Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Spurningin og Mannveran

Spurningin og Mannveran

Hvernig ætli það sé að vera könguló í sinni óendanlegu þolinmæði? Hvernig ætli það sé að vera grasstrá sem þráir að drekka í sig sólina? Við veltum þessum spurningum og fleiri til fyrir okkur í pistli síðustu viku, þegar við töluðum um það hvernig við miðjum mannveruna og jöðrum aðra lífveru alla sem eina. Í hugleiðingu þessarar viku langar mig hins vegar að snúa spjótunum aftur að mannverunni sem við hyggjumst rannsaka. Hvernig ætli það sé að vera mannvera, að vera mennskur? Þessi spurning vaknar óhjákvæmilega upp þegar við byrjum að spyrja spurninga um aðrar lífverur eins og köngulær eða pangólín eða stokkendur. 

Hvernig ætli það sé að lifa og hrærast sem mannvera? Öll erum við víst mannverur, ég og þú, öll höfum við okkar veru í mennskunni sem við að endingu erum. Þrátt fyrir það að við búum við milliliðalausa vissu um þessa staðreynd erum við þrátt fyrir allt saman fjarlægust þessum veruleika þegar við gerum tilraunir til þess að kryfja hann til mergjar—við einfaldlega vitum ekki hvað það er að vera mannvera. Þetta er spurning spurninganna, spurning sem við hlaupum á eins og heilsteyptan vegg þegar miðjan sem við héldum að væri við sjálf verður eitthvað annað.

Að vera mannvera er að hugsa, gætu sumir svarað. Mannveran er hið hugsandi dýr, eða hið skynsama dýr. Mannveran gæti sömuleiðis verið kölluð hið vanafasta dýr. Hvað merkir það að slengja svona staðhæfingum fram? Eru þær ekki allar til þess fallnar að slá ryki í augu rannsakandans, þess sem hefur fjarlægst staðfasta vissu miðjunnar og leitar eins og Díógenes í Aþenu með luktinni sinni, ekki að hinum heiðarlega manni, heldur einfaldlega að mannverunni? Ef til vill. 

En spurningarnar sem eru settar fyrir okkur, hvort sem við setjum þær sjálf eða erum spurð af einhverjum öðrum, krefjast svara. Spurningin knýr á um úrslitaorð, úrlausn. Það er því alls ekki óskiljanlegt að þessi einföldu svör spretti fram—jafnvel þótt þau gufi upp eins og dögg fyrir sólu þegar spyrjandinn knýr enn á dyr staðfastur frammi fyrir ráðgátunni sem orðin fylla ekki upp í. Okkur mun bersýnilega ekki takast að svara þessum spurningum hér og nú, né heldur mun okkur takast að ljúka rannsókn okkar á morgun, eða þá eftir fimm hundruð ár—því þessi spurning er kjarni mannverunnar: spurningin, ekki svarið. Ef mannveran spyr sig svo hvort það geti nú raunverulega verið—hefur hún þá ekki þegar svarað spurningu sinni? Þegar stórt er spurt!

Þú og ég erum eins, að því leyti sem við erum þessi mannvera, vegna þess að við spyrjum, við erum forvitin. Þorsti okkar í svarið, kjarni spurningarinnar, það er svarið sjálft við spurningunni—rétt eins og það er ekki vefurinn sem köngulóin spinnur heldur þolinmæði hennar sem kjarnar hana, rétt eins og það er ekki grasgrænan sem litar stráið heldur þráin eftir ljósi, eftir sykri, sem kjarnar hana. Hér skrifa ég svör við spurningum sem ekki fæst svar við vegna þess að ég veit fullvel að svörin eru alls ekki svörin. Það sem við erum að gera í þessum hugleiðingum er ekki að svara, heldur að spyrja—svörin eru aukaafurð spurnarinnar.

Hvað getum við sagt fleira um spurninguna—án þess þó að svara neinu? Að spyrja er alltaf byggt á því að þekkja, að dvelja, að muna. Við spyrjum að því sem við munum eftir, eða ef til vill spyrjum við í kringum það. Minni okkar er nefnilega ekki tært, heldur er það litað af því sem er ekki munað, því sem gerist. Við munum í samhengi við það sem við lifum og finnum. Minni okkar er ekki aðeins okkar eigið, heldur spannar það óravíðáttur í tíma og rúmi. Við munum það sem forverar okkar mannaparnir á sléttum Afríku lifðu til að endurframleiða—við erum erfðafræðileg afurð lífsbaráttu þeirra og við höfum mótast sem lifandi verur af þessari baráttu. Minni okkar, og þar með spurningin sem dvelur á vörum okkar, er því aldrei okkar eigið mál. Við höfum aldrei verið einsömul, þótt við séum ekki fleiri en eitt, hvert og eitt okkar.

Minnið hleðst upp og hverfur aldrei til fulls. Alltaf þraukar eitthvað, einhver ímynd, einhver orðmynd, einhver eftirmynd. Minni mannverunnar rúmar allar bækur og alla geisladiska og alla minnislykla og langtum, langtum meira til. Minni okkar birtist í tilfinningunni sem fylgir goðsögunum sem við segjum sjálfum okkur og hverju öðru, það birtist í stofnunum og samböndum og byggingum. Minnið er óheyrilegt, í bókstaflegri merkingu orðsins—við heyrum ekki í minninu heldur lifum við það. Hefðir og aðferðir hlaðast utan á okkur eins og dreggjar og við hrærumst einvörðungu í þessum fíngerða salla sem storknar umhverfis okkur með hverjum deginum sem líður.

Og nú komum við aftur að spurningunni. Að spyrja er að standa andspænis þessu minni og þekkja sig í því sem mannvera. Að spyrja er að leita sjálfsins í öllu því sem hefur áður farið—í sögunum um Auðhumlu og Óðinn, um Jesú og Júdas, Ódysseif og Penelópu, Gilgames og Enkidu. Hugsun og spurning fléttast saman er við finnum okkur leiðir til að lifa af með hjálp minnisins sem ofsækir okkur og okkur hættir til að drukkna í ef við leiðumst of langt eftir hnyklinum sem Aríadne skildi eftir handa okkur út úr völundarhúsinu. Okkar réttilegi staður er innan völundarhússins—okkar eiginlegi staður er spurningin með öllum sínum ranghölum og botnlöngum.

Það er því fátt um svör þegar spurningin er annars vegar. Spurningin er okkar eina haldreipi og hún er það sem knýr okkur áfram þegar við leitum kjarna sjálfsins, kjarna mannverunnar: hver er ég, hvar er ég, hvert er ég að fara? Það hefur ávallt verið brýnt að spyrja þessara spurninga fyrir hvert og eitt okkar út af fyrir sig, og það er ekki að ástæðulausu sem Sókrates gerði hinar fleygu orðskviður að lífsreglu sinni: gnothi seauton á grísku, nosce te ipsum á latínu, þekktu þig sjálfan á íslensku, eða kannski, þekktu hvað þú ert.

Mannveran þekkir ekki hvað hún er, hún veit ekki hver hún er. Hún veit ekki hvað hún er að gera. Það er satt á frumspekilegu dýptinni en einnig í hinni praktísku vídd: mannveran veit ekki hvað hún gjörir. Hún stundar rányrkju og stofnar sjálfri sér og spurningunni sinni í hættu—jöklarnir bráðna og hafið súrnar og tegundir deyja út. Allt þetta og meira til gerir mannveran vegna þess að hún veit ekki hver hún er. Hún er of upptekin við að vera eitthvað sem hún þekkir ekki til þess að geta einu sinni séð þessi vandamál sem vandamál. Mannveran telur sig vera auðsafnara, hún telur sig vera drottnara, hún telur sig vera vísindamann. Öll auðæfin sem hún hefur sankað að sér, öll völdin og öll þekkingin—allt verður þetta merkingarlaust ef hún þekkir sig ekki. Allt neitar þetta sjálfu sér þegar hún veit ekki hvað það er að vera þessi mannvera sem ég og þú erum.

Það er fátt um svör þegar spurningin kallar eftir þeim. Kannski er það vegna þess að engin svör er að finna—en kannski er það vegna þess að spurningarinnar er almennt ekki spurt. Maður spyr sig hvort ekki sé spurningarinnar þörf, hvort ekki sé kominn tími til þess að mannveran horfist í augu við sjálfa sig með hugrekki og spyrji sig að því hver hún raunverulega sé. Maður spyr sig.

(I’ve Had) The Time of My Life: Duration, Intuition and Organism in Bergson

(I’ve Had) The Time of My Life: Duration, Intuition and Organism in Bergson

Nafli alheimsins — Mannveran og Lífveran

Nafli alheimsins — Mannveran og Lífveran