Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um tíma og lestur

Um tíma og lestur

Ég gríp mig oft við að afsaka bókasnautt tímabil með því að segja að ég hafi ekki tíma til þess að lesa. Sumir vinir mínir hafa sagt við mig það sama þegar þeir kvarta yfir því að þeim finnist þeir ekki lesa nóg, eða þegar ég skamma þá fyrir að passa ekki að hafa alltaf bók á náttborðinu. Lestur er sannarlega tímafrekt áhugamál. Það er auðveldara að horfa á einn eða tvo þætti eða eina kvikmynd, eða hlusta á eina plötu. Það krefst áhuga og aga að lesa bók frá byrjun til enda. Ef til vill er það ekki öllum fært að lesa skáldsögur yfir höfuð - þar eð tíminn er svo snauður.

Ég held þó að tala þeirra sem bókstaflega hafa ekki tíma til að lesa sé mjög lág. Það er alltaf hægt að gefa sér kortér eða tuttugu mínútur til þess að lesa kafla í bók. Mögulega snýst þetta líka um uppeldi og afþreyingarmenningu. Sumir fæðast einfaldlega inn í fjölskyldur þar sem enginn eða fæstir eru bókhneigðir. Það finnst mér, persónulega, fremur sorglegt - en ég set mig ekki upp á þann hest að ætla að gera gæðamun á lestri, kvikmyndaglápi og tónlistarhlustun - hver hefur sinn smekk.

Fyrir mér er lestur eins konar keppni. Góðlátleg keppni, en mikilvæg þó. Ég skora á mig að lesa ákveðið margar bækur á ákveðnu tímabili og geri mitt allra besta að standa við þá áskorun. Ég hef nánast óþrjótandi áhuga á góðum bókum og reyni við hvert tækifæri að sanka þeim að mér. Þær eru fjársjóður - sannarlega. Ég skrifa kannski seinna um bækurnar sem ég á - þær eru sumar hverjar mjög fallegar og jafnvel sjaldgæfar.

Mér kemur oft til hugar hugtak Nassim Nicholas Taleb um bókasafn Umberto Eco. Í bók sinni, "The Black Swan" (sem ég hef ekki lesið enn, en rakst á þessa hugmynd á netinu - flagarinn sem ég er) segir Taleb lesandanum frá bókasafni rithöfundarins, sem lést því miður á árinu. Það átti að innihalda einhverju meira en þrjátíu þúsund bækur. Auðvitað hefur Eco aldrei haft tíma til þess að lesa hverja einu og einustu bók - en það var heldur ekki markmiðið með bókasafninu. Frekar var það svo stórt til þess að rúma þær bækur sem Eco hafði ekki lesið. Ólesin bók er jú verðmætari en lesin bók! Taleb kallaði bókasafn Eco - eða hugmyndina á bak við það - andbókasafn.

Sjálfur vinn ég að því að byggja upp mitt eigið andbókasafn. Það hefur aldrei drepið neinn að sanka að sér ótal bókum - ef eitthvað er það líklegra til þess að lengja lífið! Heilbrigt er að eiga fleiri bækur en færri - og ég mæli eindregið með því að þið látið smitast af þessari söfnunarveiru minni og fleiri bókaunnenda um víðan geim.

~S

Spennan milli lýðræðis og fasisma

Spennan milli lýðræðis og fasisma

Úlfar og deyjandi sólir

Úlfar og deyjandi sólir