Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Platon, skáldskaparlistin og tilfinningaþroski

Platon, skáldskaparlistin og tilfinningaþroski

Platon, skáldskaparlistin og tilfinningaþroski

Eftir Vigni M. Másson

Fyrst og fremst vil ég gefa Sýsifos allar mínar þakkir fyrir að birta þessa ritgerð og hrósa vefnum fyrir að vera ávallt góð og skemmtileg veita lesefnis um hin ýmsu svið heimspekinnar. Þessi ritgerð var skrifuð fyrir áfangann Fornaldarheimspeki sem fór fram í Háskóla Íslands haustönnina 2018. Þessi útgáfa ritgerðarinnar er án neðanmálsgreina, þótt heimildaskrá sé til staðar. Sé smellt hér má sjá útgáfu ritgerðarinnar með tilheyrandi tilvísunum. Málverkið í haus heitir Improvisation 26 eftir Wassily Kandinsky frá árinu 1912.


Inngangur

Í þessari ritgerð mun ég meta gagnrýni Platons á skáldskaparlistina úr Ríkinu. Einnig verður skoðuð vörn Aristótelesar úr Um skáldskaparlistina og þá aðallega hugmynd hans um útrásina (g. κάθαρσις). Mun ég færa rök fyrir mikilvægi skáldskaparlistarinnar, og listarinnar yfir höfuð, sem tæki til tilfinningaþroskunar ef nýtt er með sjálfsmeðvitund. Ég mun líka sýna fram á að gagnrýni Platons og hugmyndir hans um listina vinna í raun gegn þeirri stjórn sem hann predikaði að heimspekingur þyrfti að hafa yfir tilfinningum sínum til þess að lifa samkvæmt skynseminni og komast að sannri þekkingu um heim frummyndanna.

Ríkið og skáldin

Í 2.,3. og 10. bók Ríkisins kemur umræða Sókratesar, Glákons og Adeimantosar inn á hlutverk skáldanna innan veggja Fögruborgar. 2. og 3. bók fjalla aðeins um þetta viðfangsefni en það er í 10. bók sem skáldin og skáldskaparlistin verða meginviðfangsefni umræðunnar. Þá færir Platon lesendum fulla greinargerð fyrir hugmyndum sínum og eru þær fyrir öldum orðnar alræmdar. Áhrif þeirra má enn finna í nútíma umræðu þegar borin er upp spurningin um gildi skáldskaparlistarinnar eða listar yfir höfuð og hvort hamla ætti henni að einhverju leyti. 

Um skáldskapinn í 2. og 3. bók

Efi Platons um gildi skáldskaparlistarinnar er greinilegur strax og umræðan í 2. bók beinist að kennslu og rækt ungdómsins í Fögruborg. Sókrates segist óttast um áhrif goðsagna á borgarana og þá sérstaklega ungdóminn. Tekur hann skáldskap Hómers og Hesíódosar sem öflugu lærdómstæki sem inniheldur rangindi sem dulbúa sig sem leiðarvísir að góðri hegðun. Sennilega er þetta ummerki um menningarandann í Aþenu til forna og að skáldin hafi verið tekin alvarlegar sem fræðarar, uppalendur og leiðsögumenn siðferðis en tíðkast nútildags. Hetjurnar haga sér á ranglátan hátt, gefa sig á vald tilfinninga, ljúga og pretta guðina. Guðirnir refsa í reiði, sýna hégóma og breyskni. Þar sem ungdómurinn á erfitt með að greina duldar merkingar um réttlæti í ritum skáldana og milli þess sem er rétt og rangt að þá mun hann horfa til guða og hetja og herma eftir ranglátri hegðun þeirra. Tekur Sókrates sem dæmi ungan dreng sem hefnir dauða föður síns og sér ekkert að því að brjóta af sér vegna þess að hann er aðeins að haga sér eins og guðirnir myndu hegða sér (378b). Þetta viðhorf mun svo loða við manninn því erfitt er að uppræta þau viðhorf sem maður tileinkar sér í æsku þegar hugurinn er svo áhrifagjarn (378c-e). 

Í 3. bók heldur umræðan áfram og þá aðallega um það hvernig skáldin beri ábyrgð á að hjálpa við mótun ungdómsins. Eiga þau að hafna öllum slæmum frásögnum af dauðanum til þess að kynda ekki undir dauðaótta borgara. Menn skulu frekar þrá dauðann en ánauð (386b, 387b). Skáldin skulu einnig hafna öllum birtingarmyndum guða og hetja í tilfinningalegu uppnámi. Ágætir menn skulu ekki bugast og gefa sig á vald tilfinningana. Platon taldi líka að það færi eftir stílbrögðum hve skaðlegur skáldskapurinn gæti verið. Verst af öllum er eftirlíkingin. Þegar skáldið talar ekki með sinni eigin rödd í verki heldur leggur orð sín í munn persónu að þá er um eftirlíkingu að ræða. Eftirlíking er sérstaklega hættuleg, af mati Platons, vegna þess að sá sem líkir eftir ákveðinni persónu veldur sér ávallt einhverjum andlegum skaða. Skilin á milli skáldskapar og raunveruleika verða óljósari og leikarinn tileinkar sér hegðun sem persónan sýnir og fer að haga sér þannig í daglegu lífi. Sérstaklega ef eftirlíkingin hefur verið stunduð frá unga aldri. Því skulu skáldin aðeins rita verk sín í einfaldri frásögn, þ.e.a.s. nota aðeins eigin rödd og leggja ekki orð í munn annarra persóna. Með þessu móti hefur Platon lagt línurnar fyrir því sem hann vill ritskoða í Fögruborg til að koma í veg fyrir að skáldin spilli borgurunum og ungdómnum með verkum sínum. Ef skáld hneigja sig ekki eftir þessum reglum, segir Sókrates í 3. bók, að þá skal senda þau burt úr ríkinu fyrir að vera hermiskáld (398a-b) Þetta reynist Platon þó ekki vera næg greinargerð á skáldskapnum því hann snýr sér aftur að viðfangsefninu í 10. bók.

10. bók, frummyndirnar og þrískipting sálarinnar

Viðhorfið í 10. bók tekur breytingum frá 2. og 3. bók þar sem Platon virðist aðeins aðhyllast  ritskoðun á verkum skáldana en í 10. bók gerist hann algjörlega andvígur gegn skáldskaparlistinni. Þetta má rekja til þess að í bókunum á undan hefur hann kynnt til leiks kenningar sínar um frummyndirnar og þrískiptingu sálarinnar. Því er vert að  að gera stutta grein fyrir  hlutverki þessara kenninga í viðhorfi hans á skáldskapnum áður en 10. bók er skoðuð.

Samkvæmt frummyndakenningunni er skynveruleikinn eftirlíking. Hann er skuggamynd af hinum sanna heim sem er heimur frummyndana. Heimur frummyndana er utan hins skynjanlega heims og inniheldur aðeins hugtök sem eru viðföng hugsunarinnar. Allt sem er, á þá einhverja hlutdeild í frummyndunum. Þær eru fullkomnar og sannar og lausar við afstæði skynveruleikans. Sem dæmi að þá er fagur hlutur fagur vegna þess að hann hefur hlutdeild í hinu fagra. Þessi hugtök eru þó ekki sprottin af hugarsmíð mannsins, þótt þau séu viðföng skilnings og hugsunar, heldur eru þau sjálfstæð. Frummyndirnar eru þá viðföng þekkingarinnar, ólíkt einstökum hlutum í skynveruleikanum sem eiga aðeins hlutdeild í frummyndunum. Sönn þekking er þá aðeins fundin í heimi frummyndana. Út frá þessu finnur Platon einn af meginvanköntum skáldskaparins og listarinnar yfir höfuð. Listin líkir eftir skynveruleikanum sem er sjálfur eftirlíking af frummyndunum. Til þess að komast að raunverulegri þekkingu þarf maðurinn að finna hana í heimi frummyndana og þegar hann verður fyrir áhrifum listarinnar færist hann öðru skrefi fjær frummyndunum. Hermilistin er þá verst því hún gerir ekki einu sinni tilraun til þess að sýna veruleikann eins og hann er heldur aðeins eins og hann sýnist vera. Þá er hermiskáldskapurinn lægstur í stigveldi veruleikans að mati Platons. Hann líkir aðeins eftir atburðarrásum og athöfnum manna sem líkjast veruleikanum en ýkir þær tífalt. Þannig færir hann manninn fjær frummyndunum og sannleikanum. Kallar Platon þetta skuggasköpun.

Hin kenningin sem spilar stórt hlutverk í viðhorfi Platons í 10. bók er þrískipting sálarinnar. Samkvæmt henni skiptist sálin í þrjá hluta: skynsemi, skap og löngun (tilfinningar). Skynsemin er þá æðst og til að lifa góðu lífi þyrfti maðurinn að stjórnast af henni. Hún vegur og metur veruleikann og tengist hinu sanna með frummyndunum. Löngunin er sækni mannsins í nautnir mats, kynlífs, drykks, o.fl. sem er lægsta stig sálarinnar. Að lokum er skapið sem er handbendi skynseminnar. Það heldur löngunum í skefjum sem, ef taumhaldlausar, myndu stýra manninum í átt að spilltu lífi óréttlætis.

Það sem Platon óttast þá svo við listina er það umrót sem hún veldur milli þessara þriggja þátta sálarinnar. Setur hann fram kenninguna um mátt listarinnar til þess að veita niðurbældum þrám og tilfinningum útrás. Maður sem horfir á harmleik gerist hryggur yfir örlögum aðalpersónunnar, springur úr hlátri vegna gamanleiks og þráir mögulega eitthvað óæskilegt þegar hann horfir upp á son myrða föður sinn. Í augum Platons er þetta löstur því skynsemin er leikin grátt og færist maðurinn fjær henni og nær neðsta stigi sálarinnar. Siðferðið er þá í hættu. 

Einnig óttast Platon að þessi útrás, sem er svo svalandi og nautnafull, valdi því að fólk laðist frá hinu sanna og hinum raunverulega heiminum með því að týna sér í heimi listarinnar þar sem tilfinningarnar ráða ríkjum. Fólk mun þá blekkjast og taka listinni eins og einhverju sem höndlar sannleikann.

Aristóteles og útrásin

Um skáldskaparlistina er fyrir löngu orðið klassískt verk í bókmenntafræðum og heimspeki, einkum fyrir að leggja grunn að fræðigreininni en ekki síður fyrir það að vera svar nemandans (Aristóteles) við þessari gagnrýni kennara síns (Platon) sem ég hef gert grein fyrir hér á undan. Þarf að taka fram að ritið sem aðgengilegt er okkur er aðeins hluti af stærra riti sem er að mestu tapað. Í því er það meginmarkmið Aristótelesar að skilgreina harmleikinn og hvaða þættir stuðla að þessari grein skáldskaparlistarinnar. Aðeins mun þó hugtakið κάθαρσις vera til skoðunar hér.

Aristóteles beitir flokkun sinni til þess að skýra efnivið harmleiksins eins og sögunnar sem er eftirlíking alvarlegrar atburðarásar og veldur skapgerðunum. Er sagan „[...]líkt og sál harmleiksins[...]“ (Um skáldskaparlistina, 1450b) og ákvarðast bygging hennar af mörgum þáttum. Þar á meðal eru flækja og lausn, hvörf, kennsl, raunir, heild, misgjörð persónu sem er stödd á mörkum góðs og ills. Ef harmleik tekst að framkalla þessa þætti í atburðarás sinni veldur hann áhrifum í mönnum, hreyfir við þeim og vekur í þeim vorkunn, skelfingu og sorg (1449b). Það sem Platon óttast en Aristóteles hyllir: κάθαρσις.

Eins og hefur áður komið fram óttaðist Platon skaðsemi útrásarinnar á siðferði mannsins vegna umróts á sálarlífinu en Aristóteles heldur öðru fram. Telur Aristóteles það vera gildi útrásarinnar, og þar með harmleiksins, að leysa áhorfandann undan ofurliði tilfinninga. Heldur það honum þá innan meðalhófsins sem Aristóteles taldi vera best.

Útrásin og tilfinningaþroskinn

Rök Platons fyrir skaðsemi skáldskaparins og tilfinningana geta við fyrstu sýn virst góð í augum sumra. Hvernig í ósköpunum getur Ödípus konungur Sófóklesar verið nokkrum manni að gagni á siðferðilegan hátt þegar hann fyllist vorkunnar yfir harmi Ödípusar sem myrðir föður sinn, sefur hjá móður sinni, brjálast vegna gjörða sinna og stingur úr sér augun? Skáldið leikur á tilfinningar áhorfandans og neyðir hann til þess að vorkenna ódyggðugum manni, sem gefur sig á vald tilfinningana! 

Margt neikvætt er hægt að draga úr andstyggðar birtingu Sófóklesar á lífi Ödipusar en eins og Aristóteles bendir á þá tekst atburðarás Sófóklesar að ýta við einhverjum áhrifum innra með áhorfendanum. Vorkunnin og skelfingin fá útrás og hann horfist í augu við tilfinningarnar. Máttur verksins ljáir honum að tjá þær í gegnum áhorf sitt og finna sig undir áhrifum þeirra. Þótt κάθαρσις sé í Um skáldskaparlistina aðeins skilgreint sem niðurstaða harmleiksins þá er ekki hægt að einangra hugtakið við listform harmleiksins né skáldskaparlistina. Kάθαρσις er mun almennara og verkar á hvern þann sem kemst í tæri við list sem hreyfir við sögðum einstakling. Megingildi κάθαρσις er þá að finna í þessari upplifun á tilfinningunum sem listin ljáir manninum að túlka undir áhrifum sínum. Neyðist maðurinn þá til þess að horfast í augu við sjálfan sig og læra af upplifun sinni. Hann finnur hvernig hann er undir áhrifum tilfinningana og með tímanum, því oftar sem hann upplifir þessa útrás, mun hann verða reyndur og veðraður og munu þá tilfinningarnar ekki bera hann ofurliði. Ekki á þetta aðeins við um „góða“ list heldur alla list því sálarlíf mannsins er flókið og margþætt (ólíkt þrískiptingu Platons) og þarf maðurinn list til þess að komast í kynni við þá kima sálarinnar sem daglegt líf gerir honum ef til vill ekki kleift að kynnast. Skáldskaparlistin er hér sérstaklega mikilvæg vegna þess að hún setur manninn í spor og aðstæður annarra sem eru honum sjálfum fjarlæg og gefa honum ólík sjónarhorn á heiminn. Því er listin öflugt tæki til sjálfsþekkingar og tilfinningaþroskunar sem færa sálarlífinu samhljóman og gera manninn í raun líkari heimspekingunum en múgnum.

En þetta er ekki sjálfgefið vegna þess að listin er samspil mannsins og verksins og þarf maðurinn að vera meðvitaður um eigið ástand til þess að hagnast á áhrifum þess, nokkuð sem skáldsögur gera einkar vel. Hér kann ég að hljóma eins og Platon þegar ég segi að listin, ef höndluð af hugsanaleysi, sé hættuleg því hún getur sogað menn inn með töfrum sínum og sefað þá og spillt þeim. Listin er tæki sem þarf að virða en ekki misnota fyrir nautnirnar einar og þess vegna er nauðsynlegt að frá unga aldri verði ungdómnum kennd sjálfsmeðvitund.

Reyni ég með þessari túlkun að brúa bilið á milli Aristótelesar og Platons til þess að færast nær markmiði Platons að lifa samkvæmt skynseminni og komast að hinu sanna og góða. Tel ég að öll list og þá sérstaklega skáldskaparlistin sé mikilvæg í því verkefni sem hver maður þarf að kljást við á lífsleiðinni og er ég þess vegna alfarið á móti nokkurs konar ritskoðun líkt og Platon leggur til. Aðhylling Platons á tilfinningabælingu virðist í þessu ljósi vinna gegn tilgangi sínum. Eins og Björn Þorsteinsson orðar vel í „Frumöskur Kassöndru“ þá „er skáldskapurinn [...] til þess fallinn að sýna okkur fram á að tilfinningar geta lagt ýmislegt til vitsmunanna, eða að skynsemi og tilfinningar eru ekki hreinar og eindregnar andstæður.“

Orð að lokum

Í þessari ritgerð færði ég rök fyrir mikilvægi skáldskaparins og listarinnar sem tæki til tilfinningaþroskunar ef nýtt er með sjálfsmeðvitund. Virðist þá tilfinningabælingin sem Platon lítur á sem ásækjanlega ástundun vinna gegn markmiði hans um líf samkvæmt skynsemi og leit að hinu sanna í heimi frummyndana. Listin er þá samspil mannsins og verksins til þess að færa manninum þekkingu um sig sjálfan sem hann gæti ekki öðlast í daglegu lífi.


Heimildaskrá

Aristóteles. Um skáldskaparlistina. Kristján Árnason þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, (1976).

Björn Þorsteinsson. „Frumöskur Kassöndru“. Hugsað með Aristótelesi, ritstj. Eiríkur Smári Sigurðsson og Svavar Hrafn Svarvarsson. Háskólaútgáfan, Reykjavík, (2017).

Griswold, Charles L.. „Plato on Rhetoric and Poetry“. The Stanford Encyclopedia of Philosophy, ritstj. Edward N. Zalta, (2016). Sótt 29. nóvember 2018: https://plato.stanford.edu/entries/plato-rhetoric/

Keesey, Donald. „On Some Recent Interpretations of  Catharsis“. The Classical World 72, No. 4, (1978): 193-205. doi: 10.2307/4349034.

Platon. Ríkið, 3. útgáfa. Eyjólfur Kjalar Emilsson þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, (2009).

Sophocles‘ King Oedipus: A Version for the Modern Stage. The Collected Works of W.B.Yeats, Volume II: The Plays, ritstj. David R. Clark og Rosalind E. Clark: bls. 369-400. Scripner, New York, (2001).

Áhyggjur #1 (Eða: Aðrar fregnir af því sama)

Áhyggjur #1 (Eða: Aðrar fregnir af því sama)

Ljóð og heimspeki

Ljóð og heimspeki