Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Réttarspeki Hegels — IV. hluti: Ranglæti

Réttarspeki Hegels — IV. hluti: Ranglæti

Inngangur/Samantekt/Þáttaskil

Í síðasta bloggi fjallaði ég um Samninga í Réttarspeki Hegels. Þeir skiptust að venju í þrennt, eins og kaflarnir á undan. Næsti kafli verksins fjallar hins vegar um Ranglæti, en þegar við höfum lokið því af getum við fært okkur yfir í næsta hluta verksins — þá munum við loksins geta stært okkur af því að hafa lesið þriðjung úr bókinni. Eins og ég hef sýnt áður í skýringarmyndum er hægt að brjóta verkið niður í þrjá meginhluta, að inngangnum undanskildum (þótt hann sé mikilvægur líka) — Abstrakt Rétt, Siðferði og Siðleika.

Ranglæti er lokakafli fyrsta hluta, Abstrakt Réttar. Innan hans er fjallað fyrst um Rétt sem slíkan, því næst um Samninga, og að lokum um Ranglæti. Það liggur í augum uppi að til þess að geta verið ranglátur þarf maður fyrst að hafa einhvern rétthafa og því næst einhvern annan sem misnotar sinn eigin rétt á kostnað þess fyrrnefnda. Því er Ranglæti rökrétt niðurstaða þessa hluta verksins. Siðferði tekur svo við af Ranglætinu, og út frá fyrstu tveimur hlutunum um Abstrakt Rétt og Siðferði getum við byrjað að byggja upp hið Siðlega líf eða Siðleikann. Nú skulum við þó hefjast handa við að rannsaka Ranglætið sjálft — en það er ekkert smávægilegt verkefni!

Ef við frískum örstutt upp á minnið, þá snerust Samningar um samskipti tveggja Persóna sem búa yfir Rétti til eignar og yfirráða. Þessar Persónur skiptast síðan á eignum sín á milli og mynda því skammlifaða tengingu gegnum það sem við kölluðum altækan Vilja:

„Það sem gerist að lokum er að huglægur Vilji minn gengur í gegnum tímabundna upphafningu [Aufhebung] hvar hann verður hlutlægur — hann sameinast Vilja annarrar persónu og myndar þar með svið hins hlutlæga Anda (e. Objective spirit) í fyrsta sinnið. Utanliggjandi hluturinn sem eigendurnir skiptu á milli sín er orðinn eins konar hlutgerving einingar Viljanna tveggja, eða sameiginlegur Réttur. Það sem gerir hann hlutlægan er að hann er ekki bara innan hugarheims þessarar eða hinnar meðvitundar og frjáls Vilja heldur hefur Rétturinn hlotið efnislegt gervi og ekki nóg með það heldur er annar mannsvilji kominn inn í spilið sem umturnar öllu. Viljinn eins og hann birtist á sviði hlutlægs Anda kallast altækur Vilji.“

Allt fannst okkur gott og blessað hvað það varðar — enda gerðum við ráð fyrir því að allir þátttakendur hvers samnings fyrir sig væru fullmeðvitaðir um aðstæður — raunar gerðum við einfaldlega ekki ráð fyrir því að brotið væri á nokkrum manni yfir höfuð. Nú snúum við okkur hins vegar að þessum myrku hliðum Samninganna og alls þess sem þær gefa í skyn fyrir mannleg samskipti. Eins og Hegel kemur að orði í §81:

"In the bare relation of immediate persons to one another, their wills while implicitly identical, and in contract posited by them as common, are yet particular. Because they are immediate persons, it is a matter of chance whether or not their particular wills actually correspond with the implicit will, although it is only through the former that the latter has its real existence. If the particular will is explicitly at variance with the universal, it assumes a way of looking at things and a volition which are capricious and fortuitous and comes on the scene in opposition to the principle of rightness. This is wrong."

Þótt Viljar þeirra sem semja skarist þá eru þeir enn tveir aðskildir Viljar, og verða í raun að vera það til að byrja með. Þ.e., það er ekki öruggt að í Samningnum sé þessum altæka Vilja náð, þótt hinn altæki Vilji eigi sér aðeins tilvist sína einstökum Viljum að þakka. Ef það kemur svo fyrir að einstaki Viljinn hafi allt annað í huga en það sem krafist er af altæka Viljanum þá mun þessi einstaki Vilji líta rammskakkt á hlutina og orka tvímælis gegn Rétti hins Viljans sem hann stóð í Samningum við. Þetta er Ranglæti — þegar Vilji eins tveggja samningsaðila er í mótsögn við hinn altæka Vilja (hinn altæki Vilji er þess eðlis, ef það var óljóst, að hann getur aldrei verið í mótsögn við sjálfan sig).

Þegar þetta gerist — [einstakir Viljar A og B semja um eitthvað → A er í samræmi við altækan Vilja en B er það ekki → Réttur beggja sem átti að sameinast fer á mis og Ranglæti kemur í heiminn B megin, hvort sem það var áætlað eður ei] — birtist Ómeinfýsið Ranglæti fyrst í líkingu Réttar, eða sem sýndarRéttur. Því næst birtist Ranglæti okkur sem Prettir, og að lokum sem Glæpur. Nú í framhaldinu ætlum við að skilgreina þessar þrjár mismunandi birtingarmyndir Ranglætis, sem lýsa því hvernig þetta fyrirbæri birtist okkur. Því næst munum við líta á það hvernig Réttur „réttir“ sjálfan sig af og gerir út af við Ranglæti, auk þess sem við ætlum að rannsaka hvaða merkingu það hefur fyrir Réttinn sem slíkan.

Hinar þrjár mismunandi tegundir Ranglætis

Ómeinfýsið Ranglæti

Í fyrsta lagi talar Hegel um ómeðvitað eða ómeinfýsið Ranglæti — þ.e., Ranglæti sem stafar af misskilningi eða óhappi. Þetta á við þegar maður lendir t.d. í árekstri — þá er brotið á manni án þess að ætlun þess sem á manni braut hafi verið sú að brjóta á manni eða þau höfðu ekki betri vitund um hvað þau ættu að gera en framkvæmdu gjörðina samt. Auðvitað eru núansar hér — til að mynda er sá sem keyrir drukkinn ekki aðeins ómeinfýsinn í Ranglæti sínu, þótt hann áætli aldrei að lenda í bílslysi. Hann tekur ákvörðun gegn betri vitund og mat okkar á ábyrgð hans verður að miðast við það. En um þetta ræðir Hegel nánar í hluta sínum um Siðferði.

Þegar ég talaði hér að ofan um að Ranglætið birtist okkur fyrst sem sýndarRéttur meinti ég fyrst og fremst í ómeinfýsnu Ranglæti — en þó einnig í næsta lið, Prettum. Eitt mest lýsandi dæmið um ómeinfýsnina, hins vegar, er þegar tveir einstaklingar eiga í viðskiptum um einhverja vöru og verðmat hvers hlutaðeigandi viðskiptamanna er frábrugðið hverju öðru. Þetta gerist til dæmis þegar Jón kaupir sjónvarp af Gunnari: umsamið verð sjónvarpsins er fimmtíu þúsund krónur — Gunnar telur að sjónvarpið sé fjörutíu þúsund króna virði, meðan Jón telur að sjónvarpið sé sextíu þúsund króna virði. Hvorugur þeirra er meðvitaður um að markaðsvirði sjónvarpsins er fimmtíu og fimm þúsund krónur.

Þegar verður svo af skiptunum grunar engan að annar þeirra hafi gengið með skarðan hlut frá borði eða að hinn hafi grætt, heldur þykjast báðir vera í góðri vitund um að viðskiptin hafi verið sanngjörn og heiðarleg. Raunin er þó sú að annar aðilinn hefur verið hlunnfarinn — verð vörunnar var í raun hærra en Gunnar fékk greitt fyrir. Auðvitað voru báðir sáttir við viðskiptin, og því eru þau ekki ranglát í okkar daglega skilningi á ranglæti — enginn myndi fara með slíkan atburð fyrir dómstóla, það væri okkur fáránlegt. Hins vegar voru þau Ranglát, þar eð hinn altæki Vilji er að hver fái nákvæmt og rétt verð fyrir það sem hann lætur af hendi í skiptum fyrir gjaldmiðil — og hinn altæki Vilji var ekki uppfylltur hér, þótt það hafi ekki verið ætlun neins að brjóta á honum. Báðir Viljarnir telja sig vera í Rétti, þótt þeir séu það ekki.

Annað dæmi sem Hegel tekur í bókinni er á þann veg að tveir Rétthafar telji sig báðir eiga sama hlutinn, landspilduna eða annað álíka, en aðeins annar þeirra getur haft rétt fyrir sér. Til þess að útkljá málið á siðmenntaðan máta ganga báðir fyrir dómstóla til þess að skera úr um hver á eignina, og viðurkenna þar með tilvist altæks Réttar sem slíks, með því að nota hann sem mælikvarða á það hver á og hver ekki. Dómsmálið snýr þá aðeins að því að neita tiltekinni réttarkröfu annars aðilans, en ekki að því að neita Rétti sem slíkum. Þetta helst í hendur við dæmið um sjónvarpið að ofan: það er hinn altæki Réttur en ekki einstakur Réttur sem er viðmiðið í Ranglæti.

Prettir

Prettir (e. Fraud, þ. Betrug) eru annað stig Ranglætisins. Í prettum kemur sýndarRéttur aftur við sögu, en í annarri mynd en áður: nú er sýndarRétturinn meðvitað ástand sem annar aðili notfærir sér gagnvart hinum. Ef við myndum notast aftur við fyrra dæmið okkar um sjónvarpið mætti segja að Gunnar, vitandi að sjónvarpið sé fimmtíu og fimm þúsund króna virði, krefji Jón um sjötíu þúsund krónur fyrir sjónvarpið — meðan hann léti eins og það væri mikill afsláttur, þar eð sjónvarpið væri gæðagripur og svo framvegis.

Hér er Jóni látið líða eins og Réttur hans sé virtur og að hann fái fullt verð fyrir vöru sína, meðan Gunnar notfærir sér yfirburðavitneskju sína á verðlagi og virði sjónvarpsins til þess að fá meira fyrir það en hann ætti að fá. Hér fyrst erum við komin á svið meðvitaðs og einbeitts Ranglætis — hvar annar aðili er svikinn samkvæmt tilætlan hins. En eins og ég segi að ofan: sýndarRéttur er enn við lýði. Sá svikni telur sig hafa gert góð kaup og mun lifa lífi sínu í þeirri trú þar til hann kemst etv. í tæri við Konráð sem keypti nákvæmlega sama sjónvarp á fimmtíu og fimm þúsund krónur einhversstaðar. Þá uppgötvar hann að á sér hafi verið brotið.

Ýmsar stofnanir og löggjöf má leggja til þess að koma í veg fyrir pretti: neytendavarnir, hagsmunasamtök, löggjöf um sannleika í auglýsingum og orðalag, osfrv., en alltaf er hætt á að erfitt sé að sanna að annar aðilinn hafi í fullri meðvitund talið viðskiptamanni sínum trú um eitthvað sem ósatt er.

Hegel talar að lokum um að Prettir séu sambærilegir hinum jákvætt óendanlega dómi: þótt ég sem kaupandi sé vissulega að kaupa þennan hlut A er ég í Prettum aðeins að kaupa hann að því leyti sem hann er hlutur A — ég er hlunnfarinn um hina altæku hlið hlutarins A, þ.e. virði hans. Þegar ég kaupi hlut A að því leyti sem hann er hlutur A taka kaupin því á sig þessa líkingu við óendanlega jákvæðan dóm: ég er ekki að fá neitt meira, kaupin eru tátólógía. Hegel kemst eins og áður segir þannig að orði að það sem skorti í Prettum sé hið altæka í hlutnum — sem er þetta skiptivirði hans. Sá sem selur mér hlutinn segist vera að selja þetta altæka, en er í raun aðeins að selja hið einstaka. Það er því sú hlið viðskipta eða Samninga sem krefst þess að einhver hlutlægur mælikvarði sé á allt heila klabbið sem er sniðgengin í Prettum — altækum Rétti er neitað.

Næst snúum við okkur að síðustu og veigamestu tegund Ranglætis — Glæpum. 

Glæpur

Glæpir eru lokastig Ranglætisins og veigamesta form þess. Í Glæpum er hinum fyrrnefnda sýndarRétti kastað á glæ — hann er óþarfur, þar eð Glæpur er róttækara form Ranglætis en hinar áðurnefndu birtingarmyndir þess, Ómeinfýsið Ranglæti og Prettir. Ef Prettir eiga hliðstæðu sína í jákvætt óendanlegum dómi þá mætti segja að Glæpir séu hinn neikvætt óendanlegi dómur — en nánar um það síðar. Skoðum fyrst hvað Hegel segir um Glæpi.

Hann hefur undirkaflann á því að fjalla um að þegar einstaklingur á eign sé Vilji þeirra lagður í eignina — en við höfum fjallað um þetta í bloggfærslunni um Abstrakt Rétt:

„Í fyrstu gerir hann skýran grundvallargreinarmun á Persónunni, sem hefur Vilja, og umheiminum. Sumt í umheiminum er dautt eða lifandi og viljalaust, og það eru hlutir sem Persónan getur „sett vilja sinn í“ og þar með eignast. Hlutir hafa engan tilgang eða stefnu í sjálfum sér og það er þess vegna sem hægt er að eigna sér þá.“

Vilji eigandans er semsagt settur inn í hlutinn eða eignina sem slíka, og það er aðeins viðurvist Viljans sem gerir hlutinn að eign. Glæpur er einmitt og nákvæmlega tiltekið þegar eign manns er sett undir vald annarra eða þegar einhver stýrir eign þinni (sem inniheldur Vilja þinn) í samræmi við sinn eigin Vilja. Glæpur er fullkomin vanvirðing bæði við einstakan Vilja og Rétt og hins vegar við altækan Vilja og Rétt — ólíkt Ómeinfýsnu Ranglæti hvar altækur Vilji var virtur, og ólíkt Prettum þar sem einstakur Vilji var virtur. Glæpur er því algjör neitun Réttar, altækum jafnt sem einstökum.

Hegel talar því næst stuttlega um nauðung eða þvingun — sem við höfum raunar einnig snert stuttlega á í öðrum hluta umfjöllunar okkar — en hann tiltekur að þótt hægt sé að neyða eða þvinga líkama okkar til þess að gera hitt eða þetta (þar eð þeir séu ekki nema utanverður hlutur sem maður ræður yfir) sé ekki hægt að neyða Vilja eða Persónu til þess að gera eitt né neitt. Persóna verður að gangast undir vald annarrar Persónu til þess að nauðungin fari fram: því Persónan hefur alltaf val um að deyja í stað þess að gangast undir valdið. Þetta veitir henni ákveðna sérstöðu — það er bókstaflega ómögulegt að raunverulega neyða einhvern til þess að gera eitthvað. Það er alltaf samþykki falið í þvingun — samþykkið „ég skal gera þetta til þess að þola ekki eitthvað annað og verra eins og dauða eða meiri þvingun.“

Í fljótu bragði virðist sem Hegel sé að hliðra ábyrgð yfir á þolendur Glæpa, en svo er alls ekki. Auðvitað er það sá sem neyðir, sá sem þvingar, sem er upphafsmaður Ranglætisins — öll réttarbrot eiga rætur sínar að rekja til afbrotamannsins. Ef hann hefði aldrei komið til sögunar þyrfti þolandinn aldrei að neita eigin Vilja og Rétti til þess að viðhalda sér. Svo höfum á hreinu að ekkert í líkingu við þolendaskömm er að eiga sér stað hérna — málið er núansaðra en svo. Ofan á allt höfum við ekki einu sinni fellt siðferðilegan gildisdóm um athöfnina, en við fjöllum um Siðferði í öðrum hluta Réttarspekinnar og því er ekki tímabært að taka það inn í reikninginn.

Það sem er í rauninni að gerast í framkvæmd Glæps, segir Hegel, er að Rétti er neitað. Eins og hann kemst að orði í §92:

„Það er aðeins að því leyti sem Viljinn hefur tilvist í einhverju ákveðnu sem hann er Hugmynd eða raunverulega frjáls, og tilvistin sem Viljinn hefur komið sér fyrir í er verund frelsis — og af þessu leiðir að vald eða nauðung er, sem milliliðalaust hugtak, sjálfseyðandi vegna þess að það er tjáning Vilja sem neitar tjáningu eða ákveðinni tilvist Vilja. Því er vald eða nauðung, í óhlutbundinni mynd, Ranglæti.“

Það sem Hegel meinar í þessari málsgrein liggur í augum uppi: Vilji sem neitar Vilja, Réttur sem neitar Rétti, getur ekki verið Réttur, getur ekki verið Vilji — það eyðir sjálfu sér um leið og það kemur fram. Því er slíkur Réttur alls ekki Réttur — hann er Rangur, hann er Ranglætið sjálft. Hegel gengur samt lengra héreftir, þar eð augljóslega er ekki allur kraftur eða nauðung Ranglæti. Það væri fáránlegt að halda slíku fram — því annars væri ekki hægt að krefjast réttlætisins, krefjast þess að fólk gjaldi fyrir misgjörðir sínar.

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að það sem á undan hefur farið er einskonar díalektískt ferli innan um díalektískt ferli: í fyrsta lagi er Glæpur díalektísk afleiðing þess að við gátum hugsað okkur neitun einstaks Réttar (Ómeinfýsið Ranglæti) og altæks Réttar (Prettir) og er eiginleg syntesa þessa tveggja þátta, og Glæpurinn sem slíkur er því algjör neitun Réttar.

Í öðru lagi er Glæpurinn sem slíkur hápunktur þróunar sem hefur kraumað síðan við kynntum annað fólk, fleiri Rétthafa, til sögunnar í Samningum — og er eiginleg neitun fyrsta hluta verksins eftir Inngang, hlutans sem fjallaði um (hinn milliliðalausa) Abstrakt Rétt. Glæpur og Abstrakt réttur mynda því sitt hvort augnablikið í þrætubókarferli fyrsta hluta bókarinnar — frumsetningu og neitun hennar. Það sem eftir er bloggfærslunnar mun ég því fjalla um það hvernig Hegel leiðir konkretuna eða syntesuna af abströktunni og negatífunni.

Réttlæti og neitun Ranglætisins

Glæpurinn sem slíkur eða Ranglætið er eins og áður segir neitun Réttarins sem slíks. Viljinn sem brotið er á og Réttur hans er hafður að engu — frumlagið, Viljinn, er skilinn frá umsögn sinni, Réttinum. Glæpurinn sem slíkur, neitandi Vilja eins um Rétt sinn, er því á við neikvætt óendanlegan dóm — sem ég hef fjallað ítarlega um í annarri færslu sem ég hlekkja á hér. Nauðungin sem afbrotamaðurinn beitir er ekki slæm í sjálfu sér — hún er það aðeins að því leyti sem hún brýtur á og neitar Rétti annarra, svo lengi sem hún er Ranglát. Þvert á móti því sem margir halda fram — að nauðung sé alltaf slæm, Ranglát í sjálfu sér, að þvinganir séu í raun hlutlægt slæmar — er nauðung ekki aðeins stundum nauðsynleg heldur er hún stundum Rétt. Nauðung er Rétt þegar hún neitar Nauðung. 

Glæpur, fyrsta nauðungin sem á sér stað, er Ranglæti — neitun Réttar — og þegar hann á sér stað skilur hann hugmyndalega séð eftir sig neind eða tóm (§97). Þótt tómið sé vissulega hugmyndalegt tóm hefur það þó raunverulegar afleiðingar í raunheimum. Þetta tóm sem verður af samruna Réttar og Ranglætis er hrein neitun — og því er neitun tómsins (sem við köllum Refsingu) neitun neitunarinnar og uppljóstrun þess að Abstrakt Réttur var ófullkominn og gallaður í milliliðalausu upphafi sínu. Abstrakt Réttur einstaklingsins eða Réttur hins einstaka krefst einmitt miðlunar í altækum Rétti, samfélagslegum Rétti, til þess að vera sannkallaður Réttur. Réttur Viljans sem slíks er því innantómur en hlýtur kraft sitt og vald í samfélagslegri viðurkenningu Réttarins.

Ranglætinu er því semsagt neitað með Refsingu (sem er samt í reynd aðeins miðlaður Réttur) — sem er, eins og áður segir, neitun neitunar. Þegar Glæp einstaks Vilja er neitað og Refsing er borin upp á hann verður þó að varast að neita ekki altækum Rétti Viljans, því annars ertu kominn aftur á svið Ranglætis — þú fremur glæp gegn þeim. Hins vegar er nauðsynlegt að neita einstökum Rétti eða Vilja afbrotamannsins til þess að staðfesta eða „rétta“ af hinn altæka Rétt. Neitun Ranglætis er ekki einföld neitun heldur er hún upphafning (sem er þýðingin mín, as per usual, á þ. Aufhebung) — þar eð bæði Ranglætinu og Réttinum sem neituðu hvoru öðru í neindina er viðhaldið á sama tíma og þeim er eytt í endurstaðfestingu Réttarins — sem kalla mætti Réttlætingu. 

Það er hér sem greinarmunur myndast á Réttlæti og Hefnd. Hið fyrrnefnda er raunveruleg neitun neitunarinnar, endurstaðfesting Réttarins sem slíks, meðan hið síðarnefnda er einfaldlega enn einn Glæpur sem einstaklingurinn réttlætir (aftur, einstaklega) fyrir sjálfum sér. Munurinn er sá að í öðru tilfellinu er altæki Réttar staðfest meðan í hinu er einstæki Réttar staðfest. Annað áhugavert sem Hegel heldur fram í §100 (og bergmálar við ofangreindan mun) er að neitun Ranglætisins er hvorki meira né minna en Réttur glæpamannsins sem slíks. Það sem hann á við er að með því að Refsa, með því að neita Ranglæti, erum við að telja glæpamanninn til skynsamlegra manna — enginn myndi Refsa grjóti, dýri eða smábarni fyrir að gera eitthvað rangt eða vitlaust. Það er ákveðinn heiður að láta Refsa sér, láta neita sér í þágu hins æðra.

Abstrakt Réttur og skipting yfir í Siðferði

Nú er komið að kaflaskilum — og fyrsti hluti bókarinnar, sem sneri að óhlutlægum Rétti, hvort sem var í formi Réttar, Samninga eða Ranglætis, tvinnast nú inn í næsta hluta verksins: Siðferði [þ. Moralität]. Það er hér sem við myndum okkur ákveðnar reglur um framferði okkar hvert við annað, sem við leggjum línurnar um hvaða réttindi við höfum og hvernig við miðlum þeim hvert við annað. Það er hér sem við ákveðum hvað má gera og hvað má ekki gera. Nú þegar Hegel hefur meðhöndlað Rétt svo listilega erum við nánast tilbúin að skipta yfir, en við geymum það þar til í næstu bloggfærslu, þar sem við dýfum okkur í fyrsta hluta kaflans um Siðferði. Þar til þá þurfum við að skilja nokkra einfalda hluti. 

Í fyrsta lagi þurfum við að vita að það er aðeins eftir að Réttur kemst yfir milliliðaleysi sitt, sem hann gerir í gegnum Refsingu, sem við getum haft eitthvað hugtak um Siðferði. Viljinn sem slíkur (altækur Vilji, þeas.) verður aðeins siðferðilegur þegar hann öðlast færni til að stýra sjálfum sér, setja sér sín eigin (Kantísku) lögmál — þegar hann verður fær um að refsa og/eða útiloka sjálfan sig (eða einstök tilfelli sín) á ákveðinn og skynsamlegan — frjálsan — máta.

Í öðru lagi þurfum við að vita að munur er á Refsingu og hefnd, auk þess sem við þurfum að skilja hvernig hin þrjú form Ranglætis neita Rétti hvert á sinn hátt — Ranglæti getur neitað einstökum Rétti, altækum Rétti, eða Rétti almennt — og Refsing verður að vera í hlutfalli við það.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, heldur bið ég ykkur vel og Réttilega að lifa. Lesumst að sinni, og næst í heim Siðferðisins. Ykkur væri einstaklega hollt að lesa Grundvöll að frumspeki siðlegrar breytni e. Immanuel Kant áður en við hefjum samlestur á Moralität — en það er alveg hægt að skilja kaflann fullkomlega án þess líka. Bestu kveðjur og þakkir fyrir að lesa.


Málverkið heitir The Duel After The Masquerade og er eftir Jean-Léon Gérôme, málað árin 1857-1859.

Tími, rúm og allt þar á milli

Tími, rúm og allt þar á milli

Um eiginleika óendanlegra dóma

Um eiginleika óendanlegra dóma