Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hugsunartilraun í "aesth-etík": Louis Wolfson og þýðingin

Hugsunartilraun í "aesth-etík": Louis Wolfson og þýðingin

Louis Wolfson er bandarískur rithöfundur. Hann var greindur með geðklofa snemma á lífsleiðinni og var sendur í ýmsar varhugaverðar meðferðir, þar á meðal raflostameðferð. Í kjölfar meðferðanna þróaði hann með sér algjört óþol fyrir móðurmáli sínu, ensku, og byrjaði að þróa með sér aðferðafræði eða „ferli” sem umbreytir milliliðalaust hverri einustu ensku setningu sem fyrir hann ber yfir í setningu á einhverju útlensku tungumáli sem hefur sambærilega merkingu og hljóðan. Heimspekingurinn Gilles Deleuze lýsir „ferlinu” sem svo í ritgerð sinni um Wolfson, „Louis Wolfson; or, The Procedure”: „Such is the general procedure: the phrase Don't trip over the wire becomes Tu'nicht treb uber eth he Zwirn. The initial sentence is in English, but the final one is a simulacrum of a sentence that borrows from various languages: German, French, Hebrew-a "tour de babil.”” Wolfson gerðist svo rithöfundur, og skrifaði einvörðungu á frönsku, sem hann gerði að nokkurskonar fósturmóðurmáli sínu. Meðal annars eru til eftir hann verkin La Schizo et les langues (1970) og Ma Mére, Musicienne, est morte de maladie maligne mardi à minuit au milieu de mois de mai mille977 au mouroir Memorial à Manhattan (1984). Verkin eru að miklu leyti flótti frá yfirþyrmandi allsherjaryfirráðum enskunnar—þau eru óneitanlega eftir Bandaríkjamann, einmitt vegna þess að þau eru þessi flótti: hegemónísk tilætlunarsemi bandarískrar ensku framkallar óhjákvæmilega þessi viðbrögð, ekki aðeins hjá Wolfson, heldur hjá heiminum öllum (hver hefur ekki hringhvolft augunum yfir yfirgangi og tilætlunarsemi bandarískra túrista sem halda á brott í heiminn í þeirri von og væntingu að allir tali og skilji ensku—bara af því bara?). Þegar Wolfson er jaðarsettur innan Bandaríkjanna qua Bandaríkjamaður samsamar hann sig að því svo er virðist öllu því sem stór-bandaríska menningin kallar annað. Það er þó ef til vill ekki hægt að samsama Wolfson og verk hans því sem Deleuze og Guattari kalla littérature mineure—þar eð hann verður ekki smættaður niður í bókmenntir. Bókmenntirnar eru eftir allt saman afsprengi „ferlisins” sem hann þróaði með sér, ferlisins sem er eins og vél hönnuð til þess að grafa undan og að endingu drepa móðurmálið, kæfa það í þýðingu. Ef til vill er því réttara að tala um að Wolfson líkamni og framleiði e.k. langue mineure—ef það er ekki of mikil einföldun. Allt er þetta umhugsunarvert eitt og sér—en það sem mér flaug í hug hvað allt þetta varðaði var vandamál þýðingarinnar. Nú er ég mikill lestrarhestur og hugsaði mér, þegar ég komst í tæri við þessi merkisskrif Wolfson, að ég gæti ef til vill lesið eitthvað eftir hann—kannski bara þá fyrstu sem hann gaf út, La Schizo et les langues. En gæti ég lesið hana á frönskunni? Ég gæti það jú líklega, hugsaði ég með mér, en það tæki mig heljarinnar ósköp að dröslast í gegnum hana, varla er ég það flinkur. Þá hugsaði ég: ætli það séu ekki til einhverjar þýðingar? Það var einna helst þessi tiltekna hugsun sem ég vildi hugleiða í þessum stutta pistli.

Það fyrsta sem kemur manni til hugar þegar maður hugsar út í þessa spurningu er þversögnin sem fólgin er í því að vilja fá að lesa þetta verk, verk sem er flótti frá enskunni, þýtt yfir á ensku. Er ég ekki þar með umbúðalaust búinn að taka þau litlu vopn sem Wolfson hafði föndrað sér með hyggjuvitinu einu saman og snúa þeim gegn honum? Er ég þá ekki orðinn holdgervingur bandarísku hegemóníunnar—þeirrar hinnar sömu og á í erfiðleikum með að horfa á Parasite eftir Bong Joon-ho vegna þess hve erfitt það er að lesa textann við kvikmynd á kóresku? Mér virðist það einmitt vera algjör svik—ekki aðeins við Wolfson sem persónu—heldur þá og sömuleiðis við sjálft listrænt formið sem hann skapar sér til þess að miðla og frelsa sig undan kúgun og ofbeldi enskunnar. En hvers vegna, samt? Hvað um fólk sem les ekki frönsku; fólk sem hefur aldrei haft ráð á því að læra hana, hefur ekki tíma, er ekki nógu glöggt í tungumálum, og svo framvegis—ætti þetta fólk einfaldlega að vera undanskilið því að fá að lesa Wolfson? Hér opnast á möguleikann á hugsunartilraun í estetískri etík—aesth-ethic—sem spyr einmitt að þessu: hvenær brýtur aðgengileiki á listaverkinu? Við þurfum ekki að einangra okkur við Wolfson til þess að ná utan um þessa hugsunartilraun. Hvað, til dæmis, um styttar útgáfur af skáldverkum? Er stytt útgáfa af Greifanum af Monte Kristó ekki á einhvern hátt svik við verkið sjálft? Það er tilraun til þess að sjóða verkið niður í eitthvað óáþreifanlegt „essens” sem á að þjóna fólki sem hefur ekki tímann eða athyglina til þess að lesa verkið eins og það var upprunalega gefið út. Það sleppir ótal atriðum sem verkið samanstendur af—nánast eins og ef hesturinn og nautið í Guernica eftir Picasso væru slitin úr samhengi verksins og sett á hvítan ramma án alls hins sem einkenndi það. Í öllum þessum tilfellum—Wolfson, Monte Kristó og Guernica—virðist okkur sem það sé eitthvað við heildrænt sjálfstæði verksins sem numið hefur verið á brott. Er þó ekki einhver munur þarna á þessum dæmum? Manni virðist sem það sem tekið var frá Greifanum og Guernica sé einfaldlega einhver listræn heild sem á við um öll verk—hið sama myndi gilda um La Schizo et les langues ef það væri „stytt” eins og Greifinn. Það er hins vegar eitthvað sérstakt, eitthvað pólitískt, við listrænt form Wolfson sem krefst þess að því sé gefinn gaumur í tilfellum sem þessum, þegar spurt er um möguleikann á þýðingu. Kannski er þá rétt að greina á milli þess a) þegar aðgengileiki ógnar listrænni en abstrakt heild hvaða verks sem er og b) þegar aðgengileiki ógnar konkret listrænu formi tiltekins verks fyrir óalhæfanlegar sakir.

Það er að mér sýnist tiltölulega einfalt að mynda sér afstöðu með og gegn dæmum sem falla einfaldlega undir lið a)—raunar virðast slík dæmi frekar óáhugaverð í samanburði við vandræðin sem dæmi eins og Wolfson skapa okkur. Einbeitum okkur stuttlega enn þá að lið b). Nú verður freistandi að spyrja nokkurra spurninga. Í fyrsta lagi—á list að vera aðgengileg? Ber listheiminum sem slíkum einhver laus skylda til þess að gera hana aðgengilega? Í öðru lagi—er hægt að segja að list sé óaðgengileg ef hún er einfaldlega á tungumáli sem þú nennir ekki að læra? Er hún ekki einvörðungu og í raun og veru óaðgengileg ef þú býrð yfir einhverri vanfærni til þess að njóta hennar, eins og til að mynda ef einhver fæddist með hýpóþetískt frönskuleysisheilkenni? Í þriðja lagi—er ekki hægt komast hjá þessu vandamáli með því að að þýða verk Wolfson einfaldlega á önnur tungumál en ensku? Það væri varla andstætt anda verksins og höfundarins ef einhver drattaðist til þess að þýða La Schizo et les langues á íslensku, þvert á móti væri það líklega einmitt í anda Wolfson umfram allt annað—það væri fremur eins og framlenging eða þátttaka í „ferlinu” sem hann skapaði. Auðvitað verða kanarnir og bretarnir þá útundan—en þeir mega kannski bara éta það sem úti frýs, helvítin á þeim. Eða hvað?  Nú ætla ég þó ekki að skrifa fullnægjandi eða kerfisbundna ritgerð um þetta mál allt saman, spurningarnar sem spretta upp frá því og svo um endanleg svör við þeim margvíslegu spurningum. Mig langaði bara að deila með ykkur þessari litlu hugsun sem ég átti. Ég er hins vegar búinn að opna á Kommentakerfi (!!!) fyrir neðan greinarnar mínar, — svo þið megið alveg endilega deila með mér skoðunum ykkar og hugdettum þar. Mér þætti vænt um að sjá komment á Sýsifos púnktur kom. Kærar þakkir og kærar kveðjur, árnaðaróskir, gleðilegan janúar kæru vinir. (Málverkið í haus er eftir Henriette-Hélène de Beauvoir—systur hinnar víðfrægu Simone, tilvistarspekingsins, og það heitir Landscape)

Nærvera þarverunnar—glósur upp úr Heidegger

Nærvera þarverunnar—glósur upp úr Heidegger

An Eminently Bearable Lightness of Being—On Nietzsche's Critique of Metaphysics

An Eminently Bearable Lightness of Being—On Nietzsche's Critique of Metaphysics