Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Vinnuvirðiskenningin í ljósi hughyggjunnar

Vinnuvirðiskenningin í ljósi hughyggjunnar

Málverkið í haus heitir Rest from Work og er eftir Vincent Van Gogh frá árinu 1890.


Hvað er virði?

Hver er uppspretta virðis? Þetta er ein mikilvægasta frumsenda allrar stjórnhagfræði og raunar heimspekinnar einnig. Virði er ákveðin birtingarmynd þrár manneskjunnar — það sem við þráum verður verðmætt. Spurningar vakna þá upp við það hvers vegna við þráum eitthvað, hvert aðdráttarafl þess sem þráð er getur raunverulega verið. Þegar við reynum að skilgreina virði og uppsprettur þess reikum við oft ómeðvitað inn á lendur frumspekinnar — við neyðumst óhjákvæmilega til þess að notast við frumspekilegar hugdettur sem grundvöll virðiskenninga. Það getur þannig skipt máli hvort maður telur hið efnislega vera frumspekilegan grundvöll alls sem er eður ei þegar við reynum að skapa virðinu uppsprettu.

Viðtekin hugmynd í hagfræði dagsins í dag er sú að virði spretti upp úr huglægu mati einstaklingsins, skilgreinist af ákefð þrár einstaklingsins (sem aðgreind og sjálfstæð persónu-mónaða) fyrir viðfanginu. Viðfang virðisins verður þá verðmætt þá og aðeins þá þegar einhver metur það sem verðmætt, fellir ákveðinn gildisdóm um það. Þessi hugmynd hefur þó ekki alltaf verið sú vinsælasta, eins og raun ber vitni þegar saga hagfræðinnar er gaumgæfð. Í árdaga hennar var viðtekin svonefnd vinnuvirðiskenning, eða á ensku labor theory of value, sem hugsaði sér mannlega vinnu sem uppsprettu virðis viðfangsins. Þetta var virðiskenningin sem David Ricardo studdist við í hagfræðiskrifum sínum, og að einhverju leyti Adam Smith sömuleiðis, og þegar kom að Marx gekk hann að klassísku ríkardísku vinnuvirðiskenningunni sem vísri.

Hugmyndin, í grunninn, er sú að skiptivirði (sem aðgreint frá notavirði) ákvarðist af því hversu mikil mannleg vinna fór í að fullmóta vöruna sem gerð eru viðskipti með. Þannig væri til að mynda ákveðin kápa úr ákveðnu efni í ákveðnu magni og tilteknu sniði o.s.fr.v, sem kostaði fimm vinnustundir að framleiða allt í allt, ódýrari í viðskiptum en önnur kápa í sama efni, magni og sniði, sem kostaði sex vinnustundir að framleiða, vegna þess að minni vinna og þar með minna (skipti)virði er falið í vörunni. Ef við hugsum okkur að klukkustundarvinna sé einnar krónu virði væri fyrri kápan þá fimm krónu virði meðan seinni kápan væri sex krónu virði. Þannig getum við hugsað okkur að notagildi varanna tveggja sé hið sama en að virði þeirrar sem minni tíma tók að framleiða sé „minna“ í viðskiptum. Fyrir þann sem framleiddi skiptivöruna til þess að selja hana hefur þetta „minna virði“ þó góðar afleiðingar fyrir hann; neytendur vilja frekar borga minna en meira fyrir sömu vörurnar og keppinautur hans sem selur kápuna á sex krónur verður undir í samkeppninni — enginn kemur að kaupa kápurnar hans.

Marx og arðránið

Út frá þessari kenningu um uppsprettu virðis (auk annarra hugmynda, auðvitað) byggði Marx hugmynd sína um arðrán — hann hélt því fram að vegna þess að tilteknir einstaklingar hefðu eignarrétt á framleiðslutækjum samfélagsins og aðrir einstaklingar ekki væri samningsstaða þessara einstaklinga ójöfn. Þá gæti kapítalisti, sem ætti að lesast hér einfaldlega sem eigandi framleiðslutækja, greitt vinnufólki sínu sem starfar við framleiðsluna minna en hann fær greitt fyrir varninginn þegar hann selur hann á markaði. Hann selur þá kápuna sína, sem kostaði fimm krónur í framleiðslu (að gefnum kostnaði við tækjanotkun og hráefni osfrv.), á tíu krónur, en hann greiðir verkafólki sínu aðeins þrjár krónur fyrir vinnu sína. Hann kemst upp með þetta, segir Marx, rétt eins og allir aðrir kapítalistar, vegna þess að þeir eru eigendur framleiðslutækjanna og verkafólkið er háð framleiðslunni sem miðlað er gegnum tækin. Vilji þau ekki framleiða fyrir laun sem tákna lægri upphæð en vinna þeirra raunverulega skapar eiga þau í hættu á að svelta — og þetta var því mjög miður einstaklega raunverulegt vandamál fyrir verkafólk í iðnbyltingu 19. aldar. Raunin er svo enn fremur sú að enn í dag býr verkafólk í fátækari ríkjum við sambærilegar aðstæður í sweatshop-verksmiðjum.

Vinnuvirðiskenningin er þessari greiningu mikilvæg. Það er nefnilega aðeins um eiginlegt „arðrán“ að ræða ef hægt er að sýna fram á á hlutlægan hátt að vinnan sem fer í framleiðsluna hafi meira virði en verkafólkið fær greitt í launum talið. Ef vinnan er eina uppspretta virðisins og verkafólkið fær ekki allan ávöxt verka sinna virðist ljóst að eitthvað er bogið við fyrirkomulagið. En hvernig væri hægt að sýna fram á slíkt, að vinna sé hin eina uppspretta virðis? Er þetta almennt vísindaleg kenning sem hægt er að sannreyna eða falsa? Þessi greining Marx gildir nefnilega einvörðungu sem slík ef vinnuvirðiskenningin þjónar sem grundvöllur hennar — og ef við getum neitað vinnuvirðiskenningunni í þeirri mynd sem hún tekur sér í Marx og Ricardo neyðumst við til þess að endurhugsa hugtökin um arðrán sem og um stéttarvensl kapítalista og verkafólks. Höfum þó í huga að neitun vinnuvirðiskenningarinnar sem slíkrar þýðir auðvitað ekki sjálfkrafa að eignarrétturinn sé réttlætanlegur eða að raunveruleg stéttarvensl kapítalista og verkafólks séu siðferðilega réttlát, ekki fremur en nokkur annar apparatus — neitun tiltekinnar fordæmandi kenningar um fyrirbæri er ekki réttlætandi fyrir fyrirbærið — né heldur játar neitun kenningarinnar annarri kenningu.

Við lendum alltaf í dálitlum hrakföllum þegar við tökum tiktúrur markaðsumhverfisins inn í reikninginn — hvaða merkingu hefur það fyrir virði vörunnar að verð hennar í sölu sé mikið hærra eða lægra en verð hennar í framleiðslu? Hvert, nákvæmlega, er samband verðs og virðis? Er hægt að halda í báðar þær hugmyndir samtímis að a) mannleg vinna framleiði virði, og hins vegar að b) mannlegir duttlungar ánefni skiptivörum virði? Þetta eru allt flóknar spurningar sem erfitt er að svara. Ég tel mig ekki geta fært endanleg rök fyrir lokaniðurstöðu í þessum málum hér í þessum pistli (ef yfir höfuð) en ég ætla að gera tilraun til þess að velta þessu fyrir mér.

Í fyrsta lagi er vert að minnast á það að vinna, fyrir Marx, er ekki hin eina uppspretta virðis. Raunin er sú að vinna er aðeins ein birtingarmynd hinna almennu náttúruafla, sem eru raunveruleg uppspretta virðis (sjá Athugasemdir við stefnuskrá þýzka verkamannaflokksins). Það er náttúran sem er uppspretta frumgæða á við orku, súrefnis og vatns, sem þjóna svo sem grundvöllur þess að mannveran geti unnið yfir höfuð. Undir kapítalismanum, sem og öðrum mannlegum stjórnhagkerfum sem eru sögulega þróaðar aðferðafræðilegar nálganir að mannlegri framleiðslu, er það vinna sem er uppspretta virðis — eða það vill Marx meina. Þess vegna er réttlætanlegt að tala einfaldlega um vinnu sem uppsprettu virðis (þ.e. jafnvel þótt náttúran sé tæknilega séð uppspretta vinnu sömuleiðis), í því samhengi sem við erum að greina virði — það er að segja í samhengi kapítalismans qua stjórnhagfræðilegt kerfi.

Framleiðsluferlið eins og Marx lýsti því

Byrjum þá á því að skýra frá röksemdafærslu Marx um vinnuvirði, skiptivörur og arðrán. Marx lýsti framleiðsluferli skiptivarnings sem skipulegri og kerfisbundinni hreyfingu milli verkafólks og kapítalista sem miðlað er gegnum tiltekið efnahagslegt fyrirkomulag. Ferlinu má svo lýsa gróflega á eftirfarandi hátt. Í fyrsta lagi eru ákveðnir hlutir verðmætir, þ.e. þeir hafa virði, meðan aðrir hlutir eru það ekki. Virði þeirra getur verið tvennskonar — í fyrsta lagi geta þeir haft notagildi, og í öðru lagi geta þeir haft skiptigildi. Notagildi hlutar hefur ekkert að gera með það hvort hluturinn er skiptivara eður ei — til að mynda get ég ræktað mér kartöflur í garðinum til einkaneyslu og þar með til nota án þess að mér komi til hugar að skipta á þeim fyrir aðra hluti. Aftur á móti geta aðeins vörur haft skiptigildi, þ.e., hlutir verða vörur þegar þeim er ánafnað skiptigildi, eða verði. Virði þessara hluta getur sprottið upp úr sjálfri náttúrunni (þ.e. tilurð náttúrulegs ferskvatns í lækjum og uppsprettum er engu öðru en náttúruferlum að þakka) eða þeir geta sprottið upp úr athöfnum fólks í náttúrunni (þ.e. tilurð kartöflupoka er skipulegri vinnu kartöflubónda að þakka).

Kynnum nú leikara til sögunnar: verkafólk og kapítalista. Verkafólk er fólk sem ekki hefur eignarrétt á framleiðslutækjum, en hefur eignarrétt á eigin skapandi vinnu. Kapítalistar eru fólk sem hefur eignarrétt á framleiðslutækjum sem og á eigin skapandi vinnu. Verkafólkið hefur engar tekjuuppsprettur aðrar en sölu eigin vinnuafls. Kaupandi þessa vinnuafls er kapítalistinn. Verkefni kapítalistans er að kaupa vinnu eins og hverja aðra skiptivöru, en þessi kaup gangast undir nafninu launagreiðslur. Þegar hann kaupir vinnuna sér hann til þess að verð vinnunnar, þ.e. launin, séu lægri en virði vinnunnar. Þetta getur hann vegna þess að hann hefur yfirburðastöðu í samningum í samanburði við verkamanninn, verandi eigandi framleiðslutækjanna sem viðhalda lífsviðurværi verkafólksins sem og sjálfs síns og allra annarra í gefnu samfélagi, sem hefur það í för með sér að hann er eigandi afurða framleiðslu vinnunnar sem verkafólkið innir af hendi.

Þegar hann hefur keypt vinnu verkafólksins fyrir verð sem er minna en verðið sem hún framleiðir, þ.e. þegar hann kaupir vinnuna á verði undir virði, beitir hann vinnu verkamannsins í átt að framleiðslutækjunum. Þegar vinnunni er beitt á framleiðslutækin umbreytist hún í nýjan efnislegan veruleika, vöru. Varan er eign kapítalistans vegna þess að hann er eigandi framleiðslutækjanna, sem hefur það í för með sér að verkafólkið er firrt afurðum eigin starfa. Vara hefur notagildi fyrir öðru fólki en notagildi fyrir kapítalistanum aðeins að því leyti sem hún hefur skiptigildi, þ.e. að því leyti sem kapítalistinn getur látið vöruna frá sér til þeirra sem hafa notagildi af vörunni í skiptum fyrir aðra vöru (sem getur verið peningur) á því sem við köllum markaður. Kapítalistinn hefur af þessu milliliðamoði tekjur, sem kallast arður. Arðinn notar kapítalistinn bæði til persónulegrar neyslu og sem verkfæri til þess að kaupa vinnuafl og verkfæri í auknum mæli, viðhaldandi upprunalega ferlinu og bætandi við það, stækkandi auðmagnið sem slíkt.

Alternatífur

Hugsum nú um þetta ferli á tvo aðra mismunandi vegu:

Hugsum okkur fyrst að kapítalistinn kaupi vinnu verkafólksins á verði sem samsvarar virði þeirra. Kápan kostaði fimm krónur í framleiðslu, þaðan af voru tvær krónur sem fóru í efniviðinn og þrjár krónur sem fóru í laun verkafólksins. Kápan fer á sölu fyrir fimm krónurnar sem það kostaði að framleiða hana. Kápan selst til neytanda og kapítalistinn situr uppi með fimm krónurnar sem hann byrjaði með til þess að borga verkafólkinu fyrir vinnuna sem hann keypti sem og til að kaupa efniviðinn í framleiðsluna. Það er, enginn arður varð til. Kapítalistinn er ekki kapítalisti. Auðmagnið stækkar ekki.

Næst skulum við ímynda okkur að hið nákvæmlega sama gerist allt upp að því marki sem kapítalistinn tekur kápuna á markað, segjum — í búðargluggann. Í stað þess að verðmerkja vöruna á fimm krónur, sem var framleiðslukostnaður vörunnar, ákveður kapítalistinn að verðmerkja vöruna á tíu krónur. Einhvern langar að eignast kápuna og kápan selst fyrir tíu krónur. Arður verður til, heilar fimm krónur — 100% ábati m.v. framleiðslukostnað. Kapítalistinn er kapítalisti, auðmagnið stækkar. 

Hvað var að eiga sér stað í seinna dæminu? Er markaðurinn að meta verð kápunnar hærra en það kostar að framleiða hana — eða er kapítalistinn að arðræna verkafólkið sitt? Hvað ef bæði er satt — hvað ef hvorugt er satt?

Þetta veltur allt á því hvernig við skilgreinum uppruna virðisins. Ef uppspretta virðisins er vinna, og aðeins vinna, þá getum við sagt að bæði sé satt — það kostaði eitthvað að framleiða kápuna, og þegar kapítalistinn selur hana eftir að markaðurinn setur verð á hana sem er hærra en framleiðslukostnaðurinn var, þá er hann að eigna sér virði (fest í verð) sem hann greiddi ekki fyrir við framleiðslu vörunnar. Kapítalistinn er þá beinlínis að notfæra sér mismuninn á framleiðsluverði vörunnar og markaðsverði hennar til þess að hagnast á vinnu verkamannsins sem afætu-millimaður — hann spilar ekkert raunverulegt hlutverk í virðisaukningunni þar eð vinnan skilgreinir virðið — hann eignar sér það bara.

Aftur á móti breytist sagan algjörlega ef við hugsum okkur að virði geti sprottið upp úr öðrum hlutum en hlutlægri vinnu verkafólksins. Til að mynda gætum við hugsað okkur virði sem eigandi sér uppsprettu í hugum neytenda varanna, þeirra sem konkretísera virði vörunnar í peningagreiðslu út frá settu verði hennar. Um leið og við gerum það verður marxíska narratífan um arðrán strax talsvert flóknari — ef virðið á sér uppsprettu í öðru en vinnunni er ekki hægt að eigna vinnunni virðið á sama hátt og ef hún væri eina uppspretta þess. 

Virði sem samkrull vinnu og þrár

Veltum þessari tesu aðeins betur fyrir okkur — verður virði til í hugum neytendanna? Þessi grein heitir jú „Vinnuvirðiskenningin í ljósi hughyggjunnar“ og það er hér sem ég vil útlista markmið mitt með henni: ég vil reyna að gera krítíska atlögu að vinnuvirðiskenningu Marx, vopnaður hugmyndum hughyggjunnar, með það að leiðarljósi að fullkomna kenninguna eða upphefja hana í fullkomnari og jafnvel díalektískari mynd sem tekur bæði mið af konkret vinnu verkafólksins og tilfallandi huglægum þáttum þrár sem miðlað er á markaði við tilurð þessa flóttalega fyrirbæris; virðisins.

Byrjum á því að hugsa aðeins betur um eðli vörunnar, eins og Marx gerir í fyrsta kafla Auðmagnsins. Vörur almennt hafa, eins og áður segir, notagildi og skiptigildi, en það sem einkennir kapítalísku skiptivöruna er einna helst skiptigildi hennar. Varan hefur aðeins virði fyrir kapítalistanum qua skiptigildi, einmitt vegna þess að kapítalistinn hefur engin not fyrir hana önnur en við-skiptin sjálf — hið eiginlega notagildi skiptivörunnar mætti því segja að sé ekkert annað en skiptigildi hennar. Sagði einhver Aufhebung? Gesundheit

Með þetta í huga fáum við einnig skilið eðli peninga: þeir eru tær miðill, hreint skiptigildi — og sem slíkir eru þeir einnig skiptivara. Verkafólk selur vinnu sína (skiptir henni út) fyrir peninga (skiptimiðillinn) sem það notfærir sér svo á endanum til að skipta fyrir vörur sem hafa ákveðin notagildi. Þessir neytendur eru staddir á markaði skiptivarnings, hvar þeir geta umbreytt skiptimiðlinum í þessar notavörur. Á markaðnum skilgreinist virði vörunnar fyrir neytandanum af tvöföldum, samtvinnuðum þáttum: neytandinn vill og neytandinn þarf, auk þess sem varan hefur verð.

Virðið (fyrir meðvitund neytandans) er þannig breyta sem stjórnast af því hversu áköf þrá neytandans er gagnvart vörunni í hlutfalli við verð vörunnar, sem aftur á móti er skilgreint af þrám annarra neytenda, sem aftur á móti skilgreinist af verðinu, os.fr.v. Það er því endurkvæmur og félagslegur þáttur í virðismynduninni sömuleiðis — við þráum það sem annað fólk þráir, meira eða minna en þetta aðra fólk, en alltaf í intersúbjektífu (þótt óbeinu) sambandi við það í gegnum miðlun þrárinnar í verðlagningunni. Það sem ég þrái hefur verið þráð af öðru fólki — aðrið hefur stimplað viðfang þrár minnar með sinni eigin þrá, mótandi það fyrir mér og fyrir sér. Þrá mín skilgreinist þannig af því hvað aðrir þrá, rétt eins og þrá annarra skilgreinist af minni eigin þrá. Við erum öll hnýtt saman í gífurlegum gordíonshnúti heimsmarkaðsins — þegar við þráum höfum við áhrif á verð sem hefur áhrif á þrá annarra.

Ljóst er því að vilji neytandans spilar hlutverk í virði skiptivörunnar. Það er þó einnig að mínu mati alveg ljóst að neytandinn mótar ekki virði vörunnar einn síns liðs heldur verður varan alltaf að vera til staðar til að byrja með til þess að gildismat neytandans geti yfir höfuð átt sér stað. Það er hér sem vinnan kemur til sögunnar — skapandi vinna sem raungerir hið andlega (hugmyndir okkar) í efnislegum virkileika, wirklichkeit. Vinnan er frumuppspretta virðisins; án vinnunnar væri ekki hægt að tala um neitt samfélag (og þetta kann að segja sig sjálft og vera klifun, en það er engu ósannara fyrir þá staðreynd!) og þannig væri ekkert fólk til þess að leggja mat á hinar mismunandi vörur.

Vinna er þannig bæði skapandi fyrir þrár og svarandi fyrir þær; þ.e. hún getur komið til móts við núverandi þrár eða hún getur skapað nýjar þrár í meðvitundum okkar. En það að vinnan sé frumuppsprettan þýðir ekki að hún sé eina uppsprettan. Virðið er nefnilega tekið á markað og mótað þar gegnum meðvitundir neytendanna í endurkvæmu ferli virðissköpunar. Þá og aðeins þá er ég vinn í samræmi við þrána er ég raunverulega að skapa virði, því vinna verður að ganga inn í þetta ferli virðismótunar sem á sér stað á markaðnum. Vinna verður að svala þránni.

Ég vil leggja áherslu hér á það hvernig þessi hugmynd mín um tilurð virðis gerir hinu andlega og hinu efnislega, þrám okkar og raunvinnu okkar, jafn hátt undir höfði — hvorugt hefði neina merkingu án hins aðra. Það væri til einskis að vinna ef enginn þráði afurðir vinnunnar, ekki einu sinni maður sjálfur, og það væri sömuleiðis ekkert til þess að þrá ef enginn skapaði neitt með störfum sínum — í slíkum heimi værum við á við amöbur, uppfyllandi þarfir þegar neyðin kallaði. Það er með því að hugsa um virði í samhengi við bæði vinnu og þrá sem við komumst að fullkomnari skilningi á fyrirbærinu. Virðið sprettur þannig bæði upp úr játandi og skapandi vinnu verkafólks sem og upp úr þrám þeirra sem neyta vinnunnar og neita henni þar með. Stjórnhagfræðileg hugmynd um virði verður þannig að hugsa um virði sem heildrænt ferli sem matar sjálft sig — eins og eiginlegan Ouroboros eða Jörmungand.

Það er þó ekki þar með sagt, undir lok þessarar greiningar, að kapítalisminn sé sjálfkrafa réttlátur vegna þess að Marx kunni að hafa greint uppruna virðis á rangan eða einhliða hátt — þvert á móti. Með því að beita þessari greiningu fyrir okkur getum við séð nákvæmlega hvaða hlutverk kapítalistarnir sjálfir skipa í virðisferlinu: þeir taka við afurð vinnunnar og nota þær á markaðnum sem skiptivörur, raungerandi skiptivirði þeirra í verði fyrir sjálfa sig. Sem slíkir eru kapítalistar, eigendur framleiðslutækjanna, ekkert annað en milliliðir — þeir hirða greiðslur fyrir raungervinguna í formi arðs sem þeir eigna sér í krafti eignarréttar síns á framleiðslutækjunum. Vissulega á kapítalistinn alltaf í hættu á því að arðurinn verði að endingu enginn, að varan verði verðlaus, að virði hennar sé lítið sem ekkert — sem gefur honum að endingu neikvæðan arf, eða tap

Raunverulega spurningin er þá þessi: hvers vegna ættum við að búa við framleiðslukerfi sem byggir á fjárhættuspili eigenda framleiðslutækjanna, kerfi sem jafnvel gengur svo langt að forgangsraða í þágu fjárhættuspilaranna þegar gervispilaborgir þeirra fjúka í hvassri vindkviðu? Á hvaða forsendum eiga þessir kapítalistar að hafa rétt til þess að framkvæma þessar athafnir? Getur kerfið ekki gengið fyrir sig án þess að milliliður sjái um að eigna sér afurð framleiðslunnar og markaðssetja hana? Ég ætla ekki að svara þessum spurningum hér — og hef þær einvörðungu með í ritgerðinni til þess að sýna fram á það hversu viðeigandi þær eru jafnvel ef mér hefur tekist að sýna fram á hnökra í vinnuvirðiskenningu Marx.

Almennari athugasemdir við vandkvæði vinnuvirðiskenningarinnar

Að allri þessari kenningasmíð lokinni er vert að velta fyrir okkur nokkrum öðrum hnökrum á vinnuvirðiskenningunni. Marx rakst á þessa hnökra í Auðmagninu en leysti þá ekki á mjög sannfærandi hátt, að mínu mati. Raunin er sú að til eru hlutir sem engin vinna hefur farið í að skapa sem hafa þrátt fyrir það verð, kristalíserað virði — sem gengur í berhögg við vinnuvirðiskenninguna. Þetta eru hlutir á við land eða mútur — og Marx talar einmitt um þessa hluti í fyrsta hluta þriðja kafla fyrsta bindis Auðmagnsins:

„Objects that in themselves are no commodities, such as conscience, honour, &c., are capable of being offered for sale by their holders, and of thus acquiring, through their price, the form of commodities. Hence an object may have a price without having value. The price in that case is imaginary, like certain quantities in mathematics. On the other hand, the imaginary price-form may sometimes conceal either a direct or indirect real value-relation; for instance, the price of uncultivated land, which is without value, because no human labour has been incorporated in it.“

Hér heldur Marx því semsagt fram að til séu fyrirbæri sem geta tekið á sig formlega mynd skiptivöru, hafandi skiptigildi og notagildi, án þess að nokkuð virði sé í þeim falið. Verðið sem þessar pseudo-skiptivörur taka á sig er þá, samkvæmt Marx, ímyndað verð — á við þvertölur í heimi stærðfræðinnar. Það sem manni finnst blasa við í greiningunni er að Marx spyr sig ekki að því hvernig útskýra megi þessa „ímyndun“ þegar hún hefur bersýnilega áhrif á virðismyndun — verð, undir vinnuvirðiskenningunni, spilar hluta í því hvert virði lokaafurðar framleiðsluferlis raunverulega er.

Að mínu (lang-ígrundaða) mati er Marx hér bersýnilega að forðast að takast á við spurninguna vegna þess að hann gæti endað á því að þurfa að endurskilgreina tilurð virðis almennt — eins og ég hef raunar reynt (líklega á ófullkominn hátt) að gera í þessum ritgerðardrögum. Raunin er sú að hefði hann ákveðið að elta þessi ímynduðu verð niður heimspekilegu kanínuholuna hefði hann mjög líklega komist að sambærilegri og díalektískari mynd af virði en hann gerir með vinnuvirðiskenningunni. Hvort honum yfirsást þessi möguleiki eða hann forðaðist hann vísvitandi veit ég ekki og tel almennt ekki mjög þekkingarfræðilega áreiðanlegt að mögulegt sé að vita, en þrátt fyrir það er áhugavert að velta því fyrir sér hvað hefði gerst ef hann hefði farið aðrar leiðir.

Nokkrar aðrar dæmisögur sem erfitt er að útskýra með tilvísan í vinnuvirðiskenninguna, dæmisögur á við demants-vatns-þversögnina og drulluköku-dæmið, gefa okkur vísbendingar um að hnökrar séu á kenningunni. Þversögnin um demantinn og vatnið snýst um það að sýna fram á það hvaða samband verð hefur við notagildi — demantar eru mikið dýrari en vatn, þrátt fyrir að vatn sé okkur lífsnauðsynlegt, en aftur á móti myndi vatn verða okkur mikið verðmætara en nokkur demantur værum við að deyja úr þorsta. Fyrra dæmið virðist staðfesta vinnuvirðiskenninguna, þ.e. að demantar séu meira virði en vatn vegna þess að meiri tíma tekur að grafa þá upp og vinna þá, en seinna dæmið virðist neita henni.

Sambærilega sögu má segja af gamla góða drullukökudæminu. Sá sem vinnur heillengi við að móta drulluköku fær líkast til ekki mikið upp úr krafsinu — vinna hans skapar ekkert virði fyrir það eitt að vera vinna, vegna þess að vinna verður alltaf að vera sett í samhengi almennrar þrár eða verðmetin á markaði qua vinna til þess að taka á sig form verðmætis. Það mætti þó þvert á drullukökudæmið segja að jú, vinnan virðisskapandi — en virðið sem vinna drullumallarans skapar er ekkert annað en möguleg meðan hún verður ekki virkileg fyrr en hún er sett í samfélagslegt samhengi þrárinnar og verðmetin. Hver veit nema að einhvern langi ótrúlega mikið í drulluköku?

Að lokum

Vinnuvirðiskenningin er ekki „ósönn“. Það er sannleikur í henni, þótt mér finnist hún einhliða og ófullkomin. Hún lýsir því einmitt einna best, frá sjónarhóli verkafólksins, hvernig virði verður til í gegnum vinnu, og hvernig þetta virði virðist oft alls ekki vera endurspeglað í verði þess — þ.e. í laununum sem verkafólk fær greidd. Sem slík hefur vinnuvirðiskenningin mikinn pólitískan útskýringarmátt og virkjunarkraft, og fyrir vikið kann hún að hafa leitt til mikilla framfara í verkalýðsbaráttu og þar með aukningu lífsgæða sem annars hefðu ekki átt sér stað. 

Það er líka mikilvægt að hafa það í huga að vinnuvirðiskenningin er ekki sérlega marxískt fyrirbæri eitt og sér. Marx gekk að henni sem gefinni út frá kenningum borgaralegra hagfræðinga síns tíma, hagfræðinga á við Adam Smith og David Ricardo, þótt það hafi ef til vill verið einhver munur þar á milli — við höfum ekki tíma til þess að fara út í það nánar að svo stöddu.

Ef til vill er það eins og Hegel segir, að heimspekin sjái alltaf betur þegar botnfall hefur orðið og lausnin er ekki jafn gruggug, þ.e. eftir að ferlinu er lokið — að ugla Mínervu hefji sig á flug þegar rökkvi. Mögulega er það þess vegna sem við getum sett hlutina í samhengi nú til dags, rétt rúmum 200 árum eftir að Marx fæddist, og skilið fyrirbærin sem hann reyndi að lýsa örlítið betur í ljósi sögunnar. Þó er alltaf mögulegt að við höfum fullkomlega rangt fyrir okkur, og þessi ritgerð er engin undantekning.

Ég hef velt vinnuvirðiskenningunni fyrir mér svo árum skiptir núna og mun varla fara að hætta því upp úr þessu. Ritgerðin sem þú ert að ljúka við, kæri lesandi, er örugglega fjórða eða fimmta tilraunin mín til þess að henda reiður á skilning minn á kenningunni, en hún er aðeins önnur þeirra sem ég hef ákveðið að birta. Sú fyrsta er ekki einu sinni lengur í birtingu, mögulega horfin í einhverjum rafrænum skjalabunka. Hver veit. Það eru ekki margar tilvísanir í þessari tiltölulega óformlegu ritgerð, en ég get sýnt fram á heimildir fyrir flestu því sem ég held fram — ef þið velkist í vafa um einhverjar staðhæfingar mínar er ykkur meira en velkomið að spyrja mig um heimildir fyrir þeim.

Í öllum föllum vildi ég þakka þér, kæri lesandi, fyrir að lesa og pæla í þessu með mér að þessu marki — það fór nefnilega mikil vinna í þennan texta og mér þykir vænt um það þegar fólk les það sem ég skrifa.. vegna þess að mér finnst það mikils virði. Hvað finnst ykkur? Mér þætti gaman að heyra skoðanir ykkar á vinnuvirðiskenningunni og virði almennt. Vonandi samræmist vinna mín sem hefur kristallast í þessari ritgerð þrám ykkar eða fróðleiksþorsta, skapandi verðmæti fyrir samfélagið og meðvitundir okkar.

Aftengingar: nær/fjær, af/á

Aftengingar: nær/fjær, af/á

Gagnrýnin hugsun og hið líkamlega

Gagnrýnin hugsun og hið líkamlega