Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um eðli farandbrandarans

Um eðli farandbrandarans

Sýsifos er nú orðinn pistlahöfundur í útvarpsþættinum Lestinni hjá Ríkisútvarpinu. Mestmegnis fjallar hann um tækni og vísindi, samfélagsmiðla og vísindaskáldskap — og þvíumlíkt — en hann reynir að finna heimspekilegar nálganir á efnið.

Hér er þriðji pistillinn sem fluttur var í Ríkisútvarpinu þann 1. febrúar 2017. Að neðan set ég svo eftirritið fyrir þá sem kjósa að lesa.

Málverkið efst er eftir Velázquez og heitir Las Hilanderas, líklega kringum 1657. Það er sérlega viðeigandi hér þar eð í bakgrunni verksins má sjá endurgerð af málverki Títíans, hvar Evrópa er numin á brott af Júpíter — en Las Hilanderas lýsir vefnaðarkappi Pallasar Aþenu og Aröchnu.

Í þessari samkeppni þeirra átti Arachna að hafa vefað mynd af brottnámi Evrópu, og Velázquez kýs, í takt við viðfangið, að „nema burt“ túlkun Títíans á atburðinum. Það mætti því segja að þessi gjörningur hafi verið einskonar meme-vísir.


Alnetið skipar veigamikinn sess í lífum okkar allra. Við beitum því til að halda sambandi við ástvini, það hjálpar okkur að halda utan um gögn, við notum það til þess að versla, safna upplýsingum og fræðast um ástand mála í heiminum — og ýmislegt fleira. Ekki er vefurinn þó aðeins eitthvað alvarlegt, skilvirkt og þurrt verkfæri, heldur er hann einnig einskonar félagsmiðstöð. Á honum er nefnilega einnig að finna nútímafyrirbærið samfélagsmiðla — en þeir hafa gert okkur kleift að viðhalda stöðugu sambandi við annað fólk nánast alveg óháð tíma og rúmi. 

Samfélagsmiðlar hýsa ýmislegt — dagbækur, sem eru í senn persónulegar og opinberar; skrásetningu á skoðunum; orðræðu, samræðu, einræðu; sýndir og reyndir á mis — en það sem mörgum hefur fundist einna hvað áhugaverðast og er viðfangsefni þessa pistils eru þessar litlu, fyndnu einingar sem samfélagsmiðlar sjá um að dreifa — brandarar sem hafa verið nefndir “meme” í enskumælandi löndum. Þessar sérstöku og gífurlega forvitnilegu menningareiningar eiga sér áhugavert upphaf og tiltölulega langa sögu — og þær geta stundum verið aðeins margbrotnari en þær virðast vera við fyrstu sýn. 

Hugtakið var í raun og reynd upprunalega búið til af líffræðingnum Richard Dawkins. Fyrst beitir hann því fyrir sig í verkinu The Selfish Gene, sem útleggst á íslensku sem Sjálfselska genið — hvar hann fjallar um erfðir, hópa og náttúruval. Upprunalegur skilningur hugtaksins átti við um hverja þá menningarlega einingu — hugmynd, hegðunarmynstur, stílbragð eða álíka — sem barst manna á milli innan þess menningarsviðs. 

Dawkins beitti hugtakinu til samanburðar við gen og ferðalag þeirra milli hverrar kynslóðar af tiltekinni lífveru. Genamynstur eru afrituð frá foreldrum til afkvæma, rétt eins og “memes” eru afrituð frá manni til manns. Það er þá einnig á sama hátt að genamynstur, eins og memes, afritast mjög nákvæmlega, en þó ekki fullkomlega, milli kynslóða — heldur er alltaf dálítið pláss fyrir tilbrigði og breytingar. Memes ganga þá út á afritun tiltekinnar menningareiningar, til dæmis hugmyndar, frá einum heila yfir í annan — alveg eins og gen eru afrituð frá einum eldri líkama yfir í nýjan yngri líkama.

Orðið “meme” er stafað m-e-m-e eða „mím“ í enska framburðinum, en læsi Íslendingur það með íslenskum framburði væri það líkast til í átt að hljóðinu me-me. Ein íslenskra þýðinga á orðinu samkvæmt slangurorðabók Snöru tekur einmitt mið af þessum séríslenska framburði þegar það beitir orðinu „jarm“ yfir hugtakið — því kindin segir jú me-me. Undirrituðum þykir þó orðið „jarm“ ekki nægilega lýsandi fyrir eðli hugtaksins, þótt þjált sé og auðmeðfarið. Það er til að mynda ekki til í fleirtölu, samkvæmt beygingarlýsingargagnagrunni Stofnunar Árna Magnússonar, og erfitt er að tala aðeins um meme í eintölu vegna þess hve margbreytileg þau eru. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort ekki sé hægt að skeyta saman betra orði yfir fyrirbærið. Mér hefur komið til hugar að nota „farandbrandari,“ „faraldari,“ eða jafnvel einfaldlega „smitefni“ en þótt þessi orð gætu sosum passað finnst mér enn vanta einhvern stílbrag yfir þeim til að þau henti hugtakinu sem um ræðir. Leitin verður því að halda áfram. Framundan í pistlinum mun ég því einfaldlega nota orðið farandbrandari. 

En nóg um orðsifjafræði og smíðar. Farandbrandarar eru eins og fyrr segir gífurlega veigamikill hluti vefmenningar. Hver hefur ekki heyrt kóreska popplagið Gangnam Style? Hver man ekki eftir plankanum, eða ísfötuáskoruninni? Hver man ekki eftir Harlem Shake-dansinum, eða What does the Fox say? Fólk af öllum aldri getur sett sig inn í farandbrandara, þar eð þeir eru eðli sínu samkvæmt óendanlega margir að fjölbreytni og fjölda. Hvaða vinahópur eða vefsamfélag sem er getur stofnað til sinnar eigin tegundar af farandbrandara — hvort sem er með því að deila staðlaðri mynd með breytilegum texta eða að segja einhverja tiltekna setningu, sem gæti til að mynda innihaldið vitlaust stafað orð fyrir sakir fyndni — möguleikarnir eru endalausir. Sum meme, þegar þau eru vel útfærð, ganga síðan út fyrir sína áætluðu markhópa og ná heimsfrægð. Sumu efni er svo aftur á móti alls ekki ætlað að fara langt, og nær frægð fyrir það eitt hvað skopið er ómeðvitað og ætlan höfundarins saklaus. 

Sum meme eiga sér svo misduldar pólitískar merkingar. Froskurinn Pepe er orðinn frægur jafnt innan sem utan netheima fyrir að vera orðinn táknmynd svokallaðra hvítra þjóðernishyggjusinna — hreyfing sem á ýmislegt hugmyndafræðilega skylt við nasisma — og svo langt hefur verið gengið að ADL, hin bandarísku Samtök gegn ófrægingu gyðinga, hafa flokkað teiknimyndafroskinn sem haturstákn. Sérlega vakti athygli fyrir skömmu síðan að á degi innsetningar Donald Trump í forsetaembætti Bandaríkjanna náðist það á myndband þegar Richard nokkur Spencer var kýldur í andlitið af ofbeldisfullum mótmælanda í sömu andrá og hann hóf að útskýra fyrir blaðafólki að barmnælan hans væri af froskinum Pepe. Spencer er einn leiðtogi Hins-Hægrisins, Alt-Right á ensku — og hefur hreyfingin sú nokkurnveginn eignað sér froskinn. 

Þrátt fyrir að Hitt-Hægrið taki fyrir allar ásakanir um nasisma uxu brandarar út úr myndbrotinu. Umræða spratt upp frá myndbandinu, samræða á heimsvísu um það hvort réttlætanlegt væri að gefa nasistum kjaftshögg. Mismunandi tónlist var sett undir myndskeiðið, því var blandað og klippt sundur og saman, öðrum bröndurum var troðið inn í myndina — og svo framvegis. Útgáfurnar urðu jafn margar og myndirnar sem mannlegur sköpunarkraftur getur tekið á sig.

Farandbrandarar eru augljóslega mikilvægir. Þeir hafa mátt til að skilgreina hópa — hverjir eru inni og hverjir eru úti. Þegar maður sér brandara sem maður skilur ekki er líklegt að manns fyrsta hvöt sé að finna út úr því hvað hann merkir, hver húmorinn sé á bak við hann, hvað allt þetta húllumhæ snýst nú eiginlega um. Manni líður eins og það sé verið að skilja mann útundan, eins og maður fái ekki að vita eitthvað sem skiptir máli. Auðvitað skiptir innihald brandarans í sjálfu sér engu máli — heldur er fólk ólmt að komast inn í klíkur, fá að vera memm. Svo er gysinu deilt áfram, ef til vill bæði til þess að sýna vinum sínum eitthvað fyndið — en líka til þess að útvarpa því á ljósvakann að maður Fatti Brandarann, sé ekki lokaður út úr hringrásinni — sé „meðða’“.

Þó svo að meme hafi þann eiginlega að geta skilgreint hópa og hverjir eru inni og hverjir úti eru þau þó mjög opin fyrir flæði inn og út úr þessum hópum. Hver sem er getur búið til og deilt meme, og enginn er í raun fær um að saka neinn annan um að eiga ekki óvéfengjanlega og ekta aðild að hópnum. Sumar vefsíður, eins og KnowYourMeme.com, gera tilraunir til þess að kortleggja upphaf, þróun og hreyfingu memes. Þetta getur orðið vandkvæðasamt, vegna þess að erfitt er að segja að þessi notandi en ekki hinn hafi verið kveikjan að brandaranum, að þessi hafi átt hugmyndina fyrst, eða að hún hafi fyrst farið raunverulega á flug þegar tiltekinn aðili deildi henni… 

Eins freistandi og það getur verið að kalla sjálfan sig upphafsmann einhvers tiltekins meme væri það þó líkast til óhjákvæmilega röng fullyrðing. Enginn býr til fullnuma meme einn síns liðs — rétt eins og ekkert er til sem heitir einkatungumál. Meme fá aðeins mátt sinn í krafti fjöldans, allra þeirra sem deila þeim og nota þau. Raunar má færa rök fyrir því að hin fræga ritgerð Roland Barthes, Dauði höfundarins, eigi mjög vel við alnetsmeme — það er aldrei hægt að gera ráð fyrir ætlun höfundar memesins þegar maður reynir að greina innihald þess — því að enginn er höfundurinn, þegar öllu er á botninn hvolft.

Farandbrandarar munu koma til með að móta menningu okkar og samskipti í auknum mæli á komandi árum og áratugum með vaxandi stafræningar- og vefvæðingu. Því tel ég ljóst að okkur beri að hugsa um þau sem nýtt og ef til vill byltingarkennt samskiptaform — eins konar andstæðu einkahúmorsins, nýtt mynstur mannlegrar sköpunar og tjáningar. Forvitnilegt verður að sjá hver framtíð farandbrandara verður — hvort ungt fólk nú til dags muni halda sköpuninni áfram í sama mæli í framtíðinni, eða hvort það verði starf yngstu kynslóðarinnar að leggja línurnar í farandbrandarasköpuninni til frambúðar.

Forsætisráðherrar, skammtatölvur og Falskar Fréttir

Forsætisráðherrar, skammtatölvur og Falskar Fréttir

Ytrigrindur og ofurmenni

Ytrigrindur og ofurmenni