Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Bönd ástarinnar — heimspeki Harriet Taylor Mill

Bönd ástarinnar — heimspeki Harriet Taylor Mill

Bönd ástarinnar — Með hliðsjón af heimspeki Harriet Taylor Mill

Eftir Evu Lín Vilhjálmsdóttur

Málverkið í haus heitir Love’s Jewelled Fetter og er eftir Lawrence Alma-Tadema frá árinu 1895.


Á því augnabliki sem samband endar og tengingin rofnar stendur allt í brennandi báli. Best væri að sambandsslit þyrftu aldrei að eiga sér stað. 

„Það væri best ef að þeir myndu bara deyja eftir að þeir hætta með manni.“ Sagði eldri kona við vinkonu mína, sem sat grátandi í strætóskýli, eftir að fyrsti kærastinn hennar hætti með henni. Við vinkonurnar hlæjum núna að sögunni, aldrei myndum við vilja að strákgreyið væri látið. Þessi sambandsslit voru þó best fyrir alla og augljós eftir á. Þau hættu saman og það var frekar venjulegt bara. Eitt af mörgum sambandsslitum í vinkonuhópnum þetta sumarið. Ekkert til að kippa sér upp yfir.

Við göngum öll í gegnum þau einhvern tímann á lífsleiðinni eða að minnsta kosti lang flest. Að skoða sambandsslit gæti kannski hljómað smásmugulegt í eyrum hins yfirvegaða heimspekings sem situr einangraður og hugsar út í það hvernig heimurinn ætti að vera, hvert sé eðli hans, og í sögu heimspekinnar hefur þetta málefni einmitt fengið þann sess: staða sambandsslitsins er sú að það sé ómerkilegri eða óæðri upplifun. Hversdagslegt. Eitt af megineinkennum heimspekinnar er þó að takast á við það sem við tökum sem gefnu. Skoða uppruna hugmynda okkar, hvaðan þær koma en líka hvað þær merkja. Ástin og brotið frá henni mun ekki hverfa úr mannkynssögunni og er einn mikilvægasti þáttur í lífi okkar í nútímanum. Hvers eðlis sem ástin svo sem er. 

Ástin og sambandsslitið hefur þó ekki algjörlega horfið inn í tómarúm tilfinninganna þar sem ekkert loft er til staðar. Til eru þónokkrir heimspekingar sem sökkva sér í málefnið. 

Einn af þeim heimspekingum sem við getum litið til þegar við skoðum uppruna hugmynda okkar um sambönd kynjanna og ástarsambönd í nútímanum er Harriet Taylor Mill.  Áhrif Harriet eru ótvíræð, þrátt fyrir að á tímum séu þau óbein. Til hugsunarheims hennar er ýmislegt hægt að sækja sem á fyllilega við í nútímanum. 

Hugmyndir hennar ná yfir öll svið mannlegrar tilveru en hér mun ég fyrst og fremst varpa ljósi á hugmyndir Harriet um hjónabönd og skilnað þar sem á Viktoríutímunum var ekki mikið um annarsskonar sambönd en hjónaband karls og konu. Ég byrja á því að veita nauðsynlega innsýn inn í sögu persónunnar Harriet Taylor Mill – persóna sem lifði, hugsaði, fann – og var ekki eingöngu innblástursvél John Stuart Mill, heldur kona sem var hugsuður á eigin forsendum.

Ég mun leggja megináherslu á hugmynd Harriet um ástina og hvernig hún getur aldrei fullgerst í því valdamisvægi sem er til staðar á milli kynjanna og skýra hvernig ég sé þemu í þeim hugmyndum sem eiga enn við okkar samfélag í dag. Þá sérstaklega í ljósi valdamisvægis sem var uppljóstrað í kjölfar MeToo byltingarinnar; hvernig konur hafa selt tilfinningalegt heilbrigði sitt fyrir peninga eða völd.

Harriet Taylor Mill

Á tímum Harriet var ekki hlaupið að því að hætta með kærastanum sínum. Ef kona var gift þá var hún ekki bundin ástarböndum heldur hlekkjum. Þær höfðu afar takmarkaðan eignarrétt, þeim launum sem konur öfluðu sér (ef einhver voru) var ráðstafað af eiginmönnum þeirra sem gátu, ef þeir vildu, eytt þeim í hvað sem er. Einnig voru börn þeirra eign eiginmannsins. Lagaleg réttindi kvenna í hjónabandi voru þar af leiðandi af verulega skornum skammti. Ekkert í lögum kom í veg fyrir ofbeldi innan hjónabands né heldur var nokkuð sem kom í veg fyrir nauðgun innan hjónabands. En í Bretlandi var fyrst sett löggjöf um það 1991.

Harriet var uppi fyrir tíma almenns femínisma. Hún fæddist árið 1807 og eins og margar efri-millistéttar konur á þessu tímabili giftist hún manni átján ára gömul, árið 1826. John Taylor, eiginmaður hennar, var þá þrjátíu og níu ára gamall. Þau eignuðust þrjú börn, Herbert, Algernon og Helen sem var yngst en hún fæddist 1831 þegar Harriet var tuttugu og þriggja.

Hún var fyrst um sinn hluti af únítarastefnu (e. unitarianism) en róttækir únítaristar aðhylltust meðal annars aukið kvenfrelsi. Meðal únítarista má nefna Mary Wollstonecraft, sem var einn af fyrstu kvenhöfundum til þess að skrifa þykka bók sem sýndi oft á tíðum reiði gagnvart því óréttlæti sem konur sættu í hennar samtíma. Mögulegt er að Harriet hafi lesið eitthvað eftir hana, en hún varð þó að minnsta kosti fyrir áhrifum frá þessum hugmyndum. Í gegnum samfélag róttækra únítarista kynntust þau Harriet og John Stuart Mill árið 1831, á meðan Harriet gékk með sitt yngsta barn. Með þeim blómstraði frá upphafi falleg og vitsmunaleg vinátta sem kristallast í því að stuttu eftir að þau kynntust skiptust þau á stuttum ritgerðum um skoðanir sínar á hjónabandi og skilnaði. 

Þau Harriet og John Stuart héldu vinskapnum og hittust á nær hverju kvöldi þar til John Taylor lést 1849. Tveimur árum eftir andlát Taylor gifta þau sig þrátt fyrir að vera bæði andsnúin hjónabandi og eru gift allt að andláti Harriet 1858. Hins vegar birtist á svipuðum tíma og þau giftu sig eða árið 1851 grein í blaðinu Westminister Review, málgagni útanítarista, grein merkta John Stuart Mill sem ber nafnið Lausn kvenna úr ánauð. Hann lýsti því yfir nokkru eftir lát hennar að þetta hefði alfarið verið hennar verk en að hann eingöngu hefði verið henni eins konar ritstjóri. Harriet skrifaði einnig fleiri greinar og pistla á sinni ævi og fjalla margir þeirra um málefni kvenna, menntun og heimilisofbeldi.

Seinna meir, að ósk Helen dóttur Harriet, byggði John Stuart á hennar röksemdarfærslum í Kúgun kvenna. Þrátt fyrir þau ótvíræðu áhrif sem Kúgun kvenna hafði sem eitt helsta kvenfrelsisrit 19. aldar þá er það samt sem áður, þegar á heildina er litið, eins konar tempruð útgáfa af skoðunum Harriet sem birtast í ritgerðum hennar. 

Augljóst er að Harriet hafði mikil áhrif á kenningar John Stuart en áhrifanna er þó örsjaldan getið þegar talað er um sameiginlega heimspeki þeirra eða Kúgun kvenna. Sem dæmi má nefna að í grein Stanford Encyclopedia of Philosophy sem ber nafnið „Marriage and Domestic Partnership“ er eingöngu minnst á Mill þegar lýst er hugmyndum þeirra um hjónaband og þannig er það víðar. 

Á fyrri tímum virðast þeir sem hafa sérhæft sig í heimspeki John Stuarts helst hafa viljað afneita hlutdeild Harriet. Í inngangi íslenskrar þýðingar Kúgun Kvenna, segir að „Engu er líkara en menn hafi ekki viljað trúa því að karlmaður gæti sótt í hugmyndasmiðju konu.“ 

Ástin og eðlið

Ritgerð Harriet um hjónaband og skilnað sem hún og John Stuart skiptust á í upphafi vináttu þeirra veitir okkur innsýn í hugarheim Harriet. Ritgerðin er stutt og kemur sér beint að efninu: hjónabandið er óréttlátt og stórlega gallað fyrirkomulag. Það er of erfitt fyrir hjón að skilja. Eins og áður segir voru réttindi kvenna takmörkuð og lagaramminn langt frá því að vera þeim hliðhollur, skilnaðarlöggjöf var meingölluð og eignarréttur kvenna lítill sem enginn. Harriet grefur þó aðeins dýpra í ritgerðinni og skoðar ekki einungis hvers vegna heldur veltir fyrir sér hver grundvöllur hjónabandsins er. Með því að lýsa því yfir að það sé í raun fáránlegt að vera með löggjöf um tilfinningalíf fólks og ástríður þess þá er hún einnig að spyrja: á hjónaband ekki að vera byggt á ást?

Með því að skoða stöðu kvenna í samtíma sínum nær hún líka að skoða annmarka ástarinnar; þegar ástin hefur verið bundin efnislegum og hugmyndafræðilegum takmörkunum. Er hægt að elska í hjónabandi sem maður hefur ekki valkost á að yfirgefa? Með því að losa konur úr ánauð karla þá geta bæði kynin fundið fyrir ástinni. Þegar kynin eru jöfn þá er raunverulega hægt að elska. En hvernig?

Harriet segir það nefnilega ekki vera þannig að eðlið ráði því hvernig karlar og konur eigi að vera tilfinningalega. Eðlishyggjan er tilbúningur, drengir eru frjálsir á meðan stúlkur eru aldnar upp með aðþrengjandi hugmynd um hreinleika (e. purity) í forgrunni. Þannig sé allur munaður og vellíðan eign karlmannsins, en öll ónot og sársauki eitthvað sem konan á að takast við. Hver einasta lystisemd eða munaður væri þó óendanlega betrumbætt, bæði í gerð og styrk, ef jafnræði myndi gilda á milli kynjanna

Hvernig stendur á þessum væntingarmun sem gerður er til kynjanna? Við getum leitað aftur í hugmyndir Harriet til að finna svör. Harriet lýsir því í grein sinni Lausn kvenna úr ánauð hvernig sá kúgaði getur verið sannfærður um ýmislegt sem ekki endilega er honum í hag:

Helvetius sagði að venjulega þegar fólk tali um dyggð eigi það í raun og veru um þá eiginleika sem er nytsamlegir því sjálfu. Hvort þetta sé satt fyrir mannkynið allt og hversu dásamlega vel hinir undirokuðu taka og sætta sig við hugmyndir þeirra valdamiklu um dyggð birtist okkur skýrt í því hvernig heimurinn var eitt sinn sannfærður um að æðsta dyggð þegna væri hollusta við konunga, en nú er heimurinn sannfræður um að dyggð kvenna sé hollusta við karlmenn. 

Það er þannig gegn eðli konunnar að sýna einhvers konar mótþróa gegn því sem kallast skipun samfélagsins. Þeim er einnig kennt að það sé ókvenlegt að andmæla því óréttlæti sem gert er í þeirra garð og að það ætti frekar að vera í höndum karlkyns verndara eða vinar. Þannig er kvenleikinn kominn í sjálfheldu að mati Harriet. Þær eru nauðbundnar áliti karlmannanna í lífi sínu. Af því leiðir að konur þurfa að sýna óvenju mikið hugrekki og óhlutdrægni til þess að þær vilji tjá sig opinberlega um lausn sína úr ánauð og þær sitja  vegna þessa á skoðunum sínum þangað til að útlit er fyrir að einhverjum framförum verði náð. 

Kúgunin gerir það að verkum að konur verða fastar í því hlutverki að vera háðar, undirgefnar og sjálfhverfar. Þær geta þá aldrei gert nákvæmar kröfur um það sem þær vilja og þurfa því að fara undirförular krókaleiðir að markmiðum sínum. Þetta grefur undan þeim tengslum sem geta myndast á milli kynjanna og kemur oftar en ekki í veg fyrir að ást geti blómstrað á milli þeirra. Hún bætir við að „æðsta tegund af hamingjusömum og varanlegum böndum myndi vera hundrað sinnum algengari en þau eru í dag, ef ástúðin sem kynin tvö sóttu hvert frá öðru væri einlæg vinátta sem eingöngu er til á milli jafningja hvað varðar forréttindi og gáfur.“ Með þessum orðum dregur Harriet upp mun fallegri mynd af ástarsamböndum en oft er gert í ástarsögum eða dægurmenningu, þar sem sambandið er eilíf togstreita og kynin í stöðugri baráttu. En í grunninn ættum við að endurskilgreina hvernig við hugsum um sambönd, hjónabönd eða jafnvel bönd vináttunnar. Því í stað þess að hugsa um skilnað ættum við að hugsa um að sanna að ástin sé til staðar.

Vísun til samtímans

Réttindabarátta, bæði opinber sem og á einkavettvangi, þverar staðnaðar hugmyndir. Það þarf frjóa hugsun til að skoða þær með nýjum hætti; þetta er tímalaus lærdómur. Áhugavert er að lítið hefur breyst hvað varðar áherslur þess sem við viljum breyta. Að vera jafningjar og að þurfa ekki að vera undir vald karla (eða karllægs yfirráðakerfis) komin er enn grunnstoðin í ákalli kvenna í dag. Á Íslandi sjáum við kröfuna um betri sambönd og tengingar alls staðar í kringum okkur: í strætóskýlum, á RÚV og á samfélagsmiðlum. Verkefni eins og Sjúk ást, sjónvarpsefni eins og Mannasiðir og vefbyltingar eins og MeToo eru dæmi um hversu ljóslifandi hugleiðingar um ástina sem einlægt samspil tveggja jafningja eru. 

Eitt af megin baráttumálum 2017 var uppljóstrun á brenglaðri valdadýnamík kynjanna á vinnustaðnum eða í opinberu umhverfi. En það kjarnaðist í MeToo - vefhreyfingu - sem uppljóstraði hvernig konur hafa selt tilfinningalegt heilbrigði sitt fyrir peninga eða völd þar sem kynferðislegt áreiti hefur átt sér stað. Það er ljóst að kynin eru ekki jöfn í aðstæðum og kerfum sem þessum og það var búist við að konur myndu þegja en karlar njóta eins og gervi-eðli Harriet gerir ráð fyrir. Oftar en ekki var það staðan að karlar voru í yfirburðastöðu þar sem þeir höfðu einhverskonar völd yfir konum, annaðhvort sem yfirmenn eða það að opinbera þá myndi kosta þær starfið. Ljóst er hversu vel greining Harriet á við í dag og hversu háðar áliti karlmanna konur á vinnumarkaðinum eru. Í stað þess að ávarpa vandamálið beint þegar það átti sér stað völdu konur að ávarpa það óbeint í krafti fjöldans. En þrátt fyrir ótrúlegan árangur hreyfingarinnar þá speglar það hver staðan er í rauninni í nútímanum. Erfitt er að koma fram sem kvenmaður og viðurkenna að ranglæti hafi verið beitt. Mikil vitundarvakning varð þó um málefnið og kynferðislegt áreiti var dregið fram í dagsljósið sem risastórt vandamál og endurskilgreint. Það er ekki lengur „dyggðugt“ að þegja og er það vissulega er mikill sigur. 

Kjarninn í heimspeki Harriet er gagnrýnin. Mikið af því sem hún skrifar hefur það að markmiði að endurhugsa. Við ættum ekki að viðhalda þegjandi vondum hefðum. Í dag hefur jafningjahugmynd femínismans fengið víðari skírskotun til fleiri hópa og átakamynda heldur en einungis það sem á sér stað á milli kynjanna. Megináherslan hefur færst yfir á kröfu um jafnrétti almennt, sama hvaða kyni, kynþætti eða kynhneigð fólk tilheyrir. En þrátt fyrir að Harriet fjalli ekki um stéttarlegar deilur og leggi ofuráherslu á samband karls og konu þá tel ég að hugsjón hennar um einlæga vináttu, gagnkvæma virðingu og endurskoðun „augljósra dyggða“  sem grundvöll ástarinnar nái auðveldlega yfir tengingar fólks af öllu tagi. Hversdagslegar sem og pólitískar.  

Lokaorð

Í hugmyndum Harriet Taylor Mill er ótrúlega margt að finna. Að skoða sögu hugmynda getur veitt ómetanlegan innblástur. Margt hefur augljóslega breyst og til hins betra, fyrir alla. Að slíta sambandi eða hvað þá að fá að reyna að vera í hamingjusömu ástarsambandi er ekki sjálfsagt heldur munaður. Munaður sem nútíminn ætti ekki að taka sem gefnu. Stundum virðist heimspekisagan vakna til lífs í nútímanum. Það gerir heimspeki Harriet svo sannarlega sem og krafa hennar. 

Ákall hennar um betri tengingu ástarinnar og endurskoðun sambanda á jafningjagrundvelli er síst minna mikilvæg nú á dögum. Ástin og það hvernig hún getur stundum þrengt að okkur, hvernig hún getur hlekkjað eða heft er eitthvað sem verður að íhuga þegar við gefum okkur henni á vald. Þrátt fyrir að ástin geti verið snúin þá getur hún líka búið yfir miklum töfrum. Töfrum sem hverfa ef ekki er hlúð að þeim. Harriet vissi það vel og í lok ritgerðar sinnar um hjónaband og skilnað skrifar hún: „Ást í sinni sönnustu og ágætustu merkingu virðist vera leiðin sem lætur í ljós hið allra besta og hið fegursta í eðli manneskjunnar.“ Með þessum ástaróði til ástarinnar sjálfrar fyllist ég trú á ástina í hreinustu merkingu hennar og þakklæti fyrir það að fá tækifæri til þess að upplifa hana. Þökk sé hugsuðum eins og Harriet.


Heimildaskrá 

Brake, Elizabeth, "Marriage and Domestic Partnership", The Stanford Encyclopedia of Philosophy, Stanford, birt júlí 2009 https://plato.stanford.edu/entries/marriage/. Skoðað 10. apríl 2018.

House of Commons. The Law Commission, Criminal Law: Rape Within Marriage. Sótt hér. Skoðað 18. apríl 2018.

Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir. „Rödd Harrietar Taylor Mill, Heimspeki róttækrar ungrar konu á 19. öld.“ Skemman, birt janúar 2016. Skoðað 26. mars 2018.

Mill, Harriet Taylor og Mill, John Stuart, ritstjóri Alice S. Rossi. Essays on Sex Equality. Chicago: University of Chicago Press, 1970.

Mill, John Stuart, ritstjórar Vilhjálmur Árnason og Ólafur Páll Jónsson. Kúgun kvenna. Þýðandi Sigurður Jónasson og Inngang ritar Auður Styrkársdóttir. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1869/2003. 

Miller, Dale E., "Harriet Taylor Mill", The Stanford Encyclopedia of Philosophy. Stanford, birt 11. mars 2002 https://plato.stanford.edu/entries/harriet-mill/#toc. Skoðað 1. apríl 2018.

Walters, Margaret. Feminism: A Very Short Introduction. New York: Oxford University Press, 2005.

Ljóð og heimspeki

Ljóð og heimspeki

Tilkynning: Sýsifos tekur við greinum

Tilkynning: Sýsifos tekur við greinum