Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Ég og ég, við báðir tveir — Sjálfs-Meðvitund í Fyrirbærafræði andans

Ég og ég, við báðir tveir — Sjálfs-Meðvitund í Fyrirbærafræði andans

Undanfarið hef ég verið að lesa verkið Fyrirbærafræði andans (Phänomenologie des Geistes) eftir G.W.F. Hegel. Ritið er af mörgum talið meistaraverk, af öðrum talið vera rjúkandi sorphrúga. Svo það eru skiptar skoðanir á því. Ekki er það undarlegt, sosum. Verkið er frægt fyrir að vera einstaklega torskilið, og torskildara en öll önnur þau verk meistarans gamla sem ég hef lesið eða byrjað að lesa. Mér hefur verið gefið að skilja að það sé sérstaklega tyrfið vegna þess að þegar höfundur var að ljúka við handritið var hann bæði í tímaþröng út frá skiladegi auk þess sem Napóleon var að ráðast inn í heimabæ hans — svo það gæti hafa haft veruleg áhrif á það hvernig Hegel hugsaði og skrifaði. Í þessari grein ætla ég aðeins að hripa niður það sem ég er búinn að lesa og reyna að henda reiður á það sem mér finnst mikilvægt af því sem komið er hjá mér. Því ætla ég að byrja að fara yfir kaflana sem ég hef lokið við lauslega og reyna að leggja upp helsta umhugsunarefni mitt út frá verkinu þessa dagana: skilgreiningu og hugmynd Hegels um Sjálfs-Meðvitund. Ég skrifa orðið með stórum stöfum og bandstriki til að greina það frá okkar hefðbundna dagsdaglega skilningi á því að vera sjálfsmeðvitaður í félagslegum skilningi. Ég ætla að reyna að útskýra ferlið sem leiðir upp að hugtakinu sjálfu sem og hvað Hegel meinar þegar hann talar um að Sjálfs-Meðvitund sé „girnd“.

Fyrirbærafræði andans hefst á tveimur löngum köflum sem eru formáli og inngangur, sem ég ætla ekki að kafa of djúpt út í hér. Þótt þeir séu góðar ritsmíðar eru þeir ekki beint viðkomandi hugtakaferlinu sem ég hyggst lýsa sem og lokaniðurstöðunni nema aðferðarfræðilega og þekkingarfræðilega séð. Formálinn lýsir heildarverkefni bókarinnar (þótt Hegel opni á því að tala um hvað formálar sem gera slíkt séu nú kjánalegir og óþarfir) og Inngangurinn er eitt langt skot á forskilvitlega hughyggju Kants og fylgismanna hans sem trúa því að algjörri þekkingu sé ómögulegt að ná vegna eðlis hlutarins í sjálfum sér, das Ding an sich. Formálinn, þótt fallegur sé, hefur lítið með það að gera hvernig Hegel skrifar fyrstu þrjá kaflana, og Inngangurinn reynir einfaldlega að sýna fram á að mögulegt sé að festa hendur á algjörri þekkingu í gegnum kenningu Hegels um algjöra hughyggju. Það gæti þó verið vert að nefna það að Hegel aðhyllist (að einhverju leyti) svokallaða samsvörunarkenningu um sannleikann, en þó með nokkrum af sínum eigin snúningum og séreinkennum, sem hann reynir að gera skil í inngangnum (Sbr. §80 PhG, laus þýðing: „Markmið þekkingar er eining Hugmyndar og Hlutar, […]“). Ég gæti svo auðvitað verið að gleyma einhverju en í minningunni voru þessir kaflar (fyrir utan ákveðnar grundvallarreglur, eins og um sannleika hér að framan) hartnær ótengdir þeim sem á eftir komu og virka saman frekar eins og apólógíur fyrir verkið í heild. Nóg um það. 

Fyrsti hluti: Meðvitund

Fyrsti hluti bókarinnar heitir einfaldlega „Meðvitund“ og snýr að því hvernig til er verund sem upplifir hluti — viðfang fyrirbærafræðinnar per se — það eru hlutir sem koma fyrir þessa verund og hún veit af þeim, hún tekur eftir því að þeir gerast, hún getur hugsað um þá.

Skynvissa

Fyrsti kafli fyrsta hluta Fyrirbærafræðinnar heitir svo „Skynvissa“. Í honum lýsir Hegel því hvernig meðvitundin tekur inn ótal mismunandi þætti skynheimsins, alla í einu, að svo er virðist, og gleypir þessa litríku og dýnamísku heild í sig. Fyrir meðvitundinni virðist þessi óendanlegi skynheimsgagnagrunnur vera uppspretta óendanlegrar þekkingar, svo henni líður til að byrja með eins og hún hafi heimsins visku beint fyrir framan sig. Þetta breytist þó hratt þegar meðvitundin uppgötvar að svið Skynvissunnar er einmitt innihaldslausast í öllu glysinu, allri litadýrðinni, öllum þessum skynheimsfyrirbærum. Þegar hún reynir að eigna sér þekkingu skynvitundarinnar verður hún innantóm og tréð eða steinninn sem stendur beint fyrir framan mig inniheldur engan sannleik. „Skrifum sannleikann niður,“ segir Hegel, „sannleikurinn tapar engu þegar hann er skrifaður niður,“ — og við skrifum niður það sem birtist okkur sem vissa skynjunar: tréð er hér. Eða um daginn: dagurinn er núna/núna er dagur. Þessi „sannleikur“ er þó gjörsamlega innihaldssnauður: tíminn líður og Dagurinn er ekki lengur. Hann er semsagt ekki núna. Núna er nótt. Við getum reynt að skrifa það niður en við endum aftur með sömu niðurstöðu. Tíminn líður áfram og það er ekki Nótt lengur. Núna er kominn dagur. Nú ertu með tvo mismunandi miða sem segja tvo mismunandi og mótsagnakennda hluti — báðir voru „sannir“ þegar við skrifuðum þá niður en við vitum núna að hvorugur þeirra er sannur. Eða hvað? Eitthvað var eftir: „núna“-ið. Við höfum komist að því að við beitum hugtökum á hlutina, og að það eru þessi hugtök sem eru óbreytanleg yfir tíma, þau tapa engu þegar við skrifum þá niður. Hið sama gildir um tréð. Það er hér, en þegar ég sný mér við er það ekki lengur hér. En hugtakið hér situr eftir. Niðurstaða Skynvissunnar er sú að vissan sem við ætluðum að njóta út frá hinni fjölbreyttu skynjun okkar á heiminum var svo gott sem engin — eina vissan sem við fengum var í að altæk hugtök okkar reyndust sönn og óbreytileg yfir tíma. Hið sama gildir um Sjálf Skynvissunnar — „Ég“ hef aðeins verið fyrir sjálfum mér sem er, hvert einasta Sjálf hverfandi fyrir hinu næsta sjálfi Skynvissu. Kaflinn um Skynvissu er mjög stuttur — bara 8 blaðsíður — og við höldum áfram inn í næsta kafla — „Skynjun: eða, Hluturinn og Blekking“.

Skynjun

Við höldum áfram og færum okkur inn í kaflann um Skynjun. Nú þegar við höfum losað okkur við vissuna í Skynvissu sitjum við uppi með Skynjun — þátt sem okkur finnst velta að miklu leyti á okkur sjálfum. Skynjun er huglæg, afstæð og bundin rúmtíma hvers og eins sem skynjunina skynjar. Hins vegar er Skynjun skref fram á við fyrir Hegel, svo innantóm var Skynvissan. En vegurinn er engin bein konungleg braut, eins og titill kaflans gefur skýrt til kynna. Skynjunin þarf nefnilega að varast ýmislegt. En jæja, hefjumst nú handa við útlistunina. Þegar við erum að skoða viðfang Skynjunarinnar erum við fyrst og fremst að rannsaka hvað það er sem við skynjum við hluti, rétt eins og við gátum skynjað Hér og Nú í kaflanum um Skynvissu. Núna einbeitum við okkur að þessum kvíum meðvitundarinnar: hefur viðfang Skynjunarinnar einn heildrænan eiginleika (eiginleiki trésins er tréleiki þess) eða marga aðskilda eiginleika (tréð býr yfir mörgum eiginleikum — það er hart, brúnt, grænt, hátt, lifandi, etc.)? Enn fremur verður meðvitundin smám saman meðvituð um að Skynjunin gæti verið að leiða sig í gönur — að stundum virðist hlutur vera eitthvað annað en hann er svo í raun, þessi raun svo hrynjandi á ný fyrir nýrri raun eða jafnvel þeirri gömlu. Nú þegar höfum við fyrirbærafræðingarnir orðið vitni að ákveðnu stigi sjálfsmeðvitundar (í almennum skilningi orðsins) innra með meðvitundinni. Sjálfið er þó ekki orðið viðfang meðvitundarinnar, hún veit ekki enn að uppspretta þekkingarinnar er hún sjálf, að hún skapi sér þessa þekkingu með því að móta allar hráu upplýsingarnar sem skynheimurinn veitir henni, að þessi verkfæri sem hún beitir til að móta upplýsingarnar séu lykillinn að Algjörri Þekkingu. En við erum að fara fram úr okkur. Ég ætla ekki að eyða mikið meira púðri í Skynjun, þar eð ég hef þegar dregið upp nægilega upplýsandi mynd um það hvernig kaflinn gengur fyrir sig. Við skulum því halda áfram í stutt yfirlit um næsta kafla: „Krafturinn og Skilningurinn“.

Kraftur og Skilningur

Í Kraftinum, sem er lengsti kafli fyrsta hluta bókarinnar, fjallar Hegel um umhleypingarnar sem hann lýsir óbeint í kaflanum um Skynjun. Það sem ég minntist á áður varðandi að stundum ríkti óvissa um hvort viðfang Skynjunarinnar væri A eða B leystist í kaflanum sem á undan fór á þann hátt að viðfangið var í raun bæði og hvorugt A, B og AB, síðar meir ABC og C, síðar meir Algjör Þekking — og í lokin varð okkur ljóst að það væri Kraftur Skilningsins sem kæmi þessum hreyfingum af stað. Kaflinn um Skilning fjallar nánar um þessar hreyfingar og kynnir til leiks það sem Hegel kallar Kraft [þ. Kraft]. Krafturinn er díalektík qua hreyfing, hreyfingar hugmynda(rinnar) út úr og inn í sjálfa sig, snúandi um sjálfa sig, togandi í sjálfa sig, fullkomnandi sjálfa sig í stigmagnandi ferli fram á við. Það sem Skilningurinn „skilur“ er einmitt það að hugurinn býr yfir þessum díalektíska krafti og að hreyfingarnar séu innra með honum fremur en í hlutunum sjálfum (að svo miklu leyti sem þetta er aðskiljanlegt í Hegel, ég gæti verið að fara með fleipur hérna).

Hér erum við komin heilan hring: Meðvitund skynjar hlut, veit að hann er ekki viss fyrir það eitt að búa yfir óhlutlægri og altækri verund á sviði Skynvissu, veit að það er heldur ekki nóg að grandskoða bara ferli Skynjunarinnar sjálfrar, heldur að hreyfingar hugmynda meðvitundarinnar eigi sér uppsprettu innra með henni og að þessar hreyfingar bendi einmitt alltaf strax á okkur sjálf fremur en nokkuð annað. Meðvitund meðvitundarinnar er því miðlað gegnum hana sjálfa (Sbr. §166, PhG). Ég horfi á hlut, skynja hlutinn, skynja eigin skynjun, skynja ferli eigin skynjunar, skynja sjálfan mig í þessum ferlum. Ég skynja því sjálfan mig. Ég er auðvitað að hlaupa yfir bróðurpart kaflans sem er einstaklega falleg heimspeki og vel smíðuð, og ég mæli með því að þið lesið hana sjálf. Þetta er góður kafli. Niðurstaða hans er þó sú að þegar allt kemur til alls erum við Sjálfs-Meðvitundir — og þangað höldum við héðan.

Annar hluti: Sjálfs-Meðvitund og girnd

Hegel byrjar annan hluta Fyrirbærafræðinnar á að tala um að sannleikur hinna fyrri sviða þekkingar sé hverfandi, ávallt leiðandi til meðvitundarinnar sjálfrar og þar af leiðandi til Sjálfs-Meðvitundar. Sannleikurinn endar þó ekki í Sjálfs-Meðvitund, vegna þess að hann er of hverfull. En meira um það síðar. Hugum nú nánar að því hvað felst í því að vera Sjálfs-Meðvitund. Í fyrsta lagi felur hún í sér upplausn allra fyrri sviða meðvitundar: hinnar tómu verundar Skynvissu, einstæki og altæki Skynjunarinnar og hið innihaldslausa innra form Skilningsins eru nú aðeins augnablik [þ. Augenblick] í díalektísku ferli Sjálfs-Meðvitundarinnar. Enn fremur er Sjálfs-Meðvitund, eins og ég ýja að hér að ofan, endurheimt meðvitundarinnar frá Aðrinu.

Sjálfs-Meðvitund snýst því í kjarnann um einingu sjálfsins við sjálft sig gegnum meðvitund, eins og Hegel gerir skýrt í §167. Í sömu efnisgrein víkur hann að því sem hefur heltekið mig allt frá því að ég las það fyrst: „[…] Sjálfs-Meðvitund er því girnd almennt.“ Hann bara skilur þetta eftir eins og ekkert sé. Að Sjálfs-Meðvitund „sé girnd“. Það er engin nánari skýring, engin nánari umræða. Hugtakið „girnd“ [þ. Begierde] er reyndar skáletrað svo manni virðist sem það skipti máli, sem það og gerir sosum þegar kemur að því að Sjálfs-Meðvitund hitti aðra Sjálfs-Meðvitund. En jafnvel þá er hugtakið ekki skýrt nánar, því er tekið sem gefnu.

Ég vil verja afgangi þessarar ritgerðar í að velta því einfaldlega fyrir mér hvað felst í þessari hegelsku girnd og hvað hún merkir. Áður en ég byrja vil ég taka það fram að þetta er mín túlkun á hugtakinu. Sumum finnst of miklu púðri eytt í að tala um þetta tiltekna smávægilega hugtak, en mér finnst það einfaldlega svo heiftarlega áhugavert að ég get ekki slitið mig frá því. Mér finnst sem það innihaldi mikilvægan og uppljóstrandi sannleik um það hvernig Hegel skilur tilfinningar sem girnd almennt og hvað þær eru fyrir honum. Ítarleg greining á hugtakinu um girnd gæti því verið hjálpleg í greiningu á öðru hugtaki sem Hegel tekur sem gefnu síðar í kaflanum um Húsbónda og þjón: ótta. En hefjumst handa við umræðuna.

Eins best ég fæ skilið hugtakið girnd þá er girnd Sjálfs-Meðvitund og vísa versa. Þetta er smá flókin og skrýtin hugmynd. Ég ætla samt að gera mitt besta að skýra hvernig ég skil hana. Til að byrja með höfum við séð frá Hegel sjálfum að Sjálfs-Meðvitund, sem er girnd, sé í raun hin hverfandi hreyfing Skynvissu, Skynjunar og Skilnings inn og út um hvort annað, heildrænt og samtvinnandi. Eins og ég segi hérna áður þýðir þetta að Sjálfs-Meðvitund sé, almennt séð, girnd. Þetta fannst mér einstök innsýn þegar mér fannst ég skilja þetta fyrst — því þetta þýðir auðvitað að það sem við köllum girnd, fýsn eða þrá sé eftir allt saman Sjálfs-Meðvitund. Samsemdin liggur í báðar áttir. Þannig að þegar við girnumst aðra manneskju girnumst við sjálf okkur í gegnum hana, þegar við girnumst markmið girnumst við meðvitund um okkur sjálf í gegnum markmiðið. Skilgreiningu samkvæmt leiðir þetta svo til þess að girnd girnist sjálfa sig — því ef Sjálfs-Meðvitund er girnd og Sjálfs-Meðvitund girnist aðra Sjálfs-Meðvitund girnist girnd einfaldlega girnd! Lokamarkmið Sjálfs-Meðvitundar er því að girnd hins Aðra beinist að sjálfri sér, og vegna þess að þetta er lokamarkmið hennar beinist girnd hennar að hinu Aðra.

Sjálfs-Meðvitund er á vissan hátt endurheimt sjálfsins í gegnum Aðrið og þetta hefur augljóslega mjög víðtækar afleiðingar. Sjálfið er ég og sjálfið er þú, ég miðla mér í gegnum mig og miðla mér gegnum þig: við erum öll ein stór Sjálfs-Meðvitundarflækja þegar allt kemur til alls! Við erum Andinn, alheimurinn meðvitaður um sjálfan sig, þekking sem lifir og andar í annars tómum og köldum alheimi sem er annars aðeins pipraður með örfáum skínandi ljósblettum fljúgandi á ótrúlegum hraða gegnum rúmtímann. Ég er að nota ansi laufgað mál til að lýsa þessu en ég vil meina að Hegel sé laufgaðri en margir halda. Hann er sannarlega rómantískari en margir halda. Mér finnst þessi hugmynd og þessi skilningur einstaklega fallegur. Hún hefur haft mótandi áhrif á mig frá því að ég las um hana fyrst. Ég mæli eindregið með því að allir næli sér í þetta verk Hegels, Fyrirbærafræðina, og reyni fyrir sér við lesturinn. Einnig get ég ekki komist hjá því að mæla með frábærum fyrirlestrum bandaríska prófessorsins Gregory Sadler, sem hefur einsett sér að fara rækilega yfir Fyrirbærafræðina í heild sinni, orð fyrir orð, staf fyrir staf, í fyrirlestrum á Youtube. Hann er frábær kennari. Hlekkur hér.

Ég ætla að hnýta enda á þessa samloku mína núna. Ég vona að ég hafi gert mig skýran og skiljanlegan. Endilega sendið mér línu ef þið hafið einhverjar vangaveltur um það sem ég er að segja eða eruð að lesa sjálf og viljið tala við einhvern sem er líka að lesa verkið og ræða smáatriðin og vandkvæðin í þaula. Vonandi getum við öðlast betri Sjálfs-Meðvitund í gegnum textann og hvort annað. Það er ósk mín fyrir allt mannkyn. Næst langar mig að skrifa langa grein um skilning Hegels á Lífi, sem og fjalla rækilega um kaflann um Húsbónda og þjón. Það væri gaman að geta gefið svoleiðis út á næstunni. Eggið mig áfram ef ykkur fyndist slíkt spennandi. Bestu kveðjur.


Málverkið í haus heitir In the Forest of Fontainebleau og er eftir Jean-Baptiste-Camille Corot. Olía á striga, ca. 1860-1865. Þess má geta að undirritaður bjó í Fontainebleau sem barn. Ekki tókst honum að læra frönsku fyrir það.

Siðir að innan sem utan

Siðir að innan sem utan

Rökhugsun, vilji og þrá

Rökhugsun, vilji og þrá