Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Epli, altök, eintök og tiltök

Epli, altök, eintök og tiltök

Þessi pistill birtist fyrst í útvarpsþættinum Lestin þann 23. maí 2018. Ég birti hann hér í talsvert breyttu formi — hinu og þessu hefur verið bætt við, eitt og annað lagfært. Málverkið í haus er eftir Vincent van Gogh og heitir Still life with Apples (1887).


Hugsum okkur epli. Rautt, kúlulaga, gljáandi — sætt, safaríkt, ilmandi epli. Hugsum okkur nú annað epli. Grænt epli, smærra en hið fyrsta og mattara — og ofan á það er það súrt, þótt það sé eins safaríkt og ilmandi og fyrsta eplið sem við hugsuðum okkur. Ljóst er að bæði viðföng hugsunar okkar eru það sem við köllum epli, þótt þau deili ekki nákvæmlega sömu eiginleikum. Annað er grænt og súrt meðan hitt er rautt og sætt. Svo getum við hugsað okkur svo gott sem óendanlega mörg mismunandi epli, ekkert þeirra alveg nákvæmlega eins og neitt annað epli — hvert og eitt þeirra gjörsamlega einstakt. 

Hvert og eitt þessarra fyrirbæra er einstakt í ferli alheimsins frá upphafi hans til endaloka, efnishnúður búinn ákveðnum skynjanlegum eiginleikum sem sprettur upp úr árstreymi tímans og hverfur svo aftur inn í fjöldina sem er efnisheimurinn. Samt sem áður teljum við okkur fullfær um að merkja þetta fyrirbæri með nafni sem á alveg jafn vel við allt önnur fyrirbæri. Hvernig stendur eiginlega á því? Raunin er sú að þetta er heimspekilegt vandamál sem hefur plagað vestræna heimspekihefð allt frá upphafi. Vandamálið snýst um svokölluð altök. Í pistli dagsins hyggst ég kanna nokkur tengd hugtök örlítið nánar — hugtökin altak, eintak og tiltak — samband þeirra, það sem þau eiga sameiginlegt og að hvaða leyti þau eru frábrugðin hvoru öðru. Auk þess vil ég snerta á því hvort altök og eintök séu yfir höfuð til, og hvert samspil þeirra er í hinu tiltekna.

Byrjum þá á því að skilgreina hugtökin okkar — og hefjum rannsóknina á hinu altæka. Altak er hugtak eða orð eins og epli eða bíll sem á við öll einstök ákveðins mengis. Í tilfelli eplisins sem við erum búin að velta fyrir okkur eru mörg mismunandi einstök epli til sem falla öll undir mengið eða altakið „epli“. Skilgreining mengisins eða skilyrði þess að stök fái að eiga heima þar er þá altakið sem slíkt: það sem gerir epli að epli er því eplis-leiki þess, eða eplið að því leyti sem það tekur þátt í eða geymir altak eplis. Annað mál altökunum tengt, sem lengi hefur verið rætt, snýst um það hvort altök séu aðeins til innan hugarheims okkar, eða hvort þau séu til í alheiminum í sjálfum sér, utan hugarheimsins, og séu þá „raunveruleg“ ef svo má að orði komast. Ef til vill eru altök bara nöfnin sem við gefum hlutunum, en kannski eru þau raunverulegur og óaðskiljanlegur hluti alheimsins sem umkringir okkur. Kannski eru þau bæði. En látum þetta duga um altökin í bili.

Næst snúum við okkur að eintakinu. Í fyrsta lagi er vert að nefna að eintakið greinir sig frá hinu einstaka. Almennt talar maður um að eitthvað sé einstakt á þá vegu að það sé sérstakt, ekki líkt öðrum hlutum, að það skeri sig úr. Eintakið, aftur á móti, er tæknilegt hugtak. Það er líkt hugtakinu um altak að því leytinu til að það er einskonar hugarkví — við getum ekki fundið neitt sem er á hreinan og tæran hátt eintak í alvöru heiminum, fremur en við getum þekkt eitthvað sem verandi á hreinan og tæran hátt altak; okkur er til að mynda ófært að finna hið altæka epli, eplisleikann sem skilgreinir öll raunveruleg epli. Eitthvað er eintak að því leytinu til að það er eitt, stakt, greint tölfræðilega frá öðrum hlutum — við getum límt tölunni „einn“ á þennan hlut, hvað sem altökum lýtur. Það er, að ég tel, réttmæt spurning að spyrja sig að því hvort eintök séu að einhverju leyti „meira til“ en altök, svona fyrir utan huga okkar. Hvernig get ég sagt að tölvan mín, upplýsta efnisklessan sem ég hamra á þegar kvölda tekur, sé einn, stakur hlutur og staðið svo við það þegar hluturinn er tekinn í sundur; lyklaborð, skjár, rafhlaða..? Við kunnum þó að vera að afvegaleiðast, svo látum þetta gott heita um eintakið.

Veltum nú fyrir okkur hinu tiltekna. Að hugsa sér eitthvað tiltekið, eins og tiltekið epli, virðist vera að velja sér ákveðið epli úr raunmengi altaksins „epli“. Hugsum okkur að við höfum frammi fyrir okkur poka af eplum. Við stingum höndinni ofan í pokann og finnum fyrir eplunum. Okkur langar að velja okkur epli til að borða, svo við þuklum á eplunum. Eitt þeirra er mjúkt og virðist skaddað. Annað virðist aðeins of hart. Þriðja eplið sem við snertum virðist prýðilega þroskað og heilbrigt er við veltum því um höndina og finnum fyrir því. Við ákveðum að þetta sé eplið sem okkur langar að borða, svo við tökum það úr pokanum og kjömsum á því. Þetta var tiltekið epli. Við skoðuðum þrjú epli með höndinni er hún skoðaði pokann. Öll eplin sem við skoðuðum féllu undir mengið, nafnið eða altakið „epli,“ og öll eplin sem við skoðuðum voru einar, stakar heildir, greindar frá öðrum heildum í tíma og rúmi, og voru því einstök. En við vildum hvorki borða eintak eplis, né heldur finnst okkur gott að borða altæk epli. Við vildum ætt og bragðgott epli. Þess vegna vörðum við tíma og orku í það að kanna muninn á altæku einstökunum og velja okkur eitthvað tiltekið epli.

Takið eftir því að þegar við veltum fyrir okkur þessum tilteknu eplum þá gerðum við það á forsendum þess að þau hefðu bæði altakið epli, eins að því leyti sem þau eru epli, en væru samtímis tölfræðilega einstök, greind hvert frá öðru. Þannig skapaðist einmitt grundvöllur til samanburðar: við gátum sett þau á sama plan að því leytinu sem þau voru epli, en sömuleiðis gátum við borið þau saman út frá einstökum eiginleikum þeirra sem aðgreindir hlutir. Svo virðist því sem hið altæka og hið eintæka séu á sviði hugsunarinnar, meðan hið tiltæka dvelst á sviði reynslunnar. Eins best ég fæ skilið það inniheldur hver og einn tiltekinn hlutur bæði þætti eintaks og altaks — ekkert getur verið tiltekið án þess að við gefum okkur fyrst að grundvelli að viðfangið sé eins og eitthvað annað og samtímis ekki eins og eitthvað annað. Altök snúast enda bara um það hvernig eitthvað er líkt einhverju öðru að því marki að hægt sé að kalla það sama nafninu — meðan eintök snúast bara um það hvernig eitthvað er frábrugðið einhverju öðru til þess að hægt sé að tala um þá sem tvo aðskilda hluti.

Eins og ég fæ það best skilið eru altök og eintök því einfaldlega hverfandi þættir, einskonar augnablik eða andrár, sjónhverfingar að því leyti sem þær eru aðgreindar frá hvorri annarri en áþreifanlegir og raunverulegir eiginleikar þegar þeir kristallast í einhverju tilteknu raunverulegu viðfangi. Altakið hverfur inn í eintakið — hugtakið „epli“ vísar ekki til neins nema hóps eintækra epla — og eintakið hverfur inn í altakið — eintæku eplin eru aðeins skiljanleg sem hlutur ef þau hafa eitthvað altak, hvort sem er sem viðfang í rúmtíma eða hlutur. Tiltakið er svo þessi tvö augnablik handsömuð samtímis í hreyfingu sinni er hvort þeirra hverfur inn í hitt. Spurningin um það hvort altök eða eintök séu til utan hugarheimsins mætti þá svara á þann hátt að, nei, þau hafi ekki tilvist í hlutunum óháð hugum okkar. Fremur eru þau kvíar eða básar eða hólf sem hugurinn beitir til þess að greina eðli hlutanna í kringum okkur og skilja innra samband þeirra eins og það birtist okkur.

Það er vert að minnast stuttlega á það að erfitt er að halda því fram að það sem aðeins hefur tilvist innan hugarins hafi ekki „raunverulega tilvist“ fyrir það. Það að altök og eintök séu ekki áþreifanleg viðföng sem við getum mælt með tölfræðilegum tilraunum eins og við myndum til að mynda nota til að mæla þyngdarlögmálið gerir ekkert til þess að draga úr raunveruleika þeirra, ekkert fremur en sú staðreynd að tungumálið okkar geri okkur sömuleiðis ómögulegt að framkvæma slíkar tilraunir dragi úr raunveruleika tungumálsins. Tungumálið, tilfinningar okkar, skoðanir og hugmyndir eiga sér hvergi tilvist nema þá í hugum hvers og eins okkar, en þrátt fyrir það hafa þær mjög svo áþreifanlega og áhrifamikla tilvist í heiminum. Hugurinn er jú eftir allt saman hluti af raunheiminum sjálfum.

Mér finnst virkilega gefandi og skemmtilegt að hugsa svona út í hlutina. Maður getur til að mynda öðlast nýjar sýnir á mannlegar athafnir og fyrirbæri. Með því að beita þessum nýja skilningi okkar á altökum, eintökum og tiltökum á starfa ljóðlistarinnar getum við einnig enduruppgötvað hvað það er sem hún raunverulega gerir. Ljóðlistin vinnur nefnilega margslungið verk: hún þarf í óendanlegri sífellu að sannfæra lesendur sína um að orðin sem þau meðtaka — orð sem eru óhjákvæmilega og eðli (tungu)málsins samkvæmt ávallt altæk — vísi til tiltekinna, einstaklingsbundinna upplifana sem ómögulegt er að binda í altæk orð. Lesandinn er krafinn um að hleypa þessum óáþreifanleikum inn að sínum innstu sálarrótum: hún þarf að gera altökin að eldiviðnum sem kveikir bál hjartans. Hún þarf að leyfa sér að hrífast með flaumi orðanna, hrynjandinni. Ljóðlistin þarf, bókstaflega, að sannfæra lesöndina um að taka ljóðlistina á orðinu.

Þá er þó auðvitað ekki öll sagan sögð. Það er enn óljóst í huga mér hvaða stöðu fyrirbæri eins og nöfn hafa í þessu öllu saman. Nöfn virðast nefnilega vera altök að því leytinu til sem þau eru orð og að því leyti sem þau eru skiljanleg sem nafna-orð sem vísa aðeins til persónulegs tiltaks — þ.e., tiltekin altök. Ef til vill er ég hér á slóðum hins áþreifanlega altaks. Enn fremur langaði mig að gera grein fyrir hegelskum hugmyndum um skynvissuna og tómleika málfræðilegra altaka. En nóg um það.

Mér virðist sem ég geti komist að betri sjálfsþekkingu með því að pæla mikið og lengi í þessum grunnhugtökum sem við beitum óhjákvæmilega í skynjun okkar á heiminum, og ég er ekki frá því að þetta geti beinlínis haft áhrif á það hvernig maður skynjar hann. Maður fer að hugsa örlítið hægar, aðeins letilegar — sem getur veitt manni nánast hugleiðslukenndan frið eða ataraxíu. Maður getur öðlast betra skynbragð fyrir augnablikinu sem heilinn er að vinna úr og matreiða. Það er þess vegna sem ég held að það sé að mörgu leyti mikilvægt og gott að velta fyrir sér spurningum sem slíkum, um eplis-leika eplisins sem maður kjamsar á, um hið eina, um hið tiltekna. Ég kveð þá að sinni — kveð ykkur öll, hvert og eitt ykkar — en sérstaklega þig, kæri lesandi.

Fáfarinn vegur Parmenídesar

Fáfarinn vegur Parmenídesar

Um kynjun orða og mannshugtakið

Um kynjun orða og mannshugtakið