Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Nafli alheimsins — Mannveran og Lífveran

Nafli alheimsins — Mannveran og Lífveran

Mannveran er undarlegt fyrirbæri — þetta fyrirbæri sem ég er og þú ert. Við erum það víst öll og uppfyllum þessa tilveru á hverjum degi eins náttúrulega og okkur er unnt, en ef við erum spurð út í það hvað það raunverulega þýðir, hvað það merkir, hvað það felur í sér, þessi mann-vera — þá erum við afskaplega líkleg til þess að lenda einfaldlega á vegg. Við sofum, borðum, elskum, störfum og dveljum í þessari mannn-legu til-veru, athafnir sem mynda allar saman kjarna tilvistar okkar en verða okkur framandi um leið og við fjarlægjumst þær bara örlítið og lítum þau spurulum augum. Mikið er undarlegt að þurfa að hakka lífmassa milli tannanna til þess að geta haldið áfram að lifa! og mikið er skrýtið hvernig kærleikurinn sem við berum til ástvina okkar drífur okkur til dáða! Það sem mig langar að tala um í þessum pistli er í fyrsta lagi mannleikinn og í öðru lagi sjónarhornið sem við tökum okkur gagnvart heiminum í gegnum þennan mannleika. Við eigum það nefnilega til að nálgast þessa mennsku tilveru afskaplega kumpánlega, og það borgar sig oft að líta hana gagnrýnum augum — ef ekki þá aðeins til þess að snúa aftur til hversdagsleikans og njóta hans betur.

Ef til vill er gott að hefjast handa á því að hugsa um það hvernig við mannfólkið dveljum á jörðinni sem lífverur. Fyrirkomulagið sem við finnum okkur þrýst inn í — aðstæðurnar á þessari bláu plánetu sem þeysist um óravíðáttur geimsins — staðan er sú að við dveljum hér í óheyrilega flóknu og margslungnu ferli fæðingar og dauða, hringrás sem allar lífverur mynda í sameiningu. Frá sólinni, gnægtarhorni alls lífs, kemur orkan sem við neytum að endingu — plönturnar sem eru grundvöllur fæðukeðjunnar skapa lífmassa úr ljósi — og við mannverurnar eigum í afar flóknum venslum við þessa gífurstóru fæðukeðju. Samfélag manna hefur tekið sér mismunandi praktískar nálganir hvað þessa fæðukeðju varðar í gegnum tíðina. Við höfum verið veiðimenn og safnarar, við höfum flakkað sem hirðingjar, við höfum lagt stund á landbúnað. Við gerum þetta í milliliðalausri þörf — við einfaldlega þurfum að borða, eitthvað innra með okkur drífur okkur áfram til þess að starfa og keppast að því að bryðja lífmassann sem við þurfum til þess að geta litið næstu sólarupprás, næsta merkingarþrungna augnablik.

Það sem mér finnst svo merkilegt, svo undarlegt, er hve föstum tökum við grípum þessa fæðukeðju. Við erum óseðjandi. Fæðukeðjan og lífverurnar sem hún samanstendur af eru tafarlaust hugsuð sem eldsneyti og ekki sem lífverur. Þessi líf annarra vera, lífin sem við bítum og brennum, eru ávallt og eingöngu hugsuð sem framlenging af okkur — við horfum á dýr og hugsum um vænan kjötbita sem framfleytir okkur, við horfum á plöntuna og hugsum um safaríkan ávöxtinn sem við getum slafrað í okkur. Nú eru auðvitað til undantekningar — og við hugsum ekki alltaf svona — en meira og minna hefur sýn okkar af lífinu sem við möllum með í þessum jarðneska suðupotti einkennst af ákveðinni upphafningu og miðjun mannverunnar. Maðurinn er upphafið og endirinn, alfa og ómega, og samferðaverur okkar lifa eða deyja fyrir hentisemi okkar og hamingju.

Líklega er mannveran alls ekki tilbúin að horfast í augu við djúpstæðan annarleika lífsferlisins sem hún er hluti af. Það er einfaldara að afskrifa sambýlisverur okkar á plánetunni Jörð sem einfaldlega nytjaplöntur og búgripi, pestir og aðskotahluti, sjúkdóma og lækningar. Það er einfaldast að miðja manninn og skilgreina lífverurnar svo út frá honum og eftir á að hyggja. Maðurinn, táknandinn, verður þannig sjálfur hið algjöra tákn sem allar aðrar merkingar verða að renna í gegnum og vísa að endingu til. Hugsum okkur dæmi, til skemmtunar: segjum að ég finni könguló sem hefur hreiðrað um sig inni í horni hjá mér, og ég velti því fyrir mér hvað ég ætti að gera. Köngulóin er vissulega ekkert sérlega falleg á að líta, en aftur á móti gæti hún veitt og snætt leiðinlegu og suðandi flugurnar sem fjúka stöðugt inn til mín. Ég hugsa bara um köngulóna í gegnum hugmyndina um sjálfan mig: hvað finnst mér, hugsa ég stöðugt. Mér dettur ekki einu sinni í hug að velta því fyrir mér hvernig það sé að vera könguló sem spinnur vef úti í horni — ég sé mig sem algjörlega aðskilinn frá henni og reyni ekki einu sinni að nálgast hana sem sitt eigið ferli, sitt eigið líf. Mér finnst enn fremur sem ákvörðun mín sé fyllilega réttmæt þegar ég ákveð að kremja hana með upprúlluðu dagblaði — eins og skrípakötturinn Grettir er vanur að gera.

Þetta viðmót — og hið víðara viðmót mannverunnar gagnvart náttúruheiminum — er afar vert að hugsa vandlega um. Þetta viðmót mætti ef til vill kalla tæknilegt. Það lýsir afstöðu gagnvart heiminum sem gerir allar þær margföldu verur sem hann samanstendur af að tækjum sem eru mannverunni fyrir hendi. Mannveran þarf bara að teygja sig í átt að þessum tækjum og beita þeim fyrir sig — færa þau sér í not. Að beita — fyrir sig. Að færa — sér í not. Tæknilega viðmótið sem við erum að nálgast skilgreiningu á gerir mannveruna að miðpunkti tilverunnar. Í mannmiðjun tæknilega viðmótsins er í raun engin tilvera nema mann-vera — því allt sem er til er aðeins til fyrir mannveruna. Nafli mannverunnar er nafli alheimsins. Orðin tæki og tækni eru jú auðvitað náskyld orðunum tak og taka — tæknilega viðhorfið álítur heiminn tækan, eitthvað sem má grípa og hirða.

Talandi um að hirða — við megum bæta því við að orðið hirða getur bæði þýtt að taka en einnig að sjá um, að hafa í sinni umsjá og umönnun. Það er að segja, þótt tæknilega viðmótið sem við erum að útleggja hafi það í för með sér að heimurinn hafi verið hirtur af sjálfmiðaðri mannveru — og það er sannarlega satt um heiminn sem við dveljum í nú til dags — þá endar sagan ekki þar. Mannveran er fær um að huga að heiminum á móttækilegri og mýkri máta en hún hefur gert til þessa. Hún er fær um að hirða um heiminn og sýna honum umhyggju í verki. Mannveran getur komið í veg fyrir að jöklar bráðni, að tegundir deyji út, að skógar brenni. Það er undir henni komið.

Þessi orðræða hefur tekið á sig siðferðilegan blæ — og hún kemst ekki hjá því. Siðferðið dúkkar upp í hvert sinn sem við spyrjum okkur spurninga um hvað við gerum, hvers vegna við gerum það, hvernig við gerum það. Eigum við að tileinka okkur þetta tæknilega viðmót — eða eigum við að gera út af við það? Það er heilbrigt að spyrja þessarra spurninga, og nauðsynlegt nú sem aldrei fyrr. Ef til vill munum við ekki geta svarað öllum þessum spurningum hér og nú — en við getum haldið áfram að viku liðinni. Þar til þá skulum við kannski gera tilraunir til þess að hugsa um tilverur sem eru ekki mannverur — að hugsa sér að vera könguló, til að mynda, í óendanlegri þolinmæði sinni — að hugsa sér að vera grasstrá sem þráir að gleypa í sig alla sólina — að hugsa sér að vera einfrumungur, amaba, sem fálmar um og snertir heiminn í kringum sig.

Hver tilraun getur verið einskonar flótti frá mannmiðjuninni, flótti til jaðarsins þar sem ótal tilverur sem eru þó ekki mannverur húka. Um leið og við byrjum að gefa þeim dálítinn gaum fer miðjan að hliðrast — og það sem hafði verið naflaskoðun getur orðið að samfundi, samlífi, symbíósu. Kannski er kominn tími til þess að hafa hægan á í barneignunum eins og Donna Haraway hefur lagt til — og byrja að eignast annarskonar skyldmenni; eignast bróður í köngulónni eða frænku í grámosanum, víkka út ætterni mannsins og troða nýjar lendur í tilverunni.

Spurningin og Mannveran

Spurningin og Mannveran

Much Ado About Nothing(ness): Phenomenology and Meontology in Early Heidegger

Much Ado About Nothing(ness): Phenomenology and Meontology in Early Heidegger