Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Áhyggjur #2 (Eða: Óreiða orða og samfélags)

Áhyggjur #2 (Eða: Óreiða orða og samfélags)

Áhyggjur #2 (Eða: Óreiða orða og samfélags) er önnur smásagan í smásagnaseríu eftir Axel Helga Ívarsson. Málverkið í haus heitir La Gare de Perpignan og er eftir Salvador Dalí frá árinu 1965.


Ég byrjaði daginn eins og alla aðra daga. Fór fram úr, tannburstaði mig, klæddi mig, reimaði skóna, gekk út, setti AirPodsin í eyrun og HljóðMoggann í gang.

Fréttir á pappír er eitthvað sem maður les eða oftast flettir hratt á skanninu í gegnum einu sinni, svo fer blaðið í bunkann og í kjölfarið í bláu tunnuna. Örugglega er endurunnið eitthvað gott úr pappírnum, jafnvel svo gott að sömu fréttirnar birtast aftur á pappírnum skömmu síðar og stundum strax daginn eftir. Ég hafði semsagt gefist upp á blaðabunkanum og er núna einungis með HljóðMoggann. Eitthvað sem fleiri ættu að þenkja um.

Þenkja. Ég googlaði sögnina „að þenkja“. Efstu niðurstöðurnar tengdust einna helst gömlum vísnabókum í góðu yfirlæti hjá Árnastofnun og pistlum um trúmál og guðhræðslu. Sögnin kemur m.a. fyrir í Niðurlag á ritgjörð sjera Jóns Jónssonar í Möðrnfelli, um hina nýju messusöngsbók (aldamótabókina), sem birtist 5. tölublaði 7. árgangs Kirkjublaðsins árið 1897 svo því sé haldið til haga. Einmitt það. 120 árum síðar, 18. nóvember 2017, dúkkaði sögnin „að þenkja“ aftur upp og það í ávarpi okkar allra besta forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar á ráðstefnu Menntamálastofnunar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Guðni er líka sagnfræðingur og á pottþétt alla árganga af Kirkjublaðinu, enda gott blað. Ávarpið bar yfirskriftina Lestur er lykill að ævintýrum. Gott og vel. Nei, ókei, muldra ég við sjálfan mig, sögnin kemur fyrir í tilvitnun í lýsingu á því þegar fimm ára drengur lærði að stafa síðla á átjándu öld: „Eftir að búið var að hýða mig fór fóstra mín eitthvað út en ég sat eftir grátandi og var að þenkja um stafina og hljóðið.“ Guðni notar ekki sögnina beint sjálfur. Synd. Það var á þessu augnabliki sem ég áttaði mig að ég var ekki lengur í núinu, stóð þarna á göngustígnum við Sæbrautina með leitarniðurstöður í símanum fyrir sögnina „að þenkja“ og í þokkabót með Hljóðmoggann alveg á blasti að þylja upp innsendu greinar dagsins. Ég lét það ekki nægja að slökkva einfaldlega á skjánum, ég slökkti á símanum og gekk hratt og hljóðalaust heim. Eftir á að hyggja hefði ég sennilega átt að taka rafhlöðuna úr og fleygja henni eitthvað út í fjöru eins og vel nojaður gæi með álpappírshatt fullviss um að Þjóðöryggisráð Íslands væri að hlera símann sinn. En þetta er iPhone og þar er rafhlöðunni ekki kippt svo auðveldlega úr, svo vildi ég heldur ekki brjóta skjáinn.

...

Nú er einnig hægt að hlusta á pistla Moggabloggsins í HljóðMogganum. Þegar titlar eða setningar eru skrifaðar með hástöfum þá öskrar þulurinn þá hluta. Þetta er ágætis vekjaraklukka. Ég stilli klukkuna á hálf átta á virkum dögum og er vakinn upp við heitustu umræðu dagsins hverju sinni. Einn morguninn spratt ég upp þegar síminn gargaði: „JÆJA,, NÚ ÆTLAR GÓÐA FÓLKIÐ AÐ TAKA YFIR LANDIÐ,,,,!!!!!“ Ég átti mjög skilvirkan dag í kjölfarið.

...

Helst í fréttum á jóladag var það að fjöldi byggingakrana hérlendis væri í hæstu hæðum og væri meiri en árið 2007. Fréttamaður spurði álitsgjafa í byggingakrönum og byggingatölum hvað þessi þróun þýddi. Þróunin þýddi víst, samkvæmt álitsgjafa, að byggingakrönum væri að fjölga hér á landi. Einnig var það að frétta að líkbrennslur hefðu aldrei verið fleiri en í ár. Atvikin eru ótengd.

„Gert er ráð fyrir norðanstórhríð á norðanverðu landinu og hvassviðri eða stormi fyrir sunnan. Lægir þó víðast hvar og rofar til á gamlárskvöld,“ segir í veðurfrétt á mbl.is, það rofar til á gamlárskvöld. Fyrr má nú aldeilis vera.

Bílarnir, allir saman nú, í einni halarófu meðfram skólanum. Þetta er fyrsta stoppistöð á leið í bæinn. Halarófan er aðeins á eftir áætlun eins og flesta morgna reyndar. Hæg græn skref inn í framtíðina. Djöfulsins umferð er þetta, bölva ég í hljóði. Nei, hvern er ég að blekkja? Ég sagði þetta upphátt og meira að segja mjög hátt. En ég er bara einn í bílnum, þannig þetta er allt í lagi. Engin óþægileg þögn sem gæti hafa fylgt í kjölfarið ef fleiri hefðu verið í bílnum. Þetta „jæja“-augnablik sem kemur reglulega upp í huga fólks þegar einhver missir stjórn á skapi sínu.

Halarófan mjakast áfram og snarstoppar svo í línu við Bauhaus. Hvernig er svo mikil umferð og kann fólk bara ekkert að keyra lengur, ítreka ég í ræðustól og slæ duglega í stýrið. Með þessu áframhaldandi fengi ég sennilega 5 eininga verkefni í reiðistjórnun metið inn í meistaranámið. Ég fengi sennilega ekki háa einkunn en það skiptir ekki öllu á þessari stundu. Rosalega eru allir þessir morgunþættir leiðinlegir, nöldra ég og slekk á útvarpinu. Bara við þögnin í útblæstrinum að reyna að komast frá stað A til B. Ég bið ekki um mikið.

Í morgunútvarpinu þennan janúarmorguninn var annars vegar fjallað um kynferðisbrot og hins vegar handbolta. Mánudagsmorguninn var svartur, umferðin þung og lag með Björk ómaði í útvarpinu milli þess sem samtal um kynferðisbrot leið undir lok. Mér fellust hendur (á stýri) og ég setti í park á Miklubrautinni, umferðin var hvort sem álíka mikið stopp og áfengi-í-lágvöruverðsverslanir-og-eða-sérvöruverslanir-umræðan á Alþingi. Ég gekk út úr bílnum, útvarpið enn í gangi, Army of Me á fullu blasti, og hugsaði minn gang og annarra. 

Ég tók strikið framhjá biðstöð Strætó og inn á stiginn að Klambratúni, enn þá hugsandi minn gang en eiginlega hættur að hugsa um gang annarra enda er lífið núna í núinu og mikilvægt að átta sig á því að maður sjálfur er nóg og óþarfi að spekúlera í einhverjum öðrum óþarfa óþarfa, nema hann sé á tilboði. Þá skal grípa grágæsina á meðan hún gefst. Takmarkað magn af óþarfa, einungis um helgina, komið og gerið ótrúleg kaup, næg bílastæði.

Ég var með tvennt á hreinu um hvernig ég ætlaði að haga mínu framtíðarheimili. Það fyrsta var að það mun vera „Engan fjölpóst - Takk!“-miði á póstlúgunni. Það seinna var að motivational-selfhelp-orðamósaík-vegglímmiðar munu ekki líðast á heimilinu. Þetta tvennt var alveg á kristaltæru. Nema kannski þessi vegglímmiði hér, enda flokkast hann ekki sem „motivational“ eða „selfhelp“ í vegglímmiðalistaflokknum. Þetta væri helst á veggnum við stigann. Djók.

Flóra verka

Listaverk 
Meistaraverk 
Handverk 
Spilverk 
Málverk 
Tónverk 
Gangverk 
Grindverk 
Furðuverk 
Voðaverk 
Kraftaverk
Hryðjuverk

Kraftwerk er ekki tekið með vegna þess að það er með tvöföldu vaffi. Annað var óákveðið um framtíðarheimilið, þar á meðal heimilið sjálft. Eða reyndar er þrennt á hreinu um framtíðarheimilið. Mig langar ekki að vera í húsfélagi eða svona helst ekki, ætla að reyna forðast það.

Kannski ætti ég bara að fara aftur í nám. Endurhugsa lífið og fá mér MBA-gráðu og stationbíl, soldið keyrðan sem bilar reglulega, millistjórnandastarf, skíði um jólin og Nespressóvél. Nei, það er svo mikil sóun af Nespressó. Held ég. Það var einhvern tímann talað um það. Fínt kaffi samt, eða svona nægilega fínt. Það væri aðallega upp á ímyndina. Rjúkandi heitur og sterkur kaffibolli sem gæti þítt hvaða kulnun í starfi sem er. „Ætla að ná mér í aðeins meira kaffi og svo skal ég skoða þetta. „Nýleg eldhúsinnrétting og Nespressóvél. Já, eitthvað svoleiðis. Reyndar finnst mér kaffi ekkert það gott, eða mér finnst það fínt. Þetta er bara drykkur sem ég á mjög auðvelt með að gleyma og neyði svo staðið, kalt kaffisull ofan í mig til þess að geta staðið upp og fyllt á bollann. Einhvers konar fyrsta heims vítishringur. Ég hef Nespressóvélina innan sviga, hægt að strika auðveldlega út ef það á að fara deila eitthvað í dæminu seinna meir. Seinni tíma vandamál. Brjálað að gera og ég á ekki að vera að velta mér upp úr þessu núna. 

Ég sneri við á þessari gönguferð sem fólst í því að hugsa minn gang og annarra. Bíllinn var enn þá á sínum stað á Miklubrautinni. Umferðin var líka enn þá á sínum stað, virtist meira að segja hafa staðið í stað. Allir á sínum stað að hugsa sinn gang. Brjáluð umferð alveg. Get nefnt þetta yfir kaffinu á eftir. „Alveg brjáluð umferðin í morgun, þetta er náttúrlega ekki hægt, það þarf að fara gera eitthvað í þessu. Alltaf nóg að gera annars? Nei, ég á eftir að svara þér en settu mig í CC þegar þú svarar honum, ok, flott, takk.“

Umræðuefnið á kaffistofunni í hádeginu var eldhúsinnréttingar, mismunandi gerðir ísskápa og þeirra kostir og gallar. Og ég sat þarna bara þögull og hugsaði: „Er þetta það sem framtíðin ber í skauti sér? Verður þetta svona eftir einhver ár? Tek masterinn, skokka í gulu vesti í skrifstofustarfið með hækkanlegu borði og tala um nýja hnífasettið í Byggt og búið yfir salatinu í hádeginu.“ Á meðan í einhverjum alt-heimi og alt-útgáfu af sjálfum mér (en þó besta útgáfan af sjáfum mér) er ég hörku vel settur í livet, hugleiði, þekki fólk sem er með vinsæl podköst, er á þriðja ári í viðskiptafræðinni og á mínu þriðja Köbenhavn fashion week þar sem danski Marlboro-maðurinn, sem er með fleiri tattú en líkamshár og hefur sennilega aldrei klæðst öðru en gallaefni á ævi sinni - gjörsamlega tryllt lúkk - kynnir nýju vorlínuna frá merkinu sínu Fisker & Fisker. Sirka kynslóð og þremur mismunandi störfum síðar á auglýsingastofu, banka sem fór ekki á hausinn og flugfélagi, sem hefur aldrei verið á betri stað með fjórar breiðþotur og fallegt bros, er ég að pæla að selja húsið. Pikkla smá lauk á það og meta það svo á sirka 100 milljónir. Frétt um söluna með grípandi fyrirsögn og þrjátíu myndum birtist á mbl.is og Vísi. Það eru spennandi tímar framundan.

...

Um kvöldið segir sjónvarpsauglýsing frá BM Vallá mér þær fregnir að álag á hellum er meira á Íslandi en annars staðar í heiminum. Mikil kulnun í starfi hjá hellum á síðasta ári, hugsa ég á meðan rödd BM Vallá heldur áfram að fara yfir þrekvirki hellna í íslensku samfélagi í gegnum árin. Af hverju hefur þetta ekki verið tekið til umræðu? Greinilegt að þörf er á einhvers konar vitundarvakningu í samfélaginu. Fulltrúi BM Vallá og einhver frá Vinnueftirlitinu mæta jafnvel í fréttir, fyrsta frétt í kvöldfréttunum klukkan sjö, og segja að ástandið skapi áhyggjur og aðgerða sé þörf.

Tvær hellur mæta í framlengdan Kastljósþátt og segja frá raunum sínum. Frostavetur, erfið vor, stöðnun í starfi, lítið sem ekkert endurskipulag. Hellan Borghildur segir fyrst frá raunum sínum. „Hrunið og árin þar á eftir tóku verulegan toll,“ segir Borghildur og heldur áfram: „Ég átti að vera hluti af stærðarinnar bílastæðaplani við nýtt íbúðahverfi í úthverfi Reykjavíkur en svo komið hrunið og þarna sit ég og margir aðrir kollegar mínir eftir á hálfkláruðu bílaplani og fáum engin svör. Allir á bak og burt. Þetta tók verulega á.“ Alvarlegur þáttastjórnandi Kastljóss spyr: „Hvernig gekk að vinna úr þessu? Nú eru rúmlega 10 ár frá Hruninu, var bílaplanið aldrei klárað?“ „Jújú, fyrir rest var bílaplanið fullgert. Framkvæmdir hófust aftur um 2014 eftir mikið japl og jaml og fuður og lauk á seinni hluta þess árs. Eitthvað var reynt að lífga upp á planið, bæta við fallegum kantsteinum og svona en fyrir okkur sem höfðum verið þarna frá 2008 þá var þetta allt frekar einsleitt og tilþrifalítið,“ svarar Borghildur og bætir við að hún hafi glímt við þrálát veikindi síðan þá, sem hafa haft veruleg áhrif á vinnu og einkalíf.

Veðurbarinn og roskinn hellusteinn undir nafninu Slitsterkur tekur næstur til máls og segir að hann hafi einfaldlega ekki þekkt sín takmörk, ekki tekið eftir einkennunum, sem þegar litið er til baka blöstu algjörlega við hellu. Hann hafi þurft að standa undir nafni og hreinlega hunsað það að þrátt fyrir allt þá holar dropinn steininn smátt og smátt. Allt í einu einn daginn brotnaði hann þannig algjörlega saman og tekur nú einungis einn dag í einu til þess að vinna sig upp úr þessu erfiða ástandi, segir Slitsterkur klökkur. Þeim Borghildi og Slitsterkum er þakkað fyrir komuna í Kastljós og skipt er yfir í önnur mál, sem ég fylgist með hálfdottandi.

Um klukkutíma síðar ranka ég svo við mér á ný. Ég slekk á sjónvarpinu, Kastljós var löngu búið að þakka fyrir sig í kvöld og danskur sakamálaþáttur hafði tekið við, og tek upp símann. Fyrirvaralaust gríp ég augun í kostaða auglýsingu á Facebook með mynd af hressu ungu fólki að fletta í bókum sem það hefur aldrei lesið. Fyrirsögnin er „MS í væntingastjórnun - Háskóli Íslands býður nú upp á nýtt þverfaglegt meistaranám í væntingastjórnun.“ Ég læt tilleiðast og smelli á auglýsinguna með hressa fólkinu til þess að kynna mér frekari upplýsingar.

Nýtt þverfaglegt 120 eininga meistaranám í væntingastjórnun sem tengist inn á þrjú svið: Félags-, Heilbrigðis- og Hugvísindasvið. Nemendur með ólíkan bakgrunn í grunnnámi eru hvattir til að sækja um. Meistaranám í væntingastjórnun er í takt við atvinnulífsandann, samfélagið hér heima og þróanir úti í heimi, kemur fram á vef Háskóla Íslands. „Niiiiii,“ segi ég við sjálfan mig og held áfram að skrolla niður tímalínuna sem er að mestu leyti full af niðursoðnum auglýsingum sérstaklega miðaðar að mér. „Miðasala er hafin á Þjóðhátíð í Eyjum 2019“ öskrar ein auglýsingin framan í mig. Er þetta nú ekki heldur snemmt, svara ég í sömu mynt, það er febrúar, vinsamlegast taktu þér tak. Ég athuga samt ferðir í Herjólf um verslunarmannahelgina. Jú, það er orðið uppselt og það á aðeins örfáum mínútum, segir enn fremur á Vísi. Gott mál, segi ég út í loftið og varpa símanum frá mér.

Það slökknaði á ljósastaurunum klukkan átta í morgun, þriðjudaginn 5. mars. Það þýðir bara eitt: Heimur batnandi fer. Allavega minn heimur. Ég veit ekki með aðra en það er auðvitað ekki mitt vandamál. Það er ennþá góðæri þó einhverjir vilja meina að það sé að fjara út og annað hrun á næsta leyti. En það ætti nú ekki að fara framhjá manni þegar að því kemur. Þangað til snýst þetta bara um að halda góðri stemningu. Taka bílalán, upgrade-a grillið og fara sem oftast í einhverjar helgarferðir til útlanda. Bara einhvert þess vegna. Smá skyndiákvörðun í mönnum. Tenerife tvær helgar í röð, skipti ekki máli. Þetta er bara stemning. Tala nú ekki um lagið á verðinu og veðrinu nú til dags. Einhvers staðar verður maður nú að flýja, þetta er ekki hægt. Hótel eru nýju gorkúlurnar, veitingastaðir poppa upp og draga síðan saman seglin eftir helgina eða tvær vikur og núna býðst þér einstök íbúð, björt og hlýleg á besta stað, 40 fermetrar á 40 milljónir því af hverju að vera að flækja þetta eitthvað? Erum við ekki í þessu til að hafa gaman? Bara góð stemning og gott samtal sem er að eiga sér stað.

Ég pásaði annars ágætan HljóðMogga sem var þá að lesa upp neikvæðar erlendar fréttir; harðar loftárásir einhvers staðar langt í burtu, mótmæli fyrir sunnan Sahara og kreppa í Mið-Ameríkuríki. Allt svo langt í burtu en samt sem áður í næsta nágrenni. Nokkrar hashtag-miðaðar leitir á Twitter og þú getur horft á eins mörg myndskeið af loftárásum og þig lystir til. Á næsta augnabliki tvítarðu þriggja læka tvíti hvað þú ert kaffiþyrstur og ómögulegur þennan þriðjudaginn.

Úti var alskýjað og grámyglegur suddi litaði umhverfið. Þetta var ekki veður fyrir loftárásir. Iðulega tala fjölmiðlar hér heima fyrir um loftskeytaárásir í stað flugskeytaárása. Það má vel vera að á fyrri hluti 20. aldar þegar góða fólkið sendi frá sér rosaskúbb í skeyti með viðkomu í loftskeytastöðinni á Melum að rétt hafi verið að tala um loftskeytaárásir. En í dag eru þær sennilega barn síns tíma. Pósturinn er meira að segja hættur að senda skeyti. Held að það hafi reyndar ekki verið loftskeytaþjónusta og þá síst flugskeyti. Reyndar er Pósturinn í fjárhagsvanda þannig flugskeytasendingar er kannski ekki svo galin hugmynd. Jú, sennilega. Bæði er innkaupakostnaður mikill og sendingarnar kæmu sennilega fljótt í bakið á þeim. Þá er nú sennilega bara heppilegast að taka lán, enda enn þá góðæri og allir í góðum fíling. Allt í hæfilegri óreiðu, það er ekki allt á rúi og stúi en heldur ekki allt of hreint. Kannski komin rúm vika eða tvær frá því að síðast var skúrað.

Áttafréttum og veðri er lokið. Hæglætis veður en skýjað í dag og á morgun. Önnur lægð væntanleg eftir helgina. En þetta er svo sem bara langtímaspáin, það er enn þá bara þriðjudagur. Kannski fer ég í bankann í dag og bið um 30 milljóna myntkörfulán, bara til að prófa. Kannski ekki vænlegt til árangurs en ég er bara í þessu til að hafa gaman. Það er hvort sem er 30 daga skilaréttur ef stærðin hentar ekki.

Um skoðanir og trúnað

Um skoðanir og trúnað

Áhyggjur #1 (Eða: Aðrar fregnir af því sama)

Áhyggjur #1 (Eða: Aðrar fregnir af því sama)