Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Lýðræði og viðurkenning

Lýðræði og viðurkenning

Lýðræðislegar kosningar — þegar við mætum á kjörstað á fjögurra ára fresti og merkjum við hóp fólks á blaði sem gefur þeim framkvæmda- og löggjafarvald. Með því að kjósa erum við þó ekki aðeins að segja að flokkur x, y eða z eigi að fá að ráða. Með því að kjósa viðurkennum við heilt þjóðfélagsskipulag. Við segjum að við sættum okkur við að fjöldinn hafi umráð yfir því hver fær að vera efstur á pýramídanum, við segjum að við sættum okkur við stjórnarskrána og réttindin sem hún útlistar. Við segjum að við sættum okkur við kassann sem við höfum byggt okkur. Við erum að viðurkenna, að allra mestu, óbreytt ástand. Það sem breytist er hópurinn sem fær að notfæra sér völdin, en þetta eru aðeins breytingar innan kerfis. Þær fara ekki út fyrir það.

Þegar það líður að kosningum óma alltaf sömu raddirnar. Raddir sem kalla á að við nýtum okkur kosningaréttinn, raddir sem útmála þá sem ekki mæta á kjörstað mannleysur, jafnvel varmenni. Raddir sem biðja mann að kjósa til þess eins að kjósa — eins og það merki eitthvað fyrir þann sem kýs! Maður spyr sig stundum, innan um hrópin og köllin, hvort þessar kröfur eigi rétt á sér. Vil ég viðurkenna lýðræðisskipulagið eins og það er í dag? Vil ég leggja nafn mitt og kennitölu við þá trú að þetta sé það besta sem okkur býðst?

Þessi viðurkenning er ekki slæm í sjálfu sér. Það er ekkert að því í sjálfu sér að vera lýðræðissinni og viðurkenna þetta skipulag — það er síður en svo það sem ég er að segja. Raunar er mjög margt gott í lýðræðislegu skipulagi sem ég tel ómissandi fyrir mannsæmandi líf. Þó finnst mér sumt vera gagnrýnisvert. Mér finnst gagnrýnisvert að við gefum ríkinu einkaleyfi á ofbeldi. Mér finnst gagnrýnisvert að í krafti þessarar ofbeldisbeitingar geti einstaklingar safnað að sér gæðum og útilokað annað fólk frá því að njóta þeirra. Mér finnst gagnrýnisvert að við sjáum okkur ekki fært að hugsa út fyrir fyrirframgefið skipulag lýðræðisins, að við sættum okkur bara við það eins og gefna stærð sem er „það besta sem okkur býðst”.

Að þessu öllu sögðu hafna ég auðvitað ekki lýðræði í sjálfu sér, hugmyndafræðilega. Mér finnst fyrirkomulagið áhugaverð hringavitleysa — fólkið sem hefur vald í krafti fólksins. Það mætti færa rök fyrir því að það sé einhver fullkomnun á pólitísku valdi, og ef til vill réttilega svo. Með því að segja „ég vil ekki leggja nafn mitt við stjórnarskrána” er ég til dæmis að beita ákveðnum lýðræðislegum krafti, krafti sem felst í því að kjósa ekki og viðurkenna þannig ekki núverandi mynd lýðræðis. Ég beiti lýðræðislegum rétti mínum sem borgari í þeim tilgangi að grafa undan forskrifuðum stjórnarskrárlegum rétti mínum sem borgari — allt til þess að endurhugsa þessa forskrift og hugsa upp eitthvað nýtt, eitthvað ferskt.

Í raun vil ég ekki grafa undan neinu. Ekki ég, einn míns liðs, í það minnsta. Ég vil einfaldlega að við tökum langa og drjúga umræðu um eðli pólitísks valds og hvað við viljum að það geri fyrir okkur, leggjum hugmyndafræðilega vinnu í umræðuna og gerum okkar allra besta að brjótast út úr kassanum sem umlykur okkur og heftir hreyfingar okkar. Það er það eina sem ég vil. Tökum róttækar afstöður og fellum þær eða reisum. Það er það eina sem ég vil sjá gerast.

Ímyndið ykkur æðra stig lýðræðis, þar sem pólitískt vald er ekki það eina sem kosið er um, heldur efnahagslegt vald að sama skapi! Ímyndið ykkur stökkbreytt lýðræði þar sem við tökum stefnumótandi pólitískar ákvarðanir á hverjum degi í gegnum stafrænar kosningar! Ímyndið ykkur heim þar sem allt er mögulegt, þar sem við höfum óskorað vald yfir raunveruleikanum og getum gert hvað sem við höfum burði til að framkvæma. Notum ímyndunaraflið, gerum tilraunir, verum vísindaleg. Umfram allt skulum við þó hugsa. Hugsa og hugsa og hugsa, þar til við lognumst út af. Mér finnst það vera hin raunverulega pólitík — hugsunin.

Varðandi æstetískar þýðingar

Varðandi æstetískar þýðingar

Værð

Værð