Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Máttur málsins

Máttur málsins

Máttur málsins

Heimspekileg ritgerð um tungumálið, hvort heldur sem það er mælt eða ritað, eftir Baldvin Flóka Bjarnason. Ljósmyndin í haus heitir Rest Energy og er eftir Marinu Abramović og Ulay frá árinu 1980.


Í málinu býr máttur, það er enginn vafi um það. En í hverju felst þessi máttur? Í bók sinni Gútenbergvetrarbrautinni (The Gutenberg Galaxy) rekur Marshall McLuhan hvaða áhrif stafrófið eins og við þekkjum það og seinna prenttæknin hafa haft á hugsun mannsins. Hann vill meina að mannskepnan hafi lengst af verið mótuð af heyrninni og að heyrnin hafi verið mikilvægasta skynfærið. Það breyttist þó með ritlistinni og þá sérstaklega stafrófinu þar sem hver stafur táknar einstakt hljóð. Þessi hljóðritun gerir hið heyranlega sjáanlegt. Þegar prentlistin gerði svo þessa hljóðritun fjölfaldanlega á ódýran máta, þá samhliða því sem ritmálið verður mikilvægara og fyrirferðarmeira í lífi mannsins þá breytist menningin frá því að vera munnleg og byggð á heyrninni, yfir í að vera skrifleg og byggð á sjóninni. McLuhan heldur því hins vegar enn fremur fram að með tilkomu rafmagnsmiðla, þá dvíni mikilvægi ritmálsins og þunginn færist aftur frá sjóninni og yfir á heyrnina. Hann lést þó árið 1980 og komst því ekki í kynni við þá miðla sem stjórna lífi okkar í dag. Það má deila um það hvort spár hans standist og hvaða skynfæri helst binda okkur heiminum í dag.

En aftur að mætti málsins. Tungumálið er tjáningarmáti hugsunarinnar. McLuhan vill meina að hugsunin hafi ekki verið frjáls fyrr en með tilkomu ritlistarinnar, þá er tjáning hugsunarinnar skilin frá krafti hennar. Þannig er hún frjáls afleiðinga sinna og getur þrifist og dafnað án nokkurs mótvægis, í það minnsta um sinn. 

Fyrir tilkomu ritlistarinnar var helsta tjáningarformið mælt mál. Ritað mál krefst ekki annars en að vera fest á blað, alveg óháð því hvort það verði nokkurn tímann lesið en aftur á móti þarfnast mælt mál áheyranda, eða gerir að minnsta kosti ráð fyrir slíkum. Og áheyrandinn veitir tafarlaust viðbragð. Hann getur með svipbrigðum eða svari brugðist við því sem mælt er. Raunar er þetta viðbragð að vissu leyti forsenda mælts máls. Til hvers að tjá hugsanir sínar áheyranda nema til að fá viðbrögð? Við segjum hluti við annað fólk til þess að fá viðbrögð og ef við fáum önnur viðbrögð en við ætluðumst til, þá má segja að okkur hafi á einhvern hátt mistekist. Ef grín vekur ekki hlátur eða kátínu þá er það einfaldlega lélegt grín. Og þetta er máttur málsins. Mátturinn til að fá viðbrögð, vekja upp tilfinningar og deila hugmyndum. Möguleikinn á að spegla sig í viðbrögðum annarra. En þessi máttur getur verið vandmeðfarinn. Til dæmis getur grín, í stað þess að vekja kátínu, móðgað. Þá eru viðbrögðin yfirleitt til þess fallin að láta mælandann vita, að svona grín sé ekki líðandi. Og þess vegna er máttur málsins ekki einhlítur. Hann er bundinn viðbrögðum og er þess vegna ekki frjáls. Þetta breytist hins vegar með ritlistinni.

Þessa breytingu langar mig, mér til gamans, að tengja við gamla sögu um Mídas konung. Hann var svo óheppinn að honum uxu asnaeyru. Hvort hann átti það skilið verður ekki rætt hér en sagan segir að hann hafi skammast sín alveg ógurlega og hann sá til þess að enginn sæi þessu viðurstyggilegu eyru. Hvað skyldi fólkið hans halda ef það kæmist að því að hann væri með asnaeyru? Það sá enginn þessa skömm konungsins nema rakarinn hans. Til þess að snyrta hárið þurfti að taka ofan kórónuna. Rakarinn mátti að sjálfsögðu engum segja hvað hann sá en leyndarmálið þjakaði hann svo óskaplega að hann brá að lokum á það ráð að grafa holur í jörðina og öskra leyndarmálið ofan í þær. Þannig létti hann af sér og honum leið betur. En því miður, þá uxu af holunum ýlustrá og þegar vindur lék um stráin þá heyrðu þegnar Mídasar hvernig hvíslað var „Mídas konungur er með asnaeyru, Mídas konungur er með asnaeyru...“ Hann hefði betur beðið um skálaklippingu.

Þessa sögu mætti túlka sem táknsögu um hvernig máttur mælts máls hefur þróast yfir í mátt ritaðs máls, sem þrátt fyrir að vekja ekki tafarlaus viðbrögð, hefur afleiðingar engu að síður. Rétt eins holurnar tóku við áhyggjum rakarans þá tekur blaðið við hugsunum ritarans. Og blaðið geymir þessar hugsanir, þær hverfa ekki. Ekki frekar en leyndarmál rakarans. Ritað mál er nefninlega nokkurs konar steingerð einræða. Sá sem les ritað mál hlýðir á einræðu þess sem hefur skrifað. Þetta er í augljósri andstæðu við mælt mál og samræðuformið. Að sjálfsögðu eru til skrifaðar samræður, en þær eiga í frekar einhliða samtali við lesandann, sama hversu líflegar þær eru á blaði. Og það er þessi einstefna sem frelsar hugsunina að mati McLuhans. Hún er ekki lengur bundin viðbragðinu. Máttur málsins er leystur úr læðingi. Sá sem skrifar getur farið himintunglanna á milli án nokkurrar mótstöðu. Ég gæti til dæmis minnst á nýju stjórnarskrána í framhjáhlaupi án þess að lesandinn fái rönd við reist. Og hvenær gengur hún svo í gegn? Er það ekki alþjóð sem fer með stjórnarskrárvaldið? Ég vona að lesandinn skilji og átti sig á máttleysi sínu. Hann getur skrifað ummæli um mín skrif eða komið viðbrögðum sínum til skila með öðrum hætti. En þetta eru ekki tafarlaus viðbrögð. Ég veit enn ekki hvernig tekið verður í þessi skrif, ef þau verða þá nokkurn tímann birt.

Í þessu hugsanafrelsi felast að sjálfsögðu margir kostir. Hægt er að koma flóknum hugsunum í ákveðið skipulag sem er ekki aðeins skiljanlegt öðrum heldur geymist einnig vel. Svo ekki sé minnst á fagurfræði ritmálsins. Leturgerð og uppsetning getur skapað tilfinningu með lesandanum eins og tónfall með áheyrandanum. En líkt og máttur mælts máls hefur þann ókost að vekja tafarlaus viðbrögð á áheyrandanum, þá hefur máttur ritmálsins þann ókost að vekja ekki tafarlaus viðbrögð hjá lesandanum. Þannig getur frelsi hugsunarinnar hlaupið með mann í gönur og sá sem skrifar getur verið gjörsamlega meðvitundarlaus um hvurs lags viðbrögð þessi tjáning hugsunar hans vekur hjá lesandanum. Ritmálinu getur fylgt aftenging, þess vegna eru sum málefni sem henta betur að ræða í persónu.

En ég held að það sé óhætt að segja að persónan hefur aldrei verið jafn bundin rituðum miðlum og í dag. Þorri þjóðarinnar ber með sér lítið snjalltæki, gátt inn í heim samfélagsmiðlanna. Og í hinum ýmsu samskiptaforritum slær saman rituðu og mæltu máli. Rituð skilaboð geta fengið allt að því tafarlaus viðbrögð og einræðan virðist taka á sig form samræðu. En kannski er réttara að tala um tvær samhliða einræður. Ritað mál virðist öðlast eiginleika mælts máls og mælt mál týnir ákveðnum eiginleikum sínum jafnframt því sem það er ekki lengur bundið hefðbundnum takmörkunum. Samtalið verður að símtali og mælt mál er þar með ekki lengur bundið við eina staðsetningu í einu. Símtalið verður að myndsímtali og viðvera mannsins er klofin í tvær víddir. Þetta eru bara nokkur dæmi um það hvernig máttur málsins er ekki lengur bundinn við mælt eða ritað mál. Við búum í þéttriðnu neti margskonar miðla sem hver um sig hefur sín sérkenni, eiginleika, takmarkanir og tækifæri. Og það mætti jafnvel segja að við upplifum ekki lengur heiminn í gegnum auga eða eyra, við upplifum heiminn í gegnum miðla.

Vel að merkja

Vel að merkja