Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Ytrigrindur og ofurmenni

Ytrigrindur og ofurmenni

Sýsifos er nú orðinn pistlahöfundur í útvarpsþættinum Lestinni hjá Ríkisútvarpinu. Mestmegnis fjallar hann um tækni og vísindi, samfélagsmiðla og vísíndaskáldskap — og þvíumlíkt — en hann reynir að finna heimspekilegar nálganir á efnið.

Hér er annar pistillinn, sem fluttur var í Ríkisútvarpinu þann 25. janúar 2017. Að neðan set ég svo eftirritið fyrir þá sem kjósa að lesa.

Málverkið efst er eftir Joan Miró og heitir Head and Spider (sp. Cabeza y araña) frá 1925.


Hver hefur ekki óskað þess á einum tímapunkti eða öðrum að verða sterkari — sneggri — fá betra úthald? Hafa ekki allir lent í því, í miðjum flutningum eða við húsgagnatilfærslur, að hugsa með sér að ef þau aðeins gætu lyft örlítið þyngri hlutum, að lífið væri auðveldara? Flestir hafa eflaust átt slíkar vangaveltur. Sumir sveimhugar láta sig dreyma um að verða Clark Kent, Ofurmennið — meðan annað fólk fer daglega í ræktina og telur ofan í sig hitaeiningarnar til þess að ná styrkleikanum sem þau sækjast eftir. Jú, ef til vill væri lífið aðeins skárra ef við værum sterkari, snarpari.

Markmið hinna ýmsu vísindamanna er einmitt þetta — að hjálpa fólki að verða sterkara með hjálp tækninnar — og hafa sum þeirra náð býsna langt í rannsóknum sínum og tilraunum. Ein lífseig hugmynd að uppfinningu er hugmyndin um vélræna ytrigrind, utanáliggjandi stoðgrind sem gerir hreyfingar fólks léttari og styrkir það. Styrkleikinn sem um ræðir snýst ekki bara um lyftigetu, heldur einnig hæfileikann til að ganga og beita líkama sínum. Fólk með hreyfihamlanir vegna mænuskaða eða annarra ástæðna gæti hugsanlega aukið hreyfigetu sína með ytrigrind.

Til þess að fjalla um vélrænar ytrigrindur verður fyrst að gera greinarmun á ytrigrindum og innrigrindum. Á ensku er talað um endoskeleton og exoskeleton, hvar endo- táknar innri stoðgrind og exo- stendur fyrir ytri stoðgrind — stoðgrindur verandi þá t.d. beinagrindur mannfólks, sem eru innrigrindur, eða skeljar kræklinga, sem eru ytrigrindur.

Þekkt dæmi úm lífverur með slíkar ytrigrindur úr náttúrulífinu eru maurar — en þeir geta sumir hverjir borið þyngdir sem samsvara ríflega hundraðfaldri líkamsþyngd sinni. Það geta þeir aðeins því að stoðgrindin utan um holdleg líffæri þeirra og vöðva gerir þeim kleift að þola mikið erfiði og púl. Styrkurinn sem stoðgrindinni fylgir er þó alls ekki lastalaus — kvillar á borð við liðleikaskort eru óhjákvæmilegir fylgifiskar þess að klæðast beinagrindinni utan á líkamanum eins og um brynju sé að ræða. Þar að auki fylgir því ákveðið öryggi að vera með innrigrind — brotin bein geta auðveldlega orðið heil að tíma gefnum, meðan brotin ytrigrind getur verið svo gott sem jafngild dauðadómi.

Þó nokkrar vísindaskáldsögur sjá fyrir sér framtíð hvar mannfólkið styðst við vélrænar ytrigrindur, og hafa jafnvel með ímyndunarafli sínu ýtt undir þróun þeirra í raunheimum. Einn sá fyrsti til að skrifa um ytrigrindur á þennan hátt var Robert A. Heinlein, í bókinni Starship Troopers, sem var gefin út árið 1959. Heinlein er stórt nafn innan vísindaskáldsagnaheimsins og skrifaði meðal annars Stranger in a Strange Land, auk annarra klassískra verka. Í Starship Troopers skráir Johnny Rico sig í jarðneska geimherinn og fær þjálfun í notkun vélrænna ytrigrinda áður en hann heldur í stríð gegn vitrænum geimskordýrum. 

Mögulegt er að verk Heinlein hafi haft talsverð áhrif á vísindaheiminn — því General Electric þróaði fyrstu raunheimagrindina árið 1960, ári eftir að bókin kom út, í samvinnu við bandaríska herinn. Ytrigrindin hét Hardiman og átti að gera manni kleift að lyfta hundrað kílóa þyngd eins og hún væri ekki nema fjögur kílógrömm. Hardiman beitti rafmagni og vökvaafli til þess að tuttugu-og-fimmfalda lyftigetu notandans.

Hardiman átti þó ekki sjö dagana sæla. Grindin var tæplega 700 kílógrömm að þyngd, sem gerði hana ómeðfærilega og erfiða notkunar, en auk þess var hönnun hennar á þá vegu að hún gekk tiltölulega hægt — um helmingi hægar en grófur meðalgönguhraði venjulegrar manneskju. Til að kóróna allt var búningurinn byggður upp í tvítengdu lagkerfi — innri búningur stýrði hinni raunverulegu ytrigrind, sem framkvæmdi allt sem framkvæma þurfti. Þetta hægði mjög á viðbragðstíma tækisins sem skiptir sérstaklega sköpum í búning sem raunveruleg manneskja á að klæðast — og hvað þá ef nota á búninginn á átakasvæðum, eins og í hernaði. 

Að lokum var gefist upp á þróun Hardiman. Í hvert sinn sem tilraunir með hreyfigetu tækisins voru gerðar endaði það með ósköpum — ytrigrindin skalf og snerist með herkjum. Mennskt tilraunadýr fékk aldrei tækifæri til að stíga inn í græjuna — sem var að öllum líkindum fyrir bestu.
Hugmyndin um þróun vélrænnar ytrigrindar sem gæti aðstoðað við hreyfingar lifir þó enn og nokkuð mörg fyrirtæki starfa að því að hanna létta en sterka grind sem gæti haft mikil áhrif á líf fólks hvaðanæva að úr heiminum. Svo eitt fyrirtæki sé nefnt hefur SuitX, bandarísku fyrirtæki, tekist að hanna stoðgrind sem er aðeins tólf kíló að þyngd, en getur gert fólki kleift að ganga í fjórar samfelldar klukkustundir. Þótt notandinn sé ekki fær um að fara sérlega hratt í grindinni getur hún að líkindum haft stórfellda tilhjálp á líf fólks. 

Það skiptir þó miklu máli að stoðgrindurnar séu þróaðar af rétta fólkinu fyrir réttu notendurna. Eitthvað virðist unnið fyrir gýg ef einu stofnanirnar sem leggja raunverulegt fjármagn í þróun ytrigrinda verða hernaðartengdar. Fyrrnefnd vísindaskáldsaga Heinlein gefur manni smjörþefinn af mögulegri framtíðarnotkun ytrigrindanna — gífursterk vélferlíki, vopnuð rifflum, eldvörpum og eldflaugavörpum, sum hver fær um að skjóta smákjarnavopnum og öðrum öflugum sprengiefnum að andstæðingum sínum. Þótt stríðið í bók höfundarins sé við geimversk skordýr er ekki erfitt að ímynda sér að það geti alveg eins verið við mannfólk — öllum spurningum sleppt varðandi skynsemi þess að stríða við viti bornar geimverur.

Ef allt færi að óskum væri tækni sem slík aðeins notuð til mannúðlegra ráðstafana, eins og til þess að aðstoða þungavinnuverkafólk eða til þess að gera slösuðum eða fötluðum kleift að ganga — en ekki til þess að auðvelda — eða til langs tíma, að flækja, — stríðsrekstur. Fleyg eru orð eðlisfræðingsins Albert Einstein, hvar hann sagðist ekki vita með hvaða vopnum hin þriðja heimsstyrjöld yrði háð, en að hann vissi fyrir víst að vopnaburður stríðsmanna hins fjórða heimsstríðs yrði ekki þróaðri en svo að þeir þyrftu að reiða sig á greinar og grjót.

Ofgnótt möguleikanna og tækifæranna sem tækniframför á borð við vélrænar ytrigrindur gæti boðið upp á vekur upp ákveðnar spurningar um siðferðilega stöðu vísinda- og uppfiningafólks, sem menn eins og Einstein og Julius Robert Oppenheimer voru fullkunnugir, hafandi verið meðlimir Manhattan-teymisins sögufræga sem starfaði að þróun kjarnorkusprengjunnar í miðri styrjöld seinni. Öllum frekari vangaveltum um siðfræðilegar hliðar tækniþróunar slepptum, þá er óskandi að fært fagfólk með mannúðlegar hugsjónir taki við uppeldi ytrigrindarinnar í þessu bernskubreki uppfinningarinnar og sjái til þess að hún komist í réttar hendur — þeirra sem á henni þurfa að halda.

Ef til vill verða ytrigrindur almennur og sjálfsagður hluti af mannlífi framtíðarinnar. Hægt væri að stökkva langar vegalengdir eða fljúga í burtu íklædd ytrigrindinni sinni. Menn yrðu kannski langlífari, öruggari fyrir hættum umhverfisins — enda bundnir í stálbúninga sem verja þá fyrir höggum og öðrum árekstrum. Réttmæt spurning er þó hvort það sé nokkuð skynsamlegt — hvort mannkyn yrði ekki bara harla mjúkt fyrir vikið, gleymandi tengingu sinni við jörð og náttúru. Vonandi munum við geta fundið gott jafnvægi í tengingum okkar við tæknina og umhverfið, til þess að hámarka mannlegan mátt á einu sviði án þess að takmarka hann á öðru. Á meðan skulum við fara varlega úti í alheimi — að minnsta kosti þangað til stál ytrigrindanna getur hlíft okkur fyrir hinum ýmsu skakkaföllum og misförum.

Um eðli farandbrandarans

Um eðli farandbrandarans

Tölvuþankar og siðferðilegar gervidómgreindir

Tölvuþankar og siðferðilegar gervidómgreindir