Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um skoðanir og trúnað

Um skoðanir og trúnað

Þessi ritgerð er eftir Victor Karl Magnússon og var skrifuð fyrir áfangann Inngangur að þekkingarfræði sem haldinn var við Háskóla Íslands haustönnina 2018. Útgáfa ritgerðarinnar sem hér ber að líta skortir neðanmálsgreinar, þótt heimildaskrá sé til staðar. Sé smellt hér má hala niður PDF-útgáfu ritgerðarinnar með tilheyrandi tilvísunum. Málverkið í haus heitir Et in Arcadia Ego og er eftir Nicolas Poussin frá um 1630.


1 — Bayesísk þekkingarfræði

Þekkingarfræði er undirgrein heimspekinnar sem leitast við að skilja hugtök eins og sannleik, vitneskju og réttlætingu. Ríkuleg flóra kenninga þrífst innan þekkingarfræðinnar og heimspekingar skiptast í ýmsar fylkingar þegar deilumál koma upp. En þrátt fyrir þennan fjölbreytileika og ágreining vinna margar kenningar þekkingarfræðinnar út frá svipuðum forsendum og hafa svipuð markmið. Þær gera skoðanir að viðfangsefni sínu og eru boðandi, þ.e. þær kveða á um hvaða skoðun við ættum að hafa í mismunandi aðstæðum. Þekkingarfræðileg skoðun er í raun afstaða sem eitthvert viðfang, S, tekur til sanngildis einhverrar fullyrðingar, P. Skoðanamiðaðar kenningar af þessu tagi mætti telja til hefðbundinnar þekkingarfræði. Innan ramma hefðbundinnar þekkingarfræði er hægt að taka þrjár afstöður til sanngildis einhverrar fullyrðingar, P. Viðfang S getur:

1. Haft þá skoðun að P sé sönn fullyrðing.

2. Haft þá skoðun að P sé ósönn fullyrðing.

3. Frestað dómi.

Hefðbundnir þekkingarfræðingar deila um hvaða afstöðu S beri að taka í mismunandi aðstæðum en eru sammála um að afstaða S þurfi að vera ein af þremur ofangreindum. M.ö.o. eru hefðbundnir þekkingarfræðingar sammála um hvað eigi að spyrja en ósammála um hvernig eigi að svara. Bayesískir þekkingarfræðingar greina sig frá hefðbundnu samstarfsfólki sínu með því að hafna þessari „þríhyggju" um skoðanir. Bayesísk þekkingarfræði gerir frekar trúnað (e. credence) að viðfangsefni sínu. Trúnaður er mat sem viðfang S leggur á fullyrðingu P og samsvarar því hversu líklegt sanngildi P sé í huga S. Trúnað má tákna með tölu sem tekur gildi á bili frá 0 til 1 þar sem 0 samsvarar engum trúnaði en 1 fullkomnum trúnaði. Ef til vill myndum við leggja engan trúnað á fullyrðingar sem eru á einhvern hátt ómögulegar, eins og 1 + 2 = 4, en fullkominn trúnað á fullyrðingar sem eru á einhvern hátt nauðsynlegar, eins og 1 + 2 = 3. Á milli þessara tveggja póla mætti flokka aragrúa af missennilegum fullyrðingum. Trúnaður er því nákvæmara fyrirbæri en skoðun vegna þess að það býður upp á miklu fleiri leiðir til þess að taka afstöðu til fullyrðinga en þær þrjár ofangreindu.

Markmið bayesískra þekkingarfræðinga er að segja til um hvaða trúnað sé skynsamlegt að leggja á mismunandi fullyrðingar í mismunandi aðstæðum. Þessu markmiði er náð, samkvæmt bayesískum þekkingarfræðum, með því að leggja trúnað á fullyrðingar í samræmi við lögmál líkindafræðinnar. Líkindafræði er undirgrein stærðfræðinnar sem rannsakar líkur, þ.e. reynir að skilja hvers má vænta af tilraun þar sem útkoman er háð tilviljun eða óvissu. Flest höfum við tilfinningu fyrir líkum í einföldum dæmum. Ef við köstum sanngjörnum sexhliða teningi þá eru líkurnar á því að talan 5 komi upp augljóslega 1/6 ≈ 16, 7%. Bayesískur þekkingarfræðingur myndi því telja það skynsamlegt að leggja trúnaðinn 0, 167 á fullyrðinguna „talan 5 kemur upp þegar sanngjörnum sexhliða teningi er kastað."

Líkindafræðin útskýrir fleira en einföld teningaköst, hins vegar. Þessi mikilvæga undirgrein stærðfræðinnar hefur að geyma fjölda lausna við sértækum, tæknilegum vandamálum auk almennra niðurstaðna. Líkindafræði er því gjöful fræðileg auðlind sem bayesískir þekkingarfræðingar sækja í til að leysa heimspekileg vandamál með nákvæmum hætti. Til þess að mega nýta sér slíka auðlind þurfa bayesískir þekkingarfræðingar að gera ráð fyrir að trúnaður hagi sér í samræmi við frumsendur líkindafræðinnar. Frumsenda í stærðfræðikerfi er grundvallarforsenda sem er notuð, beint eða óbeint, til að sanna allar niðurstöður kerfisins. Yfirleitt eru þrjár slíkar forsendur settar fram sem frumsendur líkindafræðinnar. Þær kveða á um að líkur séu aldrei neikvæðar, að 100% líkur sé á rökfræðilegum klifunum eins og p ∨ ¬p og að líkurnar á einum atburði af endanlega mörgum ósamrýmanlegum atburðum séu jafnar samanlögðum líkum á hverjum atburði fyrir sig. Með því að láta trúnað haga sér í samræmi við þessar frumsendur fá bayesískir þekkingarfræðingar aðgang að niðurstöðum líkindafræðinnar.

Dæmi um slíka niðurstöðu væri setning Bayes en bayesísk þekkingarfræði dregur nafn sitt af henni. Setning Bayes fjallar um tegund af líkum sem eru sagðar „skilyrtar". Skilyrtu líkurnar á því að atburður eigi sér stað eru líkurnar á því að atburðurinn eigi sér stað að því gefnu að annar atburður hafi átt sér stað. Ef við látum P(A) tákna líkurnar á atburði A og P(B) tákna líkurnar á atburði B eru líkurnar á A að gefnu B, skilyrtar líkur A, táknaðar P(A|B). Setningu Bayes má þá setja svona fram:

(1): P(A|B) = P(A) × P(B|A) / P(B)

Skilja má (1) með einföldu dæmi um sanngjarnt teningakast. Eins og var greint frá að ofan eru líkurnar á því að talan 5 komi upp 1/6. Köllum þennan atburð A. En nú mætti spyrja, hverjar eru líkurnar á A að því gefnu að talan sem komi upp sé oddatala? Köllum skilyrta atburðinn B og athugum að P(B) = 3/6 = 1/2. Til að ákvarða P(A|B) stingum við gildunum á P(A) og P(B) í jöfnu (1). Þá fæst að að P(A|B) = (1/6)/(1/2) × P(B|A). Óþekkta breytan okkar, P(B|A), samsvarar líkunum á því að tala sé oddatala að því gefnu að hún sé talan 5. En þar sem 5 er oddatala fæst að P(B|A) = 1. Því eru líkurnar á því að talan 5 komi upp að því gefnu að talan sem kemur upp sé oddatala jafngildar P(A|B) = 1/6 1/2 × 1 = 1/3. Bayesískir þekkingarfræðingar nýta sér setningu Bayes til að ákvarða trúnað okkar á sanngildi skilyrtra fullyrðinga. Þannig er hægt að taka afstöðu til sennileika fullyrðingra að einhverjum sönnunargögnum gefnum með nákvæmum og kerfisbundnum hætti. Setningin er einnig notuð til að ákvarða hvernig þekkingarfræðilega skynsamur einstaklingur ætti að uppfæra skoðanir sínar þegar nýjar upplýsingar koma í ljós.

Sökum plássleysis verða undirstöður bayesískrar þekkingarfræði ekki ræddar meira í þessari ritgerð. Ég hef reynt að koma tveimur mikilvægum atriðum til skila sem greina bayesíska þekkingarfræði frá hefðbundinni. Í fyrsta lagi fjallar bayesísk þekkingarfræði um trúnað í stað skoðunar. Trúnaður er nákvæmara fyrirbæri en skoðun og leyfir okkur að flokka fullyrðingar eftir sennileika. Í öðru lagi nýta bayesískir þekkingarfræðingar stærðfræðilegt innsæi til að leysa heimspekileg vandamál. Sér í lagi gera bayesískir þekkingarfræðingar ráð fyrir því að trúnaður hagi sér í samræmi við frumsendur líkindafræðinnar og geta þannig notað niðurstöður líkindafræðinnar til að reikna út hvaða trúnað væri gott að leggja á sanngildi mismunandi fullyrðinga. Ein slík niðurstaða er setning Bayes. Í næstu hlutum ritgerðarinnar mun ég skoða tengsl trúnaðar og skoðunar. Ég mun annars vegar skoða hvort það sé hægt að tengja þessi hugtök saman og hins vegar skoða hvort það sé æskilegt. Svar mitt við báðum þessum spurningum er jákvætt.

2 — Regla Locke

Trúnaður og skoðun eru ólík fyrirbæri en virðast samt vera skyld. Ein eðlileg leið til að tengja þessar hugmyndir saman væri að segja að við ættum að hafa þá skoðun að fullyrðing sé sönn að því gefnu að við leggjum nægilega mikinn trúnað á þá fullyrðingu. Þá væri t.d. réttlætanlegt að hafa þá skoðun að það rigni í nótt ef og aðeins ef við teljum það gríðarlega líklegt að það rigni í nótt. Þessi hugmynd er kennd við John Locke og mætti setja fram með nákvæmum hætti. Regla Locke: Það er skynsamlegt að hafa þá skoðun að p sé sönn fullyrðing ef og aðeins ef það er skynsamlegt að leggja trúnað x á fullyrðingu p þar sem a < x ≤ 1 og a > 0.

Það er ekkert augljóslega rétt gildi á a. Sumir myndu kannski vilja láta a vera eins nálægt 1 og unnt væri en aðrir myndu ekki setja svo strangar kröfur. Þessi vafi skiptir ekki miklu máli í núverandi samhengi. Ég hef áhuga á almennara vandamáli: Er hægt að draga svona mörk yfirhöfuð? Sagt er að reglu Locke sé ógnað af tveimur þverstæðum: happdrættisþverstæðunni (e. lottery paradox) annars vegar og formálaþverstæðunni (e. preface paradox) hins vegar. Ef við höfnum reglu Locke skiptir ekki máli hvort a = 0, 99 eða a = 0, 75. Ekkert a < 1 væri skynsamlegt. Ég geri því ráð fyrir, án skerðingar víðgildis, að regla Locke gildi fyrir a = 0, 95. Við eigum því að hafa þá skoðun að p sé sönn fullyrðing ef og aðeins ef við leggjum 0,95 trúnað á p. Næst mun ég skoða hvort að þverstæðurnar tvær neyði mig til að draga þessa forsendu til baka.

2.1 — Happdrættisþverstæðan

Ímyndum okkur happdrætti með hundrað miðum þar sem nákvæmlega einn miði vinnur. Gerum ráð fyrir því hver miði sé jafnlíklegur til vinnings. Fyrir sérhvern miða eru þá líkurnar á að hann vinni happdrættið 1% og líkurnar á að hann tapi happdrættinu 99%. Fyrir sérhvern miða ættum við því að leggja meira en 95% trúnað á þá fullyrðingu að viðkomandi miði tapi happdrættinu. Samkvæmt reglu Locke jafngildir þetta því að við ættum að hafa þá skoðun um sérhvern miða að hann tapi happdrættinu. En nú gerðum við ráð fyrir því að einn miði myndi vinna happdrættið. Við leggjum meira en 95% trúnað á þessa fullyrðingu og höfum því þá skoðun að hún sé sönn. Þverstæðan felst í því að hafa þá skoðun að einn miði vinni happdrættið og að hver miði tapi. Það virðist vera sem svo að regla Locke neyði okkur til að hafa þá mótsagnakenndu skoðun að einn miði muni samtímis vinna og tapa í happdrættinu.

2.2 — Formálaþverstæðan

Ímyndum okkur að ritgerð tiltekins háskólanema samanstandi af hundrað fullyrðingum. Gerum ráð fyrir að háskólaneminn sé vandvirkur og að skynsamlegt sé að leggja meira en 95% trúnað við hverja fullyrðingu ritgerðarinnar. Samkvæmt reglu Locke er því skynsamlegt að hafa þá skoðun að hver fullyrðing fyrir sig sé sönn. En nú er vandvirki háskólaneminn ekki fullkominn frekar en hver annar. Það er mjög líklegt að hann hafi einhvers staðar misstigið sig lítillega við gerð ritgerðarinnar. Gerum því ráð fyrir að það sé alls ekki skynsamlegt að leggja meira en 95% trúnað á þá fullyrðingu að háskólaneminn hafi ekki gert nein misstök og allar fullyrðingar ritgerðarinnar séu réttar. Samkvæmt reglu Locke er því ekki skynsamlegt að hafa þá skoðun að allar fullyrðingar ritgerðarinnar séu réttar. Þverstæðan felst í því að regla Locke virðist segja að það sé bæði skynsamlegt að hafa þá skoðun að hver fullyrðing sé rétt og óskynsamlegt að hafa þá skoðun að engin fullyrðing sé röng.

2.3 — Þverstæðurnar leystar

Ef bjarga á reglu Locke frá mótsagnakenndum niðurstöðum þverstæðnanna er ljóst að hafna þurfi einhverri forsendu þeirra. En færa má rök fyrir því að báðar þverstæðurnar geri ráð fyrir ótækri forsendu. Einblínum fyrst á happdrættisþverstæðuna. Látum 1 ≤ n ≤ 100 vera náttúrulega tölu og látum m(n) tákna fullyrðinguna „miði n vinnur happdrættið." Kjarna happdrættisþverstæðunnar mætti þá setja fram svona:

1. Samkvæmt reglu Locke er skynsamlegt að hafa þá skoðun um sérhvern miða að hann tapi happdrættinu.

[∀n¬m(n)]

2. Samkvæmt reglu Locke er skynsamlegt að hafa þá skoðun að nákvæmlega einn miði vinni, þ.e. tapi ekki happdrættinu.

[m1 ∨ m2 ∨...∨ m100]

3. F: Af 1. fæst samkvæmt reglu Locke að skynsamlegt sé að hafa þá skoðun að allir miðarnir tapi happdrættinu.

[∀n¬m(n) ⇒ ¬m1∧¬m2∧...∧¬m100]

4. Svo samkvæmt reglu Locke er skynsamlegt að hafa þær skoðanir að allir miðarnir tapi og að einn miði tapi ekki happdrættinu, sem er mótsögn.

[(¬m1 ∧ ¬m2 ∧ ... ∧ ¬m100) & (m1 ∨ m2 ∨ ... ∨ m100) ⇐⇒ ¬(m1 ∨ m2 ∨ ... ∨ m100) & (m1 ∨ m2 ∨ ... ∨ m100)]

5. Svo regla Locke er röng.

Galli happdrættisþverstæðunnar er að F er ósönn forsenda. Þótt skynsamlegt sé að hafa þá skoðun um hvern miða að hann tapi happdrættinu er ekki hægt að álykta samkvæmt reglu Locke að skynsamlegt sé að hafa þá skoðun að allir miðar tapi happdrættinu. Það væri aðeins raunin ef skynsamlegt væri að leggja meira en 95% trúnað á ¬m1 ∧ ¬m2 ∧ ... ∧ ¬m100. Vandamálið er að það væri alls ekki skynsamlegt. Nú eru líkurnar á því að hver miði tapi happdrættinu 99%, þ.e. ∀nP(¬m(n)) = 0, 99. Líkurnar á því að allir miðar tapi happdrættinu eru lægri, hins vegar. Líkur minnka í samræmi við fjölda atburða sem eiga sér stað. Þetta er afleiðing þekktrar stærðfræðireglu sem heitir margföldunarlögmál líkindafræðinnar. Samkvæmt henni eru líkurnar á því að óháðir atburðir A og B eigi sér báðir stað P(A&B) = P(A)×P(B). Ef við hugsum um teningakast ætti lögmálið að virðast sennilegt. Líkurnar á því að talan 5 komi upp eru vissulega 1/6 en augljóslega eru líkurnar á því að talan 5 komi upp tvisvar sinnum í röð lægri. Margföldunarlögmál líkindafræðinnar segir okkur því að líkurnar á því að fyrstu sex miðarnir tapi séu P(¬m1&¬m2&...&¬m6) = P(¬m1) × P(¬m2) × ... × P(¬m6) = 0, 996 ≈ 0, 941 < 0, 95. Samkvæmt reglu Locke væri því óskynsamlegt að hafa þá skoðun að ¬m1 ∧ ¬m2 ∧ ... ∧ ¬m6, hvað þá að ¬m1 ∧ ¬m2 ∧ ... ∧ ¬m100.

Happdrættisþverstæðan ógnar því ekki reglu Locke því hún styðst við forsendu sem er ekki sönn. Formálþverstæðuna má leysa með svipuðum hætti. En nú vaknar sú spurning hvaða afleiðingar það hefur að hafna F. Það gengur gegn einfaldri rökfræði að segja að það megi ekki samþykkja fullyrðingu p, fullyrðingu q og álykta að p ∧ q. Með því að hafna F erum við því að segja að lögmál rökfræðinnar eigi ekki endilega við fullyrðingar sem við leggjum minna en fullkominn trúnað á. Eins og Finnur Dellsén bendir á virðumst við því hafna eftirfarandi:

Afleiðslukrafa fyrir skoðanir: Mengi þeirra fullyrðinga sem skynsamur einstaklingur er reiðubúinn að telja sannar skal vera sjálfu sér samkvæmt og lokað undir rökfræðilega afleiðingu. (Dellsén, 2017, 158)

Finnur bendir jafnframt á að með því að hafna ofangreindu virðist hlutverk rökfræðinnar takmarkað: „ef við höfnum þessu þurfum við að fara að velta því fyrir okkur hvort hefðbundin afleiðslurökfræði hafi nokkuð fram að færa í þekkingarfræðilegu tilliti" (Dellsén, 2017, 158-159). En svo þarf ekki að vera. Finnur leggur til að finna megi þekkingarfræðilegan tilgang rökfræðinnar með því að skoða hugmynd L. Jonathan Cohen um samþykki. Fullyrðing er samþykkt ef það er gert ráð fyrir því að hún sé sönn í vissu samhengi. Í vissum aðstæðum virðist það vera gagnlegt fyrir framvindu hugsunar að gefa sér slíkar forsendur. Finnur tekur dæmi um lögfræðing sem gerir ráð fyrir því að skjólstæðingur sinn sé saklaus þótt að hann hafi litla trú á því. Slík forsenda leyfir honum að smíða vörn sem hann gæti annars ekki gert. Samkvæmt Finni getur þekkingarfræðilegt hlutverk rökfræðinnar því falist í þessu:

Afleiðslukrafan fyrir S-samþykki: Mengi þeirra fullyrðinga sem skynsamur einstaklingur er reiðubúinn að samþykkja í tilteknu samhengi S skal vera sjálfu sér samkvæmt og lokað undir rökfræðilega afleiðingu. (Dellsén, 2017, 160)

Mér finnst þessi niðurstaða góð. Eins og ég skil hana er skynsamlegt að nota rökfræði þegar við erum að fást við fullyrðingar sem við samþykkjum– gerum ráð fyrir að séu sannar. Hins vegar er skynsamlegt að nota líkindafræði þegar við vinnum með skoðanir og fullyrðingar sem við leggjum trúnað á. Mistökin sem ég leiddi í ljós að ofan grundvölluðust á að rökfræði var notuð þegar líkindafræði hefði hentað betur. Hugmynd Finns leyfir okkur því að halda í reglu Locke, hafna þverstæðunum tveimur og finna þekkingarfræðilegt hlutverk rökfræðinnar.

3 — Hvers vegna að hafa skoðun?

Önnur leið til að bregðast við þverstæðunum tveimur væri einfaldlega að hafna reglu Locke. Kannski er óþarft að tala um skoðanir þegar við getum frekar einblínt á trúnað. Trúnaður er jú lítið annað en nákvæmari útgáfa af skoðun og því virðist sem trúnaðarhugtakið geti útskýrt allt sem skoðunarhugtakið útskýrir. Jafnframt myndi það einfalda kenningar innan þekkingarfræðinnar ef þær þyrftu aðeins að fjalla um eitt hugtak í stað tveggja. Richard Foley færir rök gegn þessari uppastungu í grein sinni „Belief and Degrees of Belief". Samkvæmt Foley gæti trúnaður ekki leyst skoðanir fyllilega af hólmi. Eins og Foley orðar það: "[W]hy have two theories when one will do just as well? The answer is that one won’t do just as well."

Skoðun er takmarkað fyrirbæri. Eins og greint var frá að ofan er aðeins hægt að hafa þrjár tegundir af skoðunum um hverja fullyrðingu. Hægt er að hafa þá skoðun að fullyrðing sé sönn, ósönn eða að skynsamlegast sé að fresta dómi. Samkvæmt Foley er það einmitt þetta takmarkaða eðli sem gerir skoðun að gagnlegu greiningartæki. Nákvæmni trúnaðar er oft kostur en ekki alltaf. Stundum er betra að takmarka möguleika sína og mála einfaldari mynd af stöðunni. Foley talar t.d. um hvernig slík einföldun gagnast í ákvörðunartöku. Ef hópur fólks stendur frammi fyrir sameiginlegri ákvörðun verða umræður gagnlegri og skilvirkari ef hægt er að draga skýrar línur og fá afdráttarlausar skoðanir frá hverjum og einum. Það þýðir ekki að við höfum aldrei áhuga á nákvæmum trúnaði en stundum eru ítarlegri upplýsingar óþarfar og verða til þess að umræða missi marks. Það er því praktískt að halda í skoðanir. Þær einfalda líf okkar og auðvelda samskipti. Það gæti jafnvel verið nauðsynlegt að halda í skoðanir. Eins og Foley bendir á væri líf án neinna skoðana yfirþyrmandi. Ef við þyrftum að reikna út trúnað okkar á öllum mögulegum smáatriðum hefðum við lítinn tíma í annað.

Ef Foley hefur rétt fyrir sér, þá eigum við bæði að nota skoðunarhugtakið og trúnaðarhugtakið við gerð kenninga í þekkingarfræði. Það bendir jafnframt til þess að við ættum að halda í reglu Locke sem þýðir að við getum hvorki flúið undan happdrættisþverstæðunni né formálaþverstæðunni. Ef við svörum þverstæðunum eins og var gert að ofan þá neyðumst við til þess að taka afstöðu til stöðu rökfræðinnar þegar trúnaður og skoðanir eru annars vegar. Eins og greint var frá að ofan gefur Dellsén, 2017 hugmynd um hvernig hægt væri að fara að því. Ég held að Foley hafi rétt fyrir sér. Mér finnst hugmyndir hans um nauðsyn og æskileika vissra takmarkana áhugaverðar. Ég held að það sé jafnframt hægt að setja slíkar hugmyndir í samhengi við feminíska gagnrýni á hið óhlutdræga, sbr. Antony, 2008. Ef slíkur samanburður reynist heppilegur, þá held ég að við höfum tækifæri til að skoða reglu Locke í nýju ljósi.

Óhlutdrægni er oft talin einkenna vísindalega hugsun. Það er talinn kostur að lesa í gögn og greina frá staðreyndum á hlutlausan hátt. Því hlutlausari sem við erum, því betra. Því færri fordóma sem við höfum, því betra. Louise M. Antony færir rök gegn þessum hugmyndum. Samkvæmt Antony væri fullkomin óhlutdrægni hvorki æskileg né möguleg. Óhlutdrægni er ekki möguleg samkvæmt Antony vegna þess að við höfum öll náttúrulega fordóma af vissu tagi. Antony tekur kenningar Noam Chomsky um máltöku barna sem dæmi. Rannsóknir hans benda til þess að við fæðumst með e.k. innra tungumál sem knýr okkur til þess að mynda vissar málfræðireglur frekar en aðrar. Við erum því náttúrulega fordómafull þegar kemur að máltöku. Sem betur fer! Antony færir jafnframt rök fyrir því að það væri afar óæskilegt að vera fullkonlega óhlutdrægur. Fullkomlega óhlutdrægur aðili myndi túlka allt ílag á alla rökfræðilega mögulega vegu og velja síðan þá túlkun sem best hentaði. Það væri óskilvirkt og myndi hamla eðlilegri ákvörðunartöku og skoðunarmyndun.

Hugmyndir Antony um nauðsyn og æskilega vissra takmarkana minna óneitanlega á rök Foley gegn því að kasta skoðunum á glæ. Í hugmyndum Antony ríkir hins vegar togstreita. Antony, eins og aðrir femíniskir heimspekingur, gagnrýnir þau karllægu, úreltu gildi sem gegnsýra fræðilega hugsun. En þetta togar á við ofangreinda gagnrýni á hið óhlutlæga. Annars vegar er verið að mæla gegn fordómum og hins vegar gegn fordómaleysi. Þetta vandamál nefnist hlutdrægnisþverstæðan. Ég held að Foley standi frammi fyrir svipuðu vandamáli. Annars vegar er gott að takmarka sig við afdráttarlausar skoðanir í tilteknum aðstæðum og líta framhjá vissum upplýsingum. Hins vegar eru ofureinfaldanir hættulegar og oft nauðsynlegt að rýna í smáatriðin. Hvort á við? Hvernig leysum við úr þessari togstreitu?

Antony leysir hlutdrægnisþverstæðuna í grein sinni. Ég held að leysa megi vanda Foley með svipuðum hætti. Samkvæmt Antony er mikilvægt að hafa það í huga að hún gagnrýni ekki vissa tegund af karllægum fordómum vegna þess eins að þeir séu fordómar. Antony gagnrýnir karllæga fordóma vegna þess að þeir eru slæmir fordómar. Góðir fordómar leiða okkur til sannleiks en slæmir fordómar ekki. Þannig leysist þverstæðan upp. Það er engin mótsögn fólgin í því að gagnrýna fullkomið fordómaleysi sem og slæma fordóma. Antony heldur að við getum jafnframt nýtt okkur það sem bandaríski heimspekingurinn W.V. Quine kallar náttúruvædda þekkingarfræði til að greina á milli góðra og slæmra fordóma. Hugmynd Quine er að þekkingarfræði eigi að vera lýsandi frekar en boðandi. Markmið hennar ætti að felast í því að nota niðurstöður vísandanna, einkum sálfræðinnar, til þess að skilja hvernig við myndum skoðanir og tökum ákvarðanir. Þannig mætti rýna í vísindalegar aðferðir með skynsamlegum hætti. Antony telur að með slíkri nálgun væri hægt að rannsaka fordóma með empirískum hætti og komast að því hvort þeir leiða til sannleika eða ekki.

Reynum nú að leysa vanda Foley með því að fylgja fordæmi Antony. Ég myndi vilja greina á milli þess að takmarka sig við skoðun í stað trúnaðar með góðum hætti og að takmarka sig við skoðun í stað trúnaðar með slæmum hætti. Það er gott að takmarka sig við skoðun þegar við erum að útiloka óþarfar upplýsingar sem myndu ekki leiða okkur til þeirrar þekkingar sem við sækjumst eftir. Það er vont að takmarka sig við skoðun þegar við útilokum upplýsingar sem myndu í raun leiða okkur til þeirrar þekkingar sem við sækjumst eftir. Góðar takmarkanir eru eftirsóknarverðar en slæmar takmarkanir ekki. Þessi greinarmur virðist leysa úr togstreitunni. Jafnframt tel ég að hægt sé að sækja innblástur frá Antony og Quine til þess að greina á millir góðra og slæmra takmarkanna. Það mætti gera með því að rýna í empírískar rannsóknir sem skoða hvernig við vegum og metum valkosti. Þannig gætum við betur skilið í hvaða aðstæðum við gerum hugsunarvillur eða túlkum líkur vitlaust. Sá skilningur gæti síðan nýst í að átta okkur á því hvenær það er viðeigandi að takmarka okkur við skoðanir og hvenær ekki.

4 — Niðurlag

Í þessari ritgerð hef ég skoðað samspil tveggja mikilvægra hugtaka innan þekkingarfræðinnar. Þessi hugtök, skoðun og trúnaður, eru tengd saman í gegnum reglu Locke. Ég er sammála Richard Foley um að skynsamlegt sé að halda í kenningar þekkingarfræðinnar sem nota bæði hugtök. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að verja reglu Locke gegn mótbárum eins og happdrættisþverstæðunni. Ég hef jafnframt fært rök fyrir því að afstaða Foley sé skyld feminískri gagnrýni Louise Antony á hið óhlutdræga. Þess vegna tel ég vera tækifæri til að nýta innsæi Antony og annarra feminískra hugsuða þegar kemur að vandamálum tengdum reglu Locke.


Tilvísanir

Antony, L. M. (2008). Quine as a Feminist: The Radical Import of Naturalized Epistemology. In E. Sosa, J. Kim, J. Fantl, & M. McGrath (Eds.), Epistemology: An anthology (pp. 552–578). Oxford: Wiley-Blackwell.

Dellsén, F. (2017). Frá skoðunum til trúnaðar og aftur til baka. Hugur, 28 (1), 146–162.

Dellsén, F. (2018). Deductive Cogency, understanding, and acceptance. Synthese, 195 (1), 3121–3141.

Foley, R. (1992). The Epistemology of Belief and the Epistemology of Degrees of belief. American Philosophical Quarterly, 29 (2), 111–124.

Hartmann, S. & Hájek, A. (2010). Bayesian Epistemology. doi:10 . 1093 / 0199269750.001.0001

Quine, W. (2008). Epistemology Naturalized. In E. Sosa, J. Kim, J. Fantl, & M. McGrath (Eds.), Epistemology: An anthology (pp. 528–537). Oxford: Wiley-Blackwell.

Áhyggjur #2 (Eða: Óreiða orða og samfélags)

Áhyggjur #2 (Eða: Óreiða orða og samfélags)