Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Tvær stuttar ritgerðir um siðfræði Aristótelesar

Tvær stuttar ritgerðir um siðfræði Aristótelesar

Hér birti ég tvær örstuttar ritgerðir sem ég skrifaði í prófaundirbúningi um Siðfræði Níkomakkosar, eitt víðlesnasta rit Aristótelesar — sem ég skrifaði svo lengri ritgerð um, nánar tiltekið varðandi mikilmennskuhugtak heimspekingsins forngríska. Lesið hér. Þessar tvær ritgerðir fjalla hins vegar í fyrsta lagi um réttlæti eins og Aristóteles skilur það og í öðru lagi um vitrænar og siðrænar dyggðir í kenningu hans.

Myndin í haus er eftir Gustave Doré — en hún er myndskreyting við 34. canto Vítis Dante Alighieri. Á henni sést Lúsífer, Satan, Dis Pater — hvað sem maður kýs að kalla hann. Hann virðist svo djúpt sokkinn í þanka að halda mætti að hann velti fyrir sér einhverri and-siðfræði.


Munurinn á vitrænum og siðrænum dyggðum í Siðfræði Níkomakkosar

Dyggð, segir Aristóteles, getur verið tvennskonar: vitræn og siðræn. Til þess að vera dyggðugur þarf maður að velja dyggðina í athöfnum sínum gegnum ráðagerð. Ráðagerð metur rökrænt hvað gerandinn getur gert út frá tilteknu markmiði með tilliti til þekkingarþátta og skynsamri hugsun, og endar með því að valið er milli aðgerða sem eiga að miða í átt að markmiðinu. Ráðagerðin sem ferli á að gera okkur kleift að skilja og skynja hvernig best má nálgast dyggðina í athöfnum okkar, en til þess að vera dyggðug verðum við svo að framkvæma hana, og enn fremur verðum við að venja okkur á að framkvæma hana alltaf, hneigjast til dyggðarinnar.

Siðrænar dyggðir eru þær sem við venjum okkur á að gera, þær sem við hneigjumst til. Við getum aðeins eignast þær með því að framkvæma þær, með því að velja í athöfnum okkar. Siðræn dyggð krefst svokallaðrar siðvenju — þess sem við venjum okkur á að gera. Þær eru ekki manninum í blóð bornar, heldur eru þær háðar umhverfislægum þáttum svo sem sögulegum tíma og staðsetningu í rúmi. Það er eðli mannsins sem gerir honum kleift að öðlast þessar dyggðir og tileinka sér þær. Það eru hneigðirnar sem gera okkur siðræn — og því skiptir öllu máli hvernig uppeldi við hljótum, hverju við venjumst, frá allra fyrsta degi. Siðræn dyggð er að velja meðalveginn.

Til þess að geta yfir höfuð valið þennan meðalveg þarf maður þó að búa yfir vitrænum dyggðum, en þær er hægt að kenna og geta vaxið og dafnað með kennslu og leiðsögn. Vitrænar dyggðir, svo sem sönn þekking, listræn kunnátta og sköpun. Sá maður er hygginn sem ræður ráðum sínum vel almennt, í átt að velfarnaði. Vitræn dyggð gerir okkur því kleift að vega og meta ráðagerðir vorar og finna meðalveginn með skynsamri rökhugsun. Vitræn dyggð er þó einskis virði án þess að maður venji sig á að beita henni í athöfnum sínum í átt að hinni siðrænu dyggð.

Þessir tveir þættir, vitrænar dyggðir og siðrænar dyggðir, gera skynsemismanneskjunni því kleift að öðlast farsældina. Þær tvinnast saman — báðar hvorri annarri nauðsynleg, og merkingarlausar einar og sér. Siðræna dyggðin, sem varðar athafnirnar sjálfar, og vitræna dyggðin sem varðar rétta ákvarðanatöku hvað viðkemur siðunum sjálfum, eru tveir hlutar sem mynda eina heild. Til þess að framkvæma rétt verðum við að hugsa rétt — svo við veljum nú örugglega hið rétta og aukum við farsæld okkar og samfélags okkar, og til þess að hugsa rétt þurfum við að framkvæma rétt — ef ekki bara til þess að geta haldið áfram að búa í samfélagi sem gerir okkur kleift að vera skynsemisverur, uppfylla eðli okkar og eiginverk sem hugsandi lífverur.

Hugmynd Aristótelesar um réttlæti sem hluti af kenningu hans um siðræna dyggð

Réttlæti fjallar Aristóteles um í fimmtu bók Siðfræði Níkomakkosar. Það telst til siðrænnar dyggðar, og raunar segir Aristóteles að réttlæti virðist vera helsta dyggðin — sú sem umlykur allar hinar dyggðirnar. Réttlæti er þá skilgreint á fyrstu blaðsíðu fyrstu bókar sem „ástandið sem hneigir fólk til að beita réttlæti og vilja það sem er réttlátt,“ og sambærileg skilgreining gildir um ranglæti.

Ólíkt flestum dyggðum er réttlæti ekki meðalvegur milli tveggja öfga. Einstaklingur getur aðeins verið annað hvort réttlátur eða ranglátur. Réttlátur maður, samkvæmt Aristótelesi, er löghlýðinn jafnaðarmaður. Réttlæti snýr að tvennu: útdeilingu og leiðréttingu. Útdeiling er þá réttlát dreifing gæða, meðan leiðréttingar eru skaðabætur fyrir glæpi sem hefur verið valdið á hlut einhvers.

Jafnaðarmennska Aristótelesar miðar þá að því að úthluta hverjum meðlim samfélagsins gæði í hlutfalli við verðleika þeirra. Sá sem verðskuldar meira fær þá meira en sá sem er einskis virði í samfélagslegum skilningi. Leiðréttingin snýst um að standa vörð um eignarhald réttmætra eigenda í tilteknum tilfellum þar sem einhver sem ekki hefur rétt á því að eigna sér gæðin leggur hald á þau. Aristóteles virðist því sjá réttlæti sem kerfi sem viðheldur verðleikum og réttindum, og að viðhalda réttu jafnvægi meðal fólks.

Þegar hann segir að réttlætið virðist vera helsta dyggðin, eða sú sem umlykur allar aðrar dyggðir, meinar hann að líkindum að það hljóti að vera svo að dyggðugur maður sé réttlátur, og öfugt. Réttlæti er þannig „ekki hluti dyggðar heldur dyggðin öll,“ en þó er greinarmunur á réttlætinu og dyggðinni. Greinarmunurinn felst í því að þegar dyggð er beint gagnvart öðru fólki, eða þegar henni er beitt í samfélagslegum tilgangi, þá verður hún að réttlæti. Þegar henni er þó beitt í eigin þágu eða þegar hún er sálarástand einstaklings, þá er hún aðeins dyggð. Sem dyggð er réttlætið því meðvitundin um fyrrnefnt jafnvægi, skynsamlegar ástæður þess og mikilvægi þess að því sé viðhaldið.

Í réttlátu samfélagi eru því allir meðvitaðir og sáttir við skiptingu gæða, svo lengi sem hver sá sem verðskuldar mikið fær mikið, og sá sem verðskuldar lítið fær lítið. Réttlæti sem dyggð snýr að því að viðhalda dyggðum almennt í þeim skilningi sem þær eru samfélagsleg stofnun sem kortleggur og leggur línurnar um hvað mannlegt ágæti og farsæld er. Réttlætinu mætti því e.t.v. lýsa á þann veg að það væri e.k. samfélagsleg meðvitund um aðra dyggð, mikillætið, sem er viðfangsefni þriðja kafla fjórðu bókar SN — en mikillæti er meðvitund um verðleika sína og hegðun í samræmi við verðleikana.

Um eiginleika óendanlegra dóma

Um eiginleika óendanlegra dóma

Transhúmanismi og alheimsviljinn

Transhúmanismi og alheimsviljinn