Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Spennan milli lýðræðis og fasisma

Spennan milli lýðræðis og fasisma

Lýðræði. Stjórnkerfið sem við ólumst öll upp við. Stjórnkerfið sem Forn-Grikkir fundu upp og stjórnkerfið sem Íslendingar til forna stofnuðu til. Það er stjórnkerfi sem margir eru oftast ósáttir við í sátt sinni - ósáttir við niðurstöðurnar en sáttir við aðferðafræðina. Þegar maður býr undir lýðræði getur maður nefnilega stundum látið hlutina ganga á þann veg sem maður vill - og stundum ekki. Þannig verður gróska í stjórnmálakerfinu, og alls kyns fólk fær að prófa sig áfram við pólitíkina. Þetta er í niðurstöðum sínum bæði gott og vont, en í grunninn er það að miklu leyti gott. 

Að sjálfsögðu eru vankantar á lýðræðinu, eins og allir vita - stundum er vilji fólksins einfaldlega ekki sá hagstæðasti eða sá besti, og stundum er vilji fólksins auðveldlega mótaður og meitlaður af fólki með silfraðar tungur og langa fingur. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt að líta á lýðræði sem eitthvað meira en stjórnskipulag. Það segir ekki aðeins til um hver fer með stýrið og pedalann, heldur einnig um það hvernig sá sem fer með stýrið og pedalann hugsar. Þetta kann að vera mikilvægara en hver það er nákvæmlega sem situr í bílstjórasætinu. Niðurstöðurnar skipta þá kannski oftar minna máli en aðferðafræðin.

Hið tvíeggjaða sverð

Skoðum það til dæmis að lýðræði getur orðið grundvöllur fyrir uppgang og vöxt fasismans - sem er einmitt ein and-lýðræðislegasta stjórnarstefna sem hugsast getur. Það kann að virðast þversagnakennt að alger andstæða hugmyndafræðinnar sem við hömpum svo duglega geti vaxið upp úr sömu moldinni og við sjálf og öll hin. Það er undarleg staðreynd en er jafnframt nauðsynleg til þess að eðli lýðræðisins sé haldið við. Um leið og það er bannað að vera fasisti búum við ekki lengur við lýðræði, heldur fasisma sem kallar sig eitthvað annað en fasisma. 

Undir lýðræðinu hafa fasistar oft verið kjörnir til valda. Hægur leikur er að nefna þar Mussolini og Hitler, sem hófu sínar kosningabaráttur undir formerkjum þess að vera menn fólksins, en þegar þeir komust til valda gáfu þeir ansi lítið fyrir hugmyndina um valdið til fólksins og atkvæðarétt. Þannig getur lýðræði orðið eins konar rampur eða brú milli þess sem við teljum vera sanngjarnt stjórnarfar til þess að vera einræðisstjórn - eitthvað sem fæstum vestrænum lýðveldissinnum fyndist gáfuleg hugmynd. Þótt enginn, eða fæstir, sé hrifinn af fasisma, þá verður lýðræðið samt að gefa honum pláss. „Ef lýðurinn vill fasisma, verði þá fasismi,” segir lýðræðið og yppir öxlum.

Þó er þess vert að minnast á að á sama hátt og lýðræði gefur fasismanum ráðrúm til þess að vaxa og dafna gefur það sjálfu sér oftar en ekki meira ráðrúm til þess að rækta sig og þroska. Allflestir meðlimir lýðræðislegs samfélags eru lýðræðissinnaðir, frjálslyndir að mismiklu marki (talsvert færri en fleiri myndu titla sig stjórnlynda á opinberum vettvangi), og myndu lýsa yfir viðbjóði sínum ef einhver byði sig fram til ríkis- eða sveitarstjórnar undir bláköldum merkjum nasismans. Lýðræði er því tiltölulega öruggt í eigin örmum, sérlega vegna þess hve góð mynd er máluð af því undir sér sjálfu. Mögulega er óumflýjanlegt að vald, hvaða form sem það tekur, leitist að því að viðhalda sér og styrkja sig. Þegar kemur að lýðræði er það samt gott - lýðræði tryggir, að mínu mati, öruggt flæði stjórnmálafólks og framþróun hugmynda og samfélagsins.

Lýðræði viðheldur sér

Þá skal vikið að því hvaða form lýðræði tekur í þeim tilgangi að viðhalda sér. Í fyrsta lagi er það hinn frjálslyndi lýðræðissinni - sá sem telur að lýðræðinu sé best borgið undir hugmyndum tjáningarfrelsis og frelsis frá ofbeldi og eignatjóni, sá sem trúir því að lýðræðinu sé best borgið undir hugmyndum jafnréttis og jöfnuðar að einhverju marki, og sá sem telur að lýðræðið ætti að leitast eftir því að vera meritókrasía þar sem þátttakendurnir fá eins jöfn byrjunartækifæri og kostur er á að gefa hverjum og einum. 

Þetta er hinn almenni borgari, sá sem hefur normatíva meðalskoðun á lýðræðinu. Jón og Gunna sem eru áhugasöm um pólitík og láta hana sig varða, kjósa í kosningum vegna þess að annars eru borgaraleg réttindi okkar í hættu og telja að við ættum samt sem áður að hlusta á allar skoðanir, sama hversu fáránlegar eða siðlausar þær eru, því annars séu þeirra eigin skoðanir í mikilli hættu. Ég ætla ekki að halda neinu öðru fram en að Jón og Gunna og fólk eins og þau séu burðarbiti hins lýðræðislega samfélags í heild sinni. Þau eru það, og réttilega svo. Ef þau væru ekki til staðar væri lýðræði bara útópísk pæling í hausnum á einhverjum hugsjónasömum Grikkja fyrir átta þúsund árum og við værum öll þegnar Friðriks Vilhjálms tvöhundruðasta eða svo. 

Hins vegar eru þau ekki nóg til að viðhalda jafnvæginu. Jón og Gunna og vinafólk þeirra eru burðarbiti lýðræðisins, en einmitt þess vegna eru þau bundin reglum lýðræðisins. Jafnvel þegar þau koma auga á ris fasismans, sem gerist af og til í kringum kreppur og óánægðar millistéttir, þá eru þau aðeins fær um að berjast gegn honum með tólum lýðræðisins - sem getur verið sérstaklega bindandi þegar áður theoretísk hætta er að bresta í að verða raunveruleg hætta með lífshættulegar afleiðingar fyrir fleiri milljónir manna. Þar er prýðisborgarinn með lýðræðislega siðferðið í vissum tilfellum fremur gagnslítill ef ekki gagnslaus. Taka skal fram að ég er ekki að færa rök móti hinu almenna lýðræðislega sinnaða fólki - þvert á móti. Ef vélin gengur smurt fyrir sig þá gengur hún smurt fyrir sig og óþarft er að laga það sem virkar. Vélin er samt ekki fullkomin - hún hikstar stundum. Og þegar ég segi hikstar meina ég „framkallar einræðisherra sem myrða milljónir í ‘hreinsunar’krossferð gegn öllu sem lýðræðinu er kært”.

Afdrifaríkir hikstar

Það eru nákvæmlega þessir afdrifaríku hikstar sem ég velti fyrir mér þegar ég hugsa til hins andlýðræðissinnaða lýðræðissinna. Þessi manneskja er áhorfandi, mögulega þátttakandi í lýðræðinu en mögulega ekki, sem tekur eftir fæðingarhríðum fasismans. Hún veit hvers hann er megnugur, og innst inni veit hún að það er hægara sagt en gert að stöðva rúllandi hnullung í miðri brekku. Hún veit að skilvirkasta leiðin er sú að einfaldlega mölbrjóta téðan hnullung á toppi brekkunnar, áður en hann kemst á nokkurt raunverulegt skrið. Þessi manneskja veit að besta leiðin til að knésetja fasismann er að gera út af við fasistana, þótt ekki sé nema ef til vill um stutta stund áður en þeir spretta upp höfðinu aftur, óhjákvæmilegir fylgifiskar lýðræðisins sem þeir eru. Þessi manneskja er þeirrar skoðunar að ekki sé sérlega mikið varið í hið lýðræðislega siðferði þar eð það geti leitt til eigin eyðileggingar og hroðaverka - mölvað allt mélinu smærra sem byggt hafði verið upp gegnum árin.

woody-guthrie-05.jpg

Hvað ef þessi manneskja tæki sig til og einfaldlega réði fasistana af dögum? Ímyndið ykkur Woody Guthrie, með fasistalímmiðann sinn fræga festan á AK-47 riffil. Manneskjan sem um ræðir væri að brjóta gegn tjáningarfrelsinu, brjóta gegn siðferðisreglum lýðræðisins, brjóta á rétti þeirra til skoðana, brjóta á lífi þeirra - en hverju hefði hún mögulega bjargað? Enginn veit, og enginn mun vita. Manneskjan færi ef til vill í fangelsi fyrir fjöldamorð eða einstaklingsmorð ef hún grípur fasismann nógu snemma, hún væri jafnvel mögulega dæmd til dauða sjálf ef lýðræðisreglurnar kveða á um að slíkt sé hægt. Þetta þyrfti hún að gera, sjálfviljug, til þess að koma í veg fyrir uppgang þjóðarmorðs - og í raun og veru væri það ein hreinasta birtingarmynd lýðræðisins sem slíks - fórn (ekki aðeins á öðru fólki heldur einnig á sjálfri sér) til þess að viðhalda flæði lýðræðisins. Perpetuum mobile.

Ekki bara leikur

Punkturinn er sá að lýðræði er ekki bara einhver leikur þar sem það er gaman að hafa skoðun og deila með öðrum. Það er miklu meira og alvarlegra en það. Lýðræði er barátta um völd, barátta sem krefst þess að haldið sé um stýripinnann með báðum höndum, alltaf, í viðbragðsstöðu við því að einhver sé að fara að reyna að hrifsa hann af þér - og líklega einhver sem vill myrða gyðinga, eða múslima, eða svart fólk, eða hvítt fólk (kannski í einhverjum hliðstæðum alheimi). Punkturinn er líka sá að við verðum að vera meðvituð um kerfislægu erfiðleikana sem standa í vegi fyrir okkur, og í það minnsta velta því fyrir okkur hvers virði það er að brjóta ekki á kerfinu ef það verður til þess að kerfið raunverulega brotnar. 

Ímyndaðu þér að þú sæir ungan Adolf Hitler röltandi um stræti borgarinnar í hverri þú býrð. Hann er formaður stjórnmálahreyfingar, sem þú veist (að meðvitund þinni um hvað lýðræði er og hvernig hugmyndir Hitlers unga ógna því) að mun leiða til einhverra voðaverka - voðaverka sem gætu ógnað öllu sem lýðræðið stendur fyrir. Þú ert með hníf í vasanum og þú hefur augljóst tækifæri til að skera hann á háls. Það er lögregluþjónn hinum megin við götuna sem myndi sjá morðið. Þú veist ekki hvort þú munir hafa annað tækifæri eður ei, og þú veist ekki hvort þú hafir rétt fyrir þér varðandi framtíð Hitlers og stjórnmálahreyfingarinnar hverrar hann er formaður. Myndirðu drepa hann? Nei, að öllum líkindum ekki. Óvissan, rétturinn til lífs, skoðanafrelsið, allt það. Hann býr við kerfislæga vernd fyrir andkerfislegu skoðunum sínum, og þú býrð ekki við kerfislæga vernd við kerfislegu skoðunum þínum. 

Ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvert ég vildi fara með þetta, en mig langaði að skrifa smá um það sem ég var að hugsa í dag - erfiðleikann sem felst í baráttunni við fasisma undir formerkjum lýðræðis, lýðræðinu til hagsmuna. Mögulegt er að stundum sé einfaldlega ekki nóg að tala saman, hlusta á skoðanir annarra og fá aðra ofan af því að finnast allir gyðingar skítugir. Ekki er ólíklegt að ykkur finnist hugleiðingar mínar hljóma fasískar eða siðlausar, og ef til vill er það rétt af ykkur og góð skoðun að hafa.

Stjórnmál og internetið

Stjórnmál og internetið

Um tíma og lestur

Um tíma og lestur