ekki tæmandi listi!). Þetta er þó ekkert svo hræðilegt þegar maður kemst á lagið með það hvers vegna hann skrifar svona. Til að mynda eru bandstrikin einfaldlega notuð til þess að merkja órjúfanlegt samhengi. Vera-í-heiminum er tvinnuð svona saman vegna þess að fyrir Heidegger eru þessi þrjú orð fyrirbærafræðilega óhugsandi án hvors annars; það er engin Vera-í án þess að Vera sé einmitt í einhverju, sumsé í heiminum—og það er sömuleiðis enginn heimur án þess að í honum sé Vera. Svo getum við flækt málin: Vera, aftur á móti, er svo heldur í rauninni strangt til tekið ekki möguleg án þess að til sé Dasein eða þarvera—því það væri í rauninni enginn heimur (ekkert heildrænt samhengi viðurvistar hluta), og engin Vera í ontólógískum skilningi án þarverunnar sem er „þar” og skilur Veruna qua Veru (Sjá SZ §43c). 

Það er eins og sjá má tiltölulega auðvelt að verða reiprennandi í heideggerísku—hvort sem það er gott eða slæmt—ef maður einfaldlega les og veitir verkinu dálitla umhyggju og athygli. Þrátt fyrir það er það mér ekki auðvelt að skrifa um þetta allt saman á einföldu mannamáli eins og komið er—sem ljóstrar bara upp um þá staðreynd að ég skil þetta ekki nægilega vel enn sem komið er, eins og gamalt og gott lögmál Richard Feynman um útskýringar segir til um. En! Maður lærir aðeins með því að gera. Ég reyni mitt besta.

Jæa höldum þá áfram. Nú hvað er þetta Dasein þá? Dasein þýðir auðvitað ekkert annað en bókstaflega þar-vera [Da-Sein], vera sem hefur alltaf eitthvað „þar,” sitt eigið „hér.” Ég er þarvera, þú ert þarvera, dýr eru þó ekki þarverur (sem má auðvitað deila um en Heidegger virðist ekki telja að svo sé!). Dasein er vera sem er stöðugt annt um hvaða „hvert?” hún gæti verið að fara, hvaða „og-þá” það er sem væntir hennar. Þetta hljómar flóknara en það í raun er—við þekkjum þetta öll af eigin reynslu: við erum alltaf að pæla í því hvert við stefnum, hvert líf okkar er að fara, hvaða möguleika við höfum í lífinu. Við höfum áhyggjur af lífi okkar og okkur er umhugað um það. Þetta að vera annt um eitthvað, að vera umhugað eða að hafa áhyggjur—Heidegger vill meina að þetta sé hvorki meira né minna en Vera þarverunnar. 

Í SZ §42 vitnar hann í afar áhugaverða goðsögn um tilurð mannkynsins. Sagan segir að Cura (latína fyrir „care”—sem þýðir jafnframt gát, umsjá, áhyggja og kvíði á íslensku!) hafi skapað eitthvað úr leir er hún dólaði sér við ána. Júpíter var í grennd, svo Cura fékk hann til liðs við sig, svo hann léði sköpunarverkinu anda. Því næst deildu Júpiter og Cura um það hvort nafna þeirra sköpunarverkið skyldi bera. Tellus (Jörðin) slóst svo í deiluna og vildi að þetta nýtilkomna fyribæri héti eftir sér, þar eð hún léði leirinn, efniviðinn til sköpunarinnar. Þríeykið bað því næst Satúrnus um að dæma um hvernig málum skyldi háttað. Satúrnus skar úr um að Satúrnus skyldi fá að hirða andann sem hann veitti fyrirbærinu, og að það skyldi heita homo þar eð það var gert úr humus, jörðinni. Cura, aftur á móti, fékk að eiga þennan homo svo lengi sem hann lifði, því það var hún sem mótaði hann. Merkileg saga!

Þetta er nefnilega alltaf samtímis „hvert?” sem þarveran setur sér sjálf, tilveru-möguleiki sem hún að hverju sinni stefnir að vegna þess að henni er annt, henni er umhugað. Málin flækjast þó þegar Heidegger gefur því gaum að miklu máli skipti (ekki móralskt, heldur hvað varðar vensl þarverunnar við Veruna) hvort þarveran horfist í augu við tilveru-möguleika sinn í „eiginleika” [eigentlichkeit] eða „óeiginleika” [uneigentlichkeit]. Pælum aðeins í þessu. Þarveran, segir Heidegger, opinberast ávallt fyrir sjálfri sér í skapinu eða hugar-farinu sem hún er á hverri stundu sokkin í. Við finnum sjálf okkur ávallt í einhverskonar skapi eða ástandi, óútskýranlegu viðhorfi gagnvart heiminum—og það er í raun þetta ástand eða afstaða hennar sem ákvarða hvort hún er stemmd í eiginleika sínum eða óeiginleika. 

Þarveran í hversdagsleika sínum er alltaf fallandi á brott frá sjálfri sér, alltaf að pæla í einhverju praktísku sem er fyrir hendi, því sem er í nærliggjandi umhverfi hennar. Svo er þarveran líka stöðugt á kafi í hversdagshjali „manna” (Tilraun til þess að þýða [Das Man]—„menn” í sama skilningi og pólitíkus gæti beitt fyrir sig þegar hann segir „Menn segja skatta skýra hátt áfengisverð. Það er þvættingur.”). „Menn” eru alltaf með-fram og í-verunni-með þarverunni—það mætti eiginlega segja að þarveran, að svo miklu leyti sem hún fellur í þetta mynstur, hafi „mann-sjálf” [Man-selbst]. „Menn” fúnkera fyrir Heidegger sem e.k. tvívíður samfélagsandi, hjörð sem er vitsmunum sneydd og ávallt upptekin af því að gleyma eiginleika sínum. 

Þegar þarveran snýr burt frá sjálfri sér og sínum eiginlegustu möguleikum tilvistar og fellur í hversdagshjal „manna” er hún sokkin í óeiginleika—hún gerir lítið úr dauðanum með því að forðast að kvíða dauðann. Dauðinn er eitthvað sem kemur fyrir „menn”, hugsar hún í mann-sjálfi sínu—dauðinn hendir fólk almennt og að endingu allt fólk, en í öllum föllum er dauðinn eitthvað sem skeður fyrir annað fólk en þarveruna sjálfa, eitthvað sem kemur fyrir „alla,” en ekki eitthvað sem þarveran stendur frammi fyrir þá og þegar. Þannig er dauðinn fjarlægður frá þarverunni. Heidegger orðar þetta ansi vel þegar hann segir að „menn” leyfi sér ekki hugrekkið til þess að finna kvíða frammi fyrir dauðanum. Þrátt fyrir þetta koma „menn” upp um sig með því að þykjast láta dauðann sig lítið varða—því þeir eru einmitt alltaf fastir í virku ferli við að gleyma því að dauðinn sé eftir allt saman eitthvað sem mun henda þá og að enginn geti dáið fyrir þá.

Þegar þarveran þvert á móti horfist í augu við tilvistarmöguleika sína í kvíðaþrunginni stemningu sem opinberar fyrir henni frelsi hennar gagnvart sínum eigin dauða, frelsi sem er samtímis hennar allra einstakasti og eiginlegasti möguleiki: möguleikinn á ómöguleika tilvistarinnar, möguleikinn á dauðanum, hinum allra hinsta og ysta möguleika. Það er þegar við horfumst með einskonar dirfsku í augu við kvíðann frammi fyrir dauðanum, okkar persónulegasta „ekkert,” sem við getum tekið til okkar þetta viðhorf til Verunnar, þessi vensl, sem Heidegger kallar eiginleika. Það er í einskonar kvíðinni eftirvæntingu gagnvart dauðanum sem við erum eiginleg—og kvíði, þegar við berum kennsl á innsta eðli hans, er einfaldlega þetta viðhorf sem Heidegger kallar „Vera-gagnvart-dauðanum.” 

Þetta er svo auðvitað ekki alveg svona auðvelt—maður þarf víst að „detoxa” sig frá þessari tvívíðu hjörð sem Heidegger kallar „menn” og finna hið sanna ákall samviskunnar innra með sér. Það er aðeins þá sem maður getur verið staðfastur frammi fyrir dauðanum sem eitthvað sem er alltaf algjörlega manns eigin í orðsins fyllstu merkingu. Frumsannleikur tilverunnar, segir Heidegger, er því að vissu leyti endurkvæm og staðföst obinberun og obinberandi tilvistarmöguleika þarverunnar fyrir sjálfri sér (sjá SZ §62). Það er í umhyggju þarverunnar fyrir eigin framtíð sem tímanleiki hennar, endanleiki hennar, opinberast, og það er í staðfastri, endurkvæmri, síendurtekinni meðvitund fyrir þessum róttæka endanleika sem við getum verið eiginleg.

Annað dæmi—jafn goðsagnakennt og ef til vill eilítið skemmtilegra en það sem ég hef eftir Heidegger að ofan—er sagan sem Apollóníus af Ródos segir af Medeu í sögunni af Argóarförunum. Afródíta, Aþena og Hera hafa þá sent Eros (gegn loforði um guðdómlegt leikfang) til þess að skjóta ör í brjóst Medeu og gera hana ástfangna af Jasoni leiðtoga Argóarfaranna. Von gyðjanna var sú að Medea skyldi aðstoða Jason við hina erfiðu þrískiptu prófraun sem Aetes konungur Colchis og faðir Medeu lagði fyrir Jason gegn því að hann léti frá sér gullna reifið sem Jason sóttist eftir. Nóttina fyrir prófraunina er Medea uppfull sálarangistar. Hún getur ekki ákveðið hvort er bærilegra: að horfa upp á ástmögur sinn Jason láta lífið í prófrauninni eða að svíkja föður sinn Aetes og verða sjálfri sér og fjölskyldu sinni samtímis til skammar og athlægis. Hvor útkoman sem er, hugsar hún með sér, er svo gott sem jafngild dauðanum: það væri ekkert líf án Jasons og hún vildi heldur ekki lifa í skömm. Til þess að forðast að velja á milli tveggja illra valkosta ákveður hún í örvinglan að fremja sjálfsmorð. Hún fálmar eftir lyfjaglasi fullu af eitri en skyndilega snýst henni algjörlega hugur—og svo hljóðar þýðing E.V. Rieu (áherslur mínar eigin): „But suddenly she was overcome by the hateful thought of death, and for a long time she stayed her hand in silent horror. Visions of life and all its fascinating cares rose up before her. […] And now, setting its true value on all this, it seemed to her a sweeter thing to see the sun than it ever had before. So, prompted by Here, she changed her mind and put the box away. Irresolute no longer, she waited eagerly for Dawn to come […].” Finnst ykkur þetta ekki ansi merkilegt! Mér finnst það.

2. „Hvað er frumspeki?”

Í „Hvað er frumspeki?” snýr Heidegger sér nánar að spurningunni um „ekkert”. Raunar hringsólar hann að því svo er virðist í kringum hana í seinni hluta Veru og tíma, en gefur sér engan tíma (😉) til þess að rannsaka hana til hlítar. Þrátt fyrir það leggur hann klárlega grunninn að rannsókninni sem fer fram í fyrirlestrinum tveimur árum síðar í SZ §58 þegar hann talar um að „verufræðileg merking ekkileika [Nichtheit] […] sé enn óljós. En þetta gildir einnig um verufræðilegt eðli „ekki”-sins almennt.” 

Ekkertið er því nákvæmlega spurningin sem hann tekur upp í fyrirlestrinum: við getum ekki talað um ekkertið einfaldlega sem neitun alls þess sem er vegna þess að neitun er grundvölluð á ekki-nu, sem er aðeins skilið í gegnum ekkertið—sem þýðir að rannsókn okkar verður að hefjast á því að spyrja þess hvort unnt sé yfir höfuð að upplifa ekkertið fyrirbærafræðilega og ef svo er þá hvernig. Í fyrirlestrinum færir Heidegger rök fyrir því að kvíði [Angst] sé þessi grundvallarstemning sem ljóstrar upp fyrir okkur hugtakið „ekkert” og að það sé aðeins í gegnum þessa stemningu sem frumspeki verður yfir höfuð möguleg. Þetta viðfangsefni hef ég skrifað um áður og finnst það til þessa dags afskaplega heillandi fyrirbærafræðileg lýsing. 

Það er þó nokkuð annað sem Heidegger minnist á, eins og í hendingu, í fyrirlestrinum „Hvað er frumspeki?” sem mér er farið að finnast að einhverju leyti merkilegra en þessi stór-systematíska tilvistargreining og hin mikla áhersla sem lögð er á þetta tiltekna skap, kvíðann. Þessi hending hans virðist mér búa yfir augljósari sannleika en röksemdafærsla hans varðandi dauðann og ekkertið og kvíðann. Mig langar því að skrifa örlítið um hana, þessa hendingu, ef þó ekki aðeins til þess að hugsa hana í texta—rétt eins og Sumire í Sputnik, Sweetheart hans Murakami á ég nefnilega erfitt með að hugsa án þess að ég skrifi hugsunina eða hugsi í skriftinni sjálfri. 

Lítum þá nánar á þetta. Hendingin sem ég vísa til er tiltölulega snemma í texta fyrirlestrarins—og á sér stað þegar Heidegger veltir því fyrir sér hvernig hægt sé að hugsa heild allrar viðurvistar (þýðing óljós hér—er að hugsa: vera með litlum staf í fleirtölu, (þ.e. verur qua  hlutir fyrir hendi) eða [Seiendes]—sumsé ontísk vera, ekki ontólógísk Vera [Sein]) til þess að hægt sé að hugsa brotthvarf þeirra, ekkertið. Hann heldur því fram að heild allra vera birtist okkur til að mynda þegar okkur leiðist—það er einmitt þegar við erum ekki upptekin við neitt, þegar við höfum frjálsar hendur, sem heildrænt samhengi allrar þessarar ofgnóttar ontískrar tilveru blasir við okkur. Það er ekkert rosalega flókin hugsun—jú, þegar okkur leiðist virðist heimurinn okkur einmitt frekar þýðingarlaus, virðislítill. Leiði er dauði athafnahvatarinnar og algjört skeytingarleysi—kæfandi þoka, lýsir Heidegger því.

En nú að hendingunni sem mér finnst svo merkileg. Beint og blákalt segir Heidegger í kjölfarið á þessu varðandi leiðann og opinberun heildrænnar viðurvistar vera: „Annar möguleiki slíkrar opinberunar er falinn (e. concealed) í hamingju okkar sem fylgir nærveru þarveru—og ekki bara persónu—manneskju sem við elskum.” Mikið er þetta merkileg athugasemd. Tilvistin í heild sinni, segir Heidegger, opinberast fyrir okkur þegar við erum í návist eða nærveru þarverunnar sem við elskum. Hvernig er þessi greinarmunur að fúnkera? Brjótum þetta niður. Við elskum manneskju—byrjum þar. Við getum verið í nærveru þessarar manneskju á tvöfaldan máta; annars vegar getum við verið í nærveru þessarar manneskju einvörðungu að því leytinu til sem hún er persóna, hins vegar getum við verið í nærveru manneskjunnar að því leytinu til sem hún er þarvera. Við fyrstu tilhugsun virðist manni hugtakið þarvera einfaldlega vera notað á einhvern undarlegan máta. Getur ekki verið að svo sé? Ég veit ekki—mér finnst þetta afar merkilegt og mögulega getur þetta veitt okkur innsýn í hugtakið sem við höfðum ekki áður.

Við erum nefnilega alltaf í raun og reynd í nærveru annarra þarvera—það er svo gott sem byggt inn í okkur; þarvera er alltaf meðvera, vera-með-öðrum. Þrátt fyrir það erum við þó sjaldnast vör um þarverurnar í kringum okkur sem þarverur. Við erum oftar en ekki meðvituð um þær sem fyrirbæri fyrir hendi, persónur, samansafn eiginleika, einskonar persónuleikaklumpur sem er baðaður ljósi minninga og tilfinninga skynjandinnar að hverju sinni. Það er sjaldnast sem við eigum í fyllilega meðvituðum samskiptum við fólk almennt; úti á götu, í versluninni, yfir kvöldmatarborðinu, í vinnunni—þegar við erum djúpt sokkin í hversdagsleikann er erfitt að koma auga á hið sanna fyrirbæri að baki persónunni, þarveruna sjálfa, þarveruna sem er sín eigin þarvera en þrátt fyrir það þarvera á sama hátt og við erum það sjálf.

Stundum gerist það samt—fyrir mig allavega, og fyrir nokkra vini mína sem ég hef talað um þetta við—að í hversdagsleikanum glittir í eitthvað sem liggur undir persónunni, eitthvað dýpra. Maður stýrir þessari opinberun í raun alls ekkert, hún bara kemur yfir mann, ekki svo ólíkt tilfinningunni fyrir fáránleika heimsins eða ógleðinni sem tilvistarspekingar tala stundum um. Þessi upplifun er samt ekki alveg eins. Hún hefur meira með það að gera að maður raunverulega kemur auga á það sem liggur undir botnfallinu, öllu þessu persónulega-tilvísunarkennda; þarveran á bak við öll yfirborðskenndu venslin og orðin og hugmyndirnar brýst fram og verður deginum ljósari. 

Hvað er það nákvæmlega sem ég á við hérna? Kannski er þetta í grunninn hugmynd á við kantíska „markmiðið í sjálfu sér” eða kristna boðorðið í Lúkasarguðspjalli 14:26—þetta er upplifunin af kjarna mennskunnar, upplifun af einhverju einföldu og órjúfanlegu föruneyti sem við deilum með öðrum þarverum. Við eigum í öllum þessum venslum við heiminn fyrir hendi og það sem fyrir okkur ber—en þegar allt kemur til alls erum við öll jafn máttlaus, jafn endanleg, jafn berskjölduð. Ég get skilgreint mig þangað til ég verð hás: hægrimaður, svíi, grænmetisæta, kærasti, frændi, ljósmyndari, íþróttamaður, heimspekingur, Bach-unnandi… en í grunninn hefur mér einmitt bara verið fleygt hingað án þess að ég hafi haft nokkuð um það að segja og að endingu mun ég svo allur verða. Dasein est homo homini, non homo—gætum við sagt.

Eftir situr spurning, virðist mér—hvers vegna skilur Heidegger það sem svo að það sé einvörðungu í nærveru þarveru manneskju sem maður elskar sem „heild viðurvistar” opinberast fyrir okkur? Þetta er í raun spurning um hvað hann meinar. Getur verið að hann meini að það sé aðeins ástvinur sem getur ljáð manni þessa opinberun—að það sé í nærveru þarveru ástvinarins sem hlutir eða verur opinberast fyrir okkur í heild sinni, umfram nærveru þarveru hins ókunnuga? Eða er ef til vill skynsamlegra að gera ráð fyrir einhverri hálf-dulinni eða óskýrri kristinni hugmynd hér um náungakærleik? Nú er ég sjálfur ekki alveg viss—en mig grunar að hugmyndin sé sú fyrri, en að hún veiti að vissu leyti aðgang að síðari merkingunni.

Ást er nefnilega eigingjörn—kærleikur ekki. Þegar ástvinur birtist okkur í nærveru sinni sem þarvera og ekki bara sem persóna erum við minnt á það hvernig þarveran, þetta sem við eigum sameiginlegt með ástvininum, hefur alltaf sitt eigið „þarna,” hún hefur alltaf sína eigin „hérna.” Í þessari opinberun verður okkur kleift að sjá skýrt og greinilega hvernig ást okkar byggir á umhyggju—umhyggju sem er ekki útilokandi, heldur alltumlykjandi, umhyggju sem sér og lifir í heimi sem henni er umhugað um. Nú er ég að draga heldur óljósa ályktun, og ég geri mér grein fyrir því—en mér virðist sem kærleikur sé einmitt ekkert annað en ástin sem við berum til ástvina okkar þegar henni er miðlað í gegnum þessa „stærri linsu” upplifunarinnar af þarveru ástvinarins: umhyggja verður okkur ljós sem veraldleg afstaða og ekki bara staðbundin—global, ekki bara local. Ég ætla að melta þessa röksemdafærslu. Kannski er hún þvættingur.

Much Ado About Nothing(ness): Phenomenology and Meontology in Early Heidegger

Much Ado About Nothing(ness): Phenomenology and Meontology in Early Heidegger

Hugsunartilraun í "aesth-etík": Louis Wolfson og þýðingin

Hugsunartilraun í "aesth-etík": Louis Wolfson og þýðingin