Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Vel að merkja

Vel að merkja

Vel að merkja

Heimspekileg ritgerð um merkingu og inntak tungumálsins eftir Baldvin Flóka Bjarnason. Málverkið í haus heitir La Trahison des images og er eftir René Magritte frá árinu 1929.


Eitt af mínum uppáhalds orðum er íslenska lýsingarorðið þjált. Eitt af því sem er svo skemmtilegt við það er að það lýsir sér best sjálft. En það gera kannski öll orð. Það er í raun eitthvað undarlegt við þetta sem við köllum orð, hugtök, merkingu, inntak o.s.fv. Hvernig þetta hangir allt saman og hvað í þessu felst er heimspekilegt umræðuefni sem á sér marga anga og kima, vítarunur og samfallandi hringrök. Ég ætla ekki að reyna að leysa úr þeirri flækju en mig langar að festa niður á blað nokkrar vangaveltur sem mér finnst skemmtilegar.

Fyrst ber kannski að nefna Ludwig Wittgenstein, en hann hélt því fram að við gætum í raun alls ekkert sagt um merkingu orða og hvernig tungumálið vísar til hlutveruleikans. Það sem tungumálið lýsir er veruleikinn en þessari lýsingu sjálfri er það ófært um að lýsa. Þetta er ekki ósvipað og vandamál sem rithöfundurinn Lewis Carroll benti á í samtali sínu milli skjaldbökunnar og Akkílesar. Skjaldbakan gefur Akkílesi einfalda rökhendu með tveimur forsendum og einni niðurstöðu. Hún er röklega rétt og því ættu allir að fallast á niðurstöðuna að gefnum forsendunum. Akkíles fellst á það. En nú spyr skjaldbakan: „Af hverju ætti ég að fallast á það að fallast á niðurstöðuna að gefnum forsendunum? Þurfum við ekki að bæta við annarri forsendu til að fallast á það?“ Nú ætti lesandinn, ef hann fylgir eftir, að sjá hvert í stefnir. Skjaldbakan tælir Akkíles í endalausa vítarunu forsendna svo hægt sé að fallast á að fallast á að fallast á … niðurstöðuna. Það er vel þess virði fyrir þá sem hafa gaman af heilabrotum að lesa samtalið milli skjaldbökunnar og Akkílesar og svo tilraunir rökfræðinga til að leysa þetta og sambærileg vandamál. En eins og áður sagði er eitt af þeim vandamálum, sem eru sambærileg þessu, það hvernig og hvort lýsa megi tengslum tungumálsins við veruleikann. Wittgenstein skrifar í Tractatus sínum: „Yrðingin er fær um að lýsa veruleikanum öllum, en hún getur ekki lýst því sem hún verður sjálf að eiga sameiginlegt með veruleikanum til að geta lýst honum - hinu röklega formi.“ (4.14) Ég er ekki til þess fallinn að útskýra þetta nánar, en ég þykist skilja þetta í ljósi skjaldbökunnar og Akkílesar.

Það þarf samt kannski ekki að fallast á (hvað þá fallast á að fallast á) skoðun Wittgensteins til að sjá að það er eitthvað bogið við að lýsa merkingu orða. Annað af mínum uppáhalds orðum er íslenska nafnorðið þvali. Merkingu þess er lýst sem „fitukennd rakastemma“ í Íslenskri orðabók Menningarsjóðs frá 1985. Það finnst mér stórkostleg lýsing en hún flækir bara málið ef eitthvað er. Nú sitjum við uppi með tvö orð sem hvort um sig hefur nýja og allt aðra merkingu en upprunalega orðið. Og þar fyrir utan þá virðist þvalur, eins ágætt og lýsandi og það er, ekki eiga margt skylt með tilfinningunni að vera þvalur eða tilfinningunni að koma við eitthvað þvalt. Hvað þá að sjá eitthvað þvalt eða ímynda sér eitthvað þvalt. Heitt þvalt eða kalt þvalt. Hér komum við að annarri skoðun á orðum og hugtökum. Það er sú skoðun að í hugtökum felist ákveðin smættun. Eða frekar að það felist smættun í því að halda að hugtök nái utan um  það sem þau eiga að lýsa. Hugtökin „Guðni Th.“ og „sitjandi forseti Íslands“ vísa þannig bæði til sama einstaklingsins en hvor um sig með áherslu á mismunandi þætti hans. Og það að halda að þessi hugtök lýsi þeim stórbrotna einstaklingi sem um ræðir með fullnægjandi hætti er fásinna. Það má skrifa hversu langa greinargerð sem vera vill og nota eins mörg hugtök og nákvæm og auðið er en aldrei verður hægt að lýsa einstaklingnum, hinu sértæka, til hlítar. Ætli heimurinn sé ekki bara flóknari en svo að nákvæmni dugi til að lýsa honum.

Síðast en ekki síst langaði mig að fara nokkrum orðum um formgerðarstefnu (e. structuralism). Í okkar samhengi hér er það sú skoðun að merking orðs byggist á tengslum þess við önnur orð, þ.e. klappstóll er ekki hægindastóll og ekki sófi og ekki kollur og ekki borð o.s.fv. Þannig er orðið í einhverjum skilningi með neikvæða merkingu, það er ekki það sem það segir sem skiptir máli heldur það sem það segir ekki. Þetta finnst mér skemmtileg leið til þess að reyna að skilja hvað gerist þegar eitthvað er ósagt en gefið í skyn. Þá gegnir hljómfall iðulega lykilhlutverki en það nær á einhvern undraverðan hátt að draga fram það sem ekki er sagt. „Af hverju segir hann þetta? Var hún ekki að meina hitt?“ kynni maður að hugsa þegar maður heyrir talað undir rós. Þá er það ekki venjuleg merking orða sem skiptir máli heldur einhverjar hugrenningar sem kalla fram tengsl við önnur orð og önnur hugtök, og þar er merkingin falin. 

Þessi hugrenningatengsl margfalda tjáningarmöguleika málsins og leyfa okkur kannski loksins að lýsa hinu sértæka. En til þess að skapa svona hugrenningar þurfum við að misnota málið í einhverjum skilningi. Við notum setningar þar sem frumlag og einkunn passa ekki saman, umsögn og andlag eru á skjön. Við þurfum að persónugera dauða hluti og eigna þeim eiginleika sem ekki eru til í veruleikanum. Aftur eru tengsl tungumálsins og veruleikans flækt. En með þessu móti getum við tjáð það sem einber hugtök eiga erfitt með: tilfinningar. Það kannast allir við að líða á einhvern hátt en koma því ekki í orð. En þá eru það ljóðskáld sem hnoða saman ósamrýmanlegum orðum í merkingarlausa heild - sem segir akkúrat sem segja þarf. Eða eins og Maurice Merleau-Ponty sagði: „Að tala skáldlega um heiminn er næstum því að þegja, ef það að tala er skilið hversdagslegum skilningi.“ 

Ég vona að aðrir njóti þess eins og ég að velta fyrir sér merkingu og inntaki tungumálsins, og ég vona að þessi pistill hafi orðið einhverjum til skemmtunar. En fyrst og fremst vona ég að ég hafi náð að koma því á framfæri sem ég sagði ekki beinum orðum: að mikið er málið óþjált.

Máttur málsins

Máttur málsins

Um skoðanir og trúnað

Um skoðanir og trúnað