Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Verkfæri

Verkfæri

Mér hefur verið hugsað til nýlegra ummæla Elísabetar Jökulsdóttur varðandi ritstörf. Hún, sem er rithöfundur og mótframbjóðandi Andra Snæs Magnasonar - einnig rithöfundur - kom honum til varnar á Facebook-síðu sinni fyrir skömmu síðan. Lengi hefur það verið til umræðu að Andri Snær sé latur rithöfundur og afkastalítill, afæta á ríkislaunum listamanna, gagnslaus með öllu og lattélepjandi hundraðogeinn listamannaspíra. Hann hafi þá „aðeins gefið út tvær bækur" á þeim tíu árum sem hann hefur þegið listamannalaun frá ríkinu og auðvitað eru listamenn aðeins þess virði sem þeir framkalla á markaðsvirði.

Elísabet skrifar á síðu sína, að ritstörf séu eins og skurðgröftur, endalaust púl og óhreinindi, og ekki svo ólíkt því að vinna í beitningarskúrum eða frystihúsum. Ég játa að það hlakkaði í mér, þegar ég las þessi orð hennar Elísabetar, vegna þess hve vel ég tengi við yrðingarnar og hve gott það er að heyra einhvern taka upp svo vel orðaðan hanska fyrir rithöfund. Auðvitað hljómar það alltaf jafn klisjukennt að lýsa því yfir á netinu að það sé alveg óbærilegt að eiga bústað og líferni á Íslandi, en það gæti verið margfalt, þúsundfalt betra að vera rithöfundur hér á landi. Almenningsálitið hefur farið dalandi gegnum árin - finnst mér - þótt ekki vilji ég fullyrða um hvað það var sem olli því.

Mig dreymir um framtíð þar sem ég get kallað mig rithöfund. Kannski verður eitthvað af þessari framtíð og kannski verður hún bara innantóm æskufantasía sem ekkert rætist úr. Í öllum föllum mun ég alltaf koma til með að skrifa, þótt ég muni ef til vill aldrei leggja í að gefa neitt út opinberlega. Ég hef alltaf skrifað og fer ekki að hætta því úr þessu. Til þess að geta skrifað verður maður þó að vera búinn réttum verkfærum til starfsins, rétt eins og bóndinn þarf skóflu og járnkarl og fjós til þess að geta kallað sig bónda. Hver er skófla rithöfundarins, járnkarl ljóðskáldsins, fjós prósahöfundarins? Auðvitað þarf listamaðurinn að vera listrænum hæfileikum gæddur til að byrja með - því ekkert verður úr listinni ef ekkert er í kollinum til þess að skapa hana. Því næst þarf að hafa eitthvað til að skrifa listina niður. Hvort sem það er skrifblokk eða fartölva.

Að lokum má svo nefna þrjú gífurlega mikilvæg verkfæri sem öll skáld þurfa lífsnauðsynlega að umkringja sig. Í fyrsta lagi er það fólk - gott fólk og slæmt, fólk af öllum manngerðum og ekki bara þeim bestu, heldur þeim allra verstu líka og öllu sem á milli stendur. Þó er nauðsynlegt að skáldið hafi að sínum nánustu vinum fólk sem er tillitssamt og býr yfir ógnægðum þolinmæði - starfið er ekkert grín - eins og Elísabet sagði. Því næst er ljóst að öll skáld þurfa að hafa umhverfi sem veitir þeim andagift og næði til þess að leika listir sínar af bestu getu. Ég vil aðgreina umhverfi frá fólkinu vegna þess að það eru aðrir óefnislegir og efnislegir ólífrænir hlutir sem spila inn í þetta óháð fólkinu sjálfu sem persónuleikum. Í þriðja lagi eru það aðrar sögur, sem ég held að séu algjörlega ómissandi í þessu listræna ferli. Enginn getur spunnið úr lausu lofti, held ég, og því meira sem er tekið inn því líklegra er að listin verði betri. Auðvitað er magn lesinna bóka engin trygging fyrir gæðum lista - eins og ég sagði hér á undan verður aldrei neitt spunnið í þann sem ekkert hefur milli eyrnanna - en hins vegar kemur reynsla og upplifun að gífurlega miklu leyti inn í jöfnuna.

Í öllum föllum eru þessi verkfæri listamannsins eins fjölbreytileg og persónuleg og stíll hvers og eins listamanns er einstakur og ófrávíkjanlegur. Mörgum finnst sem textinn brjóti sér leið út úr höfði listamannsins sjálfs - eins og sögumanni Clarice Lispector í bókinni Hour of the Star sem ég skrifa hér bókadóm um á sömu síðu - meðan aðrir verja miklum tíma í að skipuleggja orð sín og atburðarás í þaula eins og um tónlistarhátíð eða víðfeðma ráðstefnu sé að ræða. Ef til vill kemur það inn á skiptingunni genre fiction/literary fiction og ef til vill ekki - en það er efni í aðra stutta grein. Þar til þá!

~

Varðandi „Færeyjar”

Varðandi „Færeyjar”

Varðandi Marvin Minsky

Varðandi Marvin Minsky