Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Forsætisráðherrar, skammtatölvur og Falskar Fréttir

Forsætisráðherrar, skammtatölvur og Falskar Fréttir

Sýsifos er nú orðinn pistlahöfundur í útvarpsþættinum Lestinni hjá Ríkisútvarpinu. Mestmegnis fjallar hann um tækni og vísindi, samfélagsmiðla og vísindaskáldskap — og þvíumlíkt — en hann reynir að finna heimspekilegar nálganir á efnið.

Hér er fjórði pistillinn sem fluttur var í Ríkisútvarpinu þann 8. febrúar 2017. Að neðan set ég svo eftirritið fyrir þá sem kjósa að lesa.

Ljósmyndin efst er af höggmynd Bernini, Truth Unveiled By Time, gerð á milli 1646-52. Mér fannst hún viðeigandi fyrir þá ástæðu að Bernini lauk aldrei við verkið. Á það vantar Tímann sjálfan, sem lyftir hulunni af Sannleikanum. Að sama skapi mun Tíminn einn leiða það í ljós hver framtíð Sannleikans verður í undarlegri grautarveröld Donald Trump.


Við hefjum umfjöllun dagsins á því að tala um forsætisráðherra Kanada — Justin Trudeau. Frá því að hann tók við embætti í lok árs 2015 hefur stjórnmálamaðurinn orðið einn ástsælasti pólitíkus veraldarvefsins. Hann er 45 ára gamall og er leiðtogi kanadíska frjálslynda flokksins — en hann hefur fyrst og fremst vakið athygli á vefnum fyrir blygðunarlausa orðræðu sína um femínisma og fjölbreytni. Hann varð fyrst stórt nafn á heimsvísu eftir að hafa svarað viðtalsspurningu um hvernig hann réttlætti jafnt kynjahlutfall við ráðherraval í ríkisstjórn sinni — hann sagði einfaldlega að árið væri 2015. 

Öllum athugasemdum um rökvísi svarsins sleppt, þá fór svarið víða í gegnum deiliveitur á borð við Buzzfeed og Upworthy, vefsíður sem byggja viðskiptastefnu sína á því að finna efni sem gæti farið langt á samfélagsmiðlum. Setningin hefur raunar einnig verið vinsæl í innslögum breska grínistans John Oliver í þættinum Last Week Tonight, en hún lýsir þeirri skoðun að nú, þegar svo langt er liðið á réttindabaráttur kvenna og annarra minnihlutahópa, sé ansi luralegt að spyrja að því hvers vegna framfarasinnuðum gildum er haldið til haga — þau eiga sem sagt að vera sjálfsagður hlutur nú til dags. Myndband af Trudeau þar sem hann segir „Because it’s 2015” gekk eins og eldur í sinu um vefinn á sínum tíma og kristallaði internetfrægð stjórnmálamannsins.

Pistillinn í dag fjallar þó ekki aðeins um téða internetfrægð, heldur hyggst ég tala stuttlega um skammtaeðlisfræði og tölvur byggðar á henni. Einhver ykkar kunna að vera hvumsa — því hvað hefur Justin Trudeau að gera með skammtaeðlisfræðilegar tölvur? Jú, hann gerðist svo góður að útskýra tæknina og eðlisfræðina að baki henni á blaðamannafundi í apríl 2016. Forsætisráðherrann var staðsettur í eðlisfræðirannsóknarmiðstöð í Ontario hvar hann tilkynnti 50 milljón dala fjárfestingu í stofnuninni. Blaðamaður spurði þá í háði hvort forsætisráðherrann gæti ekki útskýrt hugmyndina á bak við skammtatölvur fyrir fjölmiðlafólkinu — sem Trudeau svo gerði. Ekki var laust við að hann glotti smá þegar hann svaraði spurningunni, enda bjóst enginn við því að hann væri til þess fær. Svar hjartaknúsarans kanadíska fór á flug um netið, og var það að mestu ásættanlegt. 
  
Venjulegar tölvur, sagði Trudeau, starfa á grundvelli bita — rafrænna skilaboða sem geta annað hvort verið af eða á — sem kemur út sem núll eða einn. Bitarnir eru svo túlkaðir gegnum tvíundarkerfið svokallaða, sem er stafróf hinnar hefðbundnu tölvu — myndað úr runum af núllum og einum. Núll er þá núll, einn er einn, tveir er einn núll, þrír er einn einn, og svo framvegis. Skammtatölvur hins vegar vinna með annarskonar bita — sem kallaður er á ensku qubit, eða í minni þýðingu, skammbiti — sem eru skammtafræðilegar öreindir, eins og ljóseindir, sem hafa þann mjög merkilega eiginleika að þær geta verið í tvöfaldri stöðu á sama tíma — eins og ef klassísku bitarnir gætu verið samtímis af og á, einn og núll — en þessi staða varir einungis þar til skammbitinn er athugaður, en þá tekur hann á sig aðra hvora stöðuna, af eða á, upp eða niður.

Trudeau tók þó smávægilegt feilspor þegar hann lýsti skammbitunum sem innihaldandi fleiri en tvö möguleg ástönd að mælingu lokinni — hann sagði að þar eð eindirnar hefðu báða gagnstæða snúninga á sama tíma fyrir mælingu þeirra, innihéldi skammbitinn flóknari upplýsingar en bara einn eða bara núll. Raunin er þó sú að þegar mælingu skammbitanna er lokið siturðu uppi með annað hvort einn eða núll. 

Stóri munurinn á skammbitum og klassískum bitum er í megindráttum sá að hægt er að flækja saman skammbita á dularfullan skammtafræðilegan hátt sem kenndur er við skammtaflækjur — eða á ensku quantum entanglement.

Þessar skammtaflækjur gera það að verkum að tvær öreindir, sem flæktar eru saman, munu alltaf hafa sama snúningsástand að mælingu lokinni, samtímis og óháð rúmi. Þegar maður mælir ástand eins skammbita sem flæktur er við aðra skammbita getur maður því fundið snúning allra flæktra bita á sama tíma. Þetta getur gert skammtatölvum kleift að framkvæma tiltekna útreikninga miklu hraðar en klassísk tölva — eins og frumþáttun heiltalna. 

Takist vísindamönnum að smíða nægilega stóra skammtatölvu gæti uppfinningin haft talsverð áhrif á framtíð veföryggis, svo fátt eitt sé nefnt. Almenningsdulkóðanir sem flestir nota frá degi til dags byggja nefnilega á því að klassísk tölva þurfi gífurlega langan tíma til þess að þátta heiltölur niður í prímtölur. Nauðsynlegt væri að þróa nýtt dulkóðunarkerfi ef til þess kemur að skammtatölvur stefni friðhelgi einkalífs fólks í hættu. En þið þurfið ekki að hafa áhyggjur enn sem komið er, kæru hlustendur — til þessa dags hefur vísindafólki aðeins tekist að samstilla örfáa skammbita til þess að mynda mjög takmarkaða skammtatölvu. Enn sem komið er eru klassískir útreikningar langtum sneggri og skilvirkari.

Þessi stutta og grófa útskýring á gífurlega flóknum skammtaeðlisfræðilegum ferlum verður þó óhjákvæmilega ófullkomin, rétt eins og svar Trudeau á blaðamannafundinum var fyrir ári, svo takið umfjölluninni með fyrirvara. En hugum nú betur að forsætisráðherranum kanadíska og öðrum af sama sauðahúsi — viðveru stjórnmálamanna á internetinu og samfélagsmiðlum, nánar tiltekið. Allflestir sem starfa við markaðsmál eða almannatengsl eru einróma um það að sterk og stöðug vefviðurvist sé lykilþáttur góðrar opinberrar ímyndar — en fæstir virðast vissir um það hvernig þessi viðurvist er tryggð á varandi og áhrifaríkan hátt.

Þessi internetviðurvist, sem Trudeau virðist hafa býsna góð tök á — hvort sem meðvitað er eður ei — getur jafnvel farið að skipta mjög miklu máli í kosningum. Samfélagsmiðlar skiptu að líkindum öllu máli í kosningum til embættis forseta Bandaríkjanna sem haldnar voru nú í lok síðasta árs, en talsverð umræða hefur sprottið upp um það hvort Donald Trump, núverandi forseti, hafi átt sigur sinn Fölskum Fréttum að launa — þessa fyrirbæris eða einkennis sem hefur vakið upp efasemdir og vantraust meðal lesenda fréttamiðla.

Facebook, samfélagsmiðlarisinn góðkunni, sætti hörðum ásökunum um að hafa veitt þessum Fölsku Fréttum ákveðinn sviðspall, fullkominn til deilingar á vafasömu efni, efni sem var augljóslega ósatt — og Trump sjálfur er nú byrjaður að nota það í sífellu er hann vísar til miðla sem almennt eru taldir traustsins verðir vestanhafs. Fake News, Fake News, frussar hann, og setur þar með NPR, New York Times og Washington Post undir sama hatt og Breitbart, Daily Caller og Infowars, vefmiðla sem eru þekktir fyrir slælegan fréttaflutning og samsæriskenningar. 

Trump beitir orðræðunni til þess eins að gengisfella fréttaflutning hinna virðingarmeiri stofnana, til þess að draga allt nema sín eigin orð í efa — því hverju á bandaríska þjóðin að trúa ef ekki forseta sínum, æðsta embætti lýðveldisins?

Raunar má draga upp skammtaeðlisfræðilegu öreindirnar sem ég snerti á hér áðan til samanburðar: það er Trump einmitt í hag að fréttamiðlar séu álitnir vafasamir, bæði sannir og ósannir á sama tíma — bæði einn og núll, bæði af og á, rétt eins og skammtafræðilegu öreindirnar, sem hafa bæði snúninginn upp og niður samtímis. Ef honum tekst að sannfæra almenning um að fréttirnar séu alltaf óræðar þar til hann gefur þeim grænt ljós — þar til hann, æðsti þýðandi, gefur þeim merkingu — þá hefur fjölmiðlun raunverulega tapað öllu gildi sínu í lýðræðisríki. Það eina sem leiðir af því er voðinn sjálfur — og þá er hann sannarlega vís.

Um eðli farandbrandarans

Um eðli farandbrandarans