Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Varðandi Marvin Minsky

Varðandi Marvin Minsky

INNGANGUR

Marvin Minsky var bandarískur vísindamaður og frumkvöðull á sviði gervigreindar. Minsky lést snemma árs 2016, en skildi eftir sig margbrotna fræðilega arfleifð. Hann var heimspekingur jafnt sem vísindamaður og hefur verið kallaður einn af stofnfeðrum gervigreindarinnar. Hann stofnaði ásamt öðrum gervigreindartilraunastofu MIT-háskóla og skrifaði bækur um heimspeki og gervigreind.

LÍFSFERILL

Minsky fæddist árið 1927 í New York-borg. Faðir hans var augnlæknir og móðir hans var zíonískur aðgerðasinni. Hann gekk í skóla í heimabæ sínum áður en hann varði einu ári í Bandaríska sjóhernum frá 1944 til 1945. Því næst lærði hann til BA-gráðu í stærðfræði við Harvard-háskóla og fékk PhD-gráðu í sama fagi frá Princeton árið 1954. 

Fjórum árum síðar, árið 1958, hóf hann störf við Massachusetts Institute of Technology. Þar stofnaði hann ásamt kollega sínum John McCarthy tölvunarfræði- og gervigreindartilraunastofu skólans. Meðal annars fann hann upp fyrsta skjáinn, sem fastur var við höfuð notandans - uppfinning sem gegnir nú lykilhlutverki í þróun sýndarveruleikatækni. 

Ofan á allt þetta var hann píanósnillingur og einn þeirra fáu í heiminum sem var fær um að setjast niður við lyklaborðið og spinna fúgur af mikilli tónsnilli. Til eru upptökur af Minsky þar sem hann spinnur á hljómborð og gömul píanó á vefnum. 

Hann þjónaði svo einnig sem ráðgjafi við handritsgerð kvikmyndarinnar 2001: A Space Odyssey í leikstjórn Stanley Kubrick. Sökum sérfræðiþekkingar sinnar var hann einna best hæfur til þess að gefa ráð um hegðunarmynstur HAL9000, gervigreindartölvunnar í kvikmyndinni.

RITVERK

Minsky, ásamt Seymour Papert, skrifaði svo bókina Perceptrons árið 1969. Þar greina þeir kollegarnir gervi-taugakerfi, virkni þeirra og eðli. Síðar meir er bókin talin til þeirra mikilvægustu þegar kemur að upphafi gervigreindarinnar. Ritverkið varð upphafið að miklum deilum, en sumir telja að sýn Minsky og Papert á gervigreind hafi verið neikvæðari en sanngirni leyfði. Aðrir eru svo þeirrar skoðunar að bókin hafi leitt til þess sem kallað er „vetur gervigreindarinnar,” - tímabils þar sem fjármagn til rannsókna á gervigreind var af mjög skornum skammti.

Árið 1985 skrifaði Minsky svo bókina Samfélag hugans þar sem hann kannar uppbyggingu og virkni greindar. Hann sá heilann sem vélræna heild sem mögulegt væri að rannsaka og svo herma eftir í tölvu. Það gæti svo aftur á móti fært okkur aukinn skilning á því hvað það nákvæmlega er sem heilinn gerir þegar hann beitir hlutum á borð við „heilbrigða skynsemi” sem hann aflar sér gegnum upplifanir.

Til að mynda velti hann fyrir sér spurningum á borð við hvernig hægt væri að kenna tölvu að til þess að draga hlut með snærisspotta þarf að toga í snærið en ekki ýta því. Þetta er eitthvað sem tveggja ára börn læra og tileinka sér til fulls auðveldlega, en tölva getur ekki lært slíka hluti enn sem komið er.

Minsky er klárlega einn af fremstu hugsuðum heimsins hvað varðar gervigreindartækni. Ég hugsa mér að ég muni sækja mér eintak af bók eftir hann bráðlega - og fá þá betri tilfinningi fyrir því hvernig hann hugsaði í raun og veru. Hér fyrir neðan er langt viðtal við hann, sem áhugavert er að glápa á.

Verkfæri

Verkfæri

Stjórnmál og internetið

Stjórnmál og internetið