Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Stjórnmál og internetið

Stjórnmál og internetið

Internetið er tiltölulega nýtt. Það er stutt síðan fólk gerði sér raunverulega grein fyrir möguleikum þess og enn styttra síðan fólk byrjaði að beisla þá fyrir alvöru. Ef til vill erum við ennþá að stíga okkar fyrstu skref í þessari eiginlegu altengingu. Ég hef verið að hugsa mikið um hvernig stjórnmálamenn geta nýtt sér internetið og netsamfélagið - sem er augljóslega aðskilið frá raunheimasamfélaginu, með sínar eigin hefðir og gildi - til þess að bæta stjórnmálastöðu sína og ímynd.

Augljós dæmi eru Justin Trudeau og Bernie Sanders - þeir tveir stjórnmálamenn sem hafa helst til beitt sér á internetsamfélaginu. Þeir eiga óskipta athygli veraldarvefsins og hafa gífurleg áhrif á netinu. Trudeau gerði allt vitlaust þegar hann útskýrði skammtatölvunarfræði í hnotskurn um daginn. Bernie Sanders fær ekki jafn mikla umfjöllun í hinum stofnanakenndu fjölmiðlum Bandaríkjanna, sem eru í eigu stórfyrirtækja og lobbýista, en hans megináhrifasvið er einmitt á netinu. Þar getur hver sem er bloggað eða tíst um hann og það er þar sem skoðanir hans fá mest brautargengi - hjá ungu fólki sem er mikið fyrir samfélagskúpulinn og er skoðanasterkt á sama tíma.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra ríkisstjórnarinnar og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur haslað sér völl á Twitter upp á síðkastið. Þar hefur hann átt í samræðum við pöpulinn, á annan hátt en hann gerir á Facebook. Hann notar Facebook-síðu sína fremur fyrir „formlegri" tilkynningar og uppfærslur, en hann notar frekar talmál á Twitter. Eins og hann sé einn af okkur - bara gaur að pósta og spjalla um lífið, tilveruna, gildi og hugmyndir.

Þetta kristallaðist þegar hann vitnaði í Margaret Thatcher um daginn. Allir spenntust upp í hálfgerða maníu - vinstrimennirnir frussandi yfir því að hann skyldi voga sér að nota orð þessarar tilteknu stjórnmálakonu sem hefur óneitanlega umdeildan feril, og hægrimennirnir hoppandi af gleði að sjá átrúnaðargoðið sitt, formanninn, 'rústa' einhverjum á Online, með því að nota þau 'tímalausu' orð að sósíalisminn "verði á endanum búinn með peninga annarra."

Persónulega fannst mér hvorugt sjónarmiðið vera sérstaklega gott. Það er ekkert sérlega sniðugt að ætla að banna kvót frá hinum og þessum út frá því hversu umdeildur hann eða hún er. Ég vil geta notað tilvitnanir í Rosa Luxembourg eða Lenín eins og mér sýnist án þess að vera gagnrýndur fyrir að hafa notað orð þessarar tilteknu manneskju. Það er rökvilla að ráðast á það. Jafnvel þótt Bjarni hefði kvótað Hitler - þá ætti, ef sanngirni ætti að vera gætt, að gagnrýna orðin sjálf, og sýna fram á hvers vegna fasismi er slæmur, fremur en að afskrifa kvótið sem slæmt vegna þess að Hitler var sá sem vitnað var til.

thatcher-3.jpg

Hvað hitt sjónarmiðið varðar er nokkuð heimskulegt, að mínu mati, að básúna því og fagna að formaður flokksins sem þú styður sé ófær um að rökræða án þess að sleppa því að bera fyrir sig orð annarra. Það er eins og hann sé sautján ára pjakkur frá Vestmannaeyjum, fóðraður á skoðunum foreldra sinna frá unga aldri, ófær um að hugsa og ræða sjálfstætt! Nei, ég myndi segja það sama ef Katrín Jakobsdóttir vitnaði í Lenín í miðjum rökræðum og þættist telja það endalok samræðnanna. Bara heimskulegt. Það hefur ekkert með hægri eða vinstri pólitík að gera - notkun á tilvitnun eða hlekk á vefsíðu sem 'útskýrir staðreyndir málsins' fyrir viðmælanda er bara barnalegur útúrsnúningur - auk þess sem það er yfirlætisleg og ósanngjörn rökræðumennska. Svo ekki sé á það minnst hvað þessi tiltekna tilvitnun er ótrúlega þurr og leiðinleg.

Það er spurning hvort Bjarni ætti að vera að tjá sig á Twitter yfir höfuð. Líklegt er að hann komi bara illa út úr því. Twitter hefur fengið á sig einhvern merkimiða um að þar sé elítan samankomin til þess að ræða þjóðmálin og að enginn með "rangar skoðanir" komist að - sem er auðvitað kolrangt. Notendur Twitter hafa einfaldlega allflestir áttað sig á því að skoðanir ber ekki að virða, og að málfrelsi er ekki aðeins að segja hvað sem manni finnst heldur einnig að gagnrýna hvað sem manni finnst gagnrýnisvert. Og Twitter er fullkominn grundvöllur fyrir bæði tjáningu og gagnrýni.

Öllum gildisdómum sleppt - þá er athugavert að fylgjast með því hvernig stjórnmálamenn á Íslandi munu koma til með að beisla kraft internetsins. Forsetakosningarnar sem haldnar verða í júní gætu orðið afgerandi eður ei - eftir því sem keppendur nota samfélagsmiðlana á réttan og rangan hátt. Eins og stendur er þetta svæði, lýðfræði samfélagsmiðlanna, fremur ókannað enn sem komið er - og ég er spenntur að fylgjast með og uppgötva hvernig það þróast og við náum betri skilningi á því við hverju fólk bregst við og hverju ekki.

Varðandi Marvin Minsky

Varðandi Marvin Minsky

Spennan milli lýðræðis og fasisma

Spennan milli lýðræðis og fasisma