Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Rökhugsun, vilji og þrá

Rökhugsun, vilji og þrá

Vaninn er að kenna rökfræði á þeim grundvelli að til sé rétt hugsun og röng hugsun — og að rökfræði sé aðferðafræðin sem veitir manni aðgang að réttri hugsun svokallaðri. Ef þú ert ekki að hugsa rökrétt ertu ekki að hugsa rétt almennt, segir rökfræðin, og hefur margt til síns máls þegar hún segir það. Ég er ekki hérna til að halda því fram að rökfræði sé ekki rétt hugsun eða ófullkomin heldur vil ég velta fyrir mér eðli þessarar rökrænu sem hún byggir á og beita fyrir mig eins gagnrýninni hugsun og ég tel mig geta fært ykkur við greiningu rökrænunnar.

Auðvitað verður slík gagnrýni alltaf vandkvæðasöm þar eð hún gagnrýnir það sem hún beitir til að gagnrýna viðfangsefnið — hún er metagagnrýni og sjálfsspeglandi gagnrýni. Það er þess vegna sem ég vil taka fram að þessar vangaveltur mínar eru í reynd líkari rissum en þær eru heildræn ritgerð um eðli rökrænunnar. Ég hyggst þó snerta á þessu betur seinna svo áður en ég drekki sjálfum mér í formálum vil ég einfaldlega hefjast handa.

Til að byrja með skulum við spyrja: hvað er rökhugsun, hvað er rökræna? Margir hugsa um syllógisma þegar hið rökræna er borið upp fyrir þau: Ef A, þá B, ef B, þá C. Nú A, þá C. Eða á mannamáli — Ef það rignir í dag mun ég klæðast regnkápu. Ef ég klæðist regnkápu mun ég vera þurr. Því verð ég þurr ef það rignir í dag. Þetta er einfalt dæmi um það hvernig hugsun flæðir náttúrulega í gegnum árfarveg rökrænunnar: hún flæðir eins og eftir lögmálum — eins og Jörðin hringar Sólina.

Ef A, þá C, að gefnum forsendunum tveimur. Það verður bara að vera þannig. Svo virðist enn fremur sem rökrænan sé lík ákveðinni atburðarás orsaka (Eins og ég hef skrifað um áður varðandi Kant gæti verið að þessi rökræna sé frumforsenda skynjunar almennt, a priori kategóría hugans, form skynhæfninnar — rúmtími sem þekkingarfræðileg forsenda). Ef A, þá B — setningin er uppbyggð þannig að ákveðinn tími er skapaður þar sem eitthvað gerist á undan einhverju öðru sem gerist svo aftur á móti á eftir hinu fyrrnefnda (tímasería á við B-seríu McTaggarts). Ég þarf varla að taka fleiri dæmi um þetta eðli rökrænunnar sem „náttúrulögmál“ enda könnumst við allflest við hana. 

Rökrænan, samsemdin

Rökrænan hefur verið mér ofarlega í huga síðustu misserin eftir að ég fór að hugsa um rökfræðilega dóma (eins og ég skrifaði um fyrir nokkru síðan) og hvaða merkingu þeir geyma. Samsemdardómur, til að mynda — setning sem segir „er eins og“ — er einstaklega flókinn dómur. Hvað erum við að segja þegar við segjum A=B? Í fyrsta lagi, til hvers að segja A og B ef það er sami hluturinn — af hverju ekki að segja bara „A“ eða bara „B“? Ef við játum að nei jú vissulega er A samt ekki það sama og B — hvaða merkingu hefur samsemdardómur þá? Annaðhvort eru tveir hlutir einn hlutur eða tveir hlutir, að mér virðist, og frá því verður ekki snúið.

Samsemdardómar eru því orðnir svo gott sem merkingarlausir fyrir mér. Ég er ekki fyrstur til að velta þessu fyrir mér — og verð varla sá síðasti — en þetta vandamál hefur svo gott sem heltekið mig. Hið rökfræðilega lögmál samsemdar finnst mér orðið þvælukennt! Það virkar ekki frumspekilega, það virkar ekki þekkingarfræðilega, það virkar ekki reynslulega, það virkar ekki rökfræðilega: einn hlutur getur ekki verið það sama og annar hlutur, það að beita gildri samsemd veitir okkur ekki neina nýja þekkingu, enginn hlutur er eins og annar eða hann sjálfur í reynslunni og rökfræðilega er þvælukennt að segja að A=B og merkingarlaust að segja A=A. En samt sem áður virkar það! Ég er að beita samsemdarlögmálinu til þess að gagnrýna það. Þetta eru flækjurnar sem ég er búinn að koma mér í og ég sit sannarlega pikkfastur.

Heimspekingar hafa reynt að leysa samsemdarvandann í gegnum tíðina með allskyns tvíhyggjum og einhyggjum: frummyndakenning Platóns, Hið Eina Parmenídesar, mónarkíur (mono + arche) Þalesar, Anaxagórasar og Anaximenesar, o.s.frv. — frummyndakenningin, til að mynda, reynir að samræma hina Algjöru Samsemd Parmenídesar (allt er hið Eina, ekkert getur orðið til eða horfið) með hugmyndum Herakleitosar um flæði með því að skipta heiminum í breytilega skugga og óbreytilegar frummyndir — fyrirbærið hundur í öllum sínum birtingarmyndum á samsemd sinni frummynd hunds að þakka. Mónarkíurnar eru augljós samsemd: allt er þessi eini hlutur þegar allt kemur til alls, uppsprettan.

Ég er hræddur um að ég sé kominn af sporinu hérna, en þetta er samt mikilvægur þáttur í að skilja hvað ég er að fara — samsemdir eru sem mílusteinar á hinni konunglegu vegferð vísindanna heimspekilegu: nútíminn beitir samsemd á Sjálf/Aður tvískiptinguna (jafnrétti), upplýsingin beitti samsemd á Viðfang/Hlut (hughyggja), fornöld beitti samsemd á Fyrirbæri/Hugmynd (frummyndir) — og svo framvegis. Þrátt fyrir að þessi konunglega vegferð mætti að mestu kallast vegferð samsemdar gegnum aldirnar hafa andstæðir straumar ávallt flætt gegn samsemdinni — til að mynda í Herakleitosi, Hume, Nietzsche, Deleuze.

Það sem ég vil gera til þess að reyna að henda reiður á þetta er að skoða hvaða þekkingarfræðilegu stoðir standa að grunni samsemdarlögmálinu: A=A eða A=B. Fyrst skulum við skoða vandann sem eigandi við hugmyndir og síðan sem eigandi við fyrirbæri.

Samsemd hugmynda

Til að byrja með — hvað er hugmynd? Bráðabirgðaskilgreining: kristallað samhengi skynminninga um ferli í tilteknum rúmtímarömmum og orsakasamhengisframvarp byggt á þessum skynminningaklasa — þ.e. reynsla af fyrirbæri bundin í einum merktum hnút (t.d. „hundur“) og framvirk spá um komandi reynslu af fyrirbærinu byggt á þessum reynsluhnút („hegðunarmynstur hunda“). Hugmynd er báðir þessir hlutir og flæðið milli þeirra. Ný reynsla af fyrirbærinu mótar hugmyndina og hugmyndin mótar reynslu af fyrirbærinu. Að þessari bráðabirgðaskilgreiningu gefinni getum við mátað hana við samsemdarlögmálið — A=A. Höldum okkur við Hugmyndina um hund. Við erum bara að tala um Hugmyndina „hundur“, svo samsemdarlögmálið ætti að halda fyrir það, ekki satt? Hundur er bara hundur? 

Nei, ég held ekki — ekki ef Hugmyndin er gagnvirkt flæði milli reynslu og framvarps yfir tíma. Ofan á það getur framvarp aldrei verið einangrað: hundur er ekki eitt stak í lokuðu tómu kerfi sem hegðar sér bara eins og hundur hegðar sér. Hundur er aðeins skilgreindur sem hundur í samhengi lífkerfis, mannlegs samfélags, þróunarfræðilegrar og sögulegrar breytingar á því hvernig eitt ferli tvinnast saman við annað ferli, o.s.frv. Getur hugtakið hundur þá verið jafngilt hugtakinu um hund? Ég held ekki. Er ég nokkuð að nota Hugmynd sem er frábrugðin öðrum Hugmyndum? Ég held ekki heldur — ég er að tala um hund qua Hugmynd, fremur en hund qua hund.

Að þessu sögðu hef ég reynt að tjá ástæður fyrir því að rökfræðilega reglan um samsemd hafi engar þekkingarfræðilegar stoðir á sviði Hugmynda, og sé því fáránleg sem slík. Þessi röksemdafærsla er óhjákvæmilega ófullkomin og ég er manna best meðvitaður um það. Mér þætti vænt um að fá hvers kyns svör við vangaveltum mínum — þau væru hreint og beint ómetanleg fyrir ringlaðan huga sem minn.

Samsemd fyrirbæra

Hvað eru fyrirbæri? Lauslega skilgreint og enn til bráðabirgða sem og að ofan: reynsluþættir gefins viðfangs gegnum skynfæri og form skynrænunnar. Hráa efnið sem við tökum við og reynum að skipuleggja í þekkingu. Fyrirbæri birtast okkur — þau ber fyrir okkur, fyrir-bæri — í rúmtíma, hlaðin orku og krafti, á hreyfingu, í ferli. Mér finnst svo augljóst að samsemdarlögmálið gildi ekki hér að það er varla þess virði að eyða púðri í að sýna fram á að svo sé, en ég vil þó segja nokkur orð um það. 

Spurningin, þegar allt kemur til alls hvað þetta varðar, er þessi: gæti Herakleitos haft rangt fyrir sér? Að samþykkja Herakleitos er að hafna samsemd fyrirbæra við hvort annað og sjálf sig. Sjálfur sé ég ekki hvernig hann gæti mögulega haft rangt fyrir sér. Heimur fyrirbæranna er breyting, hlutir breytast og eru ekki lengur þeir sjálfir, þeir voru það aldrei til að byrja með. Það er þess vegna sem ég tel að ómögulegt sé að nota samsemd réttilega um heim fyrirbæranna: heimurinn er endalaus runa eða flæðisferli sem stoppar aldrei og byrjar aldrei. 

Málið er að það er raunveruleg ástæða fyrir því að Platón og Descartes og fleiri góðir menn reyndu að skipta hlutunum í tvennt: vegna þess að það bara virkar ekki rökfræðilega að beita samsemdarlögmálinu eða öðrum rökfræðilegum lögmálum á heim fyrirbæranna. Það er bara ekki hægt. Því hlyti að vera til annar heimur sem útskýrði hvers vegna við getum mögulega gert okkur eitthvað eins og samsemd í hugarlund, heimur frummyndanna — því hlyti að vera skilnaður milli líkamans dauðlegs og sálarinnar ævarandi. Og svo framvegis.

Er eitthvað til sem breytist aldrei utan (Hugmynda)heims ljóðrænunnar og samsemdarheimspekinnar? Ég skal endurskoða þessa skoðun mína um leið og einhver færir sannfærandi rök (sjá inngangsorð um að reyna að afsanna aðferðarfræði sönnunarferlis með sjálfri aðferðafræði sönnunarferlisins) fyrir andstæðu hennar, en ég afskrifa hugmyndirnar um samsemdir fyrirbæra frekar snaggaralega einmitt vegna þess að þau eru svo vandfundin.

Samsemdir Hugmynda og Fyrirbæra

Spurningin nú er þessi: að gefnum niðurstöðum mínum um samsemdir Hugmynda við sjálfar sig og hverjar aðrar og Fyrirbæri við sjálf sig og hver önnur, er samsemd milli Fyrirbæris og Hugmyndar möguleg? Nei, tel ég: það getur ekki orðið eining milli Hugmynda (nauðsynlega ófullkomins þekkingarfræðilegs ferlis skynminninga um reynsluheiminn og framvarpsáætlanir þaðan af) og Fyrirbæra (hins óendanlega breytilega flæðis sem við byggjum Hugmyndir okkar á verandi því ávallt eftir á miðað við hvaða tímapunkt sem er). Hugmyndir okkar eiga því við fyrirbæri eða vísa til þeirra, benda á þau, en eru þau ekki. Fyrirbæri líkjast Hugmyndum okkar en eru óhjákvæmilega stærri en Hugmyndirnar, sprengjandi öll ílát sem þau fylla. Það er engin samsemd möguleg, aðeins samhengi, samræmi, tengsl, flæði, ferli.

Rökrænan endurheimt

Hvað er þá hið rökræna — þessi knýjandi rödd sem segir okkur að Hugmynd A sé A, að fyrirbæri B sé B, að Hugmynd A um fyrirbæri A og fyrirbæri A séu einn og sami hluturinn? Hvað er það sem við gerum þegar við hugsum rökrænt? Ég er farinn að hallast að því að það snúi að því að vilja, að þrá. Rökrænan er því mannleg einmitt vegna þess að hún er helber vilji, fýsn. Rökrænan er enn fremur þetta „ætti“: eplið ætti að falla til jarðar. Rökhendan ætti að leiða til nauðsynlegrar niðurstöðu. Það er samt engin trygging fyrir þessu ætti — það er að lokum innantómt ef við reynum að byggja það á einhverju öðru en mannlegri fýsn. Rökrænan er því þráhyggja. Ekki í sálfræðilegum skilningi orðsins, heldur skipt upp: þrá-hyggja. Fýsin hugsun, vilji í þekkingu, vigri með átt og kraft.

Hið rökrétta er það sem við vildum að væri, það sem ætti að gerast. Rétt eins og orsakasamhengi Hume (og ef til vill fæ ég margt lánað frá honum hér) er rökrænan það sem við ímyndum okkur að ætti að gerast út frá því sem hefur og gæti gerst, mögulegar línur framvindu — nánar tiltekið þær mögulegu framvindur sem við viljum. Röksemdir um að þetta fái ekki staðist vegna þess að oft sé hið rökrétta ekki það sem við viljum tel ég ófullkomnar vegna þess að þær gleyma því að þegar allt kemur til alls er rökrænn heimur okkur alltaf ákjósanlegri en heimur sem er það ekki: við þráum rökfasta reglu jafnvel þótt hún komi niður á okkur persónulega af og til. Við þráum að geta þráð — við þráum þrána sjálfa. Flóttinn til hins órökræna er flestum langtum of djúpstæður hryllingur: öll haldreipi laus, fljótandi í myrku tóminu, getulaus og bugaður af auðninni.

Ég er auðvitað ekki að færa rök gegn rökrænunni hérna, enda væri slíkt fáránlegt, eins og ég hef áður sagt. Ég er aðeins að reyna að varpa ljósi á það hvað það þýðir að hugsa rökrétt og hvernig það kemur inn á mannleika okkar og dýrsleika okkar. Reyna að skera á þennan Gordíonshnút í hausnum á mér. Ég vil endilega heyra hvað ykkur finnst. Sendið mér DM ef þið hafið einhverju við að bæta, viljið leiðrétta eða rífast heiftarlega um þetta. Ég tek því öllu opnum örmum. 


Myndin í haus heitir "Philosopher in Meditation" og er af sumum talið vera eftir Rembrandt, þótt óvíst sé hvort hann sé höfundur verksins. Olía á striga, 1632. Að lokum vil ég benda lesendum mínum á að horfa á þetta háspekilega myndband.

Ég og ég, við báðir tveir — Sjálfs-Meðvitund í Fyrirbærafræði andans

Ég og ég, við báðir tveir — Sjálfs-Meðvitund í Fyrirbærafræði andans

Endalok tækninnar og eilíft líf

Endalok tækninnar og eilíft líf