Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Áhyggjur #1 (Eða: Aðrar fregnir af því sama)

Áhyggjur #1 (Eða: Aðrar fregnir af því sama)

Áhyggjur #1 (Eða: Aðrar fregnir af því sama) er fyrsta smásagan í smásagnaseríu eftir Axel Helga Ívarsson. Málverkið í haus heitir Interior of the Sint-Odulphuskerk in Assendelft og er eftir Pieter Jansz. Saenredam frá árinu 1649.


Áhyggjur #1 (Eða: Aðrar fregnir af því sama)

Auðvitað fylgist ég með málefnum líðandi stundar. Um daginn var meiriháttar skandall hjá Facebook, ekki sá fyrsti, eftir að það komst í fréttir að Facebook gaf alls konar öðrum stórfyrirtækjum aðgang að skilaboðum notenda sinna. Þetta var vitanlega mikið sjokk, margir hneyksluðust á Twitter, fréttir birtust um hvernig fólk gæti hætt á Facebook, sótt allar upplýsingar sínar pakkaðar saman í einn jólapakka og byrjað nýtt líf á Internetinu án Facebook. Þó var tekið fram að maður þyrfti að hugsa vel um málið enda um stóra ákvörðun að ræða. Þetta var miklu meira dæmi en hálfsmánaðar-deactivate-my-account-á-meðan-ég-er-í-prófum tilkynnt með status á Facebook. 

Auðvitað voru þetta vonbrigði. Ég deildi fréttum um skandalinn í skilaboðum til vina minna á Facebook, setti slóð inn á tilgreindan miðil og bætti við „STÓRT“ eða „Þetta er svakalegt“ og fékk vanalega svar til baka sem sagði „vó, þetta er ruglað“ eða „rosalegt“. Síðan færðust samræðurnar yfir í eitthvað annað eða dóu úti með seen-i. Í raun var mér eiginlega eða bara hreinlega alveg sama. Það gat vel verið að einhver ljóshærður, sænskur snúðajapplandi hugbúnaðarsmiður hjá Spotify hafði skoðað skilaboðin milli mín og annarra til þess að gera Daily Mixin, sem voru gerð fyrir mig og engan annan, betri. Það virtist þó ekki hafa borið erindi sem erfiði vegna þess að þessi mix voru alltaf jafn slöpp í þau fáu skipti sem ég hlustaði í alvörunni á þau. 

Ég legg mig líka fram við það að flokka rusl. Eða svona oftast. Stundum set ég bara allt í svörtu tunnuna eða hendi tyggjói á götuna án þess að hugsa og lifi í skömm það sem eftir lifir dags. Auðvitað er þetta ekkert mál. Pappír í bláu tunnuna og plastið saman í einn poka og í grænu tunnuna. Svo er víst kominn alveg komplett endurvinnslutunna þar sem allur endurvinnanlegur varningur, s.s. pappír, plast, ál, gler og gömul vinasambönd, má fara ofan í og bara ekkert tiltökumál með það. Varningurinn þarf þó að vera aðskildur, plastið saman í poka, glerið sér og svo framvegis. Jafnt en aðskilið. Þetta náttúrlega breytir leiknum fyrir okkur neytendur. Nú er Sorpa að fá mikla meira rusl en árið 2007, sem er upphaf okkar tímatals. En hvað þýðir það? Framkvæmdastjóri Sorpu og einhver stuttklipptur hagfræðingur í gollu mæta (ekki saman) í sjónvarpsviðtal og segja að fleiri endurvinni rusl en áður en einnig sé neyslan miklu, miklu meiri en á hrunárunum og toppar árið 2007. Þetta er auðvitað svakalegt. 

Ég er að reyna.
Ég legg mitt af mörkum.

Seldi díseljeppann.
Keypti mér rafmagnsbíl.
Seldi rafmagnsbílinn.
Keypti mér strætókort. Í mánuð.
Keypti mér svo hjól.

Ég er að reyna.
Ég legg mitt af mörkum.

Gef kolefnisjöfnun í skírnargjöf
og Laxnesssafnið komplett
á rafrænu formi — náttúrlega-
í fermingargjöf.

Ég er að reyna.
Ég legg mitt af mörkum.

Kaupi notað, margnotað;
Kaupi ferskt og óunnið;
Vel innlent; Vel íslenskt;
Kaupi lífrænt, gerðist vegan.
Ég hef ekki litið
í augun
á kjötborðinu í tvö ár.

Ég er að reyna.
Ég legg mitt af mörkum.

Ég er í skokkhóp.
Ég er í plokkhóp.
Tíni saman plast, ál,
pappa og gler,
hvað sem er,
allt sem getur flokkast.
Ég er ekki að fokkast.

Ég er að reyna.
Ég legg mitt af mörkum.

Ég tók umræðuna,
átti samtal,
hvers kyns neysla er
hötuð.

Ég er að reyna.
Ég legg mitt af mörkum.

En, æ,
er ekki jörðin
hvort sem er
glötuð?

Reyndar er plast ekkert vandamál hérlendis, er víst bara einhver voðalítill hluti af því sem kemur til Sorpu. Svo fer víst mikið af þessu rusli til Svíþjóðar þar sem það er brennt við hátíðlega höfn. Það var ánægjulegt að brenna, er beinþýdd túlkun á byrjun bókarinnar Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury. Ég hef samt aldrei lesið bókina. Bara skemmtileg byrjun, grípandi. Rakst á hana einhvern tímann þegar ég las einhverja grein um 100 Best book beginnings á einhverri sjálfshjálparsíðu. Kláraði samt bara fyrstu sjö innslögin að mig minnir. Nennti ekki að lesa hitt. Hafði ekki tíma. Eða það kom eitthvað upp á, man ekki hvað það var.

Vegakerfið er hins vegar meiriháttar vandamál hérlendis. Það er alltaf umræða um það hvað vegakerfið er gjörsamlega úr sér gengið. Vegirnir ömurlegir og einbreiðar brýr frá landnámsöld en þó einhverjar frá siðaskiptum. Vegrið annaðhvort ekki til staðar eða, einnig, úr sér gengið. „Mikil þörf á endurbótum“ kemur reglulega fyrir í umræðunni um vegakerfið. Vanalega (lesist: alltaf) vaknar þessi umræða í kjölfarið á hræðilegum banaslysum. Reyndar þarf ekki setja lýsingarorð fyrir framan nafnorðið „banaslys“. Held að það sé ekkert sem kallast „lukkulegt banaslys“. Þau eru sorgleg, erfið, átakanleg, hræðileg. En það þarf ekki að taka sérstaklega fram.

Við tökum umræðuna, bendum á einhverjar skýrslur sem voru gerðar fyrir nokkrum árum, skipum hugsanlega stýrihóp, mætum í annað sjónvarpsviðtal, morgun- og síðdegisútvarpið, og frestum svo framkvæmdum til næstu fjárlaga. Forgangsmál innan 10 ára, teygist mögulega í 15. Svo verður annað banaslys eftir ár eða tvö og við gerum okkur grein fyrir alvarleika málsins. Kannski verður búið að setja nýtt malbik, mála línur og steypa stoðir fyrir nýja brú. Þetta er allt í áttina á sinn hátt eða annan.

Fimmtándi febrúar, það varð annað slys í gær. Alvarlegt umferðarslys á Suðurlandsvegi. Nokkrir alvarlega slasaðir. Málið litið alvarlegum augum. Ljóst að það þarf að líta alvarlega á stöðu vegakerfisins. Ástand Suðurlandsvegar tekið til alvarlegrar skoðunar. Mjög alvarlegt mál. Erlendir ferðamenn. Örugglega ekki vanir að keyra í „svona aðstæðum.“ Örugglega verið að keyra of hratt, ekki í belti og með fæturna út um gluggann, kunnu ekki á miðstöðina og gleymdu sér sennilega í einhverju lagi með útvarpið í botni. Umferðarmenningin er náttúrlega allt annars eðlis hérna Íslandi heldur en í hinum stóra heimi. Ekki það að vegurinn sé handónýtur, allt of mjór með hættulega kanta og ekkert nema fótógenísk öræfi til beggja hliða. Kannski fara merkingarnar á veginum í litun og plokkun. Allt annað líf. Veigameiri úrbótum komið fyrir í Samgönguáætlun 2031–2036 en þá einungis til skoðunar og stefnt á frekari framkvæmd um breikkun á vegi í kringum 2049. Við lítum þetta auðvitað alvarlegum augum. Uppbygging innviða og önnur orð sem þýða það sama og ekkert.

Senn líður að páskum. Senn líður reyndar alltaf að einhverju, t.a.m. að jólum, afmælum, kosningum, dauðanum, nýju kortatímabili, útsölum og ritgerðarskilum (ekki fresta því eins og síðast).

Nú þykir það ekkert tiltökumál að fermast borgaralega. Ég meina: Það er 2019 eftir allt saman. Til þess að kljúfa sig frá meginstraumnum í dag er eina vitið að láta ferma sig í kirkju, þiggja oblátu og blóð krists og raula trúarjátninguna (Deep Mix). Þetta er vissulega taktískt. Muldra nokkra sálma, eiga samtal við Guð og halda svo gott partý með hnitmiðuðum ræðum, snarli og, að sjálfsögðu, kransaköku. Því ef það er engin kransakaka í fermingarveislunni þá hafnar guð staðfestingu þess barns á trúnni. „Ef þú ætlar ekki að hafa kransaköku þá geturðu bara kíkt á þau í Siðmennt og græjað þetta þar,“ drunaði Guð yfir fermingarveislu í Fossvoginum um páskana eitt árið. Að veislu lokinni er svo rennt yfir afraksturinn. Staðfesting á trúnni, tékk. Vígð/ur inn í samfélag fullorðinna, tékk. Utanlandsferð, tékk. MacBook, tékk. Bók eftir Laxness í harðkápu, tékk. Hundruð þúsunda króna til þess að leggja inn á sparnaðarreikning og eyða svo með öllu á nokkrum vikum eftir að maður verður fjárráða, tékk. Skyrtuhnappar og bindisnæla, tékk.

Öll í hvítum kyrtlum. Öll jöfn fyrir Guði í þetta eina skipti, bara one-time-only dæmi. Nema þeir sem voru líka með hvítt bindi. Þeir þurfa að lifa með þeirri ákvörðun til æviloka.

Áhyggjur #2 (Eða: Óreiða orða og samfélags)

Áhyggjur #2 (Eða: Óreiða orða og samfélags)

Platon, skáldskaparlistin og tilfinningaþroski

Platon, skáldskaparlistin og tilfinningaþroski